Forsetakosningar fara fram 27. júní næstkomandi þar sem við kjósum okkur þjóðhöfðingja. Kjósum einstakling, fyrirliða, til að koma fram fyrir hönd þjóðar, bæði hér á landi og erlendis. Við þurfum að kjósa einstakling sem þarf að vera góð fyrirmynd en ekki síður frumkvöðull sem tilbúinn er að láta til sín taka þegar kemur að verndun náttúrunnar, almennum mannréttindum, velferð og heilsu þjóðarinnar sem mun eldast nokkuð hratt á næstu árum. Við þurfum að kjósa okkur einstakling sem tilbúinn er af heiðarleika, manngæsku og auðmýkt að fylgja eftir þeirri stjórnarskrá sem við búum við hverju sinni.
Að móta embættið
Þrátt fyrir að hver forseti geti mótað embættið með sínum hætti setur stjórnarskráin honum nokkuð fastar skorður. Starfssviði forseta og völdum má skipta í grófum dráttum í eftirfarandi sjö þætti:
- Að fara með formlegt hlutverk í skipun landstjórnar.
- Að beita valdi við að samþykkja eða synja lögum þingsins.
- Að hafa áhrif á pólitíska umræðu með orðum og gerðum.
- Að kynna land okkar og sögu.
- Að sinna störfum á ýmsan hátt í þágu samfélagsins.
- Að vera sameiningartákn þjóðar.
- Að vera fyrirmynd til orða og verka.
Þrátt fyrir að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt þá getur hann gegnt lykilhlutverki í störfum þings og þjóðar. Hann getur nýtt sveigjanlegt rými laganna til að móta framtíðarstef þjóðar í upphafi 21. aldar. Sá forseti sem nú situr á Bessastöðum, Guðni Th. Jóhannesson, hefur gegnt hlutverki forseta í eitt kjörtímabil eða fjögur ár. Hann sækist nú eftir endurkjöri. Það er mér sönn ánægja að geta gefið sitjandi forseta atkvæði mitt og hvet ég aðra til að gera slíkt hið sama. Guðni er maður heiðarleika og samvinnu, alþýðlegur og hrokalaus með sterka ábyrgðartilfinningu fyrir landi og þjóð. Hann hefur sýnt það í verki að geta tekist á við ofangreind verksvið forseta, ekki síst það síðasta; að vera fyrirmynd bæði til orða og verka.
Öldrunarsamfélagið
Það er ósk mín að Guðni Th. Jóhannesson fái tækifæri til að halda áfram sínum góðu störfum sem leiðtogi þjóðarinnar. Samhliða því að halda uppi arfleifð fortíðar er nú nauðsynlegt fyrir forsetann að búa til arf fyrir komandi tíma. Íslenska þjóðin, hvort sem henni líkar það betur eða verr, er að eldast. Þjóðin er á hraðri leið að breytast í öldrunarsamfélag þar sem eldri aldurshópum mun fjölga gífurlega á næstu árum og áratugum. Hinir eldri lifa lengur og þeir sem yngri eru koma til með að halda því áfram. Þetta þýðir einfaldlega að breytinga er þörf á ýmsum þáttum samfélagsins sem bæði þing og þjóð þarf að takast á við. Það sem öllu máli skiptir er að gera breytingarnar jákvæðar, búa þjóðina undir að geta tekist lengur á við athafnir daglegs lífs og lifað í sjálfstæðri búsetu lengur þrátt fyrir hækkandi aldur. Þessi tvö atriði fyrir utan það að reyna eins og kostur er að seinka innlögn hinna eldri inn á dvalar- og hjúkrunarheimili geta orðið til þess að okkar ágæta heilbrigðiskerfi getur sinnt hlutverki sínu óhindrað áfram. Að eldast heima er ögrandi markmið stjórnenda þessa lands. Þessi nálgun er og á að vera hjartað í aðgerðaáætlunum leiðtoga í stjórnmálum framtíðar. Forseti getur lagt ýmislegt að mörkum en betur má ef duga skal.
Guðni Th. Jóhannesson kom meðal annars að opnun Lífsgæðaseturs St Jó í Hafnarfirði á síðasta ári auk þess að ávarpa ráðstefnu Öldrunarráðs Íslands árið 2017 sem bar heitið: Aldrei of seint – Heilsuefling eldri aldurshópa. Þar sagði hann m.a. eftirfarandi:
„Þessi ráðstefna er mikið þarfaþing. Góð heilsa er lykill að hamingjulífi, holl hreyfing færir okkur heilsu og vellíðan. Þetta á við um alla, frá vöggu til grafar. Hins vegar lýtur hvert æviskeið sínum sérstöku lögmálum. Og vissulega er það svo að ýmsir kvillar gera frekar vart við sig þegar árin færast yfir. En einmitt þess vegna er svo brýnt að beina sjónum sérstaklega að heilsueflingu eldri aldurshópa.“
Að komast þangað sem maður kemst ekki einn síns liðs
Prófraun góðs leiðtoga eða þjálfara er hvort hann geti tekið liðið eða þjóðina með sér á þann stað þar sem liðið eða þjóðin hefði ekki getað komist ein og óstudd. Hið sama á við um okkar ágætu alþingismenn og ríkisstjórn. Það mun því reyna á forseta að leiða okkur inn á nýjar brautir. Hér gæti þjóðin orðið alþjóðleg fyrirmynd, meðal annars í náttúruvernd og heilbrigðismálum. Við tókum á erfiðum faraldri á tímum Covid-19 og erum enn að. Framkvæmdum undir forystu ráðherra heilbrigðismála og valinna leiðtoga. Heilsueflingarferli framtíðar þarf að undirbúa vel og til þess er gott að vita að í brúnni sitji þjóðhöfðingi sem tilbúinn er að láta þennan málaflokk til sín taka. Til slíka verka er Guðni Th. Jóhannesson verðugur leiðtogi. Hans bakland er alþýðlegt að yfirbragði gegnum uppeldi hans, fjölskylduhagi og menntun. Það gefur tilefni til að hann láti enn frekar að sér kveða á ýmsum sviðum þjóðmála, landsmönnum öllum til heilla.
Góður leiðtogi
Það þarf góðan leiðtoga til að leiða Google áfram um alnetið í gegnum áratugi. Það þurfti góðan leiðtoga til að leiða körfuboltalið Chicago Bulls til sex titla á sínum tíma. Það hefur þurft og þarf áfram góða leiðtoga til að leiða okkar íþróttafólk til afreka á heims- og Evrópumótum eða Ólympíuleikum. Það þarf einnig að leiða hóp eldri einstaklinga, sem og þjóðina alla, að bættum heilsutengdum forvörnum og auknum lífsgæðum, með það að markmiði að íslenskt heilbrigðiskerfi geti fjármagnað sig sjálft og haldið reisn sinni. Fyrirbyggjandi forvarnir þurfa að koma til af auknum þunga. Slíkt mun skila sér margfalt til baka, hvort sem er í fjármagni eða lífsgæðum. Forseti verður að hafa hugmynd um hvernig hann getur skipt máli. Hann verður að skapa eitthvað fyrir framtíðina svo samfélagsleg gildi verði öðruvísi og betri. Guðni Th. Jóhannesson hefur sýnt það í verkum að hann er tilbúinn að fara ótroðnar slóðir að þessum markmiðum.
Hann er hér með hvattur til að móta sér skýra hugmynd um hvernig hann getur í krafti síns embættis skapað betri framtíð fyrir okkar þjóð. Þetta hljómar ef til vill eins og klisja, enda glatast oft góðar hugmyndir í daglegri baráttu embættisverka. Þetta gerist hjá þingmönnunum og einnig ráðherrunum. En við viljum hafa leiðtoga sem þarf að takast á við daglegt amstur. Við viljum einnig hafa leiðtoga sem missir aldrei sjónar á sínu helsta markmiði og kemur því í verk.
Forystufólki þjóðar ögrað á næstu árum
Hvað getur orðið öðruvísi að fjórum árum liðnum vegna forystu Guðna Th.? Hvað hefur orðið öðruvísi nú þegar? Auðvitað mun forseti eins og framkvæmdastjóri eða fjármálaráðherra búa við ákveðna og trygga fjárhagsáætlun, hafa skýr markmið og verkferla, til að ná því sem stefnt er að. En að hafa kjark og þor til að skapa framtíð sem er öðruvísi og betri fyrir fólk á öllum aldri, ekki síst þeirra sem eru í elstu aldurshópum þjóðarinnar, er áskorun sem leiðtogi þarf að láta til sín taka. Það er mín skoðun að Guðni Th. Jóhannesson hafi allt til að bera til að setja enn frekari mark sitt á embætti forseta Íslands á næstu fjórum árum. Hann hefur dug til að færa landsmenn á þann stað sem þeir kæmust ekki án hans aðstoðar. Þingið má að sjálfsögðu fylgja honum í verki en til þess þarf það að öðlast sömu sýn, láta ný mál og nýjar áherslur til sín taka.
Við sáum Covid-19 faraldurinn ekki fyrir árið 2016 en vorum vel undir hann búinn. Þökk sé fagmennsku í heilbrigðiskerfinu. Tekist var á við verkefnið af festu og fagmennsku með ráðherra heilbrigðismála og ríkisstjórn í brúnni auk einstakra sérfræðinga á borð við Þórólf, Ölmu, Víði, Pál, Kára og að ógleymdu starfsfólki þeirra stofnana eða fyrirtækja sem þau tilheyra. Vandi öldrunarsamfélagsins er þegar farinn að banka að dyrum hjá íslenskri þjóð. Bíðum ekki eftir að vandinn verði óyfirstíganlegur. Til slíkra verka er gott að eiga traustan leiðtoga, forseta, með yfirsýn á allt þjóðfélagið. Það er þess vegna sem ég gef Guðna Th. Jóhannessyni atkvæði mitt og hvet þig lesandi góður til að gera slíkt hið sama.
Góðar stundir.
Höfundur er íþrótta- og heilsufræðingur.