Í janúar fylgdist ég grannt með fréttum frá Kína af kórónuveirunni enda með gistihúsarekstur sem mitt lifibrauð. Mér varð fljótlega ljóst, þrátt fyrir vonir um annað, að veiran fór að dreifa sér til annarra landa en allt virtist þetta þó saklaust í byrjun. Smitum fjölgaði hægt og þegar ég fylgdist með tölum á worldometer þá var skemmtiferðaskipið Diamond Princess lengi framan af með næst flest smitin á eftir Kína.
Í febrúar fara svo að berast fréttir af Ítalíu og þar var strax ljóst að illa gekk að hemja veiruna og smitum fjölgaði hratt. Þegar hér var komið sögu fóru að renna á mig tvær grímur. Líklega mátti gera ráð fyrir veirunni hér á landi enda kom það á daginn. Fólk streymdi frá Ítalíu í allar áttir og smit í hinum ýmsu löndum voru oftar en ekki rakin þangað. Hið sama gerðist á Íslandi, við fengum ítrekaðar fréttir af smituðum Íslendingum berandi veiruna heim frá Ítalíu eða Austurríki eftir skíðaferðir.
Ég las allar fréttir og allt um veiruna sem ég komst yfir og fylgdist mjög grannt með störfum þríeykisins. Fylgdi reglum og fyrirmælum í hvívetna og keypti handspritt og sápur og annað það sem mælt var með í baráttunni við veiruna. Ég límdi upp tilkynningar með fyrirmælum og reglum og dreifði blöðum á borð og fjarlægði allt ónauðsynlegt sem bauð upp á sameiginlega snertifleti.
En nú vildi svo einkennilega til að óvanalega margir af mínum gestum komu frá norður Ítalíu og Suður-Kóreu en frá Suður-Kóreu bárust líka fréttir af útbreiðslu veirunnar. Hvernig gat þetta gerst að húsið hjá mér var fullt af Ítölum aftur og aftur, Ítalir sem aldrei höfðu verið fjölmennir, virkilega óþægileg tilhugsun. Um mánaðamótin febrúar-mars komu til mín á milli 30-40 Ítalir. Ég var þess fullviss að nú myndi ég smitast og reksturinn stöðvast. Ég var í raun skelfingu lostinn og bannaði fjölskyldunni að heimsækja mig sem og vinum og vandamönnum og ég hitti engan úr þessum hópi í um 3 vikur. Ég sendi Landlæknisembættinu skammarpóst fyrir að loka ekki á landamærin á milli Íslands og Ítalíu og ef það væri ekki lagagrundvöllur fyrir slíkri lokun þá þyrfti að setja þrýsting á Icelandair að stoppa flug til og frá Ítalíu.
Ég lét mig þó hafa það að halda mínu striki varðandi gestina þótt ég hugleiddi vissulega þann möguleika að banna gesti eftir þjóðernum (líklega ólöglegt). Sem sagt, ég tók á móti mínum gestum en hélt fjarlægð og baðst undan því að heilsa með handabandi sem gat fallið í grýttan jarðveg. Oftast voru menn þó sáttir þegar ég gaf þá skýringu að ég tæki á móti mörgum gestum frá smituðum svæðum og væri þ.a.l. sá sem menn ættu að halda sig fjarri. Það kom fyrir að menn stigu skref aftur á bak þegar ég gerði grein fyrir sjálfum mér á þennan hátt.
Þann 15. júní opnuðu síðan landamærin aftur en þá var búið að setja inn þá reglu að allir þeir sem koma til landsins skulu í skimun við landamærin. Þegar þessi breytta tilhögun á landamærum var auglýst þá snarfækkaði afbókunum hjá mér eins og hendi væri veifað og það gleðilega gerðist að pantanir fóru að berast inn. Fáar fyrst í stað en síðan fjölgaði þeim jafnt og þétt og bættust við þær sem fyrir voru og ekki höfðu verið afbókaðar. Þannig að þrátt fyrir að júnímánuður væri afskaplega rólegur var hann þó ekki með öllu dauður. Júlí og ágústmánuður fóru síðan langt fram úr væntingum og þessi útfærsla á landamærunum var að mínu mati mjög góð lausn. Fá smit í landinu og Ísland kom sterkt inn þegar ferðamenn völdu sér áfangastað. Reyndar varð fjöldi ferðamanna það mikill að heilbrigðisstarfsmenn áttu fullt í fangi með sýnatökur og greiningar. Ég undi hag mínum ágætlega með þessa tilhögun á landamærum og leið mun betur um sumarið en í marsmánuði.
Í júlímánuði gerast síðan óvæntir hlutir. Í ljós kom að prófin voru ekki nógu áreiðanleg (u.þ.b. 80% áreiðanleiki) og hingað komu inn einstaklingar sem smituðu út frá sér þrátt fyrir að hafa fengið neikvæða niðurstöðu í landamæraskimun. En það áttu þeir allir sammerkt að þeir voru með íslenskt heimilisfang og því tengdir fjölskyldum, vinum eða vinnufélögum. Því var reglunum breytt og þann 13. júlí tóku gildi nýjar reglur á landamærunum. Þá þurftu þeir einstaklingar sem búsettir eru á Íslandi að fara í tvöfalda skimun með 5-6 daga heimkomusmitgát á milli. Þetta fyrirkomulag gafst vel og engin dæmi rötuðu í fjölmiðla um að einstaklingar í heimkomusmitgát smituðu út frá sér þrátt fyrir öflug tengslanet í samfélaginu.
Á sama tíma voru engin samfélagssmit rakin til ferðamanna og því var ákveðið að slaka á reglum hjá þeim. Þrem dögum síðar þ.e. þann 16. júlí taka því gildi nýjar reglur sem kveða á um að ferðamenn sem koma frá svokölluðum öruggum löndum þurfi ekki í skimun. Þetta þýddi tvennt, þ.e. að ferðamenn og íslendingar sem komu frá Danmörku, Þýskalandi, Noregi, Finnlandi, Færeyjum og Grænlandi þurftu ekki í skimun. Þetta gaf síðan yfirvöldum, þrátt fyrir álag við sýnatökur, kost á að hleypa öllum inn í landið sem hingað vildu koma og gefa þannig ferðaþjónustunni og tengdum aðilum súrefni.
Allt gekk þetta ágætlega og áfram voru smitin fá sem dreifðu sér hér innanlands. Eitt smit kom þó inn í landið sem rakið var af leiðsögumanni til ferðamanns. Ályktun dregin af líkum þar sem fáir komu til greina en líklega hafði viðkomandi ferðamaður fengið neikvæða niðurstöðu úr prófunum á landamærum. Í öllu falli voru ekki fleiri smit rakin til þessa ferðamanns. Löngu síðar fór þó af stað saga um tvo frakka en sú saga stenst enga skoðun, tímasetningar og samhengi gerir það að verkum að öllum má ljóst vera að hún er uppspuni. Líklegt verður að teljast að upphaf þriðju bylgjunnar hérlendis megi rekja til tímabilsins 10-15. september og að einhvern veginn hafi veiran sloppið inn í landið og þá miðað við fyrri reynslu, með einstaklingi með fasta búsetu hérlendis. Um er að ræða mjög útbreiddan veirustofn sem gæti t.d. hafa borist frá t.d. Englandi eða Frakklandi.
Í ágúst fer af stað önnur bylgja í Evrópu en íbúar þaðan gátu einir ferðast til Íslands að Grænlandi undanskildu. Það gerist eftir að slakað var á útgöngubanni sem undantekningalítið gilti í Evrópu eins og í langflestum löndum heimsins á meðan tekist var á við fyrstu bylgju faraldursins.
Mér leið ekkert of vel við að taka á móti óskimuðum Dönum og Þjóðverjum sem komu í stórum stíl á gistiheimilið enda engar skimanir á landamærum fyrir ferðamenn frá þessum löndum eftir 16. júlí. Ég gerði mér grein fyrir því að gera mátti ráð fyrir smituðum einstaklingum í þessum hópi, sérstaklega þegar maður horfði á tölur ágústmánaðar rísa frá degi til dags í þessum löndum. Mér fannst tími til komin að taka upp skimanir aftur fyrir alla þrátt fyrir að mér væri orðið ljóst að líkurnar á að ferðamenn smiti séu litlar. Enda kom það á daginn þ.e. júní, júlí og ágúst komu til landsins um 118.000 ferðamenn og einungis um að ræða eitt óstaðfest smit. Frá 15. Júní til 12 júlí greindust 12 smitaðir einstaklingar á landamærunum (ein skimun) og miðað við líkurnar á falskri neikvæðri niðurstöðu (20%) má gera ráð fyrir að 2-4 í þeim hópi sem skimaðir voru hafi farið í gegn smitaðir af veirunni og því frjálsir ferða sinna þrátt fyrir veikindi. Þá er ótalinn hópurinn sem kom inn í landið óskimaður en erfitt er að álykta um fjölda smitaðra þar.
En tölfræðin og reynslan yfir sumarmánuðina losaði mig við óttann um að ég væri í mjög mikilli smithættu. Ég áttaði mig á því að líkurnar á því að ferðamenn smiti eru hverfandi. Ferðamenn sem koma til landsins tímabundið til að kynna sér og upplifa náttúru og menningu landsins, ferðamenn án tengslaneta og stutt og stopul samskipti við heimamenn. Tölurnar segja allt sem segja þarf. Þekking og skilningur bar ótta og fordóma ofurliði. Ég var fljótlega komin á þann stað að ég var tilbúin að hitta mitt fólk þótt ég teldi það mun líklegra til að smita mig en öfugt.
Einhvern tímann í kringum 10-15. ágúst kom síðan tilkynning um að kynntar yrðu nýjar reglur á landamærum. Ég settist að sjálfsögðu niður fyrir framan sjónvarpið til að fylgjast með og mér féllust hendur þegar gerð var grein fyrir nýja fyrirkomulaginu. Frá og með 19. ágúst yrði miðað við tvær skimanir með 5—6 daga sóttkví á milli. Nánast búið að loka á landamærin með kröfu um sóttkví. Ég hélt í vonina um að mögulega væri eitthvað hægt að vinna með þessa útfærslu, fá fólk til að koma þrátt fyrir sóttkvína en þeir sem höfðu pantað hjá mér gistingu höfðu engan áhuga. Ég talaði við ferðaskrifstofur sem ég þjónusta en niðurstaðan var alls staðar sú sama. Sárasárafáir eru tilbúnir að sitja lokaðir í herbergi í 5-6 sólarhringa. Afbókanirnar flæddu inn og lítið sem ekkert hægt að gera til að spyrna við fótum.
Niðurstaðan frá þessum heimsfaraldri er að mögulega megi rekja eitt lítið hópsmit til ferðamanns en önnur smit verði að öllum líkindum rakin til einstaklinga með fasta búsetu hér á landi.
Í september og sérstaklega í október neitaði ég að fara til Reykjavíkur að hitta fjölskylduna enda smithræddur maður. Ég upplifði Reykjavík sem pestarbæli þar sem fólk færi lítt að tilmælum yfirvalda. Ég hélt mig því við gestina mína hér á gistiheimilinu enda stendur mér nákvæmlega engin ógn af þeim eftir að þeir eru búnir að fara í fyrri skimun, að ég tali nú ekki um þegar þeir hafa lokið báðum skimununum með neikvæðri niðurstöðu. Öðruvísi mér áður brá.
Höfundur er gistihúsaeigandi.