Talan 2020 er táknræn í hugum margra fyrir heilbrigði. Heilbrigð sjón er stundum kölluð 20/20 eftir Snellen-prófinu sem er tekið í 20 feta fjarlægð. Um áramótin kveðjum við 2020 hinsvegar með litlum söknuði. Kórónuveiran breytti forsendum flestra og er borgin engin undantekning.
Vandinn í borginni er sá að lengsta hagvaxtarskeið íslandssögunnar var ekki nýtt í að greiða niður skuldir. Þvert á móti var bætt á sig meira en milljarði á mánuði í skuldir öll góðærisárin. Í byrjun árs reiknaði borgin út hvað það kostaði hana að hér kæmu ferðamenn. Samkvæmt útreikningum Reykjavíkurborgar sem birtir voru 27. febrúar tapaði borgin meira en 8 milljörðum á því að ferðamenn kæmu hingað með kreditkortin sín. Þetta var merkileg uppgötvum og hefði mátt gera talsvert úr þessari hagfræðikenningu enda er þessi uppgötvun þvert á fyrri niðurstöður.
En svo gerast atburðir. Tilkynnt var um fyrsta tilfelli COVID-19 á Íslandi 28. febrúar. Daginn eftir að útreikningarnir um milljarðatapið voru birtir. Vika er langur tími. Framhaldið þekkjum við öll. Landamæri lokuðust og ferðaþjónustan hrundi. Atvinnuleysi rauk upp og ríkissjóður steig inn með gríðarlega innspýtingu.
Ef útreikningar borgarinnar hefðu verið réttir hefði kostnaður borgarinnar átt að snarminnka og afkoman að batna við þennan samdrátt. Eins og allir vita var það einmitt akkúrat öfugt. Tekjur borgarinnar eru mun minni en áætlað var. Og útgjöldin? Þau aukast áfram.
Fólk skapar tækifæri
Fyrirtækin í borginni þurftu skyndilega að draga saman. Segja upp starfsfólki. En þau gerðu meira en það. Þau sýndu frábæra nýsköpun og sjálfsbjargarviðleitni. Veitingastaðir fóru að bjóða upp á mat til að sækja og senda. Kokkar buðu upp á að elda í heimahúsum. Tónlistarmenn sem ekki máttu halda tónleika fóru að streyma. Og skólarnir tóku tæknina í notkun á styttri tíma en talið var gerlegt.
Borgin nýtti þetta tækifæri að hluta, en gæti gert miklu betur. Það þarf að nútímavæða rekstur borgarinnar. Læra af því besta sem fólkið og fyrirtækin gera.
Í dag er kostnaður borgarinnar um 18% hærri en hjá nágrannasveitarfélögunum. Langstærsta sveitarfélagið á að vera hagstæðari eining er það ekki. Enn þarf að fara með pappíra staða á milli. Síðan fara þeir á milli miðstöðva og skrifstofa. Miðlæg stjórnsýsla kostar milljarða á ári, en samt tekur langan tíma fyrir fólk að fá svör. Ef þau á annað borðið fást.
Hið svokallaða "græna plan" var lagt fram í árslok. Það er áætlun um að auka skuldir verulega. Það á að taka 52 milljarða í ný lán á næsta ári, eða eitt þúsund milljónir á hverri viku. Það er kallað hugrekki. Engin hagræðing er sjáanleg.
Sumt í planinu finnst mér hrein tímaskekkja. Eins og það að fjárfesta í flutningi á malbikunarstöð hins opinbera. Malbikunarstöðin Höfði á að fara upp að Esjumelum. Malbikunarstöð upp að Esju fyrir milljarða. Það er ekki grænt. Það er tímaskekkja að borgin sé að reka malbikunarstöð á tuttugustu og fyrstu öldinni. Ekkert annað.
En svo er sumt sem einfaldlega fokdýrt. Eins og það að setja á fimmta milljarð króna í að gera upp Grófarhúsið við Tryggvagötu. Á sama tíma eru biðlistar eftir leikskólaplássum. Skrýtin forgangsröðun.
Við lögðum fram fjölda af tillögum sem okkur fannst skynsamar. Við lögðum til að borgin fari úr því að reka fjarskiptafyrirtæki. Fólk sem leigir hjá Félagsbústöðum fái að kaupa heimili sín. Orkuskiptum verði flýtt og auðveldara verði að hlaða rafmagsnbíla. Þessar tillögur og tuttugu aðrar voru felldar. Stráfelldar.
Ég trúi því að góðar hugmyndir sigri að lokum. Vonandi verður 2021 gott ár. Vonandi verður 2022 ennþá betra. Við ætlum að halda áfram að koma með jákvæðar tilögur um það sem betur má fara. Benda á það sem okkur finnst ekki í lagi. Það er okkar hlutverk. Vonandi verður meira hlustað á fjölbreyttar raddir á nýju ári. Saman erum við sterkari. Gleðilegt nýtt ár!
Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur