Megi árið 2020 líða og aldrei koma aftur. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það sem hæst bar en hins vegar má benda á það að kófið dró fram bæði styrkleika og veikleika samfélagsins. Þegar árið verður gert upp í alþjóðlegu samhengi mun sjást sterk fylgni á milli þess hversu vel löndum tókst að verjast veirunni og byggja upp efnahaginn að nýju og þess hversu sterk velferðarkerfin þeirra voru. Þau lönd sem hafa byggt sín kerfi á arðsemissjónarmiðum og samkeppni á milli heilbrigðisstofnana fá einfaldlega falleinkunn. Þau lönd sem hafa atvinnuleysistryggingakerfi og skipulagðan vinnumarkað ná sér fyrr og betur en önnur úr efnahagskreppunni sem fylgir heimsfaraldrinum. Þá sýndi sig að auðmýkt gagnvart heimsfaraldri og virðing fyrir ráðleggingum sérfræðinga ýtti undir betri sóttvarnir og þar með meiri vörn fyrir samfélagið.
Sem betur fer hefur okkur sem byggjum þessa eyju borið gæfa til að byggja upp sterk kerfi og liður í því er að búa að sérfræðiþekkingu til að takast á við tíma eins og þessa.. Að því sögðu þá afhjúpaði ástandið töluverða veikleika í okkar kerfum. Þau sem illa stóðu fyrir tóku harðasta skellinn. Þau sem voru utan hinna hefðbundinna ráðningaforma fundu fyrst fyrir kreppunni. Þau sem höllum fæti stóðu félagslega og fjárhagslega var enn þrengri stakkur sniðinn í ástandinu. Þá var ljóst að þótt heilbrigðiskerfið hafi staðist þolraunina að mestu leyti þá mátt það tæpt standa um tíma. Kerfið okkar verður einfaldlega að vera byggt upp með þeim hætti að það geti tekist á við heimsfaraldur.
Strax í upphafi faraldursins lagði verkalýðshreyfingin skýrar línur: Í fyrsta lagi að verja þá kjarasamninga sem undirritaðir voru á vordögum 2019, í öðru lagi að reyna að tryggja afkomuöryggi fólks innan sem utan vinnumarkaðar og í þriðja lagi að tryggja að öryggiskerfin okkar og grunnhugsjónir bíði ekki skaða til framtíðar vegna tímabundinnar kreppu.
Tekist var á um alla þessa grunnþætti á árinu. Skemmst er að minnast þess þegar atvinnurekendur viðruðu þá hugmynd að segja upp samningunum í september og fóru ótrúlegan leiðangur til stjórnvalda í því skyni „að verja samningana“. Það uppnám var ekki í boði vinnandi fólks og ógnuðu atvinnurekendur fyrirsjáanleika og stöðugleika á vinnumarkaði svo eftir var tekið. Það voru líka töluverð vonbrigði þegar atvinnurekendur sáu ekki sóma sinn í að leggjast á árarnar við að efla atvinnuleysistryggingakerfin en fóru í þess stað í auglýsingaherferð gegn hækkun atvinnuleysisbóta og reyndar gegn atvinnuleitendum á tímum þar sem enga atvinnu var að hafa. Nær hefði verið að talsmenn fyrirtækja sæju virði í því að fólk hefði efni á að versla í matinn, kaupa sér kaffibolla og standa við sínar skuldbindingar. Það er einmitt það sem hefur haldið hagkerfinu gangandi í gegnum þessa kreppu. Sem betur fer var tekjutengda tímabil atvinnuleysisbóta lengt, atvinnuleitendur fengu desemberuppbót og örlítil hækkun varð á grunnbótunum. Eftir stendur krafan um frekari hækkun grunnbóta og lengingu bótatímabilsins. Þá verður ekki fram hjá því litið að öryrkjar og sumir aldraðir lifa við fátækt og skort þannig að þau eru nánast dæmd til að standa utan samfélagsins og án þeirra lífsgæða sem talin eru eðlileg og æskileg í íslensku samfélagi. Þetta er smánarblettur á okkar samfélagi sem hefur staðið óhaggaður árum saman og verður ekki minni þó fleiri eigi um sárt að binda.
Á næst ári og reyndar næstu árum mun reyna verulega á. Þá verða teknar ákvarðanir um hvernig samfélagið verði byggt upp til framtíðar. Valið stendur á milli þess að halda áfram að byggja upp velferðarsamfélag og treysta grunnstoðirnar eða þess að gangast við úreltum hugmyndum og ráðast í niðurskurð og niðurrif á okkar sameiginlegu verðmætum. Það er þannig í öllum kreppum að sérhagsmunaöfl reyna að sæta færis að skara eld að eigin köku og það þarf sterk bein og háværa kröfu almennings til að standa gegn þeim. Við sjáum tilraunir í þessa átt þegar ríkissjóður er, á ögurstundu, að afsala sér tekjum frá fjármagnseigendum og af bankaskatti án þess að nokkrir almannahagsmunir gefi tilefni til, þvert á móti þýðir þetta skertar tekjur sveitarfélaga og ríkiskassans sem nú þegar mæðir mikið á. Slíkar aðgerðir eru ekki réttlætanlegar á krepputímum. Nær væri að grípa tækifærið og gera þá eðlilegu kröfu að allir taki þátt í samfélagsrekstrinum hvort sem greiddir eru skattar til ríkis eða sveitarfélaga og tryggja þar með að við komum jafnari út úr kreppunni. Fjármagnseigendur þurfa líka að leggja lóð á vogarskálarnar í stað þess að koma sér markvisst hjá skattgreiðslum. Þær hugmyndir sem þóttu sjálfsagðar fyrir ekki svo löngu um að skapa sem mestan arð hjá sem fæstum myndi með einhverjum töfrum skila sér til allra hinna eru gjaldþrota. Nú vitum við betur að til að tryggja hag allra – líka fyrirtækjaeigenda – skal róið að því öllum árum að tryggja afkomu fólks því einungis þannig er byggt sanngjarnt og réttlátt þjóðfélag. Það þarf að gera í gegnum kjarasamninga og velferðarkerfi sem sinna sínu hlutverki: Að grípa þá sem þurfa á að halda.
Í sögulegu ljósi hafa heimsfaraldrar alltaf orðið til þess að auka á ójöfnuð. Nú þegar eru uppi vísbendingar um að slík þróun sé hafin hér á landi. En það er hins vegar ekki náttúrulögmál og við höfum þekkingu, kerfi og tæki til að tryggja að svo verði ekki nú. Það krefst hins vegar meðvitundar um jafnrétti og jöfnuð í öllum ákvörðunum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Látum ekki vaxandi misrétti verða okkar vitnisburð eftir þessa kreppu. Verum fyrirmynd í heiminum og tryggjum öllum afkomu, heilsu og velferð! Það er stærsta verkefni næsta árs.
Gleðilegt nýtt ár!
Höfundur er forseti ASÍ.