Allir þeir sem stunda nám og rannsóknir á framhaldsstigi þurfa að leita sér heimilda um þau efni sem verið er að kynna sér í það og það skiptið. Nú á tímum búum við svo vel að heilir heimar af þekkingu eru opnir og bíða tilbúnir eftir að við kynnum okkur þá. En ef við erum ekki sátt við annað en viðurkennd vísindi rekur okkur oft í rogastans. Ef við höfum hug á að kynna okkur nýjustu þekkingu þá rekumst við á vegg. Greinin sem okkur langar til að lesa kostar peninga og oft þónokkuð háar upphæðir.
Þetta undarlega kerfi hefur verið við lýði um áratugi, vísindaleg þekking er lokuð á bak við múr sem við þurfum að borga fyrir að komast yfir.
Hvernig virkar þetta eiginlega? Tökum smá dæmi til útskýringar. Verið er að leggja veg fyrir skattpeningana okkar. Ráðgjafafyrirtæki með framkvæmdunum innheimtir gjald hjá starfsfólki sínu fyrir að taka þátt í verkefninu í stað þess að borga þeim laun. Eftirlitsmenn með að vegurinn standist reglur og staðla fá heldur ekki laun. Ef að þú skattgreiðandi góður vildir ferðast eftir veginum yrðir þú að borga annað hvort árgjald uppá hundruð þúsunda eða þá háar fjárhæðir fyrir einstakar ferðir.
Auðvitað erum við ekki að tala um vegagerð heldur er þetta staðan eins og hún er innan vísindarannsókna og hvernig niðurstöðum þeirra er dreift í vísindalegri útgáfu. Vísindamenn fá ekki greitt fyrir að skrifa greinar í tímarit heldur þurfa þeir oft að borga fyrir að fá skrif sín birt. Þetta þýðir að fyrirtæki sem stofnuð voru til að birta og dreifa vísindagreinum, fyrirtæki eins og Elsevier og Springer Nature, hafa náð að hagnast gríðarlega með því að nýta sér vinnu sérfræðinga sem flestir þiggja laun sín af almannafé til að setja svo verðmiða að eigin vali á afurðirnar. Aðrir viðurkenndir vísindamenn sem sjá um lesa yfir og ritrýna greinar til að tryggja að þær standist vísindalegar kröfur fá heldur ekki borgað fyrir sína vinnu. Vísindamennirnir fá svo að launum ýmislegt titlatog, framgang í starfi, þykja merkilegri vísindamenn og fá greiðari aðgang að opinberum sjóðum til að stunda frekari rannsóknir. En ekki aðgang að eigin verkum nema að borga fyrir.
Að vísu njótum við hér á Íslandi stórkostlegra forréttinda sem eru Landsaðgangur að erlendum tímaritum og gagnasöfnum. Fæstir gera sér grein fyrir að allar vísindagreinarnar, sem opnast eins og fyrir töfra þegar leitað er í leitarvélum, eru greiddar dýru verði af íslenska ríkinu, háskólum og rannsóknastofnunum sem flestar eru reknar af almannafé.
Þetta framlag íslenska ríkisins dugar samt ekki til, fyrirtækin hanna pakka með mörg þúsund titlum af efni sem Landsaðgangur verður að taka eða hafna. Þar inni er fullt af tímaritum sem enginn á Íslandi lítur nokkurn tímann í en einnig heilmörg sem frábært er að hafa aðgang að. Yfirleitt er nýjasta efnið lokað 1-3 ár svo þá þarf að taka upp veskið ef áhugi er fyrir hendi að fylgjast með nýjungum í sinni grein. Einnig er efni eldra en frá 1995 lokað og læst og aðgangur að greinum verðlagður eftir því.
Baráttuglaðir bókasafnsfræðingar í ýmsum löndum stofnuðu til vitundarvakningar um þetta kerfi fyrir mörgum árum. Nú er svo komið að fjöldi stofnana í ýmsum löndum hafa tekið slaginn og sagt upp samningum við gróðafyrirtækin og lýst yfir að birta eigi rannsóknargögn og rannsóknarniðurstöður í opnum aðgangi. Má þar nefna fyrirbrigði sem nefnt hefur verið cOALition S, þar sem rannsóknastofnanir frá 11 Evrópuríkjum hafa samþykkt að: „frá og með 2021 verður að birta allar vísindagreinar og niðurstöður rannsókna sem eru styrktar eru af opinberum eða einkareknum styrkjum frá innlendum, svæðisbundnum og alþjóðlegum rannsóknaráðum og fjármögnunarstofnunum í tímaritum í opnum aðgangi eða gera þær strax aðgengilegar í opnu varðveislusafni.“ Svo þar fór sjensinn að komast á forsíðu Nature eða Science.
Einnig hafa fjölmargar rannsóknastofnanir á Norðurlöndunum sagt upp samningum við Elsevier og fleiri útgáfurisa, einnig hafa þýskir háskólar verið mjög baráttuglaðir í stríðinu fyrir opnum aðgangi að vísindaniðurstöðum.
Á Íslandi hefur þetta andóf ekki komist uppá yfirborðið ennþá, margir íslenskir vísindamenn eru enn veikir fyrir dýru, flottu tímaritunum með háan áhrifastuðul. Ef ég þarf að borga 2000 dollara fyrir að birta greinina mína hlýtur hún að vera betri en ef hún birtist í opnum aðgangi virðist enn vera hugsunarhátturinn.
En allir hljóta að sjá að opið aðgengi að alvöru vísindum hefur aldrei verið nauðsynlegra en einmitt núna þegar alls kyns kjaftæði flæðir yfir heiminn.
Höfundur er bókasafns- og upplýsingafræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands.
#HvarerOAstefnan?