Rosalegur asni var ég að vera ekki búin að finna mér kærasta fyrir næstu bylgju COVID-19, stóð ég mig að því að hugsa í einsemd óþægilega kunnuglegri, síðan í vor. Á vormánuðum kynntist ég áður ókunnugri einsemd, nístandi djúpri sem þó þjálfaði einveruvöðvann, þannig að stundum leið mér eins og munki í æfingabúðum. Í fleiri vikur, kannski sex, var ég að mestu leyti ein ef sonur minn var ekki hjá mér, nema fyrrverandi maðurinn minn kíkti stöku sinnum í kaffi. Ég man eftir sjálfri mér endalaust einni á ráfi um tómlega borg, í öllum veðrum og vindum, og ég man eftir því að halda að ég væri að veikjast þegar sonur minn var hjá föður sínum og óttast að ég fengi aldrei að sjá hann aftur, því hann mætti ekki hitta mig ef ég væri orðin sýkt og þar sem ég hef verið með astma frá barnsaldri, ofan í fjörugt ímyndunarafl, óttaðist ég samstundis hið versta. Á sama tíma veiktist nákominn ættingi hættulega en enginn mátti heimsækja hann svo ég óttaðist um leið að sjá hann aldrei aftur og þá var eins og heimurinn, eins og ég þekki hann, væri horfinn.
Innilokuð í einveru
Ég er samt með ágætt þol í einveru. Ég er jú rithöfundur sem vinn flesta daga ein, alin upp í sveit fyrir tíma rafrænna samskipta og hef búið árum saman erlendis, fjarri vina- og ættingjanetum. Á yngri árum flæktist ég mikið ein, oft á puttanum, en ég fór til dæmis í mánuð til Madrídar bara til að þræða göturnar og eitt sinn hékk ég ein á ódýru gistiheimili í París í tvær vikur til að telja á mér tærnar, svo gerðist ég líka ráðskona hjá einsetubónda eitt sumarið til að geta skrifað fjarri öllu, svo eitthvað sé nefnt. Ég hef alltaf notið þess að ráfa ein og aldrei óttast einveru.
Að vera rithöfundur er svosem hálfgert munkastarf, í upphafi COVID-móðunnar bjallaði ég í vinkonu sem er líka rithöfundur og hún dæsti: Ég finn engan mun, þetta er bara eins og alltaf, ég ein heima að skrifa.
En þegar leið á, reyndist það vera öðruvísi. Einveran sem fylgdi COVID-19 var af öðrum toga. Af því ég hafði ekkert val. Og ég hafði heldur ekki fólk í kringum mig til að rabba við um daginn og veginn, nema í síma eða á netinu og í því felst ekki sama næringin. Ég var innilokuð í einveru, og hún þrengdi að mér.
Algjör skortur á nánd
Þegar vikunum fjölgaði í einverunni fann ég hvernig ský settist í höfuðið og fyllti út í hugann. Skýið stækkaði þangað til það var orðið átak að vakna á morgnana, sama þótt ég gætti þess á hverjum degi að dansa, gera jóga eða hlaupa; hringja í nákomna, fara í göngutúr og elda eitthvað hollt. Á þessum vikum smakkaði ég hvorki vín né borðaði sælgæti en samt varð ég þyngri á mér. Krónísk þreyta settist í mig, líkt og ég væri stöðugt þreytt, og ég gat ekki einbeitt mér við neitt langa stund, hvorki að lesa bók né horfa á sjónvarp. Ég gat í mesta lagi skrifað smá en ekki lengi í einu.
Niðurstaða mín er sú að algjör skortur á nánd við fullorðnar manneskjur til lengri tíma étur upp getuna til að einbeita sér, á furðulegan hátt. Nánd er í einhverjum skilningi lífsnauðsynlegt vítamín.
Ég var ekki ein um þetta ástand. Ég á einhleypa vini – og ég heyrði á mörgum að þeir upplifðu tætandi einsemd. Og sumir upplifðu jafnframt ótta um börnin sín, einhverjir af því að samskipti við maka buðu upp á það, aðrir af ótta við að veikjast og geta ekki haft börnin á heimilinu, þar sem er aðeins einn fullorðinn einstaklingur. Svo ekki sé minnst á ungt fólk, líffræðilega knúið áfram að finna líkamlega nánd og spegla sig í samskiptum. Búið að skamma það árum saman fyrir að vera alltaf á netinu og nú er það skammað fyrir að mingla. Það hlýtur að vera ömurlegt í þessum aðstæðum að vera táningur og þrá að tengja við einhvern.
Ég held raunar að veruleiki þeirra sem eru í sambúð og hinna sem eru einhleypir í COVID-einangrun, sama á hvaða aldri, sé um margt ekki sambærilegur. Til marks um það hafa furðu nokkrir einhleypir spurt mig: Ætlarðu ekki að skrifa pistil sem heitir Ástin á tímum COVID?
Svo hér er hann.
Heimkaup og Tinder
Í sumar, þegar allt varð venjulegra um stundarsakir, varð ég vör við að konur í kringum mig keyptu háþróuð sjálfsfróunartæki á Heimkaup, til að stuðla að jákvæðri boðefnaframleiðslu, og/eða skráðu sig inn á Tinder, ef vera skyldi að þær vöknuðu aftur upp í einangrun, við það að missa vitið af skorti á nánd.
Eftir þessa sturluðu einveruraun prófaði ég að fara inn á Tinder, eitthvað sem ég hafði einu sinni áður prófað með giftri vinkonu sem var forvitin svo eftir aðeins of mikið rauðvín lækuðum við tvær karlmenn í fíflagangi og ég vaknaði morguninn eftir í smá skömm. En mér gekk ekkert betur í þetta skipti. Ég gat ekki tengt einlægt við þetta og endaði með að súperlæka bróður minn. Eiginlega hefði ég viljað læka alla með viðkunnanlegan svip, út á það eitt, en fannst óþægilega furðulegt að tala við ókunnuga menn í gegnum forrit (bróðir minn vildi ekki samtal við mig á Tinder en hann er álíka sérvitur þar og ég).
Raunar var ég ekki heldur ein að þessu sinni, heldur upphófst athæfið í smá flippi á kaffihúsi með annarri vinkonu sem hafði líka upplifað COVID-einsemd einhleypingsins – og raunar líka Loga Bergmann sem sat forvitinn hjá okkur. Í hégómanum að sjá lækin, svolítið tipsí, slysaðist ég til að borga Tinder 14.900 krónur fyrir eitthvað sem ég hef ekki hugmynd um hvað er, verandi tækniblind. Svo daginn eftir tímdi ég ekki að eyða forritinu, þó að ég vildi ekki vera þarna, sennilega búin að borga gyllta ársáskrift fyrir forrit sem mér finnst óþægilegt að hafa í símanum mínum. Fyrir nú utan að hafa lækað allskonar menn sem ég ætlaði ekki að læka eða ekki lækað menn sem ég kannast við, og finnst vandræðalegt að hitta núna. Raunar held ég að ef ég væri skotin í einhverjum, þá myndi ég aldrei læka viðkomandi á Tinder. Ég er of feimin til þess.
Tækniblindan, að ruglast í sveipinu, náði hápunkti þegar ungur strákur spurði: Hey, Auður! Hvað vilt þú eiginlega með einhvern dúdda í Keflavík eins og mig!
Og allavega tveir spurðu: Ert þú ananaskonan?
Fimm raunverulegar ástartengingar
Á Tinder flæktist ég í kjölfarið inn í samtöl og prófaði að kíkja aftur inn, en fyrir manneskju sem ræður hvorki við að svara öllu í pósthólfinu sínu né á skilaboðaþráðum, þá var þetta orðið enn eitt lagið af einhverju sem beið þess að vera svarað. Menn að segja hæ – og ég að taka sénsinn á að móðga einhvern, ef ég svaraði ekki, svo ég sagði eitthvað til að segja eitthvað, létt og kurteist, prófaði jafnvel að spjalla, en fannst þetta ekki þægilegt, þó að þetta væri ábyggilega vænstu menn. Eiginlega hef ég engan hvata til að tala við einhvern sem ég hef aldrei hitt, eygi ekki tilganginn með því, en auðvitað er það ekki móðgandi ef ég hef hvort sem er ekki hitt viðkomandi. Ruglið í mér var farið að minna á Woody Allen (áður en upp komst um perraskap hans) og mér leið frekar eins og ósjálegum karli með kvíðaröskun en kúl konu að tékka á karlmönnum.
Fyrir tilstuðlan vinkvenna prófaði ég samt að tala meira við einn og fara á eitt deit en það minnti mig á skrýtið atvinnuviðtal og ég ætla aldrei að gera það aftur. Ekkert með manninn að gera, bara súrrealískar aðstæðurnar að hitta einhvern ókunnugan til að verða mögulega skotinn í viðkomandi. Mér fannst þetta svo undarlegt að til að jafna mig eftir deitið tróð ég í mig stórri pönnuköku með kanil á kaffihúsi í eigu hlýlegrar kunningjakonu.
Raunar eru vinkonurnar ennþá að hlæja að mér og lái ég þeim það ekki. Niðurstaða mín af þessu er sú að eiginlega er rómantískara að hitta einhvern í blakkáti á Kaffibarnum heldur en að fara á Tinder. En það er svosem ekki rómantískt heldur.
Nándin í þakklæti
Það er hundleiðinlegt að vera einhleyp á tímum COVID & Tinder. Mér finnst hvoru tveggja álíka óyfirstíganlega skrýtið. Að fara í Krónuna með gúmmíhanska og grímu og eiga síðan að pikka sér mann í forriti, eins og morgunkorn í hillu í sama stórmarkaði, þegar heim er komið. Allt eins og hræðileg vísindaskáldsögu-dystópía.
Því er ég búin að halda langar (og óþolandi) ræður yfir vinkonum mínum. Ég held því fram að ástin, hvort sem er á tímum COVID-19 eða almennt, sá fágæt og dýrmæt. Að hún rati til manns eftir dularfullum leiðum – og til einhverra, vissulega á Tinder, þó að ég geti ekki tileinkað mér það – en hvernig sem hún ratar til manns, þá er manneskja mjög heppin að finna gagnkvæma ást. Einhver staðar las ég að raunveruleg ástartenging verði í mesta lagi fimm sinnum á meðalævi, kerfið í okkur býður ekki upp á meira. Svo það er bjartsýni að halda að maður finni hana með því að rétt kíkja inn á Tinder – þó að ég eigi allavega þrjár vinkonur sem hafa fundið ástina þar. Raunar samsinni ég þeim sem segja að þetta sé skárri samskiptamáti en að prófa sig áfram fullur á barnum, sama hvað ég sagði um meinta rómantík á Kaffibarnum. Segir sig raunar sjálft, nú þegar barir bjóða ekki einu sinni upp á kortér í þrjú-samskipti.
En kannski var það hugsanavilla í mér að halda að ég hefði getað fundið bara einhvern kærasta fyrir nýju COVD-bylgjuna! Ég held að það virki ekki þannig. Kannski má maður heita heppinn af hafa yfir höfuð upplifað gagnkvæma ást og eiga góða sambúð að baki, þó að hún hafi gengið sér til þurrðar. Ekki allir eru svo lánsamir að hafa fengið að upplifa gott samband í mörg ár. Svo nú ætla ég að ylja mér við góðar minningar, ef þessi einsemd varir næstu vikurnar og hið opinbera bannar mér að fara í sleik við ókunnugan.
Ég ætla að hugsa um þakklæti. Fyrir það sem ég hef lifað og átt – og get endurlifað með sjálfri mér. Ég ætla að vita hvort ég finni ekki nægilega nánd í því liðna. Sérfræðingar segja að þakklæti geri okkur hamingjusöm. Þakklæti seðjar tilfinningarnar eins og ástin; í þakklæti býr nánd, sérstaklega í einangrun. Ég ætla að njóta þess að vera þakklát fyrir lífið sem ég hef lifað því ef COVID-19 lýsir eitthvað upp, þá er það hversu dýrmætt lífið er. Þetta er jú allt spurning um hugarástand, þessa margumtöluðu sjálfsást – þó að ég sé stressuð að upplifa mögulega aftur tíma eins og í vor. En ég get auðvitað verslað á Heimkaup, ef í hart fer.