Seint í gærkvöldi skrifaði ég eftirfarandi færslu á Facebook:
Í Schöneberg, hverfinu sem ég bjó í á sínum tíma í Berlín, má sjá skilti meðfram einni götu með áletrunum með tilskipunum og reglugerðum sem hið opinbera innleiddi á sínum tíma, þegar mannslíf urðu að skriffinnsku. Köldum útreikningum. Það er skrýtið að lesa þessi skilti, á embættismannamáli. Virðast eitthvað svo venjuleg, bara skilti, en orðin svo hrikaleg, dulbúin í venjuleika. Tilskipanir og reglugerðir hins opinera. Kerfið. Skammt frá, í sama hverfi, er minnisvarði með áletrun sem minnir vegfarendur á að þeir megi aldrei gleyma ... Að vitna í þennan tíma, í þessu landi, er klisja. Samt, klisjur eru ekki klisjur af ástæðulausu. Táknin búa í minni manneskjunnar, sagan, endurtekningin. Barn sem fer hrætt út í óvissu og lífshættulegar aðstæður gerir ekki greinarmun á því hverjir reka það burt, á hvaða forsendum, í hvaða landi, hvenær. Það er bara hrakið burt. Í nótt, á morgun ... hrekjum við börn út í hættur, óöryggi og mögulega hrylling.
Ég veit ekki hversu marga svona statusa ég hef skrifað í gegnum tíðina. Í dag hefur Facebookmengið mitt logað vegna Kehdr-fjölskyldunnar frá Egyptalandi sem á að vísa úr landi, logað þannig að mér hefur fundist ég skynja meiri reiði, í bland við vonbrigði, en oft áður.
Eina ferðina enn upplifir maður vanmátt við að fylgjast með afgreiðslu mála barna í viðkvæmri stöðu, raunar man ég ekki hversu oft maður hefur fylgst með og reynt að hafa áhrif í slíkum málum. Meðal annars með því að hafa látið á það reyna að kjósa VG – eins og líkast til fleiri.
Ríkisstjórnin er samkvæm sjálfri sér í þessu máli. Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Málsháttur sem mig minnir að Einar Örn Benediktsson í Sykurmolunum hafi hnoðað saman, á ágætlega við um VG þessa stundina: Það skiptir ekki máli hvað þú getur, heldur hvað þú gerir.
Í þessu máli virðist nefnilega ýmislegt hægt að gera. Það á að vera hægt að leita lausna með farsæld barnanna í huga og standa um leið með svo mörgum sem kusu VG til valda. Ég fæ ekki betur séð en að gerlegt væri á ýmsan hátt að rökstyðja það að leyfa fjölskyldunni að vera, með vísan í sáttmála og innri stíga kerfisins. Að gera það ekki er pólitísk afstaða. Pólitískur vilji. Pólitísk stefna.