Námu- og álrisinn Rio Tinto hefur sagt upp raforkusamningi sínum á Nýja Sjálandi og tilkynnt að álverinu þar á Tiwai Point verði lokað á komandi ári (2021). Einnig hefur fyrirtækið sagst þurfa tafarlausa lækkun á raforkuverðinu á Íslandi og muni ella íhuga lokun álversins í Straumsvík. Sá óvænti möguleiki er því fyrir hendi að Rio Tinto loki brátt tveimur þrautreyndum vatnsaflsknúnum álverum. Í þessari grein er sjónum einkum beint að álveri fyrirtækisins á Nýja Sjálandi, auk þess sem vikið er að mögulegri lokun Rio Tinto í Straumsvík.
Þetta mál er til þess fallið að minna okkur á þau vandræði sem upp geta komið á í löndum þar sem orkan er strönduð og notendahópurinn einhæfur. Þar er Ísland því miður í mun viðkvæmari stöðu en Nýja Sjáland. Það skapar vissa veikleika fyrir stóru orkufyrirtækin hér sem eru afar háð raforkusölu til álveranna þriggja.
Offramleiðsla af áli orðið viðvarandi ástand
Bresk-ástralska námu- og álfyrirtækið Rio Tinto er einn af stærstu álframleiðendum heimsins og er í dag líklega í 4.-5. sæti ásamt rússneska Rusal, á eftir þremur mjög stórum kínverskum álfyrirtækjum. Meðal annarra stórra álframleiðenda eru mörg kínversk fyrirtæki, bandaríska Alcoa, Norsk Hydro og álframleiðendur í Persaflóaríkjunum. Mest af álframleiðslu Rio Tinto fer fram í Ástralíu og í Kanada. Einnig er fyrirtækið með sitt hvort álverið á Nýja Sjálandi og á Íslandi.
Undanfarin ár hefur offramleiðsla af áli í Kína þrengt að hagnaðarmöguleikum vestrænna álvera. Í Kína er ódýrt vinnuafl, mikill aðgangur að kolaorku og margvísleg aðstoð hins opinbera óspart nýtt til að knýja sífellt meiri álframleiðslu og kínverski furðukapítalisminn lætur offramleiðslu lítt á sig fá. Svo virðist sem Rio Tinto sjái nú sæng sína útbreidda og sé reiðubúið að loka flestum álverum sínum utan Kanada, nema fyrirtækið nái að bæta rekstrarskilyrðin verulega á hverjum stað með lækkun raforkuverðs, sem er risastór kostnaðarliður í álbræðslu.
Álver á vatnsaflsútkjálkum heimsins
Syðst í strjálbýlinu á Suðureyju Nýja Sjálands, þar sem heitir Tiwai Point, liggur eina álverið í því fallega landi. Framleiðslugetu þess svipar til álvers Alcoa á Reyðarfirði og Tiwai Point notar ámóta mikið af raforku eins og framleidd er í Kárahnjúkavirkjun (Fljótsdalsstöð). Tiwai Point er sem sagt nokkuð stórt álver; þó ekki jafn stórt eins og sum nýjustu álverin við Persaflóann en mun stærra en t.a.m. álver Rio Tinto í Straumsvík (ISAL).
Rétt eins og í Straumsvík er það álrisinn Rio Tinto sem starfrækir álverið í Tiwai Point. Í júlí sem leið (2020) tilkynnti Rio Tinto áætlun um að álverið í Tiwai Point loki á næsta ári (2021). Jafnframt sagði álverið upp raforkusamningi sínum við ný-sjálenska ríkisorkufyrirtækið Meridian Energy (eins árs uppsagnarfrestur). Þar með stefnir í að hálfrar aldar gömul gríðarstór vatnsaflsvirkjun Meridian verði í bili nánast gagnslaus, en þangað sækir álverið hátt í 600 MW af vatnsafli. Virkjunin sú kallast Manapouri og vegna takmarkana í flutningskerfinu þarna syðra yrði ekki unnt að koma rafmagninu til nýrra fjarlægari kaupenda nema með verulegri uppbyggingu í flutningskerfi Nýja Sjálands. Það myndi taka einhver ár.
Ísland hefur veðjað miklu meira á áliðnað en Nýja Sjáland
Ýmis eigendaskipti hafa í gegnum tíðina orðið að báðum þessum álverum, en þau hafa um skeið bæði verið rekin af Rio Tinto, sem eins og áður sagði er annar af tveimur stærstu álframleiðendunum utan Kína. Reyndar er Tiwai Point álverið ekki alfarið í eigu Rio Tinto, því japanska viðskiptasamsteypan Sumitomo er þar minnihlutaeigandi og lengi vel fór mest af álframleiðslu Tiwai Point einmitt til Japan.
Meridian Energy, eigandi Manapouri-virkjunarinnar, er eins konar Landsvirkjun þeirra Ný-Sjálendinga. Þó svo íbúafjöldinn á Nýja Sjálandi sé um fjórtánfaldur sá sem er á Íslandi er raforkuframleiðsla á Nýja Sjálandi einungis um tvöfalt það sem er hérlendis. Stóriðja notar jú miklu meira af raforku á Íslandi en á Nýja Sjálandi. Enda er Ísland stærsti rafmagnsframleiðandi í heimi miðað við stærð þjóða (per capita) og ekkert land hefur hlutfallslega veðjað jafn mikið á raforkusölu til álvera eins og Ísland. Engu að síður yrði verulegur samdráttur í raforkunotkun á Nýja Sjálandi ef Tiwai Point hættir starfsemi og lokunin myndi valda orkufyrirtækinu Meridian umtalsverðu tekjutapi tímabundið, meðan ekki er búið að styrkja raforkuflutningskerfið frá virkjuninni yfir til þéttbýlli svæða norðar í landinu. Það er nú þegar í undirbúningi.
Hagsmunir Meridian af Tiwai Point eru verulegir en viðráðanlegir
Álverið í Tiwai Point er stærsti einstaki raforkukaupandinn á Nýja Sjálandi. Álverið notar um þriðjung allrar raforku sem nú er notuð á suðureyju Nýja Sjálands og raforkunotkun álversins nemur um 12-13% af allri raforkunotkun á Nýja Sjálandi. Og af allri raforku sem Meridian Energy framleiðir notar álverið í Tiwai Point um 40%! Það yrði Meridian Energy því augljóslega áfall ef/ þegar álverið lokar. En þó svo álverið í Tiwai Point sé nokkuð stórt notar áliðnaðurinn á Íslandi miklu meiri raforku en sá á Nýja Sjálandi og hlutfall álvera í heildarnotkun raforku er miklu hærra á Íslandi en á Nýja Sjálandi. Fyrir Ísland yrði lokun álvers því miklu stærra efnahagslegt áfall en fyrir Nýja Sjáland.
Rétt er að hafa í huga að hlutfall álversins á Tiwai Point í tekjum Meridian er mun lægra en umrædd 40% af seldu raforkumagni því verðið a raforkunni til álversins er miklu lægra en raforkuverð almennt er í heildsölu á Nýja Sjálandi. Einnig skiptir máli að Meridian getur vænst þess að einungis séu fáein ár í að búið verði að styrkja flutningskerfið svo að raforkan frá virkjuninni komist á vel greiðandi markað norðar í landinu. Og loki álverið á Tiwai Point mun eflaust hægja á áformum um byggingu nýrra virkjana á Nýja Sjálandi um hríð. Þrátt fyrir tímabundinn skell yrði það sem sagt varla stórkostlegt áhyggjuefni fyrir Meridian að selja orkuna frá Manapouri. M.ö.o. þá eru hagsmunir Meridian af Tiwai Point verulegir en viðráðanlegir.
Efnahagsleg áhrif Straumsvíkur fyrir Ísland eru hlutfallslega töluvert meiri
Til samanburðar má hafa í huga að álverið í Straumsvík notar um 15% af allri raforku á Íslandi, Straumsvík notar um 20% af allri raforkuframleiðslu Landsvirkjunar og álverið skilar Landsvirkjun um 25% af tekjum orkufyrirtækisins. Þetta er geysilega hátt hlutfall, enda er álverið í Straumsvík mikilvægasti einstaki viðskiptavinur Landsvirkjunar. Auk þess skipta tekjur af raforkuflutningnum miklu fyrir Landsnet.
Í þessu samhengi má telja næsta víst að neikvæð tekjuáhrif lokunar álversins í Straumsvík yrðu miklu þyngri fyrir Landsvirkjun en lokun Tiwai Point yrði fyrir Meridian. Einnig yrðu áhrifin slæm fyrir Landsnet. Þarna eru því miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi fyrir eiganda Landsvirkjunar og stærsta eiganda Landsnets, þ.e.a.s. íslenska ríkið. Þarna reynir svo auðvitað líka á ýmsa aðra mælikvarða eins og töpuð störf (bein og afleidd) og tapaðar gjaldeyristekjur. Bæði raforkan og orkuflutningurinn er verðlagður í Bandaríkjadölum (USD).
Alkunnar hótunaraðferðir Rio Tinto
Tiwai Point liggur í nágrenni smábæjarins Bluff. Hvort bæjarnafnið sé borið fram sem „blöff“ skal ósagt látið. Þarna á suðureyju Nýja Sjálands er geysileg náttúrufegurð og það er greinarhöfundi minnisstætt þegar hann ferðaðist um eyjuna fyrir all mörgum árum og ók þá m.a. meðfram fögrum fjallavötnum sem þarna liggja og gegna sum hver hlutverki uppistöðulóna fyrir Manapouri virkjunina.
Þegar Manapouri-virkjunin reis fyrir álverið á Tiwai Point olli það verulegri hækkun vatnsborðs Manapouri-vatns og aukinni yfirborðssveiflu, sem hafði ýmis neikvæð áhrif á umhverfi og lífríki. Andstaða umhverfisverndarfólks varð svo til þess að síðari áform um stækkun virkjunarinnar og álversins gengu ekki eftir. Sem fyrr segir er Tiwai Point engu síður nokkuð stórt álver og að ýmsu leyti samkeppnishæft, þ.e. með bærilega stærðarhagkvæmni og er knúið 100% með kolefnislausri endurnýjanlegri raforku. En allt snýst þetta um raforkuna og framtíðarhagnað og nú lítur út fyrir að álverinu verði lokað á næsta ári. Af því Rio Tinto fær ekki umbeðna verðlækkun á rafmagni og orkuflutningi og að óbreyttu álítur álfyrirtækið að arðsemi af álverinu verði of lítil til að réttlæta áframhaldandi rekstur þess.
Það er reyndar ekkert nýtt að Rio Tinto hóti að loka Tiwai Point ef ekki fáist betri kjör á rafmagninu og það með dágóðum árangri. Hótunaraðferðir Rio Tinto eru alkunnar. Bæði 2013 og 2015 var álverinu veittur sérstakur ríkisstuðningur til að tryggja áframhaldandi rekstur þess. En nú telja Meridian og stjórnvöld á Nýja Sjálandi að ekki sé lengur unnt að ganga að sífellt nýjum kröfum Rio Tinto. Og eins og áður sagði var svar Rio Tinto að segja upp raforkusamningnum og lýsa því yfir að álverinu verði lokað á næsta ári.
Ekki er enn alveg víst að Tiwai Point loki
Hvort af lokun Tiwai Point verður á næsta ári á eftir að koma í ljós. Rio Tinto stillir málinu svo upp að Tiwai Pont sé álver sem ekki á séns á að skila viðunandi arði á komandi árum nema fá betri raforkukjör. Sennilega er þó enn eitt samkomulag til ca. 2-3ja ára ekki alveg útilokað, því enn er ár í tilkynntan lokunartíma. Ef og þegar álverið lokar er svo sennilegt að upp rísi ágreiningur og jafnvel málaferli um hver eigi að bera kostnað af hreinsun svæðisins. Og jafnvel þó svo samkomulag næðist óvænt um áframhaldandi rekstur álversins yrði slíkt samkomulag væntanlega einungis til skamms tíma og reksturinn því áfram í sífelldri óvissu.
Strönduð orka
Bæði í tilviki Tiwai Point og Straumsvíkur er raforkan mjög staðbundin og ekki er með einföldum hætti hægt að finna annan kaupanda að svo miklu magni af rafmagni. M.ö.o. þá er orkan strönduð. Slíkt er almennt til þess fallið að veikja samningsstöðu viðkomandi raforkufyrirtækis, en um leið má segja að viðkomandi álver á heldur engan annan möguleika á að útvega sér raforku. Langtímasamningur getur því verið góður gagnkvæmur kostur fyrir raforkufyrirtækið og álfyrirtækið.
Orkumarkaðurinn á Nýja Sjálandi mun taka við Tiwai Point
Nú hefur Rio Tinto sem sagt virkjað áætlun um að draga úr framleiðslunni í álverinu Tiwai Point í undirbúningi þess að loka álverinu á næsta ári. Því er Landsnet þeirra á Nýja Sjálandi að meta hvaða uppbygging sé nauðsynleg í flutningskerfinu til að unnt verði að nýta gríðarstóra Manapouri-vatnsaflsvirkjunina þarna á suðurodda landsins og koma raforkunni á stærri markað, sem einkum er á norðureyjunni.
Eins og áður sagði myndi lokun Tiwai Point þýða töluvert tekjuhögg fyrir Meridian Energy til skemmri tíma litið og áhyggjur fjárfesta þar að lútandi má að einhverju leyti nú þegar sjá í þróun hlutabréfaverðs Meridian. Til aðeins lengri tíma litið má þó telja líklegt að Meridian muni koma megninu af raforkunni frá Manapouri-virkjuninni á markað norðar í landinu. Fyrir fólkið sem býr í Bluff yrði lokunin aftur á móti mikið áfall. Þess má geta að íbúar álversbæjarins Bluff eru ámóta margir eins og búa á Eskifirði og Reyðarfirði til samans. Um leið eru líka vert að hafa í huga að Landsvirkjun er miklu háðari sölu til álvera en Meridian, enda starfar íslenska orkufyrirtækið á miklu fábrotnari markaði.
Rio Tinto er sagt vilja verðlækkun sem nemur um 20-30%
Fróðlegt væri að vita hvað Rio Tinto telur ásættanlegt raforkuverð fyrir öruggt vatnsafl og þar með kolefnislausa græna orku, sbr. bæði Tiwai Point og Straumsvík. Þeir sérfræðingar á Nýja Sjálandi sem greinarhöfundur hefur fengið upplýsingvar frá álíta að Rio Tinto fari fram á allt að 30% lækkun á raforkuverðinu til Tiwai Point og myndi mögulega sætta sig við um 20% lækkun. Þetta eru vel að merkja upplýsingar sem Rio Tinto hefur auðvitað ekki staðfest og kunna því að vera verulega ónákvæmar. En sé þetta yfirfært yfir á Ísland má ímynda sér að Rio Tinto vilji að raforkuverðið til ISAL í Straumsvík (ásamt flutningi) fari úr núverandi rúmlega 35 USD/MWst í upphæð á bilinu ca. 25-30 USD/MWst. Greinarhöfundur hefur þó vel að merkja engar upplýsingar um hverjar kröfur Rio Tinto eru gagnvart Landsvirkjun.
Slíkt verð, að frádregnum flutningskostnaði, væri vafalítið nokkuð langt undir útreiknuðu kostnaðarverði Landsvirkjunar. Að fara niður fyrir slíkt kostnaðarverð væri sennilega andstætt lögum og af þeirri ástæðu einni er vandséð að Landsvirkjun geti orðið við óskum Rio Tinto. Ríkisfyrirtækið má ekki niðurgreiða raforkuna í skilningi löggjafar um samkeppni og eðlilega viðskiptahætti. Einnig skiptir máli að það að fallast á ósk Rio Tinto gæti til framtíðar stórskaðað samningsstöðu Landsvirkjunar gagnvart annarri stóriðju. Þar með er þó ekki útilokað að Landsvirkjun og Rio Tinto semji um einhverja breytingu á skilmálum eða reiknireglum raforkuverðsins, en þá varla nema með hógværri og einungis tímabundinni verðlækkun og að auki með ákvæðum um ávinning Landsvirkjunar ef og þegar álverð hækkar.
Rio Tinto lokar vatnsaflsálverum en heldur í kolaknúin álver!
Þó svo nú líti út fyrir að viðræðum á Nýja Sjálandi sé endanlega lokið er enn ekki orðið af lokun Tiwai Point og því ennþá möguleiki á að Rio Tinto breyti afstöðu sinni þar. Það mun þó varla gerast nema álverð taki bráðlega og óvænt að hækka umtalsvert eða að stjórnvöld á Nýja Sjálandi breyti afstöðu sinni og samþykki enn einn styrkinn til álfyrirtækisins.
Einnig í Straumsvík hefur Rio Tinto viðrað möguleikann á lokun. Greinarhöfundur telur þó líklegast að álverið í Straumsvík verði rekið hér áfram lengi enn. Þarna er þó ekkert víst, enda ræðst samningsstaða Landsvirkjunar svo til alfarið af því hversu miklar fjárskuldbindingar uppsagnarákvæði raforkusamningsins leggja á Rio Tinto. Kannski verður báðum álverunum lokað; bæði í Straumsvík og í Tiwai Point. Kannski hvorugu. Kannski öðru og það er sennilega líklegasta niðurstaðan.
Vandinn er bara sá að mögulega er Rio Tinto orðið afar svartsýnt um þróun álmarkaða og yfirstjórn fyrirtækisins kann að hafa tekið þá strategísku ákvörðun að loka álverum sem álitin eru ólíkleg til að skila viðunandi hagnaði á komandi árum. Og Straumsvík gæti fallið í þann flokk miðað við þær forsendur sem Rio Tinto kann að hafa gefið sér. Því miður mun óvenjulítið kolefnisfótspor álversins í Straumsvík eitt og sér ekki tryggja áframhaldandi rekstur þess um ókomna framtíð. Reksturinn þar snýst um væntan fjárhagslegan hagnað og annað í rekstrinum er aukaatriði.
Hótun um lokun í Straumsvík sýnir þörfina á heilbrigðri skynsemi í orkumálum
Ísland er lang stærsti raforkuframleiðandi heims miðað við fólksfjölda, en fram að þessu hefur landið því miður ekki haft aðgang að stærri og betur greiðandi raforkumörkuðum. Fyrir vikið eru t.a.m. bæði Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur óvenju mikið háð duttlungum örfárra erlendra álfyrirtækja, en álfyrirtækin kaupa um 70% raforkunnar sem hér er framleidd. Og nú virðist sem álfyrirtækin (a.m.k. Rio Tinto) séu jafnvel tilbúin til að ganga á brott frá umsömdum raforkukaupum fáist ekki einhliða lækkun á raforkuverði þeim til handa.
Slíkt er auðvitað nokkuð ruddaleg framkoma af hálfu Rio Tinto, en hafa verður í huga að stjórnendur þessara fyrirtækja hugsa fyrst og fremst um hlutabréfaverðið. Og jafnvel stórfyrirtæki eins og Rio Tinto og Alcoa geta lent í því að ráða ekki við kínversku offramleiðsluna. Svo styttist vel að merkja í að raforkuverðið í samningum við bæði Century Aluminum (Norðurál) og Alcoa (Fjarðaál) komi til endurskoðunar og þar með ljóst að stóru raforkufyrirtækin þrjú á Íslandi standa frammi fyrir mikilli áskorun til að tryggja áframhaldandi sölu á orkuframleiðslu sinni.
Í reynd er ekkert óvenjulegt við framkomu Rio Tinto, sbr. það sem lengi hefur tíðkast í samskiptum fyrirtækisins á Nýja Sjálandi. Staðan núna sýnir einfaldlega hversu óhentugt það er fyrir stærsta raforkuframleiðanda heims (per capita), þ.e. Ísland, að vera með um of þröngan eða einhæfan hóp viðskiptavina og hafa engan aðgang að stærri og fjölbreyttari raforkumarkaði. Í því ljósi og jafnvel þó svo Rio Tinto seinki núverandi áformum um mögulega lokun í Straumsvík er alveg augljóst að það var óráð að íslensk stjórnvöld skyldu fyrir nokkrum árum ekki vera miklu ákveðnari í að skoða möguleikann á sæstreng milli Íslands og Evrópu. Ítarlegri könnun og undirbúningur á slíku verkefni var og er einfaldlega heilbrigð skynsemi.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland og sem Íslendingur einn af óbeinum eigendum Landsvirkjunar, rétt eins og langflestir ef ekki allir lesendur greinarinnar.