Covid fær marga til að telja best að pakka í vörn og skipta yfir í sjálfsþurftarbúskap. Svipað var uppi eftir fjármálahrunið fyrir áratug þegar lopapeysur skutust upp á vinsældalistunum.
Þegar betur er að gáð mun hjálpin koma að utan nú eins og fyrr. Í þetta skiptið í formi þekkingar á meðhöndlun smitsjúkdóma og bóluefnis sem mun gera okkur ónæm fyrir veirunni. Eftir bankahrunið kom hjálpin í formi þekkingar á viðbrögðum við fjármálahruni og straumi ferðamanna sem færðu með sér skjótan efnahagsbata.
Nú krefjast hagsmunaverðir landbúnaðarins þess að nýfengnir tollkvótar fyrir mat verði afnumdir sem mun leiða til hærra matarverðs. Svo dynja á okkur lambakjöts auglýsingar. Við eigum víst að borða það af því sauðkindin hafi bjargað okkur frá hungri gegnum aldirnar.
En einangrun og einokun er ekki lausnin. Það fer langbest á því að eiga góð viðskipti og samskipti við umheiminn.
Niðurfelling eða stórminnkun tollkvóta mun leiða til hærra matvælaverðs, hækkunar verðtryggðra lána og þess að hollusta verður dýrari. Það kæmi fátækustu neytendunum verst.
Covid er tímabundið ástand
Neytendur hafa að undanförnu loks séð glitta í verðlækkanir vegna aukinna tollkvóta fyrir kjöt og mjólkurvörur frá Evrópu. Framboðið hefur aukist og verð lækkað. Á sama tíma hafa ferðamenn nánast horfið af landinu með gríðarlegu tekjutapi fyrir launafólk. Saman hefur þetta leitt til ójafnvægis á matvælamarkaði og verðlækkana sem kemur neytendum vel í kreppunni.
Eðlilega bregður innlendum framleiðendum við þetta. En þeir eru ekki þeir einu sem hafa orðið fyrir búsifjum vegna Covid. Það skýtur skökku við að nú í miðju mesta atvinnuleysi í manna minnum skuli hagsmunaverðir landbúnaðarins krefjast niðurfellingar tollkvóta og að endursamið verði við ESB, svo matvælaverð hækki aftur.
Það rætist víst úr á næsta ári
Því er spáð að á næsta ári fjölgi ferðamönnum hratt. Þá mun eftirspurn aukast og verð til framleiðenda hækka. Þangað til ætti ríkissjóður að hjálpa kjöt- og mjólkurvöruframleiðendum með svipuðum hætti og öðrum atvinnurekstri. Er það ekki nær heldur en að leggja auknar byrðar á neytendur?
Ef samningar við ESB um tollkvóta verða teknir upp núna vegna tímabundins ástands mun það valda neytendum óbætanlegu tjóni. Bændur munu berjast fyrir höftum þó að eftirspurn eftir matvælum vaxi, af því það er innbyggt í kerfið.
Við getum bætt hag bæði neytenda og bænda með kerfisbreytingu
Í Evrópu er verslun með matvæli frjáls milli landa. Sú skipan tryggir neytendum gott framboð og samkeppnishæf verð og við færumst nær lífskjörum í Evrópu. Við ættum að fara eins að, það er fella niður matartollana og veita bændum í staðinn veglegan stuðning óháð hvaða grein landbúnaðar þeir stunda. Þannig virkjum við markaðsöflin til að bæta bæði hag bænda og neytenda.
Meira að segja ríku löndin Noregur og Sviss styrkja og vernda sinn landbúnað ekki eins mikið og við. Hér kostar flest mikið og það er ekki á það bætandi með auknum tollum á matvæli. Lægra matarverð kemur sér betur fyrir fátæka neytendur en að standa í biðröðum eftir matargjöfum, þótt þær komi úr Skagafirði.
Ísland er meðal dýrustu landa í heimi og það er ekki á það bætandi með auknum tollum á matvæli. Við eigum frekar að hjálpast að í gegnum kreppuna og stefna í átt að samkeppnishæfara og betra Íslandi fyrir okkur og þau sem sækja okkur heim.
Gleðilega aðventu allir.
Höfundur er viðskiptafræðingur og í stjórn Neytendasamtakanna.