Þessi fyrirsögn kann að hljóma annkannalega. Eru börn á átakasvæðum á Íslandi? Hér á landi geisar ekki stríð, hér er lítið um glæpi og velferð barna mælist almennt vel í alþjóðlegum samanburði. En þó að Ísland sé meðal friðsömustu þjóða þá getum við ekki litið framhjá því að það eru átök á fjöldamörgum heimilum barna á Íslandi.
Ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi er ofbeldi. Í tölum sem UNICEF á Íslandi fékk Rannsókn og greiningu vinna fyrir sig árið 2018 kom fram að 16,4% barna á Íslandi verða fyrir líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn. Þar er ekki meðtalin vanræksla, andlegt ofbeldi eða einelti, en þá væri þessi tala mun hærri. Fjölmörg þessara barna verða fyrir ofbeldinu á heimili sínu. Ýmist verða þau vitni að ofbeldinu eða verða fyrir því sjálf. Á þessum heimilum ríkir ekki friður.
Afleiðingarnar af því að barn verði fyrir ofbeldi eru gífurlegar og skiptir ekki máli hvort barnið verði vitni að ofbeldinu eða verði fyrir því sjálft, afleiðingarnar eru jafnslæmar. Áföll barna sem búa við ofbeldi eru sambærileg áföllum barna sem alast upp á átakasvæðum og afleiðingarnar geta verið lífshættulegar.
Árið 2020 hefur verið sérstaklega erfitt fyrir börn sem alast upp á slíkum átakasvæðum. Áhrif kórónaveirunnar hefur gert spennuþrungið ástand á mörgum heimilum enn eldfimara. Barnaverndarstofa hefur borið saman tölur um fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda fyrstu 6 mánuði ársins 2018 og 2020. Þar kemur fram að tilkynningum hefur fjölgað töluvert á þessu ári og þar fjölgar sérstaklega tilkynningum um ofbeldi og vanrækslu. Röskun á skólastarfi og tómstundum vegna kórónaveirunnar hefur gert stöðu þessara barna enn viðkvæmari. Fyrir börn sem búa við ofbeldi er skólinn og frístundin oft griðarstaður þeirra og skjól.
Við erum öll friðargæsluliðar
„Ef hinar íbúðirnar í blokkinni gátu heyrt í sjónvarpinu úr minni íbúð, þá gátu þau örugglega heyrt mig gráta þegar mamma sló mig. Þau gátu örugglega heyrt þegar hún öskraði á mig. Þau gátu örugglega heyrt hvað ég grét og var hrædd þetta skipti sem hún sparkaði í mig aftur og aftur á ganginum í sameigninni. [...] Ég vildi óska að einhver hefði spurt mig hvernig mér liði, hvort allt væri í lagi eða athugaði með mig, en það gerðist aldrei. Ég vildi óska að einhver hefði hringt í lögregluna eða barnavernd, en það gerðist aldrei.“
Þessi lýsing er ein þeirra raunverulegu frásagna sem UNICEF fékk senda þegar við kölluðum eftir frásögnum um upplifanir af ofbeldi i æsku. Á meðan ekki er hægt að horfa fram hjá því að þúsundir barna verða fyrir ofbeldi hér á landi, þá hefur ríkt ákveðin leynd yfir því lengi. Dæmin sýna að mörg börn reyna margsinnis að segja frá ofbeldinu áður en nokkuð er gert. Sum þeirra deila reynslu sinni aldrei með neinum. Að sama skapi sýna fjölmörg dæmi að almenningur bregst ekki við þegar grunur leikur á að ofbeldi eigi sér stað.
Það er að vissu leyti skiljanlegt. Margir vita ekki hvað skuli gera eða óttast að gera illt verra. Oft þora börn ekki að segja frá ofbeldinu eða átta sig ekki á því að þau hafi orðið fyrir ofbeldi fyrr en löngu seinna. Við verðum að skapa leiðir fyrir börn til að segja frá og fræðast um leiðir til að hjálpa. Öll börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi og misbeitingu, innan eða utan heimilisins, og er það skylda okkar sem samfélags að börn, sem og fjölskyldur þeirra, fái þann stuðning sem þau þurfa.
Ofbeldi gegn börnum á aldrei að líðast og við fullorðna fólkið berum ábyrgð. UNICEF á Íslandi gaf í fyrra út leiðbeiningar um fyrstu viðbrögð við ofbeldi - hvað skuli gera ef þig grunar að barn verði fyrir ofbeldi, ef barn treystir þér fyrir því að það verði fyrir ofbeldi eða ef þú verður vitni að ofbeldinu. Með því að vera vel upplýst getum við saman myndað breiðfylkingu fólks sem hlustar á börn og heitir því að búa hér til umhverfi þar sem börn finna fyrir öryggi og stuðningi og foreldrar í vanda fá viðunandi aðstoð. Þegar kemur að því að tryggja frið á átakasvæðum barna þá erum við öll friðargæsluliðar.
Höfundur er kynningarstjóri og fjölmiðlafulltrúi hjá UNICEF á Íslandi.
Greinin er birt í tengslum við friðardaga í Reykjavík sem Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands stendur að í samstarfi við UN Women, UNICEF, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og utanríkisráðuneytið. Umræðan í ár fer alfarið fram á netinu, með hlaðvarpsseríu og völdum greinum sem birtar verða dagana 10. - 16. október á www.fridarsetur.is. Í ár er sjónum beint að því hvernig Ísland getur gert enn betur þegar kemur að ófriði í íslensku samfélagi og um leið verið öflugri málsvari á alþjóðavettvangi á sviði friðar og mannréttinda.