„Við þurfum að hafa trú á einstaklingnum. Trú á því að einstaklingurinn sé hingað kominn til þess að bjarga sér sjálfur. Til að fá þau tækifæri sem við höfum hér á landi og til þess að byggja upp sitt eigið líf hér. Af því að hann hefur einfaldlega ekki tækifæri til þess í sínu heimalandi. Með því að virða öll mannréttindi og gefa fólki jöfn tækifæri þá auðgum við samfélagið okkar. Við skulum ekki draga fólk í dilka eftir fyrirframgefnum forsendum.“
Þetta sagði þáverandi ritari Sjálfstæðisflokksins og lögfræðineminn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í myndbandi sem tekið var upp fyrir málþing Rauða krossins og Alvogen sem fram fór 9. desember 2015. Hægt er að horfa á myndbandið hér að neðan.
Á myndbandi sem Áslaug Arna talaði inn á fyrir Akkeri, samtök áhugafólks um starf í þágu fólks á flótta, árið 2016, sagði hún að Ísland þyrfti að taka ábyrgð. „Ef allt færi á versta veg í mínu heimalandi, hér á Íslandi, myndi ég vilja geta treyst því að heimurinn myndi rétta mér hjálparhönd. Heimurinn er ekki svarthvítur og það er staðreynd að fullt að fólki, bæði menn, konur og börn, geta ekki búið í sínum heimalöndum. Sýnum bræðrum og systrum okkar virðingu og leggjum okkar af mörkum.“
Áslaug Arna: Sýnum bræðrum og systrum okkar virðingu - og legg...Akkeri er enn að berast myndbönd frá fólki sem vill bjóða flóttafólk velkomið. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, bendir á að allir gætu lent í þeim aðstæðum að þurfa á vernd að halda - líka við. Við tökum enn við myndböndum og hvetjum ykkur til að senda ykkar vídjó á tölvupósti - það er ótrúlega einfalt og fljótlegt! Þú þarft bara að 1. Taka stutt vídjó á símann þinn, ekki lengra en 20 sekúndur. Mundu að halda símanum langsum (á hlið). 2. Senda það til akkeriflottahjalp@gmail.com 3. Láttu okkur vita í tölvupóstinum hvort við megum nota það á samfélagsmiðlum etc. 4. Deildu því endilega á samfélagsmiðlum með #Sækjumþau
Posted by Akkeri on Monday, July 11, 2016
Í síðustu viku sagði sama Áslaug Arna, sem nú er dómsmálaráðherra og fer með málefni útlendinga í ríkisstjórn Íslands, að hún teldi ekki ástæðu til að beita sér sérstaklega í máli sex manna fjölskyldu frá Egyptalandi og dvalið hefur hér á landi í yfir tvö ár en átti að vísa úr landi á miðvikudag. Um er að ræða foreldra og fjögur börn, sem hafa fest rætur og myndað tengsl.
Þegar hún var spurð um það í kvöldfréttum RÚV fyrir helgi hvort ekki kæmi til greina að gera reglugerðarbreytingu til að bjarga þessari tilteknu fjölskyldu var svarið: „Við gerum ekki reglugerðarbreytingar til að bjarga einstaka fjölskyldum sem fara í fjölmiðla.“
Þingmaðurinn sem sagði ástæðu til að hlusta
Fyrir tæpum þremur árum, 27. september 2017, lögðu formenn sex stjórnmálaflokka af sjö sem þá sátu á þingi – allra nema Sjálfstæðisflokks – fram frumvarp til laga um breytingu á útlendingalögum. Ástæða framlagningu frumvarpsins var mikil umfjöllun fjölmiðla um stöðu tveggja stúlkna, Haniye Maleki og Mary Lucky.
Breytingarnar sem formennirnir vildu koma á fót voru tvenns konar og tóku báðar til barna sem sótt höfðu um alþjóðlega vernd hérlendis fyrir gildistöku nýrra útlendingalaga, en höfðu ekki þegar yfirgefið landið.
Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem voru viðstaddir atkvæðagreiðslu um frumvarpið kusu gegn því. Frumvarpið var hins vegar samþykkt með 38 atkvæðum þingmanna úr öllum hinum sex flokkum þingsins. Alls höfðu breytingarnar áhrif á stöðu um 80 barna í hópi hælisleitenda.
Í byrjun yfirstandandi viku sagði Katrín Jakobsdóttir, nú forsætisráðherra Íslands, við mbl.is að hún haldi að það sé ekki „gott kerfi þar sem stjórnmálamenn hafa afskipti af einstaka málum.“ Hún sagði líka, um mál egypsku fjölskyldunnar, að það væri „ekki fyrsta brottvísunin, þetta mál“.
Katrín sagði í samtali við RÚV sama dag að ákvarðanir um dvalarleyfi væru ekki á hendi einstakra stjórnmálamanna „heldur byggjast á því kerfi sem við höfum byggt upp.“
Ekki benda á barnamálaráðherrann þegar málið snýst um börn
Ásmundur Einar Daðason lagði á það mikla áherslu að ráðuneyti hans yrði að barnamálaráðuneyti þegar hann tók við því. Hann er því félags- og barnamálaráðherra. Ástæðan er sú að Ásmundur Einar vildi undirstrika hversu miklu máli málefni barna skiptu hann.
Í viðtali við Morgunblaðið snemma í janúar í fyrra sagði hann meðal annars: „Mál barna og ungmenna sem eru í vanda og fá ekki aðstoðina sem þarf, eru erfiðustu málin sem hafa komið inn á mitt borð hér[...]Fyrstu mánuði mína í embætti ræddi ég við fulltrúa fjölda samtaka sem vinna að velferð barna til þess að fá innsýn í málaflokkinn. Einnig komu hingað til mín foreldrar barna í neyslu og stundum líka ungt fólk sem hafði náð tökum á neyslu sinni og vildi segja sína sögu. Þetta voru lærdómsrík samtöl sem reyndu verulega á, en sögðu mér líka að samfélagið þarf að gera betur í stuðningi við börn og fjölskyldur þeirra.“
Í júlí 2019, þegar til stóð að vísa tveimur afgönskum flóttamannafjölskyldum til Grikklands, tjáði Ásmundur Einar sig um málið í stöðuuppfærslu á Facebook.
Þar sagði hann að börn hafi „sérstöðu í velflestum málaflokkum og þurfa á því að halda að við, hin fullorðnu, verndum þau svo best sem okkur er mögulegt. Með það að markmiði hef ég einmitt lagt áherslu í embætti á endurskoðun á þjónustu við öll börn á Íslandi. Í því samhengi skiptir uppruni barna ekki máli. Börn eru börn, hvaðan sem þau koma.“
Undanfarna daga hafa málefni barna á flótta verið mikið til umræðu í þjóðfélaginu og ekki að ástæðulausu. Börn hafa...
Posted by Ásmundur Einar Daðason / Félags- og barnamálaráðherra on Friday, July 5, 2019
Sami Ásmundur Einar var fyrir skemmstu spurður um málefni egypsku barnanna sem átti að senda úr landi á miðvikudag. Hann vék sér undan því að svara einhverju vitrænu og sagðist hafa átt samtöl við dómsmálaráðherra um að gert yrði sérstakt hagsmunamat á því hvað væri börnunum fyrir bestu í þessu máli. „Dómsmálaráðherra hefur tjáð mér að slíkt hafi farið fram og það er sú krafa sem við sem stjórnvöld setjum að sé gert[...]Við ræddum líka í dag hvernig við getum almennt stytt málsmeðferðartíma í málefnum barna og hugsanlega þurfum við að stíga frekari skref í því.“
Þegar Ásmundur Einar var hættur að tala um málsmeðferðartíma og hagsmunamat sem enginn bað um hans skoðun á, og spurður hvort að brottvísun barnanna stæði óhögguð, var svarið: „Ég er ekki dómsmálaráðherra, ég er ekki forstjóri Útlendingastofnunar.“
Litlir stjórnmálamenn
Ráðherra útlendingamála, forsætisráðherra og barnamálaráðherra hafa orðið uppvís að því að segja eitt en gera annað. Þegar mál eins og brottvísun barnafjölskyldna á flótta koma inn á þeirra borð þá felur allt þetta fólk sig á bakvið kerfi. Líkt og heiglar gera.
Ráðherra útlendingamála er hætt að tala um að vilja rétta þeim sem geta ekki búið í heimalöndum sínum hjálparhönd. Forsætisráðherrann er hætt að hlusta þegar framkvæmd laga sem varðar börn hefur það í för með sér að réttlætiskennd margra er misboðið. Þess í stað hefur hún tekið upp afstöðu núverandi samstarfsflokks síns sem hún ásakaði um að skella skollaeyrum við slíkum málum fyrir þremur árum síðan.
Barnamálaráðherra er ekki lengur á þeirri skoðun að börn séu börn, sama hvaðan þau koma. Það skiptir nú máli hvort börnin séu frá Egyptalandi eða íslensk. Ráðherra barna vill ekki beita sér fyrir réttindum barna sem eru ekki af réttum uppruna.
Kerfi eru mannanna verk. Stórir stjórnmálamenn trúa á eitthvað og segja kjósendum sínum satt frá um hvað það er. Þeir beita sér síðan fyrir því að breyta kerfum sem eru ósanngjörn.
Litlir stjórnmálamenn ljúga, skreyta sig stolnum fjöðrum á tyllidögum og skilja umbótaviljann eftir í kjörklefanum. Þess í stað hreiðra þeir vel um sig í gildandi valdakerfum, kalla það stöðugleika og verða samhliða hluti af vandamálinu, ekki lausninni.
Sérstaklega þegar um er að ræða brottvísun barna.