Mál og menning á Degi íslenskrar tungu

Herbert Herbertsson segist vera þeirrar skoðunar að ef varðveita eigi íslenskuna í sinni fegurstu mynd þá skuli hún fylgja latínunni.

Auglýsing

Ég bið lesendur þessarar greinar að taka henni með hógværð. Allra síst óska ég þess að einhver svari henni. Það mætti þó að taka hana til alvarlegrar íhugunar án allrar tilfinningasemi.

Ástæða þeirrar framhleypni minnar að fá þessar vangaveltur birtar er sú, að ég óttast að sú rómaða íslenska menning í bókstaflegri merkingu þess undirstrikaða orðs sé glötuð.

Hver er þá þessi glataða íslenska menning?

Ef við byrjum á byrjuninni, þá hlýtur íslensk menning að hefjast um leið og fyrstu mannlegu nýbúar þessa lands birtust hér fyrir um 1100 árum, eins og okkur hefur verið kennt. Sú menning sem þessir nýbúar tóku með sér, hlýtur þá að hafa verið evrópsk menning. Hvernig hún varð íslensk, hlýtur því að vera grundvöllur svarsins. Mér finnst að það hljóti að hafa verið þegar farið var að skrifa á því tungumáli, sem ráðandi hluti nýbúa talaði, að grundvöllurinn var lagður. Hið sér-íslenska menningargildi hefur þó ekki orðið til fyrr en einangrun landsins og stöðnun tungumálsins, borin saman við þau tungumál sem þá voru töluð í þeim löndum sem það var upprunnið úr, hafði gert það öðrum þjóðum óskiljanlegt. Það er hæpið að sér-íslensk menning hafi orðið til fyrir áhrif landsins sjálfs. Þeir nýbúar sem þá fluttu til landsins og þjóðin allar götur síðan hefur aldrei lifað í sátt við þetta land. Þótt þjóðin elski landið vegna fegurðar þess, hefur ósætti ávallt verið mikið milli þess og hennar. Hún hefur aldrei getað lifað af því eingöngu, eins og aðrar Evrópuþjóðir gátu yfirleitt í sínum löndum og Grænlendingar gátu af sínu landi. Hávaxnasti gróður landsins var allur brenndur niður í rót um leið honum var breytt í hita svo evrópsku landnemarnir gætu lifað af vosbúðina í þessu kalda landi. Þeir breyttu landinu að miklum hluta í eyðimörk við það að lággróðrinum var breytt í kindakjöt til átu og ull til hitunar köldum kroppum þeirra. Landið hefndi sín á landnemunum með eldgosum og ísavetrum. Skýrt dæmi um það að landið sjálft er ekki rót íslenskrar menningar, er sú staðreynd að ávallt þegar tók fyrir siglingar til landsins fóru landsmenn að deyja vegna þess að þeirra evrópsku magar fengu þá ekki þann mat sem ekki varð framleiddur handa þeim í þessu landi. Enn skýrari verður tilvísunin til þessa, þegar horft er á hversu öllu hrakaði hér í hvert sinn sem þjóðin komst úr andlegri snertingu við sína gömlu móður Evrópu. Öll okkar bestu skáld og frömuðir landsins urðu að bæta þjóðinni útlegðina  með því að dvelja langdvölum í Evrópu við að safna lífsgildi í sarpinn handa henni. 

Hvað er þá þessi íslenska menning?

Mín niðurstaða er sú, að ekkert sé íslensk menning nema þetta stórkostlega tungumál, sem við nefnum íslensku og var til skamms tíma talað af flestum í þessu landi. Þessu óviðjafnanlega tungumáli mátti helst líkja við fagran smíðisgrip, sem í næði útlegðarinnar frá Evrópu, hafði verið skorinn út og fægður svo ekki varð betur gert og var um leið slíkur listagripur að með honum mátti orða og færa í letur alla hugsun þjóðarinnar, svo að betur og fegurri hefur ekki verið gert í annan stað. Það er því nauðsynlegt að vernda þennan dýrgrip í sinni fegurstu mynd. Það verður þó tæpast gert nema með því að fjarlægja hann úr munni nútímaþjóðarinnar. Nú fara klaufar og klámhöggsmenn þeim höndum um þennan dýrgrip, að hann er vart þekkjanlegur lengur. Þessi niðurlæging íslenskunnar heitir á máli undirmálsmanna í ábyrgðarstöðum „þróun tungumálsins”.

Auglýsing
Íslenska nútímaþjóðin lifir í þeirri blekkingu, að hún tali enn þetta stórkostlega tungumál sem íslenskan var. Allir sem eitthvað vilja láta að sér kveða í þjóðmálum, menningarvitar og hæstráðendur landsins keppast við að mæra íslensku (reyndar á allt öðru tungumáli) og segjast vilja sjá veg hennar sem mestan. Það undarlega við þessa orðræðu er, að þetta lofaða tungumál er tæpast talað í landinu lengur. Ekki einu sinni af þeim sem hæst hafa um fegurð þess og gildi. Það væru þá helst fáeinir gamlir sérvitringar og fólk komið á elliheimili sem töluðu það. Þau lærðu það áður en skólar og heimili brugðust þeirri skyldu sinni að hafa þetta mál fyrir börnum. Því ef við ekki lærum málið sem börn og drekkum það bókstaflega í okkur með móðurmjólkinni, þá munum við aldrei læra það og um leið ekki heldur að skilja menningu þess. 

Minntist einhver á lifandi íslenska menningu? 

Íslenskur orðaforði flestra landsmanna í dag, er varla helmingur á við þann sem flestir áttu fyrir ekki nema um 60 árum síðan. Lesið texta í blöðum og bókum gefnum út á þeim tíma, og svo það sem skrifað er í dag. Ég minnist ekki á talað mál, eða þá breytingu sem þar er á orðin. Töluð íslenska í dag hefur oft þau áhrif á mig að ég hlæ, en fæ um leið hjartasting yfir örlögum hennar.  Íslenskar fallbeygingar orða eru orðnar ofvaxnar meiri hluta þjóðarinnar og misskilningur á merkingu orða er almennur.

Það er sjálfsagt orðið of seint að snúa við þessari hraðhnignun íslenskunnar, þ. e. íslenskrar menningar. Við sækjum nú hratt á vit upprunans og e. t. v. er það best. Erum við ekki einungis Evrópuþjóð sem villtist til fjarlægs og afskekkts lands og sem notuðum tímann í einangrun til þess að skapa okkar eigin sérstöku menningu sem bæði hverfðist um og opinberaðist í einu tröllvöxnu tungumáli? Löngu týnd eyþjóð í Kyrrahafi reisti menningu sinni mikil steintröll. Núna veit enginn hvaða þjóð þetta var og þaðan af síður hvaða menning fólst í því að þessi nú jarðsokknu steintröll voru reist. Þau eru þó merki um þjóð sem gat eitthvað mikið af sér. 

Mín skoðun er sú að viljum við varðveita íslenskuna í sinni fegurstu mynd þá skuli hún fylgja latínunni sem var annað tröllaukið tungumál. Hún skuli geymd í bókum og hana sé hægt að læra í æðri menntastofnunum fyrir þá sem yndi hafa af menningu hennar.

Réttast væri að taka þetta málræksni sem nú er talað í landinu úr notkun við hátíðlegt tækifæri, t.d. á næsta Degi íslenskrar tungu. Gefa ætti alla málnotkun frjálsa og láta það tungumál sem flestir aðhylltust verða ráðandi tungu í landinu. Mér þykir líklegt að það yrði illa töluð enska, en til hennar ber ég engar tilfinningar. Aðalatriðið er að allir skilji alla. Það væri líka til mikilla bóta fyrir Íslendinga almennt að enska yrði þeirra fyrsta tungumál. Það er í raun veruleg hindrun í heiminum í dag að tala ekki og skilja ekki til fullnustu enska tungu. Við yrðum ekkert minni Íslendingar þótt við töluðum ensku. Ekki frekar en Írar eru ekki minni Írar þótt þeir tali ekki gelísku. Aftur á móti eru þeim flestar leiðir greiðar í heiminum í dag með sinni móðurmáls ensku.

Svo ég teygi nú þessar vangaveltur lengra og leggi heimsmenningunni lið, þá væri það mikil framför og til stórkostlegrar hjálpar almennum skilningi, menningu og vináttu þjóða um allan heim, og um leið til höfuðs löngu úreltum þjóðarrembingi, hvaða tungumál sem þær töluðu. Sú framför væri ef allir gætu lesið allt sem skrifað væri í heiminum burtséð frá því hvort þeir skildu annað tungumál en sitt eigið. Það væri ef hljóðstafrófið (abc) væri lagt niður og í staðinn tekið upp táknmál eins og t.d. í Kína og Japan. Allur heimurinn í dag notar ákveðið táknmál sem allir skilja. Það er talnakerfið. Það vildu víst fáir  leggja það niður. Ef lesmálið væri einnig táknmál, þá skipti engu hvaða tungumál þú kynnir eða kynnir ekki, allt lesmál væri fullkomlega skiljanlegt öllum. 


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Skriður á rannsókn saksóknara og skattayfirvalda á meintum brotum Samherja
Bæði embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóri hafa yfirheyrt stjórnendur Samherja. Embættin hafa fengið aðgang að miklu magni gagna, meðal annars frá fyrrverandi endurskoðanda Samherja og úr rannsókn Seðlabanka Íslands á starfsemi fyrirtækisins.
Kjarninn 23. júní 2021
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
„Eðlilegt að draga þá ályktun að verðið hafi hækkað vegna áhuga á útboðinu“
Forsætisráðherra segir að það bíði næstu ríkisstjórnar að ákveða hvort selja eigi fleiri hluti í Íslandsbanka. Salan hafi verið vel heppnuð aðgerð.
Kjarninn 23. júní 2021
Jenný Ruth Hrafnsdóttir
Ísland - Finnland: 16 - 30
Kjarninn 23. júní 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Engin smit út frá bólusettum með virkt smit – „Hver er þá áhættan? Mikil eða lítil?“
Ellefu bólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á landamærunum. Engin smit hafa hins vegar greinst út frá þeim. Sóttvarnalæknir segir enn óvíst hvort smithætta fylgi bólusettum með smit en að hún sé „alveg örugglega“ minni en frá óbólusettum.
Kjarninn 23. júní 2021
Benedikt Jóhannesson hefur veifað bless við framkvæmdastjórn flokksins sem hann var aðalhvatamaðurinn að því að stofna.
Hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn og segir framgöngu formanns mestu vonbrigðin
Fyrrverandi formaður Viðreisnar telur að atburðarás hafi verið hönnuð til að koma ákveðnum einstaklingum í efstu sætin á lista flokksins á höfuðborgarsvæðinu og halda öðrum, meðal annars honum, frá þeim sætum.
Kjarninn 23. júní 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
ASÍ hvetur forsætisráðherra til að beita sér fyrir alþjóðlegum fyrirtækjaskatti
Verkalýðshreyfingin kallar eftir því að lagður verði á 25 prósent skattur á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja þar sem hann verður til.
Kjarninn 23. júní 2021
Viðskipti hófust með bréf Íslandsbanka í gær.
20 fjárfestar keyptu rúmlega helminginn af því sem selt var í Íslandsbanka
Búið er að birta lista yfir stærstu eigendur Íslandsbanka. Auk ríkisins eiga lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestingarsjóðir stærstu eignarhlutina. Margir einstaklingar leystu út hagnað af viðskiptunum í gær.
Kjarninn 23. júní 2021
Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort og þá hvenær farið verður að bólusetja börn við COVID-19 á Íslandi.
Ráðleggja óbólusettum – einnig börnum – frá ónauðsynlegum ferðalögum
Sóttvarnarlæknir segir þær ráðleggingar embættisins að óbólusettir ferðist ekki til útlanda gildi einnig fyrir börn. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um almenna bólusetningu barna.
Kjarninn 23. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar