Hvernig stendur á því að sá atburður, sem fyrir flest pör er innsigling á kærleika þeirra til hvors annars, verður oftar en ekki ein rótin að skilnaði?
Það má færa rök fyrir því að fæðing fyrsta barns sé með stærstu lífsbreytingum sem fólk fer í gegnum. Það er upphafið að ábyrgðarfullu lífsskeiðaverkefni með gleði, viðbótarálagi og óvæntum uppákomum. Andlegur og tilfinningalegur þroski jafnt barns sem foreldra tekur stökk. Því er mikilvægt að umgjörðin sem barnið fæðist inn í sé traust og að parið styrki samband sitt. Staðreyndin er sú að 30% skilnaðarbarna eru yngri en 3 ára við skilnað foreldra.
Í hverju liggur þetta? Jú, sambandið getur orðið mjög barnsmiðað og foreldrarnir gleymt að rækta sjálf sig og sambandið hvort við annað auk álags og misgengis í væntingum. Eins geta verkefnaskipting og ábyrgð lagst mjög ójafnt á foreldrana sem getur orðið rót að óánægju og langvarandi upplifun á ójafnréttlæti. Hjá mörgum foreldrum liggur meginþunginn af umönnun barnsins hjá móðurinni. Ekki einungis hin líffræðilegi hluti hvað varðar brjóstagjöf og slíkt, heldur einnig hin almenna ummönnun og tilfinningalega ábyrgð. Þetta er náttúrulega að einhverju leyti erfðagripur frá gömlum hugmyndum um heiminn og verkaskiptingu kynjanna. En við erum nú komin í 21. öldina og ættum að geta skipulagt okkur öðruvísi, er það ekki?
Vandi nýbakaðra feðra
Reynslan sýnir að ungt fólk vill jafnari heim og tekur jafnari þátt í fjölskyldumyndun. Með lagabreytingum um fæðingarorlof hafa margir feður farið að taka feðraorlof og vilja taka virkan þátt í uppeldinu. Nútíma karlmenn vilja byggja upp traust og mótandi samband við börnin sín og taka virkan þátt í uppvexti þeirra og þroska. En hvað þýðir það fyrir karlmenn? Hvar eru fyrirmyndirnar sem geta kennt nýjum feðrum hvernig það hlutverk virkar? Hvernig er maður góður pabbi árið 2020?
Ef við lítum á samfélagslegar væntingar til karlmanna, þá snúast þær mikið um líkamlegan styrk og að færa björg í bú. Hér er fátt um fína drætti hvað varðar bleyjuskipti, tilfinningalegan stuðning og skilning. Karlmenn eru nú í miðjum klíðum að móta nýja nútímalega karlmennsku. Karlmennsku sem einkennist af tilfinningalegum styrk og jafnrétti innan sem og utan heimilisins.
Að verða foreldri getur verið yfirþyrmandi upplifun. Vilja og þrá til að skila verkinu vel úr hendi lýstur saman við óvissu og hræðslu við nýtt verkefni. Verkefni sem þar að auki er dramatískt og veldur stórfelldum breytingum á lífinu: vökunætur, hormónarússíbani og fríar stundir sem teljast í sekúndum. Þetta tilfinningalega álag reynist mörgum erfitt . Um 14% mæðra þjást af fæðingarþunglyndi, sem lýsir sér í þreytu og skömm yfir því að finna ekki betri tengingu við barnið. Minna þekkt er að um 10% feðra þjást einnig af fæðingarþunglyndi. Það lýsir sér oft í meiri vinnu og fjarlægð frá heimilinu. Kannski eru það eðlileg viðbrögð að lifa steríóstýpuna í botn, það er að minnsta kosti eitthvert haldreipi í óvissuástandi. Því miður er það ekki uppbyggilegasta leiðin fyrir föðurinn til að vera styðjandi maki og virkur uppalandi.
Hægt er að hjálpa
Hér geta stjórnvöld lagt hönd á plóg fyrir nýja foreldra og sérstaklega feður. Veita má fræðslu fyrir foreldra, svokallaða jafnréttisfræðslu, þar sem foreldrar eru tilfinningalega undirbúin fyrir uppeldishlutverkið. Og karlar geta skilgreint fyrir sjálfa sig hvernig þeir vilja vera góðir feður á 21. öld. Þannig geta menn og konur öðlast skilning á lærdómsferlinu við að verða foreldri, lært hvernig þau geta hleypt hvort öðru að og vaxið saman sem foreldrar um leið og þau styrkja parsambandið.
Þróuð fjölskyldufræðsla er fyrir hendi í heiminum og ekki væri mikið mál að hefja slíkt starf á Íslandi á þannig viðurkenndum grunni. Gottmann-hjónin, John og Julie, hafa lengi rannsakað parasambönd og haldið slíka fræðslu fyrir nýbakaða foreldra með góðum árangri. Samhljómur er með rannsóknum þeirra og fjölda annarra rannsókna: Með fræðslu og aukinni hæfni til innstillingar í tilfinningar annarra má fækka verulega sambandsslitum foreldra ungra barna. Par með góða þekkingu í farteskinu skipuleggur líf sitt á þann hátt að geta átt fleiri samverustundir með barninu og með hvort öðru.
Upphafið hér á Íslandi væri jafnréttisfræðsla og aðstoð á meðgöngu fyrir alla verðandi foreldra. Efnið er til, við þurfum bara að hefjast handa. Ekki þarf mikið af fjármagni fyrir stjórnvöld til að bjóða öllum foreldrum stuðning til að vaxa saman í sterka fjölskyldu og koma heilbrigðum einstaklingi á legg. Ísland er leiðandi í heiminum í jafnrétti utan heimilisins, höldum því áfram innan veggja þess.
Höfundur er fjölskyldu- og hjónaráðgjafi.