Um lögregluna og haturstákn

Innan lögreglunnar á Íslandi er kerfisbundinn rasismi til staðar að einhverju leyti. Það birtist til að mynda í því að þegar lögreglan kemur á vettvang gerir hún ráð fyrir því að það séu „útlendingarnir“ sem eru vandamálið, skrifar Sema Erla Serdar.

Auglýsing

Hér eru (þó)nokkur orð um notkun lögreglunnar á haturstáknum sem beinast gegn minnihlutahópum í fjölmenningarsamfélagi og þær alvarlegu afleiðingar sem það getur haft í ljósi umræðunnar og yfirlýsinga síðustu daga.

Í fyrsta lagi þá er með öllu ólíðandi og óafsakanlegt að lögregluþjónar beri haturstákn nýnasista á búningi sínum eins og komið hefur í ljós að gert hafi verið um árabil og slíkt ber að fordæma.

Í öðru lagi þá heldur því enginn fram að allir lögregluþjónar eða allir sem starfa innan lögreglunnar séu kynþáttahatarar eins og reynt hefur verið að halda fram í þeim tilgangi að afvegaleiða umræðuna og gera lítið úr alvarleika málsins. Það er þó jafn galið að ætla að reyna að halda því fram að enginn innan lögreglunnar búi yfir fordómum, útlendingaandúð eða rasisma. Slíka einstaklinga má finna nánast alls staðar í samfélaginu, til dæmis á flestum vinnustöðum, í flestum menntastofnunum, stjórnmálaflokkum, félagasamtökum og í nánast öllum fjölskyldum.

Auglýsing

Í þriðja lagi þá er mjög eðlilegt í lýðræðis- og réttarríki að aðrir valdhafar spyrji spurninga um hvað valdi því að lögregluþjónar gangi um með nýnasistatákn og fari fram á svör við því. Það væri áhyggjuefni ef svo væri gert. Lögreglan er ekki hafin yfir gagnrýni og það er ekki lögreglan sem er fórnarlambið í þessu máli.

Það eru rétt viðbrögð, og í takt við viðurkenndar aðferðir á öðrum vettvangi, að velta vöngum yfir því hvort notkun lögreglunnar á haturstáknum stafi af því að hugmyndirnar og menningin í kringum slík tákn sé til staðar innan lögreglunnar – eða hvers þess embættis eða þeirrar stofnunar sem um ræðir hverju sinni - eða hvort það stafi af þekkingarleysi. Líklegt er að um sé að ræða sitt lítið af hvoru.

Kerfisbundinn rasisma má yfirleitt finna í flestum stofnunum þeirra ríkja sem hann er til staðar í og hann er yfirleitt í mismiklu mæli eftir stofnunum. Stundum á það við um allar stofnanir ríkisins, eins og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur til að mynda viðurkennt að eigi við um þar í landi, þrátt fyrir að ríkið sé þekkt fyrir fjölmenningu og frjálslyndi.

Innan lögreglunnar á Íslandi er kerfisbundinn rasismi til staðar að einhverju leyti. Það birtist til að mynda í því að þegar lögreglan kemur á vettvang gerir hún ráð fyrir því að það séu „útlendingarnir“ á staðnum sem eru vandamálið þegar hið rétta er að það eru þeir sem hringdu á lögregluna. Annað dæmi er að þeir sem eru af erlendum uppruna eru beittir meiri hörku en aðrir í sömu eða sambærilegum aðgerðum lögreglu. Hið þriðja er að lögregluþjónar eiga það til að sýna fólki af erlendum uppruna mun meiri óvirðingu og óþolinmæði í samskiptum. Dæmin um slíkt eru óteljandi.

Þekkingarleysi lögreglunnar á málefnum fjölmenningar, jaðarsetningar, stöðu minnihlutahópa, hatursorðræðu og hatursglæpa er ekki nýtt vandamál. Þrátt fyrir að átak hafi verið gert í því að undanförnu að auka menntun í þeim fræðum á meðal lögregluþjóna reka þolendur slíks ofbeldis sig ítrekað á skilningsleysi þegar þeir leita til lögreglu vegna hatursorðræðu og hatursglæpa. Það þekkir undirrituð af eigin raun og af reynslu fjölda fólks.

Það eru mikil vonbrigði að þekking á málefnum fjölbreytileikans séu ekki komin lengra á veg en að lögreglan geti ekki borið kennsl á viðurkennd og þekkt haturstákn nýnasista og því þarf að bregðast við án tafar. Þá undirstrikar framkoma ákveðinna lögreglufulltrúa eftir að málið komst í hámæli enn frekar þekkingar- og skilningsleysi á málefnum jaðarsettra minnihlutahópa.

Sem leiðir okkur að þeim alvarlegu afleiðingum sem þetta mál mun án efa hafa og tilefni er til að hafa áhyggjur af, sérstaklega í ljósi þess að við erum á sama tíma að verða vitni að uppgangi nýnasista og annarra öfgasamtaka, stjórnmálafólks og einstaklinga með afbrigðilegar hugmyndir um samfélagið okkar og fjölbreytileikann sem er til staðar í því.

Í fyrsta lagi þá er mikil hætta á því að þolendur hatursorðræðu, hatursglæpa eða annars ofbeldis af hálfu nýnasista eða annarra öfgahópa eða einstaklinga sem búa yfir slíkum hugmyndum munu hætta að leita verndar hjá lögreglunni – sem er eini aðilinn sem getur veitt okkur raunverulega vernd. Þolendur slíks ofbeldis bera mögulega ekki sama traust til lögreglunnar og þeir gerðu áður. Það hefur strax komið í ljós að einstaklingar sem tilheyra minnihlutahópum sem eiga á hættu að verða þolendur ofbeldis öfgahópa treysta ekki lögreglunni lengur og munu hugsa sig tvisvar um áður en þeir leita aðstoðar hennar og verndar frá ofbeldi.

Skiljanlega. Ef þú ert að hlaupa undan nýnasistum og lögregluþjónninn sem tekur á móti þér ber merki þeirra heldur þú eflaust bara áfram að hlaupa! Spurningin er bara hvert þú getur hlaupið?

Í öðru lagi hefur lögreglan lengi lagt áherslu á að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu og skapa tengsl og trúnaðarsamband við þau. Dæmi um slíkt er samfélag múslima á Íslandi. Til þess að koma í veg fyrir aðskilnað og einangrun ákveðinna hópa er mikilvægt að traust sé til staðar á milli minnihlutahópa sem eru mögulega viðkvæmir gagnvart ofbeldi öfgahópa og yfirvalda. Þar spilar lögreglan mikilvægt hlutverk.

Þar sem slíkt traust er ekki til staðar getur komið upp togstreita á milli ólíkra hópa í samfélaginu sem erfitt getur verið að eiga við. Í rannsóknum mínum síðustu ár á öfgahyggju og vinnu við forvarnir gegn henni - með áherslu á ungt fólk - hef ég meðal annars farið í vettvangsheimsóknir til lögreglu og annarra opinberra stofnana á svæðum í Evrópu sem hafa verið uppnefnd sem „hreiður isis í Evrópu og no-og zones“ og séð skelfilegar afleiðingar þess að slík samfélagsleg verkefni þar sem lögreglan, skólar og jaðarsettir hópar vinni saman, misheppnist. Það hefur alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga, jaðarsetta hópa og samfélagið í heild sinni. Einangrunin, útskúfunin, brennimerkingin á ákveðna samfélagshópa og aðskilnaðurinn á milli hópa af fólki í þeim samfélögum er átakanlega sorglegur.

Ljóst er að sú áhersla sem lögð hefur verið á að ná til minnihlutahópa í íslensku samfélagi og sá árangur sem það hefur borið er mögulega fyrir bí. Lögregluþjónar með haturstákn nýnasista og annarra öfgahópa sem þekktir eru fyrir að beita þá ofbeldi skapar vantraust, ótta og óhugnað hjá þeim einstaklingum og hópum sem þurfa að leita verndar hjá lögreglunni fyrir ofbeldi slíkra hópa.

Það er erfitt verkefni fram undan hjá lögreglunni við að byggja upp traust við minnihlutahópa á Íslandi á nýjan leik og þolendur ofbeldis öfgahópa og koma í veg fyrir sundrungu í samfélaginu. Það verður ekki gert með frekari yfirlýsingum sem bera með sér mikið virðingarleysi í garð þeirra sem eru þolendur ofbeldis öfgasamtaka og afneitun á vandanum sem er til staðar eða samfélagsherferðum sem endurspegla lítinn vilja til þess að bæta úr þekkingar- og skilningsleysi á málefnum fjölmenningar, jaðarsettra hópa og hatursglæpa innan lögreglunnar. Slíkt gefur litla von um að vilji sé til þess að koma á samtali og samvinnu um að gera betur og skilur marga eftir í óvissu og ótta.

Höfundur er stjórnmála- og evrópufræðingur og mannréttindaaktívisti.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur.
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Nornahár og nornatár
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá fimmti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 8. maí 2021
Þögnin rofin á ný
Hundruð íslenskra kvenna hafa í vikunni stigið fram opinberlega með sínar erfiðustu minningar, í kjölfar þess að stuðningsbylgja reis upp með þjóðþekktum manni sem tvær konur segja að brotið hafi á sér. Lærði samfélagið lítið af fyrri #metoo-bylgjunni?
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar