Í síðustu viku birti Landsbankinn hagspá þar sem hækkun launavísitölunnar á síðustu mánuðum var sögð vera „óneitanlega dálítið sérstök“ sökum efnahagskreppunnar sem ríkir núna. Samtök atvinnulífsins (SA) sendu einnig frá sér svipaða greiningu degi síðar þar sem því var haldið fram að það heyri líklega til undantekninga að svona miklar launahækkanir mælist á sama tíma og atvinnuleysi eykst svona skarpt.
Hér virðist hafa orðið einhver misskilningur í báðum greiningardeildunum. Hækkun meðallauna og launavísitölunnar ætti alls ekki að koma á óvart þessa stundina, heldur er hún bein afleiðing af yfirstandandi efnahagsástandi. Með öðrum orðum: Launin hafa ekki hækkað þrátt fyrir kreppuna heldur einmitt vegna hennar.
Meðallaun hækka þegar botninn hverfur
Hægt er að fá nokkuð góða mynd af áhrifum kórónukreppunnar á vinnumarkaðinn með því að skoða fjölda starfa eftir atvinnugreinum. Samkvæmt þeim hafa flest störf tapast í ferðaþjónustu, og þá sérstaklega í rekstri veitingastaða og gististaða.
Þetta eru ekki vel launuð störf ef miðað er við aðrar atvinnugreinar hér á landi. Í tölum Hagstofunnar kemur fram að miðgildi launa í störfum sem snúa að rekstri veitinga- og gististaða er heilum fjórðungi lægra en miðgildi allra launa á vinnumarkaðnum. Búast má við að mörg önnur störf í ferðaþjónustunni hafi einnig verið láglaunastörf, þar sem þau kröfðust sjaldan mikillar menntunar eða annars konar sérhæfingar.
Áður hefur verið fjallað um áhrif kreppunnar á láglaunastörf, en þau eru ástæða þess að ójöfnuður muni líklega aukast í náinni framtíð. Atvinnuleysi er mun meira meðal ýmissa tekjulágra hópa, til dæmis ungs fólks, námsmanna og erlendra ríkisborgara.
Það er eðlilegt að meðallaun hækki þegar láglaunastörfum, sem annars myndu draga meðaltal launa niður, fækkar. Á sama hátt væri það eðlilegt að meðalhæð á vinnustöðum ykist ef lágvaxnir væru ekki taldir með. Þróunin á vinnumarkaði er því ekkert sérstök að þessu leyti, heldur viðbúin þegar efnahagskreppa herjar á tekjulága.
Þetta er ekki 2008
SA færa rök fyrir staðhæfingu sinni um að launahækkunin í ár sé óeðlileg með því að bera hana saman við þróun launa í kjölfar bankahrunsins árið 2008, þar sem vísitala þeirra lækkaði skarpt á meðan atvinnuleysi jókst til muna.
Slíkur samanburður er hins vegar nokkuð varasamur, þar sem eðlismunur er á kreppunni árið 2008 og þeirri sem hófst núna í vor. Kreppan eftir hrunið var fjármálakreppa sem kom verst niður fólki sem vann í fjármálageiranum og á eignafólki sem hafði getað tekið sér lán fyrir annað hvort bíl eða íbúð í góðærinu á undan.
Stærsta tekjufallið í þeirri kreppu var því í atvinnugreinum þar sem milli- og hátekjufólk starfaði, ekki lágtekjufólk. Þannig jókst tekjujöfnuður hér á landi, eins og sjá má í mælingum Hagstofu á svokölluðum Gini-stuðli á tímabilinu. Önnur afleiðing af þessari þróun var sú að launavísitalan lækkaði, eins og búast má við þegar launagreiðslur í vel launuðum störfum lækka.
Ekki ein á báti
Í ljósi þess að Landsbankinn og SA telja launahækkanir undanfarinna mánaða vera sérstakar er ágætt að benda á að Ísland er ekkert einsdæmi, nákvæmlega sama þróun hefur átt sér stað í öðrum löndum sem reiða sig í miklum mæli á þjónustustörf.
Samkvæmt tölum frá Eurostat jókst launakostnaður í Evrópusambandinu um fimm prósent á öðrum fjórðungi þessa árs og er það töluvert meiri hækkun en venjulega. Myndin hér að ofan sýnir einnig hvernig launakostnaður hefur hækkað í þeim Evrópulöndum þar sem hlutfall ferðaþjónustu af landsframleiðslu er hæst, þ.e. á Íslandi, Spáni, Króatíu og Frakklandi. Í öllum löndunum jókst launakostnaður töluvert á öðrum fjórðungi þessa árs, þegar fyrsta bylgja faraldursins var í fullum gangi.
Ísland sker sig ekkert úr þessum hópi landa. Launakostnaðurinn jókst mun meira á Spáni heldur en hérlendis, en það má að öllum líkindum rekja til þess að tekjufallið var meira innan þjónustugeirans þar í landi vegna strangs útgöngubanns sem sett var á í vor. Í Frakklandi og Króatíu má svo sjá minni hækkun, en þó var hún meiri eftir að faraldurinn skall á heldur en í byrjun árs.
Launakostnaðurinn er ekki vandamálið
Í greiningu sinni segja SA að frekari launahækkanir séu ekki boðlegar í núverandi efnahagsástandi, þar sem fyrirtæki hafi ekki bolmagn til þess að verða við þeim. Vissulega eru mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu og í veitingarekstri á barmi gjaldþrots og gætu ekki starfað ef launakostnaður hækkar enn frekar í núverandi ástandi. Hins vegar liggja aðrar ástæður á bak við rekstrarerfiðleika þeirra heldur en launakostnaður.
Það er nefninlega ekki svo að eigendur veitinga- og gististaða hafi orðið gjaldþrota á síðustu mánuðum vegna ört hækkandi launakostnaðar þeirra, þvert á móti. Samkvæmt Hagstofu lækkuðu laun starfsmanna í geiranum að raungildi á öðrum ársfjórðungi, þar sem hún náði ekki að hækka í takt við verðbólgu. Launahækkanirnar eiga sér aftur á móti stað í atvinnugreinum þar sem fyrirtækjunum gengur tiltölulega vel, til dæmis hækkuðu laun starfsmanna í vátrygginga- og fjármálastarfsemi um 7 prósent umfram verðbólgu á tímabilinu.
Þar sem launavísitalan ber saman laun sama einstaklings í sama starfi er því ekkert óeðlilegt að hún hafi hækkað á síðustu mánuðum, þar sem einungis afmarkaður hópur fólks hefur lækkað í launum. Hækkun vísitölunnar er frekar birtingarmynd þess mikla ójafnaðar sem kreppan skapar. Ekki er að sjá úr hagtölum að laun starfsmanna í þjónustugeiranum hafi hækkað úr hófi fram, heldur virðast þau standa í stað á meðan öðrum atvinnugreinum gengur miklu betur.
Höfundur er ritstjóri Vísbendingar og blaðamaður á Kjarnanum.
---
Aths ritstjórnar kl.09:18 : pistlinum var breytt lítillega vegna athugasemda um uppbyggingu launavísitölunnar.