Hvað er borg án mannlífsins? Glettna bros parsins sem gengur um hönd í hönd í matvöruversluninni. Eldri herramaður sem kinkar blíðlega kolli þegar hann gengur fram hjá. Listaflóran sem glæðir lífið og hjörtu okkar sínum skörpustu og björtustu litum. Þegar brosin hverfa bak við grímurnar og herramaðurinn roskni situr einangraður heima til að gæta að heilsu sinni finnum við að það er eitthvað sem vantar.
Fólk. Nánd. Menning. Mannlíf. Samvera. Við erum félagsverur og við nærumst á okkar sammannlegu reynslu. Árið 2020 hefur gert okkur vísari um merkingu þess að vera hluti af samfélagi. Tilheyra. Vera hluti af heild. Hvað það er okkur kært. Líka að standa saman að erfiðum áskorunum í þágu okkar allra. Þegar eitt okkar fellur föllum við öll. Ekkert okkar er frjálst fyrr en við verðum öll frjáls – orð gjarnan notuð um mannréttindabaráttu en nú eiga þau við á enn bókstaflegri hátt en áður. Forsenda þess að losna úr krumlum Covid er að við losnum öll
Íslendingar hafa mælst sem meiri einstaklingshyggjuþjóð en nágrannaþjóðirnar sem eru samfélagslega miðaðri. Einstaklingar, sem hafa hlutfallslega mikið pláss undir hvern rass á eyju úti í Atlantshafi þar sem mikils samneytis hefur aldrei gerst þörf, hafa orðið hálfgerð eylönd. En nú þurfum við svo sannarlega hvert á öðru að halda. Ekki bara til að sigrast á veirunni eða til umönnunar á viðkvæmum tímum heldur hefur okkur orðið ljóst sem aldrei fyrr hve dýrmæt við erum hvert öðru. Kannski þessi sammannlega reynsla sem Covid-19 er færi okkur þéttar saman sem það samfélag sem við erum?
En fleira hefur orðið okkur ljóst. Ekki bara merking þess að vera samfélag heldur merking þess að vera raunverulega ein. Mörg okkar hafa upplifað, jafnvel í fyrsta sinn, að vera gjörsamlega einangruð; innilokuð, bönnuð, fjarlægð frá samfélaginu. Frelsið sem var okkur svo sjálfsagt hvarf á augabragði. Þá birtist mikilvægi þess að eiga einhvern að sem getur sinnt okkur. Séð okkur fyrir nauðsynjum þegar við getum ekki almennilega hjálpað okkur sjálf. Að upplifa slíka berskjöldun og varnarleysi sem það er að vera að mestu leyti háð öðrum um aðstoð er eflaust nýlunda fyrir marga. En fyrir suma er það lífið sjálft, á hverjum degi. Og fyrir suma í þeirri stöðu er ekki endilega mikið persónulegt bakland til staðar sem getur stigið inn og aðstoðað. Kannski þessi sammannlega reynsla sem Covid-19 er færi okkur meiri víðsýni, aukna mýkt og náungakærleik?
Covid-19 lagði undir sig árið 2020 og breytti öllum okkar áætlunum. Tók frá okkur tækifæri, upplifanir og ástvini. Takmarkaði okkur, teymdi okkur, hélt okkur í greipum sér. Færði okkur von en líka vonbrigði. En Covid-19 færði okkur einnig á áður óþekktar slóðir. Færði okkur íslenskt sumar, króka og kima ótrúlegrar náttúru sem við hefðum annars misst af. Færði okkur innsýn, aukinn skilning, nýtt samhengi. Covid-19 hefur tekið og tekið. En ef við viljum getum við líka ákveðið að þiggja.
Höfundur er oddviti Pírata í Reykjavíkurborg