Árið 2020 er auðvitað löngu orðið samnefni fyrir kórónuveiruna og ég vona að þeim kafla verði lokað á nýju ári. Vírusinn hefur litað öll viðbrögð okkar á árinu hvort sem við störfum í stjórnmálum eða við annað.
Hérlendis hefur baráttan gengið mjög vel og betur en víða erlendis en þá kemur upp í hugann að ýmsir hægrimenn hér og þar hafa átt afar erfitt í viðureigninni við veiruna.
Nægir að nefna Boris Johnson, Donald Trump og Jair Bolsonaro, sem allir hafa meira að segja fengið vírusinn. En á móti kemur fengu þessir hægrisinnuðu höfðingjar fyrsta flokks hjúkrun og lyf sem standa því miður ekki öllum til boða.
En að öllu gamni slepptu minnir þetta ástand okkur á það hvað skiptir máli í lífinu og auðvitað mikilvægi samstöðu. Ég er sannfærð um að ástæða þess að okkur hefur gengið vel í baráttunni er ekki hvað síst sú að enginn hefur skorast undan því að gera nauðsynlegar breytingar til þess að draga úr smithættu. Sýnir það reyndar hversu mikill máttur býr í samstöðunni.
Við þurfum óhjákvæmilega að nota þann samtakamátt til framtíðar þar sem mörg aðkallandi og brýn viðfangsefni bíða mannskynsins. Þeirra helst er baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum og að stemma stigu við hnignun lífríkis og náttúru.
Að því marki sem árið hefur ekki verið litað af baráttunni við Covid19 hefur baráttan við loftslagsvána verið mér afar hugleikin en að mörgu leyti eru þetta tvær hliðar á sama peningnum. Það á ekki einvörðungu við um þau verkefni sem ég sinni í borginni heldur hef ég verið óþreytandi við að pota í fólk í kringum mig.
Ég held til dæmis að Birkir Jón, bæjarfulltrúi í Kópavogi og samstarfsfélagi minn í stjórn Sorpu, sé löngu orðinn þreyttur á mér þegar ég reyni að sannfæra hann um að hætta að borða kótilettur í annað hvert mál.
Næstu ár verða eflaust erfið og þung í vöfum þar sem við munum enn þurfa að kljást við afleiðingarnar af vírusnum. Atvinnuleysi er enn hátt og mikilvægt að ná því niður svo að við getum tryggt lífskjör til framtíðar. En það birtir hins vegar til og ég er bjartsýn á að við komum sterk út úr faraldrinum að lokum.
Það er gott til þess að hugsa að hið opinbera hefur gripið rækilega inn í með margþættum aðgerðum fyrir íbúa þessa lands bæði til þess að tryggja atvinnustigið og áframhaldandi velferð og á þetta við um jafnt ríkið sem Reykjavíkurborg. En það sem 2020 kenndi mér og er hvað minnisstæðast er að missa aldrei trúna á fólk og samtakamáttinn og hvað samvera og tíminn með fólki sem manni þykir vænt um og elskar eru dýrmæt.
Höfundur er oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn Reykjavíkur