Þakklæti er tilfinningin sem ég vil öðru fremur geyma í huga mér þegar ég minnist ársins 2020. Vissulega hefur það fært okkur áskoranir, sorgir og söknuð en það hefur líka minnt okkur á það sem skiptir máli og fengið okkur til að hugsa daglegt líf upp á nýtt.
Árið hefur dregið það fram sem jafnaðarmönnum hefur löngum verið ljóst, sem er að öflugt, opinbert heilbrigðiskerfi og almannaþjónusta er ein mikilvægasta forsenda jöfnuðar. Þau samfélög sem hafa byggt upp slík kerfi verða ekki fyrir jafn miklu höggi þegar glímt er við vá á borð við heimsfaraldur.
Í ár höfum við flest ferðast minna en áður, sjaldnar notið samvista við vini og haft mun færri tækifæri til afþreyingar á meðal fólks á opinberum vettvangi. Samt sem áður hafa samskipti og umhyggja í garð annarra einkennt þetta ár. Sjaldan hafa alþjóðleg samskipti verið jafn mikilvæg, sjaldan hefur þurft að huga jafn vel að því að almenningur fái góðar upplýsingar og sjaldan höfum við þurft að neita okkur um svo margt sem okkur langar því við vitum að aðeins þannig eru hagsmunir heildarinnar tryggðir – og þar með okkar eigin.
Úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar
Árið 2020 hefur líka minnt okkur líka á mikilvægi þess að byggja upp græna framtíð með nýjum lausnum. Nú þegar við tökumst á við afleiddar afleiðingar kórónaveirunnar, á borð við fjöldaatvinnuleysi og tekjufall, þarf að huga að því að aðgerðir okkar skili samfélaginu nýjum störfum, örvi efnahagslífið og að samfélagið standi þar með sterkara og grænna eftir efnagsþrengingar en það var fyrir með því að byggja upp innviði. Með slíkum nálgunum munum við meðal annars eignast sjálfbærari og öflugri ferðaþjónustu sem getur betur þjónustað gesti okkar og fyrirtæki betur, byggt upp betri og umhverfisvænni samgöngur, gert vinnustaði okkar að sveiganlegri stöðum og svo mætti lengi telja.
Reykjavíkurborg hefur þegar kynnt Græna planið, eins og viðbragðsáætlun borgarinnar kallast, og þingflokkur Samfylkingarinnar hefur svo kynnt Ábyrgu leiðina – úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar.
Með samstilltu átaki sigrumst við á stórum áskorunum
Árið 2020 sýndi okkur að fólk er tilbúið að breyta lífi sínu með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Við gerum okkur nefnilega flest grein fyrir því að með því að verja þá veikustu erum við að verja samfélagið allt áföllum. Sú samstaða sem við höfum séð í þessum efnum gefur von um að með samstilltu átaki munum við einnig geta tekist á við stærri ógnir en heimsfaraldurinn – já, ég er að tala um loftslagsvána. Ríkustu 10 prósent heimsins eru ábyrg fyrir helmingi allrar losunar á gróðurhúsalofttegundum en fátækustu þjóðir heims verða harðast fyrir barðinu á loftslagsbreytingunum sem losunin hefur í för með sér. Umhverfismál verða því ekki aðskilin baráttunni gegn ójöfnuði og öll framtíð byggir á því að okkur takist vel til í þeirri baráttu.
Árið 2020 sýnir okkur að pólitík sem byggir hugmyndafræði sína öðru fremur á jöfnuði, sjálfbærni og friðsamlegum alþjóðlegum samskiptum er líklegri til að koma sveitarfélögum, þjóðum og mannkyni í gegnum áföll en sú pólitík sem byggir á einstaklingshyggju og hugmyndafræðilegri einangrun.
Verjum mikilvæga nærþjónustu sveitarfélaga
Efnahagsáætlanir jafnaðarmanna miða að því að fjölga störfum eins hratt og hægt er með velferð fólks og sjálfbærni í atvinnulífi að leiðarljósi. En um leið boða áætlanir Samfylkingarfólks leiðir til að taka á bráðavanda fjölskyldna og einstaklinga, svo sem með hækkun grunnbóta og almannatrygginga. Við viljum líka hindra uppsagnir og verja velferð en til þess að svo megi verða þarf ekki aðeins að bæta fyrirtækjum tekjufall heldur þarf einnig að huga að tekjufalli sveitarfélaga. Það eru sveitarfélögin sem halda utan um margar af þeim stofnunum sem varða almenning hvað mestu, svo sem leik- og grunnskóla, velferðar- og félagsþjónustu, menningarstarfsemi, þá má líka nefna sameiginlegar heilsulindir, á borð við sundlaugar, almenningsgarða og útivistarsvæði.
Hagsmunir samfélagsins alls byggja á því að sveitarfélög geti staðið undir sínum mikilvægu skuldbindingum gagnvart almenningi. Ríkisvaldið verður að taka mið af þeirri staðreynd að ef ekki er komið til móts við tekjufall sveitarfélaga gæti stórfelldur niðurskurður víða blasað við sem svo myndi hafa í för með sér enn meira atvinnuleysi og skert lífsgæði fólks.
Niðurskurður til hins opinbera er skyndilausn sem hugmyndasnauðum stjórmálamönnum er tamt að nefna án þess að hugsa út í langtímaafleiðingarnar. Ég er þakklát fyrir að fá að tilheyra stjórnmálaafli sem hugsar stærra og lengra en svo.
Það sem skiptir máli
Ég gleðst yfir því að fá að taka þátt í frjálslyndum stjórnmálaflokki sem öðrum fremur stuðlar að áherslum að jöfnuðar og sjálfbærni. Stjórnmálaflokks sem lætur ekki stjórnast af ótta við framtíðina, og því sem hún kann að bera í skauti sér, heldur kynnir hugmyndir og lausnir við áskorunum.
Ég er þakklát fyrir að fá að tilheyra stjórnmálaflokki sem skilur ábyrgð sína og er tilbúinn að standa undir henni, skilur að hlutverk stjórnvalda er að gæta að hagsmunum almennings svo hvert og eitt okkar geti nýtt hæfileika sína.
Ársins 2020 ætla ég að minnast með þakklæti. Árið 2020 er árið sem hefur öðrum fremur sýnt okkur hvað skiptir máli.
Höfundur er varaformaður Samfylkingarinnar og borgarfulltrúi í Reykjavík