Fyrir tíma kórónuveirunnar nam frumorkunotkun jarðarbúa (global primary energy consumption) um 160.000 terawattstundum á ári, sem svarar til um 20.000 kílówattstunda orkunota hvers og eins mannsbarns – til jafnaðar. Gróft á litið liggur það nokkuð nærri meðalnotkun í ýmsum nýmarkaðsríkjum, þar sem notkunin hefur farið mjög vaxandi, sérstaklega í Kína, á meðan bein orkunot hafa staðið í stað eða farið heldur þverrandi í gömlu neysluríkjunum. Orkunotkun Norðurameríkumanna er engu að síður um fjórföld á við meðaljarðarbúann og um tvöföld til þreföld á meðal flestra tæknivæddari þjóða Evrópu, þá yfirleitt þeim mun meiri sem norðar dregur í álfu. Er þó ekki allt sem sýnist í þessum efnum.
Bein orkunotkun í einstökum ríkjum eða á einstökum svæðum segir sjaldnast nema brot úr sögu um afar margbreytilega orkuneyslu jarðarbúa. Orka kann að vera upprunnin á einu svæði, í einu ríki, hún nýtt til almennra nota og til framleiðslu varnings á öðru svæði, í öðru ríki, en varningurinn – sem felur þá í sér innbyggða eða hlutbundna orku (embodied energy), ígildi framleiðslu- og flutningsorkunnar – síðan notaður á allt öðrum svæðum, í allt öðrum ríkjum. Þverrandi orkunotkun mæld per nef í neysluríkjunum, þar sem iðnaður, og þá ekki síst þungaiðnaður, er víðast hvar á undanhaldi, segir því fjarska lítið til um þá raunverulegu orkuneyslu sem fólgin er í vöru- og þjónustuinnflutningi hinna ýmsu ríkja.
Þá er til þess að líta að afföll af völdum ófullkominnar frumorkuvinnslu, vegna umbreytingar- og hreinsunarferla, varmataps, viðnáms og orkuflutninga, nema um 30% heildarorkunnar – til jafnaðar – að drýgstum hluta vegna varmataps við bruna jarðefnaeldsneytis. Orkunýtnin er afar misjöfn eftir eðli orkuvinnslunnar, er hún t.d. almennt mjög góð í vatnsaflsvirkjunum en með slakasta móti í raforkuverum er nýta jarðvarma. Nýtni kolaorku, olíu og jarðgass, sem til samans mynda langstærsta hluta allra orkunota, veltur svo alveg á því hvernig orkuvinnslunni er háttað, með hvaða hætti jarðefnunum er umbreytt í nýtanlega orkuafurð, sem á reyndar við um allan orkubúskap. Hluti affallanna er fræðilega óumflýjanlegur en drýgsti hlutinn tæknilega vel yfirstíganlegur á hinum ýmsu sviðum og stigum, einungis svo fremi að efnahagslegir hvatar væru fyrir hendi, m.ö.o. pólitísk úrræði.
Að afföllum frádregnum nemur afhent orka til fullnaðarnota jarðarbúa á ári hverju (world final energy consumption), vegna allrahanda framleiðslu og framleiðsluflutninga og viðhalds og rekstrar, um 70% frumorkunnar – gróft á litið um 110.000 TWst.
Það svarar til um 14.000 KWst á hvern íbúa jarðar – til jafnaðar – sem jafngildir árlegri rekstrarorkuþörf eins til tveggja fólksbíla með brunahreyfli eða orkunni sem þarf til að knýja um 50 til 100 kæliskápa á ári hverju, þá að ótaldri allri orkunni sem fer til framleiðslu og framleiðsluflutninga vegna hlutanna, áður en þeir eru teknir í notkun.
Vel rúmum helmingi allrar afhentrar orku, e.t.v. um 55 til 60%, er varið til alls kyns framleiðslu og framleiðsluflutninga er miða að gerð nýrra afurða, hluta, tækja og eigna til einka- og almenningsnota á ári hverju, vegna fæðu, fasteigna, húsbúnaðar, heimilistækja, farartækja og neysluvarnings af öllu tagi. Ígildi orkunnar eða orkuverðið, ásamt vinnuaflskostnaði og opinberum gjöldum, er þá fólgið í endanlegu andvirði nýrra afurða, hluta, tækja og eigna á neytendamarkaði – að meðtöldum samneyslumarkaði okkar.
Mannkyn, sem telur nú um 7,8 milljarða, fjölgandi sér um þessar mundir um rúmt 1% á ári, mun verða nær 10 milljarðar manns um miðja öldina þegar fjölgunin mun að því er vænta má nema um 0,5% á ári, nokkuð svipað og var um aldamótin 1900. Hámarki mannfjöldans, rúmum 11 milljörðum manns, kann að verða náð snemma á næstu öld, þegar fjöldi fæddra mun jafnvel hætta að vega þyngra en fjöldi látinna, sem myndi þá svara til um eða innan við 0% árlegra breytinga á mannfjölda.
Þessi tvö línurit hér að ofan af vef OurWorldInData.org – yfir orkunot og fólksfjölgun – lýsa í hnotskurn velferðarbúskap mannkyns um aldarskeið. Fólksfjöldi hefur nær áttfaldast frá aldamótunum 1800 eða frá upphafi iðnbyltingar til vorra daga en frumorkunot 27-faldast á sama tíma.
Stór stökk eru tekin á tíma heimsstyrjaldanna á fyrri hluta 20. aldar þegar tækni og vísindi stóreflast með mjög aukinni notkun kola og með ört vaxandi olíunotkun. Í kjölfar styrjaldanna og mikilla framfara í heilbrigðisþjónustu og læknavísindum verður jafnframt fólksfjölgunarsprenging sem leiðir til enn frekara framboðs vinnuafls og eftirspurnar eftir orku. Náði hrein fjölgun hámarki, rúmlega 2%, um það bil sem 68-kynslóðin tók að gera sig gilda.
Árleg orkunot munu nú senn hafa þrefaldast frá tíma 68-byltingarinnar en hafa annars tífaldast frá upphafi fyrri heimsstyrjaldar, á rúmri öld. Þá voru jarðarbúar einungis um fjórðungur þess sem nú er, þá fjölgandi sér nálægt hálfum af hundraði á ári. Árleg fólksfjölgun nam um 0,2% um aldamótin 1700, um það bil á því skeiði sögunnar þegar menn tóku fyrst að hagnýta gufuafl til að knýja vélar, þá fyrst og fremst við að dæla vatni úr enskum og skoskum námum.
Afar gróft á litið er annars talið að fólksfjölgun hafi til jafnaðar numið um 0,04% á ári, um 4% á öld, mest allt skeið siðmenningarinnar, eftir að stórfelldum jöklabúskap lauk að sinni fyrir um tíu til tólf þúsund árum.
Mannafl – hestafl – vélarafl – hugbúnaðarafl – greindarafl
Þegar James Watt og vélaframleiðandi hans Boulton hófu að markaðssetja gufuvélar sínar á síðhallandi 18. öld var nærtækast að bera afl þeirra saman við afl hesta, sem þá var eitt stórvirkasta aflið á mjög mörgum sviðum, meðal annars í námunum, jafnt við burð sem drátt og við að knýja hinar ýmsu vélar, myllur, vatnsdælur og lyftur.
Gufuvél var því um það bil svo mörg hestöfl sem nam fjölda þeirra hesta undir langvarandi álagi sem hún leysti af hólmi. Samkvæmt skilgreiningu Watts jafngildir það einu hestafli að 550 punda þunga sé lyft um 1 fet á sekúndu, sem samsvarar því að 250 kílóum sé lyft um 100 metra á 5½ mínútu eða t.d. 45 kílóum um 100 metra á einni mínútu.
Samkvæmt alþjóðlegu mælieiningunni watt, sem nefnd var eftir gufuvélarfrömuðinum, þá jafngildir eitt hestafl 746 wöttum, um 0,75 kílówöttum, en gróft á litið nemur lágmarksafl nútímamanns til jafnaðar um 0,1 kílówatti, sem svarar til 100 watta varmaafls t.d. glóperu.
Sá er þó munurinn á afli og orkuþörf vélbúnaðar annars vegar og lífvera hins vegar, að aflvélin krefst einungis orku á meðan hún vinnur en lifandi verur ganga á orkuforða sinn allan sólarhringinn. Til viðhalds einu hestafli á degi hverjum þarf því orku sem nemur um 18 kílówattstundum (0,75 KW x 24 stundir) samkvæmt reikningslegri reglu, sem jafngildir um 15.500 kílókaloríum eða hitaeiningum. Það svarar þó vart til nema um helmings af orkuþörf hinna stærri hestakynja við mikla brúkun, sem bendir til að gufuvélarfrömuðurinn hafi tekið mið af afli smáhesta, sem voru einmitt algengastir námuhesta.
Dagleg orkuþörf íslenska hestsins við mjög erfiða og langvarandi brúkun er einungis um 14.000 hitaeiningar – skilar hann þó líklega fullu hestafli í ljósi þess hve hann er sterkbyggður miðað við stærð og nýtir vel fóður – en lágmarks viðhaldsþörf án álags og erfiðis er um helmingi minni.
Á samsvarandi máta reiknað nemur lágmarks orkuþörf nútímamanns um 2,5 kílówattstundum á sólarhring (0,1 KW x 24 stundir) sem jafngildir um 2.100 hitaeiningum. Það liggur nokkuð nærri miðgildi lágmarksþarfar karla og kvenna á heimsvísu en nemur vart helmingi af þörf erfiðismanns eða á hinn bóginn ofneytanda.
Þrefalt betri orkunýtni leiddi í raun af sér þrefalt lægri flutnings- og aðfangakostnað kolanna og þar með meiri möguleika á að hagnýta hina nýju gufuvél við járn-, tin- og koparnámur og einnig við málmvinnslu þó að sjálft kolanámið væri jafnvel víðsfjarri.
Með enn frekari þróun og þá ekki síst fyrir höndlun snúningsafls varð gufuvélin brátt samkeppnishæf við vatnsmylluna, vatnsaflshjólið, sem flestur vélvæddur iðnrekstur var þá mjög háður, sérstaklega spunaiðnaður og allrahanda málmsmíði, auk þess sem vatnsafl knúði sögunarmyllur, myllur bakara og hin margvíslegustu hjól og tæki alls kyns verkstæða og smiðja.
Og áður en langt um leið varð gufuaflið jafnframt öflugasta hreyfiafl flutningatækja á sjó og landi og þar með það afl sem dreif iðnbyltinguna áfram, land úr landi og loks heimsálfanna á milli – allt til nútíma...
Hlutfallslegar breytingar á orkuverði á Bretlandi og samsvarandi breytingar á járnsmíðaverði og land- og sjóflutningatöxtum um þriggja alda skeið, frá aldamótunum 1700 (sbr. vinstri kvarða). Gagnstætt áhrifum hnígandi orkuverðs og bættrar orkunýtni til almennrar lækkunar á töxtum drýgsta hluta skeiðsins þá eru sjóflutningar á köflum jafnframt mótaðir af ægiháu álagi vegna stríðsáhættu, m.a. á tímum Sjö ára stríðsins, Napóleonsstyrjaldanna og heimsstyrjaldanna beggja. Hliðsjón er höfð af þróun vergrar landsframleiðslu (Gross domestic product GDP) á Bretlandi allt skeiðið – eru tekjur umreiknaðar á íbúa á föstu verðlagi ársins 2010 í dollurum talið (sbr. hægri kvarða). Hafa ber í huga að landsframleiðsla lýsir fyrst og fremst orku- og tæknistigi þjóðfélags í heild en felur ekki í sér nein sjálfgefin sannindi um lífsgæði eða jöfnun gæðanna.
Sífellt bætt nýting kolaorkunnar hafði keðjuverkandi áhrif til lækkunar á vinnslu- og flutningskostnaði kolanna og þar með til lækkunar á orkuverðinu, sem leiddi til enn hagkvæmari vinnslu málmgrýtis og bræðslu málma sem aftur leiddi til enn lægra verðs á tæknibúnaði á öllum sviðum, og þá einnig við kolanám, sem leiddi síðan til enn lægra orkuverðs og tæknivæddari vinnslu.
Samsvarandi þróun varð á flestum nýjum orkusviðum er fram liðu stundir, jafnt við að dæla olíu úr jörð og við olíuflutninga á sjó og landi, sem og við mannvirkjagerð, málmsmíði og línu- og leiðslulagnir vegna virkjana og orkuvera af öllu tagi. Gildir þá einu hvort um ræði orkuver drifin af kolum, kjarnorku, olíu, jarðgasi, vatnsafli, vindi, sólarorku eða jarðvarma – á öllum sviðum hefur gætt þróunar, en engu að síður ægi mismikillar enda ójöfnuður af völdum skatta og skattfríðinda nær algjör á sumum sviðum.
Það er því varla nema von að hlutdeild sólarorku og vindafls í heildarorkunotum hafi vaxið svo ofurhægt sem raun ber vitni, þegar á hinn bóginn ofurþróuð framleiðsla, miðlun og brennsla jarðefnaeldsneytis nýtur beinlínis skattalegra hvata um alla jörð, raunar ríkulegra skattfríðinda á kostnað umhverfis og náttúru.
Verður vart annað sagt en að þróun hreinnar orkuvinnslu og hreinnar orkumiðlunar hafi hreinlega verið haldið í fjötrum um áratugaskeið, hvað þá vinnu að rannsóknum á virkjun samrunaorku (fusion energy), sem lýtur að beislun ofuraflsins er losnar við kjarnasamruna, hvað þá vinnu að þróun efnarafala og koltvíildissnauðrar framleiðslu og miðlunar á vetni og vetnisberum (hydrogen carriers), svo mjög hefur sjálft hugvitið, hugbúnaður okkar, sjálft greindaraflið, verið skattlagt.
Æ hagkvæmari orkutæknibúnaður og fjölbreytilegri möguleikar á öflun og miðlun hefðbundinnar orku – og þá ekki síður æ liðugri, skattfrjálsari og meira koltvíildisauðgandi dreifing á sjálfum afurðum orkuvinnslunnar um langan veg – hefur leitt af sér sífellt jafnara heimsmarkaðsverð á orku til flestra iðnaðarnota, sérstaklega til stórkaupenda, og raunar einnig á neytendamarkaði hvað olíukaup sérstaklega snertir, miðað við verð í alþjóðlegum gjaldeyri, óháð kaupmáttarvirði. Að því leyti er vart til lengur það ríki á jörð sem ekki hefur verið snortið með einum eða öðrum hætti af orkubyltingunni sem leitt hefur af iðnbyltingunni í tímans rás.
Aftur á móti hefur munur á almennum orkunotum í heiminum aldrei verið meiri, svo sem munur á landsframleiðslu í hinum ýmsu heimshlutum gefur ákveðið til kynna, enda er slík fylgni á milli orkunotkunar og hvers kyns arðberandi virkni þjóðfélaga að vart verður á milli greint. Gildir þá einu hvar orkan er leyst úr læðingi, í einni heimsálfunni eða annarri, í þessu ríkinu eða hinu, enda eru það að lokum einstaklingsafnotin ein sem telja þegar allt kemur til alls – það er að segja einkaneysla og samneysla hinna ýmsu orkuafurða, alls burtséð frá því hvort hrein rekstrarorka á í hlut og hin ýmsu beinu orkunot eða á hinn bóginn áþreifanlegir hlutirnir sjálfir, fasteignir, fæða, farartæki og hvers kyns tækni, búnaður og tæki, með allri sinni hlutbundnu eða innbyggðu (embodied) framleiðslu- og flutningsorku. Verg heimsframleiðsla (Gross domestic product GDP) í rúm tvö þúsund ár, mæld í kaupmáttarvirði dollara (Purchasing power parity PPP) árið 1990, jafnað á íbúa eftir áætlaðri vergri landsframleiðslu (GDP) í hverjum heimshluta frá árinu 1 eftir Krists burð. Landsframleiðsla er ágætur mælikvarði á orku- og tæknistig þjóðfélaga en er ekki einhlýtur kvarði á lífsgæði – ekki frekar en að slíkur kvarði verði lagður á lífskjaramun milli ríkja og heimshluta nema til að draga upp óljósa og iðulega afar ýkta og þar af leiðandi jafnvel rangfærða mynd. Enda segir kvarðinn ekkert til um ofgnótt, ofneyslu og sóun, né um hagkvæmni framleiðslu eða varanleika, hve vel framleiðsla og þjónusta nýtist þjóðfélögum í bráð og lengd, ekki frekar en að kvarðinn lýsi kjörum einstakra þjóðfélagshópa, hvað þá nokkrum mun, miklum eða litlum, hópa á milli. (Ath. að virði landsframleiðslu á Bretlandi á 3ja alda línuritinu hér ofar miðast við nafnverð á föstu verðlagi í dollurum ársins 2010 sem voru mun rýrari að verðgildi en dollarar ársins 1990 sem hér er miðað við. Það breytir þó engu um heildarmyndina.)
Orkuverðið
Eldsneytisverð á almennum neytendamarkaði hefur verið nokkuð svipað í mestallri Ameríku og í suðaustanverðri Asíu og í Ástralíu – hér almennt og alls staðar í pistlinum miðað við verðlag og gengi fyrir tíma covid-19 og hruns á mörkuðum árið 2020. Hefur verð á lítra verið um einn dollar +/- 10 til 20 sent mjög víða – sem samsvarar u.þ.b. 10 dollarasentum á kílówattstund heildarorku, +/- 1 til 2 sent.
Til marks um eiginlega virkjaða orku, þá skilar 1 lítri af eldsneyti brunahreyfla einungis um 3 KWst hreyfiorku til jafnaðar, afar gróft á litið, á meðan drýgsti hluti eldsneytisbrunans, um 6 til 7 KWst, glatast sem ónýtt varmaorka – enda er hrein varmaorka 1 lítra af dísilolíu um 10 KWst en bensíns um 9 KWst, að meðtöldum áhrifum súrefnis við eldsneytisbrunann.
Bensínlítrinn hefur kostað um 80 sent í Bandaríkjunum (um 100 kr fyrir covid) þrátt fyrir að meðallaun þar séu margföld á við laun í Kína þar sem lítrinn er á rúmlega dollar, líkt og t.d. einnig á Indlandi, í Bangladesh, Kanada, Brasilíu, Úkraínu og í sumum ríkjum Afríku. Það er fyrst og fremst í miklum olíuframleiðslulöndum sem eldsneytið er mun ódýrara, oft í kringum hálfan dollara á lítra, um 50 dollarasent, um 60 krónur, á kílówattstund.
Á hinn bóginn sker Vestur-Evrópa sig úr með tiltölulega hátt eldsneytisverð til almennings og almenns rekstrar, um 1,5 til 2 dollara á lítra (um 15 til 20 dollarasent, 0.15$ til 0.20$, á KWst), en það helgast ekki síst af vægi olíugjalda sem renna til samgangna, auk þess sem virðisaukaskattur vegur þá yfirleitt drjúgt og sérstök orkugjöld sem lögð eru á í stöku ríkjum. Þotueldsneyti kostar mjög svipað um allan heim, nálægt 5 dollarasentum á kílówattstund, enda er það að mestu leyti undanþegið gjöldum líkt og yfirleitt skipa- og vinnuvélaolía og almennt olía öll til flestra iðnaðarnota.
Andstætt við olíuna sem lýtur í raun heimsmarkaðsverði víðast hvar, einfaldlega af því hve öll olíuorkuúrvinnsla er samhæfð og þróuð á heimsvísu, dreifikerfið þjált og flutningskostnaður almennt lítill, þá er framleiðsla og dreifing raforku mun háðari staðbundnum þáttum og einnig afar misjafnri nýtingu og gerð orkuveranna.
Raforkuframleiðsla byggir öll á einhvers konar umbreytingu hinna ýmsu tegunda orku – kola- og gasorku, fallvatnsorku, kjarnorku, vindorku, sólarorku, jarðvarma, orku sjávarfalla og strauma og lífrænnar orku – í raforku, með misjöfnum árangri og mismunandi miklu eða litlu orkutapi, auk þess sem byggingarkostnaður orkuvera og dreifingarkostnaður er mjög margbreytilegur og ekki síst kostnaður við þróun í hinum ýmsu nýju greinum.
Raforkuverð í heiminum er því mun misjafnara en olíuverð og er opinber verðstýring jafnframt mun meiri á ýmsa lund. Verði á rafmagni til almennings er haldið mjög í skefjum í mörgum hinna fátækari ríkja, enda rafmagn þar almennt talið vera mun brýnnni nauðsyn en t.d. bensín á tank einkabíls, en verð er einnig mjög lágt í sumum olíuauðugum ríkjum, sem knýja þá gjarnan rafhverfla með ódýrri afgangsolíu.
Rafmagnsverð á kílówattstund – til almennings og smárekstrar – er líklega einna lægst í Íran, jafngildi um eins dollarasents eða rúmlega krónu, en algengt verð í Vestur-Asíu liggur annars á bilinu 0,03 til 0,06 dollarar, um 4 til 8 krónur fyrir covid. Á Indlandi, í Bangladesh og í Kína og víðar í austanverðri Asíu er verðið oft í kringum 0,08 dollarar, svipað og í Rússlandi, Argentínu og Mexíkó, en á Íslandi og í Bandaríkjunum er það um 0,15 dollar, heldur lægra en víða í Austur-Evrópu og t.d. í Brasilíu og Síle.
Líkt og eldsneytið þá kostar rafmagn til almennings einna mest í Vestur-Evrópu, leikur þar víða á bilinu 0,20 til 0,30 dollarar á kílówattstund, er þó aðeins lægra í Svíþjóð, Finnlandi og Frakklandi en nokkru hærra í Danmörku og Þýskalandi. En þeim mun hærra verð þeim mun frekar eru líkur á að opinber gjöld telji drýgsta hluta þess.
Í þeim ríkjum sem rafmagnsverð til almennings og smárekstrar er miðlungi hátt eða þaðan af hærra þá er rafmagn til iðnaðarnota almennt þeim mun lægra og verð til stórnotenda miklu lægra. Á Íslandi greiðir stóriðja um 3 dollarasent, um 4 krónur, til jafnaðar fyrir kílówattstundina – að meðtöldum orkuflutningi – mun lægra en lægsta stóriðjuverð í Þýskalandi. Heldur minna orkuþurfandi rekstur greiðir þar þó um 8 til 10 sent fyrir kílówattstundina og þó þeim mun meira sem orkunotkunin er minni og ójafnari og dreifingin flóknari.
Að frátöldum opinberum gjöldum en að meðtöldum kostnaði við dreifingu er raforkuverð til stórkaupenda orku í Evrópusambandinu nokkuð svipað, oft um 65 evrur/MWst, um 6 til 7 dollarasent á KWst, en verð er þá þeim mun hærra og breytilegra eftir löndum sem orkukaup eru minni eða óstöðugri og dreifing vegur þyngra, e.t.v. oft á bilinu 8 til 16 dollarasent á KWst, þá oft þó óljóst um hlut opinberra gjalda.
Þá er til þess að líta hve raforka vegur enn raunar lítið í orkubúskap jarðarbúa, einungis rétt um fimmtung, svo sem áður er getið, sem í allra grófustu dráttum má ætla að skiptist til helminga milli rekstrar í þágu almennings og smárekstrar og á hinn bóginn iðnrekstrar, að sitthvoru rekstrarsviðinu falli þá um tíundi hluti alls orkubúskaparins í skaut sem rafmagn. Er þá jafnframt talinn sá hluti búskaparins sem byggir á endurnýjanlegri orku og lýtur nær allur að rafmagni, svo sem áður er lýst, en nær enn vart tuttugasta hluta heildarorkunnar og ekki heldur tíunda hluta þó að kjarnorka sé talin með, svo drjúgan þátt eiga kol og jarðgas í framleiðslu rafmagns.
Samanlagt nemur fimmtungs hlutdeild raforkunnar og þriðjungs hlutdeild olíunotkunar um helmingi allrar orkunotkunar á jörðinni og er þá megnið af kola- og jarðgasorkunni enn ótalið, auk þess sem hefðbundnir lífrænir orkugjafar telja, svo sem eldiviður, hrís, viðarkol, mór og tað, sem fela í sér um sjö hundraðshluta heildarorkunotanna, þá einnig að meðtöldu lífeldsneyti af ræktarlandi.
Langstærsti hluti kola og jarðgass er nýttur beint til iðnaðarnota, gas er þó í allmörgum löndum nýtt jafnframt til heimilisnota. Verð til stórnotenda – sem nýta langstærsta hluta heildarinnar – telur yfirleitt einungis örfá sent eða örfáar krónur á hverja nýtta kílówattstund og nær það sjaldnast tveggja stafa tölu þó að orkukaup séu lítil, ekki einu sinni gasverð til almennra heimilisnota nema í örfáum löndum þrátt fyrir að dreifingarkostnaður myndi þá mun hærra hlutfall heildarreiknings en ella. Opinberar álögur eru líka afar litlar á kol og gas, líkt og almennt á öllum orkusviðum nema hvað varðar álögur á olíu vegna samgangna og á heimilisrafmagn í örfáum dýrustu löndum Vestur-Evrópu, svo sem hér hefur verið lýst.
Hið tekjudrifna skattkerfi
Þegar á allt er litið – frá sjónarmiði verðs, líkt og hér hefur verið gert – þá vegur orka svo lítið í heimsbúskapnum að verðlagsvigtin reynist vera alveg í öfugu hlutfalli við vægi orkunotanna – sem slíkra – í lífsafkomu jarðarbúa. Afar gróft á litið má ætla að vegið meðaltal orkuverðs í heiminum, e.t.v. að meðtöldum hluta kostnaðar við stofndreifikerfi en án opinberra álaga, sé í mesta lagi um 0,08 dollarar á kílówattstund (ekki síst í ljósi þess hve afar lágt verðlögð stóriðjuorka vegur þungt í heildarnotkun), sem jafngildir um 80 milljónum dollara á terawattstund.
Afhent orka í heiminum nemur alls um 110 þúsundum terawattstunda, gróft á litið, svo sem áður er getið. Andvirði heildarorkunnar liggur því nærri um 8,8 billjónum Bandaríkjadala, sem er einungis rétt um tíundi hluti heimsframleiðslunnar árið 2019, sem er talin hafa numið um 87 billjónum dala.
Á sömu verðlagsstiku mælt hljóta því heildarlaun, tekjur og hagnaður jarðarbúa að nema um níu tíundu hlutum framleiðslunnar – að frádreginni orkunni. Afar gróft á litið má jafnframt ætla að opinber gjöld ásamt greiðslum í lífeyrissjóði nemi e.t.v. um þremur tíundu hlutum af allri heild – til jafnaðar – að nemi þá almennt talsvert hærra hlutfalli í hinum gamalgrónari neysluríkjum en þeim mun lægra sem ríki eru minna þróuð. – Sama þó að olíugjöld vegna samgangna séu talin með þá vega orkuálögur í heild samt sáralítið í skattabókhaldi heimsins en tekjutengdir skattar á einstaklinga vega aftur á móti langsamlega þyngst, gæti skatta á annað borð að einhverju marki.
Orkustigin fimm (I til V) lýsa orkuneyslu jarðarbúa í allra grófustu dráttum – allt frá mikilli orkunotkun (I) til lítillar (V). Aflvakinn að baki hinni miklu heildarorkuneyslu býr í afar tekjudrifnu skattkerfi jarðarbúa, sem beinlínis hvetur til orkusóunar, enda er mestallur afrakstur skattkerfisins alveg í öfugu hlutfalli við orkunotkun – er minnstur þar sem orkunotin eru mest og á hinn bóginn mestur þar sem notin eru minnst. Leggjast skattarnir af mestum þunga á mannaflsfrekustu greinarnar (V) en þeim mun léttari eru álögurnar eftir því sem mannaflinn er minni og orkunotin eru meiri (IV til II) og eðli máls samkvæmt eru álögurnar því langminnstar á orkufrekustu greinarnar (I) þar sem minnsta mannafla er einmitt þörf. Hvatinn til orkusóunar er því algjör. TAFLA: ÁBH
Rekstrarhagkvæmni hefur í flestum greinum löngum miðað að orkudrifinni og þar af leiðandi að afar tæknivæddri og lágt skattlagðri framleiðslu eða vélrænni fjöldreifingu og þjónustu, nema hvort tveggja sé eða allt í senn, sem jafnframt hefur löngum kallað á rekstrarsameiningar – hagkvæmni stærðarinnar – enda nýtur vélræn framleiðsla og þjónusta sín þeim mun almennt betur sem stærðin er meiri og skattarnir þá þeim mun hlutfallslega lægri.
Lág heildarskattbyrði orkudrifins og lítt mannaflsfreks rekstrar hefur síðan í tímans rás leitt til sífellt þyngri skattbyrðar mannaflsfreks rekstrar, svo miklu þyngra vega skattar á launatekjur, sérstaklega á hálaunasvæðum.
Sá er líka munurinn á launasköttum og hreinum rekstrarsköttum að laun fela vart í sér neina umtalsverða liði til frádráttar sköttum en frá rekstrartekjum dragast aftur á móti öll útgjöld sem varið er til aukins vaxtar, auk þess ekki síður sem tapi nemur – sem og ekki síst sem nemur margvíslegri einkaneyslu eigenda og gæðinga þeirra sem ósjaldan er færð sem rekstrarkostnaður.
Svo lengi sem rekstur nýtir allan hagnað af reglulegri afkomu (eða rekur sig á lánum) til vaxtar þá ber reksturinn einfaldlega litla sem enga skatta, og þá þeim mun minni launaskatta sem reksturinn er sjálfvirkari og ofurorkudrifnari.
Og þeim mun minni skatta sem rekstur ber í heild, þeim mun hæfari er hann til samkeppni – hvað þá í auðunninni samkeppni við rekstur þess hluta jarðarbúa sem rísa verður þó undir sköttum og bera uppi alla stjórnsýslu og almannaþjónustu – sífellt stærri hlut atvinnuleysis- og örorkubóta og almennra lífeyristrygginga, æ öflugri heilbrigðisþjónustu og víðtækari uppfræðslu og menntun, sem og skilvirkari rekstur löggæslu, hers og utanríkisþjónustu, auk þess sem samgöngur telja í beinum útgjöldum.
Augljóslega þyrfti þó ekkert skattkerfi á svo sjálfbærri plánetu, hvað þá heldur nokkra stjórnsýslu, enda sæi allt um sig sjálft og alveg sjálfkrafa, að sjálfsögðu að óskum hvers og eins – manns og vélmennis...
Á ofursetinni plánetunni Jörð kann að vera öðru máli að gegna, sérstaklega í ljósi þess hve hefðbundnar auðlindir eru í raun takmarkaðar og leiðir til að virkja jákvæða orku eru vandfundnar, eða réttara sagt vandrataðar, enda er nær öll vinna að jákvæðri orkuþróun ofurskattlögð. Níu tíundu hlutar alls virkjaðs afls og orku eru hins vegar af neikvæðri, afar koltvíildisauðgandi umhverfisrót, umvafinni skattfríðindum. Drjúgur hluti orkunotanna, jákvæðrar orku ekkert síður en neikvæðrar, leiðir síðan til spillingar á ókeypis náttúru og auðlindum, sem með hægasta móti mætti þó nýta mun betur, einungis svo fremi að efnahagslegir hvatar væru fyrir hendi, m.ö.o. pólitísk úrræði.
Orkudrifið skattkerfi
Það getur aldrei verið jákvætt að sóa hreinni orku, alveg sama af hve jákvæðri rót orkan er sprottin – nema orkulindin væri alls ótakmörkuð og umhverfisvæn og hagnýting hennar kostaði alls ekki neitt – hvað þá heldur jákvæðara það sé að sóa óhreinni orku.
Áhrifaríkasta leiðin til að sporna við allri orku- og auðlindasóun væri því að leggja gjöld á öll hagræn orku- og náttúrunot og almennt á alla hagræna nýtingu auðlinda og þá þeim mun hærri gjöld sem orkan er óhreinni, náttúran dýrmætari eða auðlindin takmarkaðri. Væri þá stuðlað að orkusparnaði á öllum sviðum, jafnt sem að orkuskiptum frá óhreinni orku til hreinni orku, ekki síður en að jákvæðri nýtingu auðlinda og þar með, ekki síst, að virðingu fyrir náttúrunni.
Slíka skattlagningarleið er hæglega hægt að fara án þess að nokkrir tapi nema orkusóðar, jarðvöðlar og auðlindabraskarar – einfaldlega með því að lækka jafnframt skatta á laun og rekstrarhagnað og að lokum afnema tekjudrifna skatta með öllu, enda myndu þá gjöld af orku og allri hagnaðardrifinni nýtingu auðlinda og náttúru fyllilega rísa undir sköttunum. Þá væri jafnframt viðurkennt að plánetan Jörð er ekki herragarður orkuaðals heldur jörð í sameign allra jarðarbúa.
Orkudrifið skattkerfi fæli í sér afnám allra tekjuskatta – afnám allra skatta sem leiddir eru beint af launa- og rekstrartekjum – nema að því marki sem lífeyrir er fjármagnaður með opinberum eða hálfopinberum gegnisstreymisgjöldum eða sjóðsöfnun. Að undanskildum lífeyrisgjöldum, sem almennt væru því tekjutengd, og almennum fjárstreymissköttum af vöru og þjónustu, t.d. virðisaukaskatti og vörugjöldum, þá fæli skattkerfið nær eingöngu í sér gjöld sem beint og óbeint og fyrst og fremst væru leidd af margvíslegum orku- og náttúrunotum. Gjöldin næmu þeim mun hærra hlutfalli af landsframleiðslu ríkja sem bein og óbein orkunot og almenn skattgjöld vega þyngra, þá e.t.v. allt að 25%, en þeim mun minna sem ríki eru vanþróaðri, orkunot minni og skattgjöld almennt lægri, þá jafnvel einungis um 10%. Afar gróft á litið, að vegnu heimsmeðaltali, næmu skattgjöldin til jafnaðar um 15% – sem svara myndi til um 0,12 dollara á hverja kílówattstund fullnaðarorkunota í heiminum. TAFLA: ÁBH
Öll orkunot – óháð eðli og uppruna – væru háð opinberu grunngjaldi er lagt væri á fyrir heildsölu og dreifingu í hverju ríki en orkuseljendum væri yfirleitt í sjálfsvald sett hvernig þeir jöfnuðu gjaldinu út gagnvart hinum ýmsu kaupendum, stórum og smáum. Myndu nýjar virkjanir endurnýjanlegrar orku þó njóta tímabundinna undanþága frá gjaldinu, allt eftir mati. Grunngjaldið myndi svara til um 3ja dollarasenta á hverja KWst fullnaðarorkunota í heiminum (sem eru alls um 110.000 TWst á ári).
Jafnframt væru gjöld lögð á losun kolefnis (koltvíildis CO2) og kolefnisígilda, sem einkum og sér í lagi myndu varða alla óhreina orkulosun, er nemur nálægt 9/10 hlutum allra orkunota í heiminum, fyrst og fremst af völdum olíu, kola og jarðgass, auk margvíslegs efnaorkubruna. 12 sent á hvert kíló 37 milljarða losunartonna CO2-ígilda (sem losun á ári nemur nú um þessar mundir) myndi jafngilda um 4,5 billjónum bandaríkjadala, sem til jafnaðar myndi nema um 4,5 sentum á KWst óhreinnar orku eða orkuígildis. Jafnað á öll orkunot í heiminum (110.000 TWst) – hér til reikningslegrar einföldunar – myndi það gróft á litið jafngilda um 4 sentum á KWst.
Ef til jafnaðar væru greidd 12 sent á kílómetra (um 8 sent á tonn-km) í veggjöld af þeim 1,5 milljörðum ökutækja sem eru í heiminum og hverju ökutæki væri ekið 10 þús. km á ári, til jafnaðar, þá myndi það jafngilda um 1,8 billjónum dala, og að viðbættum sérstökum þungaskatti hinna stærri ökutækja, og skipafraktar-, flugfraktar- og lestarfragtskatti, þá samanlagt e.t.v. um 2,2 billjónum. (Hafa ber í huga að gjöld sem eru nú þegar fyrir hendi t.d. í mynd olíugjalda vegna samgangna myndu á móti falla niður.) Jafnað á öll orkunot í heiminum – hér til reikningslegrar einföldunar – myndu veggjöld, fraktgjöld og önnur samgöngugjöld jafngilda um 2 sentum á hverja KWst heildarorkunota.
Fiskafli í heiminum – úr sjó, vötnum og af eldi – nemur um 100 milljónum tonna á ári og kjötframleiðsla um 400 milljónum tonna. Ef greiddur væri 1 dollar á hvert kíló – til jafnaðar – í veiðiréttargjald og af kjötslátrun (allt með ýmsu móti, á ýmsan veg útfært), myndi það jafngilda um 0,5 billjónum dala – en jafnframt myndi heildarlaunakostnaður sjómanna, bænda og fisk- og kjötiðnaðarfólks, sem og launakostnaður dreifingaraðila, lækka verulega með afnámi tekjuskatta, sem og ekki síður myndu skattar af hreinum rekstrartekjum einnig heyra sögunni til. Sérstök náttúrugjöld eða umhverfisálag vegna umfangs virkjana og orkuvera, raflínulagna, olíu- og gasleiðslna og allrahanda námugraftrar og auðlindanýtingar og mjög umfangsmikilla mannvirkja, þ.á.m. í þágu samgangna, auk gjalda af nýtingu þjóðgarða og verndarsvæða, næmu þar að auki e.t.v. um 0,4 billjónum dala.
Fasteignagjöld og erfðafjárskattar nema e.t.v. um 1,7 billjónum dala (um 2% af GDP-heild) og opinberar eignatekjur um 0,6 billjónum, vægt áætlað. Alls myndu þá bein áðurnefnd náttúrugjöld, 0,5 + 0,4 billjónir dala, og gjöld oft leidd af heldur óbeinni náttúrunotum, 1,7 + 0,6 billjónir dala, nema um 3,2 billjónum dala. Jafnað á öll orkunot í heiminum – hér til reikningslegrar einföldunar – myndu umhverfis- og náttúrugjöld jafngilda um 3 sentum á hverja KWst.
Samantekið og hér til einföldunar allt metið sem fall af verði kílówattstunda, þá myndi grunnorkugjald nema 3 sentum/KWst, kolefnisgjald 4 sentum/KWst, samgöngugjöld 2 sentum/KWst og bein og óbein umhverfis- og náttúrugjöld 3 sentum/KWst – sem alls myndi til jafnaðar svara til um 12 senta – 0,12 bandaríkjadala – á hverja kílówattstund fullnaðarorkunota í heiminum. (Er í reynd væru lögð á frumorkunot á ýmsum sviðum)
Með minnkandi losun koltvíildis og ígilda þess, fyrir áhrif af kolefnisgjaldinu, myndi vægi allra gjalda vera uppfært og kolefnisgjaldið þá að tiltölu mest, að óbreyttu heildarvægi gjaldanna – 0,12 bandaríkjadölum – til jafnaðar á heimsvísu. Í reynd kynni jafnaðargjaldið að nema um 0,20 dölum í hálaunaríki en e.t.v. um 0,08 dölum í láglaunaríki. Með auknu jafnvægi í heimsbúskapnum – jafnari orku- og náttúrunotum – myndu gjöldin á hinn bóginn nálgast miðgildi, heimsálfa og ríkja á milli.
Meðalorkunot jarðarbúa eru um 14.000 kílówattstundir afhentrar orku á ári (um 20.000 KWst miðað við frumorkunot), svo sem áður hefur verið nefnt. Orkunot eru þó alveg tífalt meiri á meðal hinna orkufrekustu og tæknivæddustu, óháð því hvar frumorkan er upprunnin, en aftur á móti alveg tífalt minni á meðal þeirra sem minnst hafa af tæknilegri orku að segja og neyta því einungis rétt rúmlega þess sem svarar til orkubrennslu meðalmanneskju á ári.
Miðað við 0,20 dollara jafnaðargjald umreiknað á kílówattstund neyslu – einkaneyslu og samneyslu – í þróuðu ríki, myndu miklir ofurneytendur, er nýttu beint (sem rekstrarorku) og þó aðallega óbeint (sem hlutbundinnar orku) um 140.000 KWst á ári sér til framfærslu, gjalda um 28.000 dollara fyrir ígildi orkuneyslu sinnar (um 3,5 milljónir króna miðað við 125 kr/$ gengi) – í grófustu dráttum reiknað, að meðtöldum fasteignagjöldum, veggjöldum o.fl. – auk þess sem fjárstreymisskattar (virðisaukaskattur og vörugjöld) af útgjöldum og lífeyrisiðgjöld af tekjum ársins myndu telja, en tekjuskattur væri þá alls enginn né almenn tryggingagjöld...
Miðlungsneytendur orku og hagrænna náttúrugæða myndu þá gjalda þeim mun minna sem og ekki síst þeir sem sparast fara með tækniorkuna miklum mun minna, þá í raun alls burtséð frá tekjum.
Á hinn bóginn, miðað við 0,08 dollara jafnaðargjald umreiknað á kílówattstund neyslu – einkaneyslu og samneyslu – í lítt tækniþróuðu ríki, myndu hinir neyslugrennstu, neytandi e.t.v. 1.400 kílówattstunda tækniorkuígilda á ári – óháð hitaeiningum fæðu – gjalda um 112 dollara (um 14 þús. kr. fyrir covid) í samsvarandi orku- og náttúrugjöld af neyslu sinni, sem kynni að nema um 5 til 10% af árslaunum láglaunafólks, t.d. í Bangladesh, að óbreyttum kjörum.
Hálaunafólk í slíkum láglaunaríkjum, neytandi jafnvel 140.000 kílówattstunda tækniorkuígilda, myndi þá hins vegar gjalda um 11.200 dollara (um 1,4 milljónir króna fyrir covid) – en síðan þeim mun meira sem orkugjöld færu hækkandi og þar af leiðandi velferðarbúskapur vaxandi, með aukinni tækniþróun og almennri velmegun. En mælt t.d. á afar ónákvæma stiku kaupmáttarvægis dollars þá er velferðarmunurinn veginn á við neysluríkin alveg tífaldur í hinum lakast stöddu ríkjum.
Tekjur af rekstri myndu á öllum sviðum nýtast beint til kjarabóta og fjármunamyndunar án sérstakra skattgreiðslna til hins opinbera. Hið opinbera hefði hins vegar tekjur sínar af orku- og náttúrugjöldum fyrst og fremst, auk tekna af virðisaukaskatti og af lífeyrisgjöldum, að því marki sem þau væru á opinberri hendi.
Með auknum hagvexti – aukinni tæknivæðingu og aukinni samneyslu – í vanþróuðum löndum, færu grunngjöld orku- og náttúrunota jafnt og þétt hækkandi, en aftur á móti í þróuðustu neysluríkjum myndu tiltölulega há gjöldin stemma stigu við ofgnótt neyslunnar og þar af leiðandi, með sífellt bættri nýtingu á afurðum náttúrunnar, fara lækkandi.
Heimsviðskipti og ójöfnuður orkuneyslunnar
Heimsviðskipti eru mótuð af skiptum á alls kyns vöru og þjónustu og eru þau jafnan metin í gjaldeyri og jöfnuði gjaldeyrisskipta. Meginstraumar milli framleiðsluríkja og neysluríkja fela að drjúgum hluta í sér einhliða streymi orku- og mannaflsfreks framleiðsluvarnings frá lággjaldasvæðum til hágjaldasvæða og á hinn bóginn straum launafrekrar og hátt skattlagðrar hátækniþjónustu til mótvægis, auk þess sem hreinir orkuflutningar telja í gjaldeyrisskiptum á ýmsan veg, að drýgstum hluta þó til fullnaðarnota í neysluríkjunum.
Séu heimsviðskipti aftur á móti metin í skiptum á orkueiningum, t.d. kílówattstundum, þá blasir við gerólík mynd, sérstaklega þegar litið er til hinnar endanlegu og persónulegu orkuneyslu jarðarbúa – hvort sem ígildi orkunnar er innbyggt (embodied) í áþreifanlegri gerð hlutanna eða orkan er notuð beint til rekstrar.
Gildir þá einu hvort heimili eða hótel á í hlut, sjúkrahús eða skóli, fæða, fatnaður, þvottavél, kæliskápur, sjónvarp eða leikfang, eða einkabíll, almenningsbíll, farþegalest, farþegaflugvél, ferja eða skemmtiferðaskip, eða búnaður og rekstur löggæslu og stjórnarhers.
Allt það sem við sem almenningur eða einstaklingar eigum eða höfum afnot af, neytum eða rekum sjálf eða sættumst á að láta reka fyrir okkur, kemur einfaldlega til margbreytilegs reiknings orkuneyslu okkar og fullnaðarnota, ýmist beint í eigin reikning eða óbeint fyrir reikning samneyslu.
Þeim mun miklu minni hluti orkunnar birtist almennum framleiðendum og neytendum á hreinu formi reiknings frá veitustofnun fyrir not af raforku eða gasi eða frá eldsneytissala fyrir tiltekið magn eldsneytis úr dælu, hvað þá fyrir kola- og koksnot – algjörlega andstætt við ofurframleiðendur á frumvinnslustigi.
Láglaunaríki kann að nota mikla orku vegna framleiðslu á vöru til útflutnings til neysluríkis – og til uppihalds eigin yfirstétt – en íbúarnir flestir, framleiðendurnir, neyta þá að sama skapi þeim mun minni orku í eigin þágu sem laun eru lægri og sement, járn og gler, bifreiðar, tölvur og heimilistæki, fæða og fatnaður, eru dýrkeyptari.
Orkuígildisins er þá raunverulega neytt af kaupendum varningsins, íbúum neysluríkjanna fyrst og fremst, sem aftur á móti gjalda fyrir kaupin með útflutningi á rándýrum hátæknivarningi sem almennt krefst afar lítillar orku til smíði á samanborið við háþróaða verkfræði- og tækniþekkinguna sem liggur að baki.
Svo miklu þyngra vega þá há laun og háir tekjuskattar að baki hverri framleiddri þyngdareiningu samanborið við sáralítinn orkukostnaðinn.
Alger viðskiptajöfnuður, mældur í viðurkenndum gjaldeyri, kann því að helgast af útflutningi neysluríkis á afar hátt skattlagðri verkfræðilegri ráðgjöf og hönnun, sneiðmyndatækjum og lækningasmásjám, flugvélum, skriðdrekum, þyrlum og ofurtölvum (t.d. til hagskýrslugerðar og orkuframleiðslustýringar) – að tiltölu afar fáum einingum – í skiptum fyrir fjöldann allan innfluttra fjöldaframleiddra eininga bifreiða (eða bifreiðahluta til samsetningar), heimilistækja, smátölva og tískuvarnings í massavís – sem væri þó oftast varningur að miklu leyti forhannaður í neysluríkinu og hönnunin því skattlögð þar, sem og drýgsti hluti framleiðsluþróunar og markaðssetningar unninn og kostaður þar og skattlagður.
Orkuójöfnuðurinn – ekki síður en hinn skattalegi ójöfnuður – mældur í einingum hlutbundinnar framleiðslu- og flutningsorku, er þá á hinn bóginn nær takmarkalaus.
Hvert tonn af raðsmíðuðum eða sérsmíðuðum ofurtölvum, sneiðmyndatækjum, þyrlum og farþegaflugvélum kann gróft á litið að kosta hundraðfalt meira en hvert tonn af fjöldaframleiddum bifreiðum og heimilistækjum, þúsundfalt meira en ótilsniðið glertonn eða hrájárnstonn og tíuþúsundfalt meira en tonnið af sementi í lausum farmi.
Munurinn á orkunotum og kolefnislosun vegna framleiðslu á hverju sementstonni og hátæknitonni hleypur þó einungis á nokkrum tugum og varla svo að nái einum tug eða tveimur samanborið við t.d bifreiðaframleiðslu.
Svo sáralítið vegur orka og orkukostnaður á við flókna og ofurnákvæma verkfræðilega hönnun og sérsmíði eða raðsmíði einstakra fárra hluta – en laun og skattar svo margfalt og miklu meira, hvað þá ofurlaunakröfurnar sem settar eru fram til að mæta ofurtekjusköttum tækni- og neysluríkisins.
Fjöldaframleiddur bíllinn, sérsmíðað sneiðmyndatækið og sementið og járnið
Málmar og önnur efni sem fara til smíði á sneiðmyndatæki kunna til samans að vega á við bifreið en kostnaður við smíði sneiðmyndatækisins, allt hugbúnaðar- og handverkið, er að mestu leyti fólgið í miklum fjölda vinnustunda og afar háum vinnulaunum og sköttum hálaunaríkis.
Því er öfugt farið með fjöldaframleidda bifreiðina þar sem kostnaði við markaðssetningu, hönnun og þróun, við málmbræðslu og gerviefnavinnslu og mótun allra ótal frumeininganna er jafnað niður á milljónir fjöldaframleiddra eintaka, ásamt kostnaðinum við allan tæknibúnað málmsmiðjanna og verksmiðjanna, vélmennin, færibönd og stýringar, auk þess sem laun og skattar iðnverkafólks við færibandavinnu vega tiltölulega lítið, sérstaklega í láglaunaríkjum, samanborið við laun og skatta markaðsstjórnenda, hönnuða, verkfræðinga og sérþjálfaðra tæknimanna, sér í lagi í hálaunaríkjum.
Því er það að nánast sérsmíðað sneiðmyndatækið kostar á við 100 fjöldaframleiddar bifreiðar eða hvort sem er 1000 tonn af massaframleiddu steypustyrktarjárni eða 10 þúsund tonn af sementi í lausu.
Hvaða áhrif hefði það þá á lokaverð hlutanna ef hreinn orkukostnaður myndi til jafnaðar tvöfaldast – þá hlutfallslega mest á orkufrekustu stigum en annars þeim mun minna – og heildarlaunakostnaður og vergur hagnaður af rekstri myndi jafnframt dragast saman um fjórðung?
Orkan hefði þá hækkað sem svarar til álagðra orku- og kolefnisgjalda, auk ýmissa náttúrugjalda, en heildarlaunakostnaður og vergur hagnaður lækkað sem svarar til afnáms tekjuskatta – vergur hagnaður væri þá orðinn því sem næst jafn hreinum hagnaði.
Orka væri sem sagt dýrkeyptari en engu að síður væri hreint kaupmáttarvirði ráðstöfunarlauna og nettó hagnaðar alls óbreytt – til jafnaðar, horft til alls rekstrar í heild í heiminum.
Augljóslega myndi öll orkufrek frumvinnsla hækka mest í verði (og nyti vinnslan engu að síður lægri heildarlaunakostnaðar og þá jafnframt fullra tekjuskattsfríðinda af rekstri), en allur mannaflsfrekur rekstur og lítt orkuþurfandi myndi bera þeim mun minni kostnað.
Frumframleiðsla málma, þ.á.m. áls, stáls, járns og kopars, og allrahanda gerviefna, þ.á.m. plasts, teflons og nælons, og alls kyns efnaorkuvöru, t.d. glers, sements og steinullar, myndi hækka til muna í verði, á sumum sviðum tvöfaldast, jafnvel þrefaldast, og þá þeim mun fremur sem framleiðsla leiðir af sér meiri mengun og losun koltvíildis og ígilda þess.
Hrein frumframleiðsla sements og steypustyrktarjárns myndi því tvímælalaust hækka talsvert í verði en hins vegar myndi sá hluti byggingarkostnaðar sem leiddur er að drjúgum hluta af vinnuafli lækka verulega í verði.
Kostnaður við fremur lítt orkufreka tækni, t.d. samlímingu einangrunarglers, myndi e.t.v. standa í stað og þó líklega fremur lækka í verði – jafnt sem t.d. pökkun sements í söluvænar umbúðir og vinna við að beygja steypustyrktarjárn, einmitt vegna þess hve samlímingarvélar, pökkunarvélar og beygjuvélar krefjast í raun lítillar rekstrarorku – líkt og reyndar drjúgur hluti fjöldaframleiðsluvéla bílaiðnaðarins.
Það skiptir þá ekki síður miklu máli að öll smíði léttiðnaðarvélanna (öll sjálf smíðin, handverkið) krefst tiltölulega lítillar tækniorku en því meiri hagleiks mannafls, sem lækka myndi að heildarvirði við afnám tekjuskattanna, hvað þá hvort kostnaður við alla sölu og markaðssetningu, sements jafnt sem sneiðmyndatækja, myndi ekki lækka hvarvetna.
Há kolefnisgjöld myndu á öllum sviðum hvetja til umskipta frá óhreinni orku til hreinnar orku og auk þess stuðla að mun skilvirkari tækni við alla efnaorkuvinnslu, ekki síst á forsendum hreinnar raforkuvinnslu, leiðandi til æ minni losunar koltvíildis og ígilda þess.
Jafnframt myndu almenn orkugjöld, er legðust á öll orkunot, stuðla að minni orkusóun og á ýmsum sviðum beinlínis hvetja til hagnýtingar mannafls í stað oft óþarfs tæknilegs afls, enda væri það á ýmsum sviðum þjóðhagslega mun hagkvæmara en að greiða sívaxandi hópum af vel hæfu fólki örorku- og atvinnuleysisbætur eða sveitarfélagastyrk, alandi upp jafnvel heilu kynslóðir barna og unglinga sem ekkert þekkja nema örbirgð, fátækt og skort á uppfræðslu og ekkert blasir annars við en gamla farið sem foreldrarnir sitja fastir í.
Þetta er bláköld staðreynd í mörgum hinum fyrrum iðnaðarbæjum og borgum gömlu iðnríkjanna, hvað þá í Mekka fyrstu iðnbyltingarinnar, Bretlandi, og er einfaldlega sífellt vaxandi vandi út um allan hinn vestræna heim og þó að mun víðar væri leitað. Hvað þá nú sem fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína.
Öll mannaflsfrek en jafnframt mjög hátæknivædd sérsmíði eða raðsmíði tiltölulega fárra hluta – líkt og einkennir flugvélaiðnaðinn og margvíslega framleiðslu t.d. lækningatækja og ofurtölva og gerð háþróuðustu vélmenna – myndi tvímælalaust lækka í verði með orkudrifnu skattkerfi, enda vegur orkufrek mótun einstakra eininga svo lítið í samanburði við allt hugbúnaðar- og handverkið, svo sem hér hefur verið lýst.
Heildarorkan sem fer til efnabræðslu og frummótunar einstakra eininga í hverju tonni flugvélar, þá ekki síst áls, er vissulega allnokkru meiri en að baki hverju tonni bifreiðar en það breytir sáralitlu. Enda liggur reginmunur heildarframleiðslukostnaðar á þyngdareiningu í afar sjálfvirkri fjöldaframleiðslu bifreiðarinnar annars vegar, samanborið við að mestu leyti handunna samsetningu flugvélarinnar hins vegar, ásamt því að allt framleiðslueftirlit er miklu strangara og vinnuaflsfrekara í flugiðnaði en bílaiðnaði.
Hvað mun þá bíllinn kosta og kæliskápurinn, þvottavélin og þurrkarinn – og Boeing og Airbus?
Krefjist 1 bifreiðartonn 30.000 KWst til framleiðslunnar, að meðtaldri allri orku – vegna verksmiðja, framleiðsluflutninga, smíði á framleiðslubúnaði og fjöldamargs annars á öllum stigum – þá myndi heildarorkukostnaður miðað við 0,10 $/KWst jafnaðarverð vera um 3.000 dollarar.
Þetta væru um 20% af e.t.v. 15.000 dollarara heildarkostnaði vegna allra ferla aðfangakostnaðar, framleiðslu og sölu – afar gróft á litið. Jafnvel þó að samsvarandi orka til flugvélasmíði – til alls framleiðsluferlisins frá rótum, ásamt öllum orkuferlum prófana og sölu – væri áætluð þrefalt meiri á hvert tonn, um 90.000 KWst, þá myndi heildarorkukostnaður að baki 100 tonna þungri flugvél einungis nema um 9 milljónum dollara, sem væri um 6% af e.t.v. 150 milljóna dollara heildarframleiðslukostnaði vélarinnar.
Tvöföldun orkuverðs myndi því augljóslega skipta flugvélaframleiðandann fremur litlu máli, hvað þá í ljósi gríðarlegra kostnaðarlækkana af völdum afnáms tekjuskatta á öllum stigum, jafnt skatta af launum og rekstrartekjum, svo að næmi e.t.v. um fjórðungi, að alls óbreyttum ráðstöfunartekjum launþega og hreinum hagnaði af rekstri. Í ljósi þessa myndi orkukostnaður sem sagt hækka í 18 milljónir dollara en annar kostnaður lækka í 106 milljónir, m.ö.o. myndi heildarkostnaður lækka í um 124 milljónir dollara.
Framleiðandinn gæti því hæglega lækkað söluverð vélarinnar úr 150 milljónum dollara í 125 milljónir og þó varla alveg svo mikið, því að nú væri hyggilegt að verja meira fé en áður í þróunarkostnað, þá fyrst og fremst til að mæta afar háværum kröfum flugrekenda um lækkun eldsneytiskostnaðar flugvéla, enda hefði lítrinn af flugvélaeldsneyti hækkað úr hálfum dollara í jafnvel einn og hálfan, af völdum nýrrar álagningar almennra orkugjalda og mjög aukinna kolefnisgjalda um allan heim.
Framleiðandinn selur því vélina e.t.v. á 127 milljónir en ver á hinn bóginn um 3 milljónum dala af hverri seldri vél til að mæta æ harðari samkeppni um þróun framtíðarloftfara, er e.t.v. myndu vera rafknúnar efnarafalavélar með vetni eða vetnisberandi vökva fyrir orkubera sem framleiddur væri með endurnýjanlegum orkugjöfum (er væru þá hluti af þróunarferlinu), það myndi þó tíminn einn og aukið afl þróunarvinnunnar leiða í ljós...
Afar gróft á litið kann kostnaður við heildarrekstur hefðbundins farþegaflugs að skiptast svo: Eldsneyti 12% + afskriftir, fjármagnskostnaður og tryggingar 28% + viðhald, að drýgstum hluta launakostnaður, 20% + annar beinn og óbeinn heildarlaunakostnaður 40%. Alls = 12% + 28% + 20% + 40% = 100%.
Dæmið myndi aftur á móti líta svo út eftir nær þreföldun eldsneytisverðs, um sjöttungs lækkun afskrifta og fjármagnskostnaðar (af völdum lækkunar á innkaupsverði flugvéla) og u.þ.b. fjórðungs lækkun heildarlaunakostnaðar og brúttó rekstrarhagnaðar af völdum afnáms tekjuskatta:
Eldsneyti og allur annar orkukostnaður 33% + afskriftir, fjármagnskostnaður og tryggingar 22% + viðhald 15% + annar beinn og óbeinn heildarlaunakostnaður 30%. Alls = 33% + 22% + 15% + 30% = 100%.
Þrátt fyrir að flugfarmiðinn myndi sem sagt kosta svipað eftir sem áður þá væri eldsneytiskostnaður augljóslega orðinn langstærsti rekstrarliðurinn og háværar sparneytniskröfur flugrekenda á hendur framleiðendum þeim mun skiljanlegri.
Hefðbundið dæmi bifreiðaframleiðslu og sölu kann svo að líta þannig út: Samanlagður orkukostnaður á öllum stigum nemur e.t.v. um 20%, svo sem áður er getið, smíði og viðhald allrahanda fjöldaframleiðslutækni e.t.v. um 13%, framleiðsluvinnuafl 40%, starfsemi hönnunar-, þróunar- og markaðsdeilda 15%, og loks flutningskostnaður tilbúinna bifreiða og rekstur bifreiðaumboða víðs vegar um heim, e.t.v. um 12%.
Hafa ber í huga að orkunotkunin felur í sér innbyggða orku jafnt sem rekstrarorku á öllum stigum – orku vegna flutningabíla, flutningaskipa og lesta, líka vegna smíði þeirra og rekstrar, öll bein og óbein orkunot þróunar- og tæknideilda og söluskrifstofa nær og fjær, vegna smíði bygginga og alls búnaðar jafnt sem rekstrar allra deilda, einnig allra undirframleiðenda, sem og orku til smíði og rekstrar stórra sem smárra framleiðslutækja í verksmiðjum, sem og orkuna er fer til smíði orkuvera og iðjuvera, auk meginorkunnar sem varið er til tilbúnings allra frumeininga og mótunar þeirra. Allur annar kostnaður er í raun vinnuaflskostnaður, sé djúpt rakið.
Þetta á þó fyrst og fremst við um mjög háþróaða fjöldaframleiðslu, svo sem einkabíla, og þá ekki síður t.d. framleiðslu farsíma. Framleiðsla vörubíla, rútna og flutningatækja af ýmsu tagi er á hinn bóginn fremur háð ferlum raðsmíði en mjög vélmennavæddrar færibandaframleiðslu og er því yfirleitt heldur handvirkari, hvað þá sérsmíði eða raðsmíði báta og skipa, lestarvagna og vinnuvéla af ýmsu tagi, að ekki sé talað um flugvélar, þyrlur og sneiðmyndatæki.
En þeim mun minna sem orka og skattaleg orkufríðindi tekjudrifins skattkerfis vega á við vinnuafl í heildarframleiðsluferli – þeim mun frekar mun framleiðsla lækka í verði undir orkudrifnu skattkerfi.
Orkudrifið skattkerfi myndi reyndar stuðla að orkusparnaði á öllum stigum rekstrar og stuðla þar með að lækkun framleiðslukostnaðar á öllum sviðum. Framleiðendur myndu vera knúnir til af viðskiptavinum sínum – líkt og flugvélaframleiðendur – að framleiða sem sparneytnust farartæki og vélar og tól og sem næst laus við losun koltvíildis og ígilda þess – einmitt fyrir áhrif af orkugjöldum og álögðum kolefnisgjöldum.
Það myndi þá ekki nægja að bjóða upp á rafdrifnar bifreiðar einar og sér heldur hlyti kolefnishlutlaus orka að knýja jafnframt hverfla raforkuveranna – og þar með rafknúnar vélar bifreiðanna jafnt sem annarra tækja – í stað kola, jarðgass eða annars jarðefnaeldsneytis.
Heimilistæki á borð við eldavélar, kæliskápa, þvottavélar og þurrkara myndu vissulega fremur lækka í verði samanborið við einkabílinn, enda er iðnaðurinn þar að baki ekki alveg svo orku- og fjöldaframleiðsludrifinn sem einkabílaiðnaðurinn er.
Ekki síst myndi þó viðhalds- og viðgerðarkostnaður bifreiða jafnt sem heimilistækja, vinnuvéla og raunar nær allra hluta, í lofti, á láði og legi, lækka verulega í verði með afnámi tekjuskatta og lækkunin ekki síst stuðla að verulega bættri endingu og nýtingu hlutanna – sem sagt stuðla að varanleika.
Í síðari hluta, Herragarðurinn – orkan og almúginn, verður gerð enn frekari grein fyrir muninum á tekjudrifnum og orkudrifnum skattkerfum – hagkerfum. Hver sé í reynd munurinn á skammtímasjónarmiðum og sérhagsmunum orkuaðals út um allan heim samanborið við hrein langtímaviðmið er taka þó til mest alls almúga heims.