Ég hvet ykkur sem ekki hafið þegar lesið umfjöllun Kjarnans um hinn skelfilega atburð á Bræðraborgarstíg til að gera það. Hún er vönduð og yfirgripsmikil. Hún segir sögu af landinu sem við búum á, ekki aðeins söguna af einum harmleik. Hún segir söguna af aðdraganda harmleiksins, söguna af þeim samfélagslegu aðstæðum sem gerðu það að verkum að hópur fólks bjó í ónýtu húsi, söguna af samfélagi þar sem yfirvöld vissu af þessu ónýta húsi og fjölmörgum öðrum hýbýlum sem ekki eru fyrir fólk til að búa í en eru þó notuð sem mannabústaðir og gerðu ekkert; ekkert til að tryggja að allt fólk ætti rétt á mannsæmandi húsnæði. Vegna þess að til að gera það hefði fólkið með völdin þurft að ráðast að rótum vandans. Og það að ráðast að rótum vandans hefur ekki verið í boði í stjórnmálum samtímans.
Grotnandi innviðir eru óumflýjanlegur fylgifiskur þeirrar hugmyndafræði sem fengið hefur að tröllríða samfélagi okkar, nýfrjálshyggjunnar. Þeir eru ekki látnir grotna óvart. Nei, það er eitt helsta einkenni hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar að innviðir skuli grotna. Persónuleika-raskað fólk eins og Margaret Thatcher hrinti nýfrjálshyggjunni í framkvæmd á Vesturlöndum.
Fólk sem trúði því að samhygð og samvinna væru af hinu illa komst til valda og ruddu með forherðingu sinni brautina fyrir innleiðingu hagnaðarsjónarmiðsins sem hins eina sanna gildis í tilverunni. Löngunin í gróða skyldi vera leiðarljós allra, sama við hvaða aðstæður. Aðgangur að sameiginlegum gæðum skyldi verða skertur fyrir vinnuaflið og sameiginlegu gæðin bútuð niður og afhent annað hvort þeim sem þegar höfðu tryggan sess hátt í stigveldinu eða þeim sem sýndu nógu einbeitta löngum til að lifa eftir boðorðum hinna nýju náttúrulögmála. Vatn, loft, hugmyndir, náttúra, fólk og samfélag þess skyldi allt á „frjálsan markaðað“ til að seljast á og í söluferlinu skyldi manneskjan uppgötva sannleikann um sjálfa sig; annað hvort ertu tapari eða sigurvegari, annaðhvort fæddistu til að eiga eða eiga ekkert, mega eða mega ekkert.
Atburðir geta afhjúpað á augabragði með eins skýrum hætti og hægt er að hugsa sér sannleikann um samfélög. Náttúruhamfarir og farsóttir, og einnig eldsvoðar líkt og sá sem hér um ræðir rífa niður þau Pótemkín-tjöld sem reist hafa verið í kringum okkur. Við fáum að sjá og upplifa sannleikann um veröldina sem við lifum í, um hinn efnislega heim sem við dveljum í. Markaðsvæðing alls húsnæðis, afleiðing innleiðingar nýfrjálshyggjunnar og markaðsvæðing alls vinnuafls er undanfari brunans á Bræðraborgarstígs.
Leikreglur nýfrjálshyggjunnar gera það að verkum að fleira og fleira fólk var og er gert berskjaldað, sett í viðkvæma stöðu. Sú viðkvæma staða gerir það svo enn berskjaldaðra fyrir leikreglum nýfrjálshyggjunnar. Þú vinnur en getur ekki eignast. Þú vinnur og þarft að leigja. Þú vinnur fyrir launum sem eru mjög lág. Leigan í borginni sem þú býrð í er mjög há. Þú hefur ekki um annað að velja en að leigja í húsi sem enginn ætti að gera leigt út. En sá sem vill græða á því að leigja fólki ónýtt hús má það og þú mátt í raun ekki búa annars staðar en þar. Frelsi hins siðvillta til að vera gróða-sigurvegari í gróða-væddu samfélagi er mikilvægara en réttindi þín til að lifa frjáls undan því að vera sett í stórkostlega hættulegar aðstæður.
Láglaunastefna í dýrasta landi heims. Gríðarstór hópur af vinnuafli sem kemur til landsins að vinna í þeim iðnaði sem stjórnvöld hafa ákveðið að eigi að koma þjóðfélaginu upp úr Hrun-kreppu auðvaldsins. Algjört misræmi í valdastöðu verður til og af því leiðir hröðun á úrkynjun fulltrúa-lýðræðisins; eigendur fjármagns með beinan aðgang að stjórnvöldum annarsvegar og hins vegar eignalaust vinnuafl af erlendum uppruna með engin tengsl inn í sali valdsins, án kosningaréttar, án þess að tala tungumál landsins sem þau búa í. Verkalýðshreyfing sem hafði látið máttugasta vopnið sitt, reginafl fjöldasamstöðu vinnuaflsins, ryðga, og kunni ekki eða vildi ekki hlusta á raddir aðflutts verkafólks, á sama tíma og hún trúði því að sagan hefði endað og leikreglur nýfrjálshyggjunnar væru „fait accompli“.
Veldisvöxtur í viðkvæmni og varnarleysi
Félagsleg staða ræður á endanum öllu. Efnisleg og efnahagsleg staða manneskju stjórnar því hvað hún uppsker fyrir vinnu sínu og til hvers uppskeran dugar í samfélaginu. Mikilvægi manneskju í augum stjórnmála nýfrjálshyggjunnar byggir alfarið á því hvaða stétt hún tilheyrir. Eignastéttin fékk Leiðréttingu Silfurskeiðadrengjanna og á sama tíma fékk eignalaust vinnuaflið húsnæðismarkað kapítalískra leigufélaga, í borg þar sem að allt var gert til að afhenda eigendum uppsafnaðs kapítals land og eignir meðan að þúsundir bjuggu í iðnaðarhúsnæði eða í húsum eins og því við Bræðraborgarstíg. Uppsveifla auðstéttarinnar var alfarið á kostnað verkafólks, og mestan kostnað bar hið aðflutta.
Samtvinnuð (intersectional) afhjúpun á andstæðum stéttskipts samfélags: Tungumál og upprunaland. Borgari eða farandverkamanneskja. Eigandi atkvæðis eða lýðræðis-öreigi. Eignastétt eða vinnuafl; eins og Andreas Malm segir í bók sinni um Kórónafaraldurinn: „A populaiton is divided into classes, and further into genders, etnicities, age groups, citizens and migrants with antiethical positions: some wounded on the battlefield, others decked out in shinging armour and ready for anything ... “ Sum með aðgang að öllu sökum stöðu sinnar í stéttskiptu samfélagi og önnur, vegna jaðarsetningar og arðráns og jaðarsetningar vegna arðráns, í svo berskjaldaðri stöðu að ekkert er í boði annað en hús líkt og það sem brann. Berskjölduð þrátt fyrir að hafa með vinnuafli sínu skapað og viðhaldið brynju þeirra brynjuklæddu.
Húsið á Bræðraborgarstíg var dauðagildra spennt af samfélagsgerðinni sem við lifum við. Þau sem í húsinu bjuggu bjuggu í því vegna stöðu sinnar í stigveldi stéttskiptingar Reykjavíkur. Líkamar þeirra sem þar bjuggu og vinnuafl voru vissulega hluti af efnislegum raunveruleika borgarinnar en líf þeirra, orð, hugsanir, væntingar, réttur, réttindi voru ekki hluti af hugsunum þeirra sem fara með völd. Svoleiðis virkar stéttskipting. Hún gerir það að verkum að hin eignalausu hafa ekki aðgang að „réttindum“. Ekki aðgang að kerfum. Ekki aðgang að platformi. Ekki aðgang að völdum. Fólk býr hlið við hlið, í sömu borg en engu síður býr það í sitt hvorri veröldinni.
Á degi eldsvoðans barst reykurinn stutta leið frá Bræðraborgarstíg inn um glugga Alþingishússins, Speglasalarins og gluggunum var lokað. Um kvöldið fór forsætisráðherra á Twitter og skrifaði texta, ekki um harmleikinn heldur um sigur fótboltaliðs í útlöndum. Gluggarnir voru lokaðir, bæði í efnislega heiminum og heimi hugmyndanna. Dagurinn allur var óbærileg hryllingsdæmisaga um mannfólk inn í stéttskiptingunni.
Samfélagsgerðin og staða fólks inn í henni rammar inn alla atburði, umlykur þá. Við höfum allt of lengi sætt okkur við að láta sem við séum heimsk og skiljum ekki orsakir og afleiðingar, skiljum ekki hinn einfalda sannleika um grundvallar mikilvægi efnislegrar og efnahagslegrar stöðu fólks í öllu sem á sér stað í þeirra lífi. Hvar þú býrð er niðurstaða pólitískrar stefnu þjóðfélags; afskipta eða afskiptaleysis, allt eftir því hver þú ert og hvað þú átt. Ef að við ætlum okkur að gera það sem hægt er til að koma í veg fyrir harmleiki eins og þann á Bræðraborgarstíg þurfum við að hætta að þykjast vera heimsk. Við þurfum að gerast meðlimir í „the reality based comminity“.
Við þurfum að viðurkenna raunveruleikann, hinn efnislega raunveruleika sem við búum í frá fæðingu til dauða. Aðeins þegar við erum búin að því getum við hafist handa við að breyta honum. Raunverulega breyta honum. Raunverulega ráðast að rótum vandans sem gera það að verkum að svo mörg okkar eru berskjölduð fyrir hörmungum; stéttskiptingunni og misskiptingunni.
Ég er Kjarnanum þakklát fyrir að gera sitt til að útskýra samfélagið okkar. Ég trúi því að þegar nógu mörg okkar ná að viðurkenna efnislegan veruleika arðránssamfélagsins getum við sameinast í að breyta honum. Ég vona að sem flest lesi.
Höfundur er formaður Eflingar.