Hraðar, betra og ódýrara. Með öðrum orðum skilvirkara. Þetta er mantran á öllum sviðum innan viðskipta og fyrirtækja. Að meðaltali er um 11,4% fjárfestinga sóað vegna lélegra innleiðinga verkefna en tölur um skipulagsheildir sem vanmeta mikilvægi verkefnastjórnunar sýna að um 67% fleiri verkefna þeirra mistakast. Fyrirtæki nota margar stefnur til að auka skilvirkni starfseminnar, t.d. Lean, Agile o.s.frv. En hvað með notkun tengslaneta? Nýleg rannsókn sýnir að vaxandi flækjustig og umfang verkefna krefst sífellt meira samstarfs fyrirtækja til að ná markmiðum. Ávinningurinn flest í því að fleiri aðilar koma að borðinu með sína sérþekkingu sem stuðlar að sameiginlegum lærdómi um hvernig best er að framkvæma verkefnin. Það stuðlar einnig að betri nýtingu auðlinda, bætir getuna til að takast á við flókin vandamál, veitir viðskiptavinum betri þjónustu og eykur samkeppnishæfni skipulagsheildanna í tengslanetinu.
Við vitum að ýmis fyrirtæki vinna ítrekað saman til að framkvæma ný verkefni. Hvernig eru þessi tengslanet mynduð? Hvað gengur vel og hvað ekki? Hvað veldur því að sum fyrirtæki vinna síendurtekið með sama tengslanetinu en önnur gera það ekki? Hvernig geta stjórnendur tengslaneta stjórnað þeim á áhrifaríkari hátt og aukið þannig skilvirkni þess í verkefnum?
Þrír kvenkyns rannsakendur ætla að svara þessum spurningum og öðrum sem snúa að mjög karlægri atvinnugrein – byggingariðnaðinum. Helga Kristín Gunnlaugsdóttir og Þórdís Arnardóttir eru báðar meistaranemar í verkefnastjórnun í Háskóla Íslands undir leiðsögn Ingu Minelgaité prófessors við viðskiptafræðideild skólans og taka þátt í alþjóðlegri rannsókn sem leidd er af Ralf Müller, prófessor í verkefnastjórnun við BI viðskiptaháskólann í Noregi. Ralf er leiðandi í rannsóknum á alþjóðlegri verkefnastjórnun og margverðlaunaður fyrir störf sín og framlag á því sviði. Þau lönd sem taka þátt eru Ísland, Litháen, Noregur, Ástralía, Kanada og Kína og verður gerður samanburður á milli stjórnunar tengslaneta í þessum löndum.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á tengslanetum en eftir því sem við best vitum hafa engar rannsóknir verið gerðar á langtíma ávinningi þess að notast við sama tengslanetið í verkefnum. Þessi rannsókn er því sú fyrsta sinnar tegundar sem snýr að stjórnun tengslaneta í byggingariðnaði á Íslandi þar sem sömu skipulagsheildir vinna til lengri tíma, síendurtekið saman, og er ætlunin að rannsaka ávinning af þess konar samstarfi. Þessi alþjóðlega rannsókn mun veita aðilum í byggingariðnaðinum leiðbeiningar um hvernig þeir geta á sem bestan hátt hannað sitt tengslanet og stýrt því í verkefnum sínum.
Það er enn of snemmt að tala um niðurstöður en viðtölin sem við tókum benda til þess að fyrirtækjum þykir gott að vinna ítrekað með sömu aðilum. Byggingarhraði verður sífellt meiri og hafa viðmælendur talað um að aukin áhersla sé á skilvirkni og hagkvæmni á sem stystum tíma. Með aukinni áherslu á byggingarhraða skiptir traust miklu máli því það er lítið svigrúm fyrir mistök. Menn vilja meina að traust skapist milli aðila þegar fólk vinnur endurtekið saman og því skipti gott tengslanet megin máli.
Það verður því áhugavert að sjá hvort að niðurstöður þessarar rannsóknar bendi til að aðilum sem vinna í sama tengslanetinu aftur og aftur takist að bæta getu sína og auka lærdómi sinn á því hvernig best er að framkvæma verkefnin. Það verður einnig fróðlegt að sjá hvort að ávinningurinn er meiri þegar unnið er með sama tengslanetinu til lengri tíma. Við vitum að aðilar í byggingariðnaðinum vinna ítrekað saman en það er óljóst hvort að stjórnendur tengslanetanna eru meðvitaðir um þann ávinning sem getur hlotist af slíku samstarfi og er það einmitt það sem við erum að rannsaka.
Niðurstöðurnar mætti svo auðveldlega yfirfæra á aðrar atvinnugreinar þar sem fyrirtæki treysta á verkefnamiðað samstarf sín á milli. Með því að nýta sér þær geta fyrirtæki bætt þekkingu sína og skilning á eigin tengslanetum og aukið líkurnar á því að markmiðum varðandi kostnað, tíma og umfang verkefna sé náð.
Inga Minelgaité er prófessor við viðskiptafræðideild HÍ. Helga Kristín Gunnlaugsdóttir og Þórdís Arnardóttir eru meistaranemar í verkefnastjórnun.