COVID hefur sett aðgengi að upplýsingum í nýtt ljós. Við erum mörg hér á Íslandi sem höfum náð okkur í smitrakningarappið og veitum þannig stjórnvöldum aðgang að persónuupplýsingum um okkur sem við myndum undir venjulegum kringumstæðum ekki finna okkur knúin til að gera.
Það er sjálfbært fyrir okkur að veita aðgang að þessum upplýsingum því það veitir vatni á hringrásarhagkerfi [1] þess að finna sem fyrst bóluefni gegn Covid-19 og útrýma þannig heimsfaraldrinum.
Stjórnvöld og opinberar stofnanir víða um heim hafa líka lagst á eitt með að veita aðgang að tölfræðiupplýsingum um gengi heimsfaraldursins svo vinna megi að því sameiginlega hagsmunamáli jarðarbúa að ná tökum á þessari skæðu veiru. Það er líka sjálfbært og rökrétt.
Alþjóðleg krafa um opinn aðgang
Þegar ljóst var að Covid-19 faraldurinn myndi umturna öllu hefðbundnu háskólastarfi tóku samfélög háskólabókasafna sig saman á alþjóðavettvangi og kröfðust þess að aðgangur yrði opnaður að annars kostuðum upplýsingaveitum og rannsóknar gagnasöfnum [2] svo nám, kennsla og rannsóknir yrðu ekki heimfaraldrinum að bráð.
Í fyrstu Covid-19 bylgjunni sl. vor sáu flestir útgefendur og eigendur gagnasafna sér þann hag vænstan að opna fyrir aðgang að rannsóknum sem beinlínis varða þekkingu á og þróun heimsfaraldursins enda meginmarkmiðið sammannlegt allstaðar: að flýta fyrir þróun bóluefnis með öllum tiltækum ráðum [3]. En nú, þegar líður á þriðju bylgju faraldursins sjáum við merki þess að útgefendur ætla að loka aftur á þessar lífsnauðsynlegu upplýsingar [4]. Ótrúlegt en satt.
Ósjálfbær fjármögnun rannsókna
Háskólabókasöfn um heim allan hafa bundist bandalögum til að vinna gegn þeirri ósjálfbæru þróun sem undið hefur upp á sig innan háskólasamfélaga undanfarna áratugi [5]–[9] og veldur því að langflestar rannsóknir sem að jafnaði eru fjármagnaðar með almannafé enda sem læstar og lokaðar greinar í virtum rannsóknartímaritum. Almenningur, fræðafólk og aðrir, sem í raun fjármagna þessar rannsóknir, getur því ekki lesið afurðir rannsóknanna nema greiða sérstaklega fyrir aðgang að þeim hjá útgefendum fræða- og vísindatímarita eða með því að fara í gegnum greiddan aðgang háskólabókasafna ef því er að skipta. Almenningur greiðir sem sagt tvisvar fyrir þessar rannsóknir eins og kerfið er sett upp.
Þetta hljómar vissulega ótrúlega en svona hefur þetta verið í um sextíu ár [10] og ég hef skrifað um þetta áður [11]. Það má því segja að alþjóðaháskólasamfélagið allt sé í einskonar gíslingu 60 ára gamals kerfis, sem útgáfumógúlinn Robert Maxwell átti svo hugmyndina að [11] flestum til mikillar undrunar.
Hringrásarhagkerfi vísinda og rannsókna
Ef allt væri með felldu væri þetta kerfi rökrétt og sjálfbært. Það ætti að vera markmið háskóla að breyta kerfum sínum þannig að fjármögnun rannsókna skilaði sér með sjálfbærari hætti aftur út samfélagið. En það er því miður ekki raunin. Ef við teiknum upp mynd af þessu kerfi gæti hún litið einhvern veginn svona út:
Undanfarin 30 ár hafa stjórnvöld í Evrópu og nýlega í Bandaríkjunum verið beitt þrýstingi af hagsmunahópum vísindafólks og háskólabókasöfnum, eins og þessi grein er til marks um, um að grípa í taumana á því ósjálfbæra kerfi sem einkennir nú rannsóknarstarf og framgangskerfi háskólanna. Ef kerfi háskólanna væru sjálfbær gæti myndin litið einhvern veginn svona út:
Heimsátak Sameinuðu þjóðanna um sjálfbær þróunamarkmið [12] hófst formlega árið 2018 en þróun svokallaðra hringrásarhagkerfa eru talin lykillinn að sjálfbærri þróun í þeim 17 flokkum sem um ræðir en rannsóknir liggja þar allstaðar til grundvallar. Leitarvélin Google Scholar finnur 17.400 rannsóknir um sjálfbæra þróun og hringrásahagkerfi síðan 2018. Það gera 5.800 rannsóknir á ári eða næstum 16 rannsóknir á dag sl. þrjú ár. Svo við setjum rannsóknardrifkraft og -áhuga mannfólksins í samhengi.
Hringrásarhagkerfi eru nú þau kerfi sem talin eru nauðsynleg fyrir afkomu jarðar en áður hafa sk. línuleg hagkerfi þar sem sóun er ráðandi í ferlinu verið algeng og má líklega rekja hnignun jarðar að miklu leyti til.
Að hafa aðgang að upplýsingum sem auka þekkingu okkar til að gera samfélagið betra í dag en það var í gær er jú grunnmarkmið háskóla sem vinna að því statt og stöðugt að rannsaka og bæta heiminn. Þannig eru háskólar góð hugmynd í sjálfbæru þekkingarsamfélagi enda er það borgurunum í hag að þekkingin verði meiri og betri með hverri kynslóð.
Það má sjálfsagt deila um hvort og þá hvernig Covid-19 stuðli að meiri sjálfbærni jarðarbúa en kannski verður heimsfaraldur til þess að opinn aðgangur að rannsóknum í almannaþágu verði loksins að veruleika – 60 árum síðar.
Höfundur er forstöðukona Bókasafns Háskólans í Reykjavík
#HvarerOAstefnan?
Heimildir:
[1] ‘Circular economy’, Wikipedia. https://en.wikipedia.org/w/index.php?title=Circular_economy&oldid=979512789. (Sep. 2020)
[2] Sara. Stef., ‘Opinn aðgangur að rannsóknum aldrei mikilvægari’, Bókasafn - greinar. https://www.ru.is/bokasafn/greinar/ (Sep. 2020)
L. Besançon o.fl., ‘Open Science Saves Lives: Lessons from the COVID-19 Pandemic’, bioRxiv, p. 2020.08.13.249847, Ág. 2020, doi: 10.1101/2020.08.13.249847.
[4] ‘Jason Schmitt á Twitter’, Twitter. https://twitter.com/jason_schmitt/status/1308792383413391360 (Okt. 2020).
[5] ‘LIBER’, LIBER samtök evrópskra bókasafna. http://libereurope.eu/ (Okt. 2020).
[6] ‘Open Access Week’. http://openaccessweek.org/ (Okt, 2020).
[7] ‘Open Access – Um opinn aðgang á Íslandi’. https://openaccess.is/ (Okt. 2020).
[8] ‘EUA’. https://www.eua.eu/component/tags/tag/27-open-access.html (Okt. 2020).
[9] ‘“Plan S” and “cOAlition S” – Accelerating the transition to full and immediate Open Access to scientific publications’. https://www.coalition-s.org/ (Okt. 2020).
[10] S. Buranyi, ‘Is the staggeringly profitable business of scientific publishing bad for science?’, The Guardian, Jun. 27, 2017.
[11] ‘Opinn aðgangur að rannsóknum er lykilatriði’, Stundin. https://stundin.is/grein/9807/ (Sep. 2020).
[12] ‘The17 Goals | Department of Economic and Social Affairs’. https://sdgs.un.org/goals (Sep. 2020).