Árið 2020 verður minnst varla minnst fyrir margt annað en þann veirufaraldur sem herjað hefur á okkur með skelfilegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki. Of margir hafa misst nákomna, aðrir hafa misst atvinnu, fyrirtæki farið í þrot og mörg önnur berjast í bökkum en ljós er í myrkrinu þar sem tekist hefur að framleiða bóluefni.
Þótt ástæða sé til að vera bjartsýnn eftir að bóluefnið fer að virka þá er líka mikilvægt að vera raunsær. Ég held að árið 2021 verði okkur einnig erfitt þar sem viðsnúningur efnahagslífs heimsins verður hægur en vonandi öruggur. Þegar þetta er ritað er nýbúið að tilkynna að ríkisstjórninni hafi mistekist að útvega allt það bóluefni sem til stóð nú um áramótin. Sóttvarnarlæknir lýsir því yfir á sama tíma að hann telji að vandinn verði viðvarandi langt fram á árið 2021 þar sem hægar mun ganga að skapa hjarðónæmi. (Vegna þess að of lítið af bóluefni berst).
Gangi það eftir mun alvöru bati ekki verða fyrr en í fyrsta lagi 2022 og þá er líka komið að skuldadögum fyrir ríkissjóð sem safnað hefur gríðarlegum skuldum þetta árið og mun gera á því næsta.
Hafa má skilning á skuldasöfnun vegna veirunnar en um leið verðum við að muna að þessar skuldir þarf að greiða. Það verður þó hægt, ekki síst vegna þess að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs 2013 – 2016 lét kröfuhafana greiða hundruð milljarða í ríkissjóð sem annars hefði farið úr landi og í vasa hrægammanna. Að því búum við í dag.
Vandinn væri því margfalt stærri ef ekki hafði komið til þess. Sú ríkisstjórn sem tekur við eftir næstu kosningar þarf að taka á þessum vanda, eða hvað?
Sú ríkisstjórn sem nú situr ætlaði að skapa pólitískan stöðugleika. Það hefur að mestu gengið eftir þar sem mjög lítið hefur verið afrekað. Mesta vinnan hefur farið í að halda ríkisstjórnarflokkunum saman um það að gera ekki neitt því auðvitað eru freistingar meðal þingmanna og stuðningsmanna þeirra til að fylgja því sem flokkarnir raunverulega vilja ná fram. Nú er svo komið að málin sem hafa verið afgreidd, og þau eru ekki fá, bera þess merki að stjórnarflokkunum er orðið sama um þau grundvallargildi sem skildi þá að eitt sinn.
Nú eru þau orðin góðu vön og farin að undirbúa sig fyrir það að halda áfram að loknum næstu kosningum. Jú, nú sjáum við nokkra þingmenn „fá að spreyta sig“ á gömlu gildum til þess að kjósendur munu hvað þeir stóðu eitt sinn fyrir í von um að kjósendur gleymi kjörtímabilinu. Mistök ríkisstjórnarinnar á því hvernig tekið var á kórónuveirufaraldrinum eru mikil. Sérstaklega í upphafi. Ríkisstjórnin hefði átt að muna, að til þess ná tökum á svo stórum vanda yrði að taka stórar ákvarðanir hratt.
Við í Miðflokknum lögðum strax til að ríkisvaldið myndi taka vandann í fangið m.a. með því að frysta í raun allt efnahagsumhverfið. Lög átti að setja sem veittu fyrirtækjum og einstaklingum skjól meðan verið væri að átta sig á stærð vandans og leita lausna. Þetta lögðum við til, m.a. í auglýsingum í blöðum, því ríkisstjórnin vildi ekki ræða við stjórnarandstöðuflokkana um þeirra hugmyndir.
Með þessu móti hefði keðjan öll t.d. frá leigjenda til lánadrottins, frá launagreiðenda til lífeyrissjóðs, ekki rofnað. Neyðarlög átti að setja ekki ósvipað og 2008 enda áfallið núna síst minna.
Ríkisstjórnin fór frekar í smáskammtalækningar sem vissulega hafa hjálpað sumum en of margir hafa misst sinn rekstur, atvinnu og heimili. Ekki nóg með það heldur er lánadrottnum (bönkum, leigufélögum, leigusölum, lífeyrissjóðum, sveitarfélögum ofl.) falið að leysa vandann með sínum hætti.
Draumórar ríkisstjórnarinnar um að halda völdum, sem er augljóslega markmið hennar miðað við veiklulegar æfingar þingmanna hennar til að sýna „sjálfstæði“, gerir það að verkum að við spyrjum okkur hvort hún ráði við verkefni næstu ára. Svarið við því er nei.
Áður en faraldurinn skall á var þegar búið að opna fyrir útflæði fjármuna úr ríkissjóði. Flokkarnir sem skipa ríkisstjórnina bera ábyrgð á gríðarlegri útþenslu ríkissjóðs síðustu áratugi þar sem umsvif ríkisins hafa aukist í samræmi við það. Þessa útþenslu þarf að borga fyrir og það gera að uppistöðu tveir hópar: Einstaklingar og fyrirtækin í landinu. Skattar munu því ekki getað lækkað á næstu árum, þótt ríkisstjórnarflokkarnir munu halda því fram, nema náð verði tökum á sjálfvirkri stækkun ríkissjóðs. Skera þarf verkefnin niður og koma þeim til einkaaðila eins mikið og mögulegt er.
Einstaklingar, lítil og meðalstór fyrirtæki munu því áfram þurfa að halda uppi ríkissjóði i stað þess að nota þá fjármuni sem þau búa til, til þess að vaxa, fjárfesta og fjölga starfsmönnum.
Þessu má breyta ef vilji er til. Með því að stöðva útþenslu ríkissjóðs, því þá er hægt að lækka skatta en jafnframt halda úti öflugu velferðarkerfi.
En hvernig minnkum við ríkisbáknið? Til þess eru margar leiðir. Ég hef bent á að með því að ráða ekki í störf, sem losna vegna lífeyristöku ríkisstarfsmanna, megi spara milljarða jafnvel þótt ráðið sé í þau störf sem hagræðing eða tæknibreyting getur ekki komið í staðin fyrir. Sameina og eða leggja niður stofnanir og færa verkefni til einkaaðila. Hætta með þann risarekstur sem Ríkisútvarpið er í dag, mögulega mætti halda Rás 1 eftir. Færa verkefni til einkaaðila, nýta tækninýjungar og sjálfvirkni, einfalda reglur, eftirlit ofl.
Snúa þarf frá ríkisvæðingu og leysa kraft og samtakamátt einstaklinganna úr læðingi um leið og við einföldum ofvaxið ríkiskerfið. Einstaklingurinn þarf frelsi og hvetjandi umhverfi til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Við þurfum að leggja af græna skatta en taka upp græna hvata og styrkja þannig gróandann í hagkerfinu í stað þess að reyna að skattleggja okkur út úr vandanum.
Við í Miðflokknum ætlum að takast á við þessi verkefni af skynsemi og staðfestu því við trúum því að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi.
Gleðileg jól.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins.