Kórónuveira og kjarabarátta er það sem stendur upp úr þegar ég lít yfir árið sem er að líða. Krísuástand og efnahagslegar afleiðingar í kjölfar heimsfaraldurs, bitna harðast á þeim sem fyrir eru í verstu stöðunni. Hækkandi matvöruverð og meiri viðvera inni á heimilinu vegna samkomutakmarkana leiða til aukinna fjárútláta. Þegar tekjurnar duga ekki fyrir grunnþörfum til að byrja með, þá duga þær ekki til að mæta auknum kostnaði í efnahagskreppu. Margir eiga ekki fyrir nauðsynjum og búa við skort. Það á ekki að vera eðlilegur, viðurkenndur hluti af samfélaginu að fólk þurfi að leita til hjálparsamtaka til að fá mat.
Viðbragðsáætlanir borgarinnar eiga að ná utan um alla og tryggja að fólk fái grunnþörfum sínum mætt. Sósíalistar lögðu til á þessu ári að borgin ynni með aðilum líkt og ríkinu að viðbragðsáætlun til að tryggja að enginn yrði án matar vegna tímabundinna lokunar hjálparsamtaka. Borgaryfirvöld töldu það ekki vera sitt hlutverk, þau leitast ekki einu sinni við að ná til þeirra sem eru í slíkum sporum og slíkt er mjög alvarlegt. Að sama skapi var tillögu okkar um matarbanka, svo enginn í borginni þyrfti að búa við svengd og bjargarleysi, hafnað.
Ójafnaðarkreppa varð að umtalsefni innan veggja borgarstjórnar, þar sem ljóst var að efnahagslegar afleiðingar af völdum kórónuveirunnar kæmu ólíkt niður á fólki. Markmiðið „enginn skilinn eftir“ var sett fram í langtímastefnu sem viðbragð við stöðunni. Af fullri hreinskilni þá á ég erfitt með að trúa því að staðið verði við markmiðið um að skilja engann eftir.
933 einstaklingar eru nú á bið eftir húsnæði hjá borginni þegar þetta er skrifað. Þýðir stefnan „enginn skilinn eftir“, að borgarstjórn muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að útvega þeim sem eru í þörf, viðeigandi heimili innan ásættanlegs tíma? Þýðir „enginn skilinn eftir“ að börn þurfi ekki að mæta svöng í skólann? Mun slík áætlun tryggja að börn eigi ekki í hættu á að missa leikskólapláss vegna skuldavanda foreldra?
Borgin hefur í fjölmörg ár skilið fólk eftir varðandi húsnæðisöryggi, framfærslu og aðkomu að ákvarðanatöku í málum er varða hag þeirra. Þú mátt kjósa um afmarkaða þætti í hverfinu þínu en ekki í hvaða hverfi þú býrð í, ef þú ert upp á náð almenna leigumarkaðsins komin og þér býðst félagsleg leiguíbúð. Í þeim aðstæðum grípur þú það, þó íbúðin sé ekki í hverfi sem hentar þér. Það er ein ástæða langra biðlista eftir milliflutningi og ljóst er að borgin mætir ekki þörfum fólks.
Skemmtileg, lifandi og græn borg, með ríka áherslu á jafnrétti, hafa gjarnan verið áherslur Reykjavíkurborgar út á við. Þar sem ekkert rými sé fyrir útilokun af neinu tagi. Samt sem áður þurfti meira en mánaðarlangar verkfallsaðgerðir hjá félagsmönnum Eflingar til að fá kjaraleiðréttingu fyrir láglaunafólk og kvennastéttir. Þegar ruslið safnaðist upp og starfsfólkið mætti ekki til að sinna mikilvægum störfum við umönnun, þvotta, þrif og í mötuneytum var greinilegt að borginni er haldið uppi af láglaunafólki. Oftar en ekki er um að ræða konur í láglaunastörfum.
Efnahagslega óréttlætið sem borgin hefur átt sinn þátt í að viðhalda með láglaunastefnu rímar ekki við markmið um lifandi og skemmtilega borg. Þó að fjölbreytni í lífinu aukist við að vera í tveimur eða fleiri störfum, þá er ekkert skemmtilegt við að sinna þeim báðum í sama mánuði til að fyrirbyggja fjárhagsáhyggjur. Þó að skokk sé af mörgum talin ánægjuleg íþrótt, þá er ekkert skemmtilegt við að hlaupa á eftir strætó á hraðleið í aukavinnuna, því aðalvinnan greiðir ekki mannsæmandi laun. Hvað þá þegar almenningssamgöngur eru ekki áreiðanlegar.
Við þurfum betri strætó handa þeim sem nú treysta á hann. Hugmyndir um að almenningssamgöngur verði betri í framtíðinni duga ekki til. Borgar- og bæjaryfirvöld eiga ekki að gera fólki erfitt fyrir. Markmið borgarinnar er að auka hlutfall þeirra sem nota almenningssamgöngur, til þess þurfum við tíðari ferðir, strætó sem byrjar að ganga fyrr á sunnudögum, betri stoppistöðvar og eigendastefnu sem gerir ekki ráð fyrir því að fargjaldatekjur standi undir 40% af almennum rekstrarkostnaði. Ef fleiri eiga að nota strætó, þá þarf hann að vera notendavænn. Það á ekki að vera þannig að ef þú rétt svo missir af vagninum séu 29 mínútur í þann næsta.
Grunnkerfin okkar hafa verið hlutuð niður og færð í hendur einkaaðila. Öflugt félagslegt kerfi þarf til að sporna gegn því. Betri borg byggir upp grunnstoðirnar sínar í stað þess að útvista þeim. Um helmingur af akstri Strætó bs. er í höndum verktaka og ekkert þak er á því hversu mikið af þjónustunni megi útvista. Það er sláandi að engin stefna sé hjá opinberu fyrirtæki um hversu mikið af grunnþjónustu einkaaðilar megi sjá um. Þegar starfsfólk er ráðið inn frá ólíkum fyrirtækjum, eru kjörin ekki endilega þau sömu. Því tölum við sósíalistar gegn útvistun. Eðlilegast væri að allt starfsfólk hjá opinberu fyrirtæki sé hluti af sömu heild.
Afmarkaðsvæðing húsnæðiskerfisins þarf að eiga sér stað. Þegar ég lít yfir árið þá hafa þau félagslegu skref ekki verið tekin. Ef stuðst er við sömu formúlu, kemur alltaf sama niðurstaða. Áframhaldandi stefna um að 25% af húsnæði borgarinnar eigi að vera óhagnaðardrifið er ekki nóg. Það eru enn um 1.000 manns að bíða eftir húsnæði. Enginn ætti að vera á biðlista. Borgin þarf að taka stærri félagsleg skref.
Ójöfnuðurinn í samfélaginu er gríðarlegur og það er ekkert nýtt af nálinni. Kostnaður vegna launahækkana borgar- og varaborgarfulltrúa á þessu ári nam 25 milljónum króna. Laun okkar uppfærast tvisvar sinnum á ári í takt við þróun launavísitölu. Í apríl á þessu ári lögðum við sósíalistar til að það kæmi ekki til launahækkunar. Samt sem áður gekk hún eftir og enn á eftir að afgreiða tillöguna gegn launahækkun. Á meðan að COVID-19 faraldurinn gengur yfir og samfélagið tekst á við efnahagslegar afleiðingar þess er mikilvægt að hinir betur launuðu sýni ábyrgð í verki.
Ásættanlegt launabil er eitthvað sem við þurfum að ræða um í okkar samfélagi. Hvert viljum við stefna í þeim efnum? Þurfum við ekki að skipta kökunni jafnar á meðan að ríkustu 10% eiga 44% eigna á Íslandi? Tortíming kapítalismans er eina leiðin gegn stéttskiptingu og hamfarahlýnun sem er nú helsta ógnin við okkar samfélag.
Höfundur er oddviti Sósíalistaflokks Íslands í borgarstjórn Reykjavíkur