Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum að á næstu dögum verður forseti Íslands kosinn af þjóðinni. Tveir frambjóðendur verða á kjörseðlinum, hinn sitjandi forseti Guðni Th. Jóhannsson og Guðmundur Franklín Jónsson. Samt fjallar þessi grein ekki um þá, þó svo ég fari seint leynt með að ætla mér að kjósa Guðna. Aftur. Það sem þessi grein fjallar um eru þrjár ástæður þess að ég kem til að skella mér í kjörklefann í ár eins og fyrri ár. Því sama hversu fáránlegt mörgum gæti þótt að halda forsetakosningar í þessum aðstæðum, breytir það því ekki að þær verða haldnar. Þá er ekkert eftir en að gera það besta úr þessu, hita upp vöfflujárnið, þeyta rjómann og skipuleggja kosningavöku fyrir þig og þína. Hér eru þrjár ástæður til að skella sér á kjörstað:
#1: Það er ófrávíkjanleg staðreynd að það er ákveðin stemning sem fylgir því að mæta á kjörstað.
Mögulega er þetta matsatriði, en mögulega hefur þú líka lúmskt gaman að því að skella þér í betri fötin, valsa þarna inn rekast á hinn og þennan sem þú hefur ekki séð í einhvern tíma og haka við þinn mann/konu á seðlinum. Margir taka með sér börnin til að sýna þeim lýðræðið í framkvæmd og fara svo að fá sér eitthvað gott í gogginn. Aðrir eiga kannski frænkur, ömmur og afa eða aðrar fjölskyldumeðlimi sem muna tímanna tvenna þegar það var ekki jafn sjálfgefið að fá að kjósa. Fyrir vikið fagna þessir fjölskyldumeðlimir oft réttindum sínum innilega með því kjósa og bjóða svo heim í kosningakaffi. Hver sem þín áform eru á kjördag, verður því ekki neitað að það er stemningardagur, og ekki veitir af fyrir þjóðarsálina að svo stöddu.
#2: Þú vilt geta tekið þátt í sögulegum atburðum.
Flestir vita hvar þeir voru þegar Ísland vann England árið 2016 í EM, eða þegar Eyjafjallajökull gaus fyrst. Aðrir muna vel eftir því hvar þeir voru þegar Vala Flosadóttir vann brons á Ólympíuleikunum árið 2000 fyrir stangarstökk eða þegar Hildur Guðnadóttir hlaut Óskarsverðlaun fyrir tónlist sína í Jókernum (og sópaði að sér nánast öllum öðrum verðlaunum í leiðinni). Að sama skapi muna margir eftir tímabilinu þegar Almar var í kassanum, og ég man hvar ég var þegar ég frétti fyrst að Ólafur og Dorrit höfðu látið klóna hundinn sinn Sám, þar sem eftirmyndin nefndist Samson. Árið 2020 er löngu búið að stimpla sig inn í sögubækurnar og verður fólki lengi í minnum, bæði hvað varðar leikskólaverkföllin og Covid19. Þessar kosningar eru því ekki síður sögulegar hvað varðar tímasetninguna í samhengi alls annars sem hefur gerst á árinu. Eftir 50 ár þegar það verða gerðar heimildamyndir um árið getur þú sagt frá því hvernig var að mæta á kjörstað í þessu umhverfi.
#3: Hvert atkvæði skiptir máli. Kannski ekki fyrir þig en fyrir frambjóðandann þinn.
Að kjósa er ekki bara réttur hvers og eins, heldur einnig áhrifavald hvers og eins. Þar sem hvert atkvæði lýsir vilja fólksins, er sérstaklega mikilvægt að sleppa ekki að kjósa því þú heldur að frambjóðandinn þinn sé pottþéttur til sigurs eða taps. Niðurstaða kosninganna verður túlkuð sem þinn vilji, og ef þú nennir ekki á kjörstað verður það áhugaleysi túlkað sem áhugaleysi gagnvart þínum frambjóðanda. Auðvitað ætti enginn að pína sig á kjörstað bara fyrir frambjóðandann, en þú ættir að vita að einstaklingur í alvöru framboði almennt sefur ekki meira en 5 klst. að meðaltali í tvær vikur, eldist um 10 ár í andlitinu á tímabilinu og grennist um svona 10 kg. Vegna þess að þegar maður er með kvíðahnút í maganum og á endalausum hlaupum hingað og þangað, hringjandi kvölds og morgna er erfitt að muna eftir því að borða. Auðvitað geta þessir frambjóðendur bara sjálfum sér um kennt, en að einhver skuli vera til í að leggja þetta á sig andlega er að mínu mati góð ástæða til að skella sér á kjörstað.
Fyrr mitt leyti á ég alltaf minn kjörstaðarkjól og boð í góða kosningavöku, eða þá að ég held hana barasta sjálf (ef enginn skyldi hafa boðið mér). Hver sem þín kjördagshefð gæti verið þá óska ég okkur öllum gleðilegs komandi kjördags, ylhýru sumri og megum við öll muna eftir skilríkjunum.