Við vorum orðin laus við veiruna úr þjóðfélaginu í vor og gátum nokkurn veginn um frjálst höfuð strokið. En þá þrýsti m.a. ferðaþjónustan á að landamæri yrðu opnuð til að fyrirtækin í þeim geira gætu fengið einhverja viðskiptavini. Svo fór sem fór að tilraunin með að opna landamærin lukkaðist ekki betur en svo að veiran er kominn á fullt aftur og nú þurfa margar aðrar starfsgreinar að sæta því að geta líklega ekki starfað eðlilega næstu mánuði.
Þetta er afar óheppilegt og í raun mjög ósanngjarnt gagnvart öðrum greinum þjóðfélagsins.
Hvað með hagsmuni verslunareigenda, líkamsræktarstöðva, íþróttafólks, skemmtistaðaeigenda, nuddara, tannlækna og allskyns heilsutengdrar þjónustu, hvað með hagsmuni eldra fólks, og svona mætti lengi telja. Að ógleymdum menntaskólanemum sem nú horfa upp á aðra önn þar sem þeir geta líklega ekki stundað eðlilegt nám og félagslíf og þurfa kannski að hanga megnið af vetrinum heima í fjarkennslu.
Sanngjarnir aðilar hljóta að sjá að það er ekki eðlilegt að hagsmunir ferðaþjónustunnar séu svona settir framar hagsmunum annarra starfsgreina sem skapa miklu fleiri störf og tekjur fyrir fjölskyldur landsins.
Það furðulegasta í öllu þessu er svo að þegar litið er yfir hagtölur á vef Seðlabanka Íslands þá má þar sjá að greiðslujöfnuður við útlönd var í plús á því tímabili þegar nánast engir ferðamenn voru í landinu. Þ.e. við fengum inn meiri erlendan gjaldeyri inn í landið en við eyddum. Þetta skýrist m.a. af því að Íslendingar fóru sjálfir ekki í ferðir erlendis og eyddu þannig minni gjaldeyri. Íslendingar hafa líka verið duglegir að nota íslenska þjónustu og vörur síðustu mánuði þannig að efnahagslífið hefur verið í fullum gír hérlendis.
Að lokum má benda á að Seðlabankinn á um 1,000 milljarða í varasjóði þannig að við erum ekki í þröngri stöðu þegar kemur að gjaldeyri til að kaupa nauðsynjar frá útlöndum ef á þarf að halda. Miðað við reynslu okkar undanfarna mánuði þá er ekki þörf á að grípa til hans. En ef upp kæmi sú staða þá hlýtur sú spurning að vakna:
Ef ekki má ganga á þennan varasjóð til að verjast heimsfaraldri í hvað er hann þá ætlaður?
En hvernig sem þetta hefur allt þróast þá liggur nú beinast við að við gerum aðra atlögu að því að ná utan um þessa pest eins og við gerðum fyrr á árinu. Í kjölfar þess verðum við einfaldlega að loka landamærunum. Þeir sem nauðsynlega þurfa að ferðast þurfa að gera ráð fyrir því fara í 14 daga sóttkví í kjölfarið. Þetta virkaði í vor og mun væntanlega að gera aftur. Þannig getum við kannski átt hér nokkurn veginn eðlilegt líf innanlands það sem eftir er af árinu.
Höfundur er tónlistarmaður og MBA.