Þú mátt sitja til klukkan ellefu á matsölustað, en ef þú ferð í strætó áttu að vera með grímu. Þú mátt fara í ræktina þar sem sviti þyrlast af fólki að hamast á tækjum en um leið áttu að halda tveggja metra fjarlægð við aðrar manneskjur. Undanfarið hefur manni helst skilist á yfirvöldum að ferðamenn smiti ekki aðra af þessari dularfullu veiru, en þó aðeins ferðamenn frá sumum löndum, því einhverjir teljast vera frá óöruggari löndum. Samt ekki ferðamenn frá til dæmis Þýskalandi, fjölmennri umferðaræð í miðri Evrópu, en Þýskaland telst víst öruggt land, í augnablikinu.
Ofanverð upptalning er hluti af þeim misvísandi skilaboðum sem ég reyni að átta mig á þessa dagana. Svo var það í vikunni að ég las frétt um að fjölmiðlar í Svíþjóð sættu nú gagnrýni fyrir að hafa ekki staðið undir hlutverki sínu og verið nógu gagnrýnir þegar hin svokallaða sænska leið var farin í Svíþjóð.
Svo maður spyr sig: Eru íslenskir fjölmiðlar nógu gagnrýnir?
Eða, getur verið að það loði við fjölmiðla að vilja sýna samstöðu í aðstæðum, sem eru okkur öllum framandi, með því að valda ekki óróa með of ögrandi spurningum eða dýpri greiningum? Ég veit það ekki, en ég veit þó að mér finnst vanta töluvert upp á að verið sé að greina nóg af viðmiðum og vendingum sem við virðumst nú knúin til að beygja okkur hratt undir. Ég rabbaði um þetta við einn vin minn, sem er hægri sinnaður hagfræðingur en velktist samt í sömu vangaveltum og ég eftir að hafa heyrt talað um ásættanlega áhættu, eftir að ný staða kom upp í vikunni.
Hvað eiga ráðamenn við með því þegar talað er um ásættanlega áhættu? veltum við fyrir okkur.
Hættulega raunverulegur fáránleiki
Þegar ég var rúmlega tvítug var þessi vinur að skrifa ritgerð í hagfræðinámi sínu og bað mig um að lesa hana yfir. Eftir lesturinn viðurkenndi ég að hafa ekki skilið neitt í henni en samt fundist rökleiðslan sannfærandi; frekar skrýtið að lesa eitthvað óskiljanlegt en láta samt sannfærast.
Þá sagði hann: Þú þarft ekki að skilja neitt. Þetta þarf bara að vera á vatnsheldri íslensku.
Mig rámar í að megnið af þessari ritgerð hafi hljómað á þessa leið: Ef BXY leiðir til ÖVI með hliðsjón af áðurnefndum afleiðum er rökstudd CCQA næsta breyta ... Ég man ekkert hvað stóð þarna og ég hef aldrei tileinkað mér hagfræðilegt tungutak, ég er að bulla, en þykist þó muna að svona hafi ritgerðin komið mér fyrir sjónir.
En þegar vinurinn var að velta hugtakinu ásættanleg áhætta fyrir sér, þá varð mér hugsað til gömlu ritgerðarinnar hans, óskiljanlegu rökvísinnar í henni, og um leið hugsaði ég um Daniil Kharms, hinn rússneska skáldameistara fáránleikans, sem kunni svo vel að leika með essensinn í því óskiljanlega og er sagður hafa búið yfir fullkomnu virðingarleysi fyrir viðteknum hugmyndum; fáránleikinn var þó svo sannur í Sovétríkjunum á þeim tíma að hann dó úr hungri á spítala í Leníngrad, þar sem hann var fangi – en nýverið kom út á íslensku örsöguverk hans Gamlar konur detta út um glugga.
Í spjalli okkar spurði vinurinn: Er einhver búinn að greina hvað felst í ásættanlegri áhættu? Var búið að afmarka merkinguna fyrir aðgerðirnar? Er til sundurliðað plagg þar sem er farið í hvað felst í óásættanlegri áhættu annars vegar og hins vegar ásættanlegri áhættu? Eru fjölmiðlar til dæmis búnir að greina hvaða áhætta felst í versta falli – og í besta falli – við þá ákvörðun að standa að hlutunum eins og er núna gert, og hafa landið opið á þann hátt sem það hefur verið. Er einhver staðar búið að fara í saumana á því hversu háan fórnarkostnað samfélagið er tilbúið að greiða og hvers eðlis hann á að vera, umfram annað?
Gamlar konur detta út um glugga, var ég næstum því búin að svara, í ábúðarfullum tón. Og ef hann hefði hváð hefði ég getað sagt: BXY er ÖVI og þá veistu það! Eða bara: Eigum við að detta í það á góðum ressa og fara síðan með grímur í strætó heim? Og ég gæti síðan farið í sleik við túrista því hann smitar ekki ef hann kemur frá Þýskalandi!
Ég hefði líka getað sagt honum frá leiklistarhátíð í Berlín sem ég fór á snemma árs 2010 í leikhúsinu Schaubühne en hátíðin var tileinkuð upplausn kerfa á þann hátt að öll verkin fjölluðu um kerfi í upplausn á einn eða annan hátt. Þetta var alþjóðleg hátíð, haldin í kjölfar upplausnar fjármálaheimsins stuttu áður, og á rúmri viku horfði ég á að meðaltali tvö til þrjú leikrit á dag bundin þessu þema. Gegnum gangandi, í annars ólíku verkum, var að orðin glutruðu niður innihaldi sínu. Frasar urðu merkingarlausir. Fólk notaði orð sem það var hætt að skilja. Alvarleg orð urðu hlægileg og öfugt. Orð sem enginn skildi urðu að viðteknum sannleika – sem ruglaði alla.
Stundum, nefnilega, þýða orð ekki neitt. Og stundum virðast þau standa fyrir meira en þau gera í raun og veru.
Hvað felst í orðunum ásættanleg áhætta?
Túristar á Tinder
Er ásættanleg áhætta til dæmis móðir sem deyr frá barni af því að hún var með undirliggjandi sjúkdóm? Er ásættanleg áhætta að sjoppueigandi verði gjaldþrota því að umferðin féll niður á hringveginum? Er ásættanleg áhætta að kvikmyndatökur, sem kosta hundruð milljóna, fari í vaskinn af því að allt í einu verður að hætta tökum? Er ásættanleg áhætta að menningar- og tónlistarhátíðir sem hafa verið í bígerð mánuðum saman falli allt í einu niður? Er ásættanleg áhætta að fólk sem var orðið heilsutæpt í vor út af innilokun þurfi nú að loka sig aftur inni – hvað segja lýðheilsurannsóknir um það? Er ásættanleg áhætta að stórir vinnustaðir eins og leikhúsin þurfi að vera lokaðir? Er ásættanleg áhætta að að frílansarar, listamenn og frumkvöðlar í samfélaginu geti ekki haft nein viðmið að leiðarljósi í frum- og atvinnusköpun sinni – og öflun lífsviðurværis – ef það á að opna og loka öllu á víxl? Er ásættanlegt að stór hluti af þjónustustörfum glutrist niður? Og, er vit í að telja að tugir þúsunda ferðamanna vegi efnahagslega á móti samfélagslegri lömun sem verður þegar þarf að loka öllu?
Ég veit það ekki en um leið held ég að tímarnir séu þannig að við þurfum öll að hugsa gagnrýnið um leið og við stöndum saman. Við þurfum að skilja innihald orðanna sem eru notuð, til að geta greint og borið saman möguleika í fordæmalausum aðstæðum. Því ráðamenn eru líka í fordæmalausum aðstæðum.
Hvað er gerlegt?
Ráðamenn, eins ágætir og þeir kunna að vera, eru líka bara mennskir; sumir hverjir atvinnupólitíkusar sem hafa aldrei reynt á eigin skinni hvað það er að vera frílansari í harki eða reka eigið fyrirtæki í áhættusömum aðstæðum. Eitt er að setja óhemju háa upphæð í að laða sem flesta ferðamenn til landsins, til að handkeyra ferðaþjónustuna sem hagfræðivinur minn taldi hafa verið um 8% af þjóðarframleiðslunni, en ekki má gleyma að sköpunarmátturinn hér innanlands, í allskonar ólíkum greinum, fyrirtækjum og framkvæmdum, er fjöreggið.
Raunar hafa Íslendingarnir, sem flæða á milli landa, helst smitað, þó að nú sé búið að rekja veiruna til a.m.k. eins ferðamanns. En það að halda því fram að ferðamenn smiti ekki hljómar eins og öfugur rasismi. Því ekki eru ferðamenn úr öðru efni en við, fyrir nú utan að skimun dugir ekki alltaf til. Ferðamenn sofa hjá Íslendingum (já, sumir eru á Tinder), þeir borða með Íslendingum, þeir gera líka það sem við gerum – allavega geri ég það í útlöndum.
Samt er þetta ekki spurning um að opna ekki landið – að loka því alfarið er líka ófýsilegur valkostur – heldur hvernig er staðið að því og þar vandast málin. Á að skima alla eða og þá hversu oft, eða setja fleiri eða alla í sóttkví? Hvað er gerlegt og hversu lengi?
En þegar maður heyrir hluti eins og að það þurfi ekki að tékka á fólki frá Þýskalandi eða frasann um að ferðamaður smiti ekki, þá líður manni svolítið eins og Daniil Kharms, svo það reynist strembið að halda í virðinguna fyrir viðteknum hugmyndum.
Nýi Gleðibankinn
Í fyrri bylgju COVID-19 á Íslandi hjálpaði samstaðan í samfélaginu; kunnugleg Júróvisjón-stemning sveif yfir vötnum, við sungum öll með Helga Björns og héldum okkur heima, nema þessi í heimapartíunum sem löggan setti met í að stöðva einhverja helgina stuttu eftir að neyðarástand var skollið á. Þríeykið varð nýi Gleðibankinn og Kári Stefánsson var allt í einu orðinn eins og ein af söguhetjunum í Harry Potter sem var stöðug ávítt fyrir að standa ekki nógu mikið með góðu öflunum um leið og hún fórnaði sér fyrir þau. Í staðinn fyrir að fylgjast með Daða lenda kannski í öðru sæti í Júróvisjón fylgdumst við með þremur hetjum og einni andhetju sigrast á lífshættulegri veiru, um stundarsakir, og fannst við öll eiga okkar þátt í því, þessu meinta íslenska afreki – eins og var farið að lýsa af því.
Þessar fordæmalausu aðstæður, eins og þær hafa verið kallaðar, hafa jú skollið svo skyndilega á að við erum dæmd til að gera mistök. Bara orðið fordæmalaust segir okkur að það er sama hversu sérfrótt og klárt fólk er, þá hefur ekkert okkar verið áður í aðstöðu sem þessari. Og í fordæmalausu ástandi þurfum við sem aldrei fyrr á djúpum greiningum fjölmiðla að halda, hlutverk þeirra er bæði að halda okkur upplýstum svo við getum farið eftir fyrirmælum yfirvalda, en um leið nógu upplýstum til að efast ef orðin fá skringilegan hljóm. Við verðum að þora að gagnrýna og spyrja ágengra spurninga, jafnvel þó að við tökum sénsinn á að hljóma heimskuleg eða taugaveikluð. Ég hlýði Víði þegar ég segi þetta því í viðtali nýverið sagði hann: „Þessi umræða þarf að vera í gangi. Ég hef oft sagt það í þessu ferli að það hættulegasta sem getur gerst fyrir okkur í svona krísustjórnun er að allir verða bara sammála okkur. Að við förum að spila einhvern leik án þess að nokkur spyrji okkur spurninga. Það væri mjög vont.“