Í síðustu grein minni á Kjarnanum spurði ég hvers vegna ríkið gerir ekki meira til að vega gegn efnahagsáhrifum Kóvid-kreppunnar. Rökin voru þau, að íslenska ríkið stæði einstaklega vel að vígi til að taka myndarlega á vandanum.
Brýnast til skemmri tíma væri að bæta afkomu atvinnulausra með hækkun bóta og lengingu tímabils á tekjutengdum bótum – auk öflugs átaks til sköpunar fleiri starfa. Flestir eru sammála þessu.
Í dag sýni ég aðeins betur hversu góð staða Íslands til að taka á málinu er, með nýlegum upplýsingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (sjá mynd hér að neðan). Sýnd er staða ríkisskulda áður en kreppan skall á (2019, sem % landsframleiðslu) og sú viðbót sem AGS telur að verði vegna kreppuáhrifanna til 2021 (rauði hlutinn á hverri súlu).
Ísland er á betri endanum með hinum norrænu þjóðunum. Þrátt fyrir mikið tekjutap ríkisins og aukin útgjöld vegna kreppuviðbragða verður skuldastaða íslenska ríkisins áfram með hóflegasta móti. Þetta er auðvitað óvenju góð staða að vera í – og fyrir það má þakka.
Í góðri yfirlitsgrein Þórðar Snæs Júlíussonar í Kjarnanum um helgina var sýnt að raunveruleg útgjöld ríkisins vegna viðbragða við kreppunni eru mun minni en að var stefnt og áætlað.
Allt ber þetta að sama brunni.
Hvers vegna ekki að nýta okkur óvenju góðu stöðu Íslands og taka fastar á? Bæta hag helstu fórnarlamba kreppunnar (atvinnulausra) og gera risaátak í fjölgun starfa?
Þannig má létta þjóðinni byrðar kreppunnar. Engin þörf verður á hækkun skatta eða lækkun launa til að greiða fyrir kostnaðinn af kreppunni til skemmri tíma. Markmiðið á að vera að viðhalda öflugri eftirspurn í innanlandshagkerfinu í gegnum kreppuna og byggja skynsamlega upp til framtíðar.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu-stéttarfélagi.