Efnahagslegar afleiðingar Covid-kreppunnar leggjast með meiri þunga á suma þjóðfélagshópa en aðra. Raunar eru það einkum þeir sem missa vinnuna, að fullu eða hluta, sem bera þyngstu byrðarnar núna – ásamt þeim sem veikjast illa. Aukning atvinnuleysis er alla jafna mest hjá fólki í tekjulægri hópunum (sjá umfjöllun Kjarnans um það hér, og gögn Vinnumálastofnunar hér).
Almennt er það svo í efnahags- og fjármálakreppum í heiminum að lægst launuðu hóparnir finna mest fyrir kjaraskerðingum og auknum þrengingum á krepputímum. Um rannsóknir á því má lesa í nýlegri bók sem ég og nokkrir kollegar mínir birtum í fyrra hjá Oxford University Press (Welfare and the Great Recession: A Comparative Study).
Þeir ríkustu og fólk almennt sem heldur fullri vinnu og fullum launum hafa það hins vegar ágætt. Raunar hafa þeir allra ríkustu í heiminum aukið eignir sínar gríðarlega, eða um fjórðung, frá upphafi Covid-kreppunnar – sem er auðvitað með miklum ólíkindum (sjá góða umfjöllun Þórðar Snæs um það hér).
Þeir betur settu halda sínu og þeir allra ríkustu bæta við sig, en sumir þeirra verr settu verða fyrir auknum þrengingum.
Það þýðir auðvitað að ójöfnuður eykst.
Velferðarkerfið vinnur gegn auknum ójöfnuði
Öflug velferðarkerfi og aðgerðir stjórnvalda skipta hins vegar miklu til að vega á móti aukningu ójafnaðar í kreppu. Á Norðurlöndum búum við að öflugum velferðarkerfum sem verja fólk gegn kjaraskerðingum í kreppum. Nú eru það atvinnuleysisbótakerfin og heilbrigðiskerfin sem mest reynir á.
Í Bandaríkjunum og öðrum enskumælandi löndum eru opinberu velferðarkerfin veikari og veita því minni brjóstvörn. Láglaunafólk þar stendur því verr að vígi á krepputíma. Þar mun ójöfnuður aukast meira í Kovid-kreppunni en áNorðurlöndum.
Þar sem stjórnvöld taka betur til hendinni og auka varnir velferðarkerfanna er veitt viðnám gegn aukningu ójafnaðar, t.d. með því að styrkja tryggingarvernd atvinnuleysisbóta og veita annan stuðning við fórnarlömb kreppunnar.
Það eru mikilvægar mótvægisaðgerðir gegn auknum ójöfnuði.
Lífskjarasamningurinn vinnur gegn auknum ójöfnuði
Lífskjarasamningurinn frá 2019 verkar á svipaðan hátt og velferðarkerfið. Hann vegur gegn auknum ójöfnuði í kreppunni.
Launahækkanir og helstu tengdu stuðningsaðgerðir stjórnvalda (skattalækkun, hækkun barnabóta og aukinn húsnæðisstuðningur) koma nú hlutfallslega mest til lágtekjufólks. Þess vegna er afar mikilvægt að samningurinn haldi í gegnum alla kreppuna.
Hann er mikilvæg mótvægisaðgerð gegn auknum ójöfnuði.
Lífskjarasamningurinn dregur úr dýpt kreppunnar
En lífskjarasamningurinn hefur einnig jákvæð áhrif á efnahagsþróunina, með því að örva innlenda eftirspurn eftir vörum og þjónustu atvinnulífsins, með viðhaldi á kaupmætti almennings.
Kjarasamningurinn eykur því í senn réttlæti og eflir efnahaginn á þann veg sem einn er til bjargar: aukning innlendrar eftirspurnar með viðhaldi kaupmáttar og örvunaraðgerðum stjórnvalda.
Því miður er einn geiri atvinnulífsins, ferðaþjónusta og tengdar greinar, í meiri vanda en aðrar atvinnugreinar. Þar störfuðu flestir þeirra sem misst hafa vinnuna (einkum láglaunafólk, erlent vinnuafl, ungt fólk, konur).
Stuðningsaðgerðir stjórnvalda og banka milda ástandið þar eftir megni, en sigur á veirunni þarf til að fá endanlega lausn á vanda ferðaþjónustunnar. Stjórnvöld styðja þó við fyrirtæki í ferðaþjónustu svo þau verði til taks er uppsveiflan hefst á ný, en atvinnuleysisbætur þurfa að styðja betur við starfsfólkið sem missti vinnuna. Ný atvinnutækifæri þurfa þó líka að koma til.
Lífskjarasamningurinn hefur þannig bæði félagsleg og efnahagsleg áhrif til góðs.
Hann vegur gegn aukningu ójafnaðar og styrkir efnahaginn.
Stjórnvöld hafa lykilinn að lausninni
Stjórnvöld hafa vissulega lagt sitt af mörkum til að milda áhrif kreppunnar (t.d. mótvægisaðgerðir fyrir atvinnulífið, viðhald velferðarkerfisins, hlutabætur til atvinnulausra, lenging tímabils á tekjutengdum atvinnuleysisbótum, viðhald lífskjarasamningsins). Allt hefur það skipt máli.
En betur má ef duga skal.
Sá afmarkaði hópur sem ber þyngstu byrðar kreppunnar, þeir atvinnulausu, er nú í auknum mæli að fara á hinar alltof lágu flötu atvinnuleysisbætur (289.510 kr. á mánuði; 235.170 eftir skatt og frádrátt).
Bæta þarf stöðu þeirra svo þeir geti staðið við skuldbindingar sínar í gegnum veturinn (afborganir húsnæðislána, leigu og framfærslu fjölskyldunnar). Ríkið hefur góða fjárhagslega stöðu til að leggja meira til og bæta úr þessu.
Ýmsar leiðir má hugsa sér í því sambandi: t.d. gera flötu atvinnuleysisbæturnar skattfrjálsar; hækka þær a.m.k. að lágmarkslaunum á vinnumarkaði – jafnvel bara tímabundið; eða aðrar sérsniðnar aðgerðir fyrir þá sem verst standa. Þá skiptir öflug atvinnustefna og nýsköpun einnig miklu máli.
Það er bæði réttlátt og skynsamlegt að draga frekar úr vanda atvinnulausra.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu – stéttarfélagi.