Þegar kófið skall á í vor og við máttum ekki lengur faðma hvert annað, ekki knúsast, ekki einu sinni heilsast með handabandi, var mikið frá okkur tekið. Við máttum dúsa heima og það reyndist mörgum erfitt. Með hækkandi sól rofaði loks til og við gátum farið út og leikið okkur. Þungu fargi var af okkur létt. Við gátum aftur mælt okkur mót við vini, jafnvel boðið í mat og svo faðmast létt að loknu kvöldi.
Svo kom annar í kófi og greinilegt var að gengið hafði á þolinmæðina; okkur var nánast ofviða að sitja af okkur þessa aðra bylgju. Það er svo erfitt að bíða þegar biðin er óskilgreind. „Við verðum bara að sjá til. Kannski þrjár vikur, kannski sex, kannski tvo mánuði, hálft ár? Við verðum að sjá til.“ Það kom á daginn í þessu kófi að fjórar vikur eru langur tími í lífi fullorðins fólks.
Í kófinu misstu margir vinnuna. Ferðamennirnir hættu að koma og þar sem fólk hafði áður verið með fangið fullt sat það eftir með tómar hendur. Fólk missti líka vonina og þótt einungis sé hálft ár síðan brast á með þessari pest, þá hafa margir horfið inn í myrkur vonleysis. Af sárri reynslu hefur fólk lært að hálft ár er langur tími í lífi manneskju. Hálft ár í vonleysi, er kannski meira en hægt er að þola. Sé vonin tekin frá manni, molnar flest sem eftir er. Lífið verður að salla sem næsta vindhviða feykir í burtu.
Svona er tíminn. Ég horfi til baka og finnst kannski að þrátt fyrir að ég beri reynslu fimm áratuga í sarpinum hafi ég verið barn fyrir ekki svo löngu síðan. Vonandi eigum við flest góðar minningar til að rifja upp, jafnvel minningar sem marka upphaf einhvers sem síðar átti eftir að vísa leiða okkur inn á farsæla braut. Stundum eru fimmtíu ár ekki svo langur tími í lífi manneskju.
En hvað með tvö ár? Hversu langur tími er tvö ár? Þegar maður er ríflega tveggja ára, eru tvö ár langur tími, næstum öll ævin. Þegar maður er 12 ára, eða 10 ára, eða 6 ára, þá eru tvö ár líka langur tími. Þegar maður er foreldri barna á þessum aldri, og lifir hvern dag á milli vonar og ótta – vonar um að finna öryggi og óttans við að verða send aftur í bráða hættu – þá eru tvö ár líka langur tími.
Ég veit ekki hvernig það er að vera á flótta, koma til fjarlægs lands þar sem næstum allt er framandi, en finna kannski ákveðið öryggi. Ég veit ekki hvernig það er að flýja bráða hættu en horfa svo á börnin fara í skóla, leika sér með ærslum í frímínútum, tala með glampa í auga um vini. Kannski vaknar þá veik von í brjóstinu. Og kannski vaknar hún meira af óskhyggju, af því að foreldrarnir höfðu lagt upp í óvissuferð, langa ferð á framandi slóðir, einmitt af því að þau langaði svo að geta séð þetta blik í augum barnanna. Þetta blik sem segir: Hér er gott að vera! Ef það er ekki fyrir þetta blik – að minnsta kosti vonina um þetta blik – sem við förum til vinnu á hverjum degi eru hvatir okkar ógeðfelldar. Það er þetta blik sem gefur lífinu gildi. Og vonin er kannski ekkert annað en hugboð um að kannski muni þetta blik áfram lýsa af augum barna.
Við heyrum sagt að kófið hafi kennt okkur margt. Þegar við máttum ekki lengur faðmast, þá áttuðum við okkur á mikilvægi mannlegrar nándar. Þegar börnin máttu ekki fara út að leika sér, þá áttuðum við okkur á mikilvægi leiksins. Þegar við fengum ekki koma saman og skemmta okkur, þá áttuðum við okkur á hversu dýrmætt það er að geta umgengist annað fólk án ótta. Og þegar við máttum ekki fara út, máttum ekki fara í vinnuna, máttum ekki fara í skólann, svo dögum skipti, þá áttuðum við okkur á því að fjórar vikur eru langur tími. Fjórar vikur án þess að geta fundið yl og kærleika frá öðrum er langur tími. Kófið kenndi okkur svo margt um kærleikann.
En var þessi lærdómur fullkomlega sjálfhverfur? Snerist þessi lærdómur bara um MIG, en ekki aðra? Snerist hann bara um OKKUR, en ekki þau? Þegar Magnús D. Norðdahl segir að ekki sé „hægt að líta öðruvísi á en að um sé að ræða kerfisbundið ofbeldi af hálfu íslenskra yfirvalda gegn barnafjölskyldum á flótta“ þá er mér nær að halda að kófið hafi ekki kennt okkur neitt, og alls ekkert um kærleikann.
Tvö ár eru langur tími í lífi barns. Tvö ár eru líka langur tími í lifi foreldris. Og tvö ár á milli vonar og ótta, vonarinnar um að sjá blik í augum barna sinna og óttans við að ljós kærleikans verði slökkt, eru langur tími. Ráðherra segir að lögum eða reglugerðum verði ekki breytt fyrir einstakar fjölskyldur. Gott og vel. En eina réttlætingin fyrir lögum og reglugerðum í lýðræðisþjóðfélagi, sem gerir sér von um farsælt líf komandi kynslóða, er blik í augum barna þess. Ríkisvald sem gengur annarra erinda er knúið áfram af ógeðfelldum hvötum.
Höfundur er prófessor í heimspeki við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.