Ég get ekki sett saman grein án þess að byrja hana á því senda hlýjar kveðjur til þeirra fjölmörgu sem eiga um sárt að binda vegna hamfaranna á Seyðisfirði. Oft er það þannig að þegar náttúran sýnir sínar óblíðustu hliðar sýnir samfélagið sínar bestu hliðar. Við erum heppin að hafa á að skipa úrvalssveitum viðbragðsaðila, bæði á vegum hins opinbera og ekki síður allar þær þúsundir sem sinna sjálfboðaliðastarfi í björgunarsveitunum. Við skulum styðja við þær eftir megni og auðvitað umfram allt halda vel utan um náungann, með þeim leiðum sem bjóðast á þessum erfiðu tímum.
***
Almennt er líklegra að það sé meiri pólitískur ávinnigur fyrir stjórnmálamenn að finna upp á nýjum verkefnum fyrir ríkið að sinna en að hugsa gömlu verkefnin upp á nýtt.
Það er auðvelt að finna hugmyndir að nýjum ríkisverkefnum. Stjórnmálamenn eru iðulega með fangið fullt af slíkum hugmyndum sem berast stöðugt frá hagsmunaaðilum úr ýmsum áttum, til viðbótar við hugmyndirnar sem spretta frá þeim sjálfum.
Oft er líka frekar átakalítið að hrinda nýjum ríkisverkefnum í framkvæmd. Ný verkefni uppfylla oftast einhverja þörf eða þjóna áhugamálum hjá einhverjum hópum, sem eru þar með þakklátir fyrir þau. Þau færa líka oftar en ekki stjórnkerfinu aukin völd og fjármuni og hvorugt af því er líklegt til að mæta mótstöðu.
Allt öðru máli gildir ef hugsa á gömlu verkefnin upp á nýtt. Sú viðleitni felur í sér uppstokkun á óbreyttu ástandi sem margir hafa vanist. Ávinningurinn fyrir þá sem njóta viðkomandi þjónustu er sjaldan augljós. Erfitt getur verið að sanna að breytingarnar verði til bóta. Ávinningurinn fyrir stjórnkerfið er enn síður augljós. Það er ómak fyrir þá sem sinna verkefnunum að stokka upp rótgrónu verklagi og aðferðafræði, að ekki sé minnst á grundvallarhugmyndafræði. Það raskar rónni og jafnvæginu og ógnar jafnvel stöðugildum.
Niðurstaðan úr þessu dæmi er sú, að sá aðili sem hefur allra síst augljósan ávinning af því að ráðast í uppstokkun á eldri verkefnum er stjórnmálamaðurinn sem þarf að berjast fyrir slíkri uppstokkun og fylgja því eftir að henni sé hrint í framkvæmd.
Rétt er að taka fram að tregðulögmálið gildir ekki bara hjá ríkinu heldur líka hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Munurinn er hins vegar sá að fyrirtæki og einstaklingar eru keyrð áfram af eiginhagsmunum sem virka sem drifkraftur á erfiðar breytingar ef þær eru skynsamlegar. Fyrirtæki græðir á því að taka upp nýtt og flókið gæðakerfi. Einstaklingur græðir á því að fara í átak í heilbrigðu líferni. En stjórnkerfið græðir ekki endilega á því að stokka upp verkefni sín og aðferðafræði.
Það er líka rétt að taka fram að það eru mörg dæmi um stjórnmálamenn og embættismenn sem hafa hugsað gömul verkefni ríkisins upp á nýtt og þannig náð fram mikilvægum framförum. Punkturinn er ekki sá að það sé óhugsandi. Punkturinn er sá að þeir eiga skilið aukaprik fyrir að taka langtímahagsmuni heildarinnar fram yfir þá staðreynd að það voru minni líkur en meiri á að þetta þjónaði þeirra eigin persónulegu skammtímahagsmunum.
En hvers vegna velti ég þessu upp hér og nú?
Ástæðan er einföld. Rekstur ríkisins er ósjálfbær. Við vorum heppin að staða ríkissjóðs er sterk, þökk sé öflugri forystu Sjálfstæðisflokksins. Þess vegna getum við núna mætt samdrættinum sem Covid-19 hefur valdið með hraustlegri innspýtingu til fólks og fyrirtækja. En til þess að við náum aftur fyrri styrk þarf tvennt að gerast: Atvinnulífið þarf að fá tækifæri til að skapa meiri verðmæti og í öðru lagi þurfum við að hugsa verkefni ríkisins upp á nýtt.
Þar eru stærstu útgjaldaliðir ríkisins auðvitað ekki undanskildir. Heilbrigðisráðherra lét á þessu ári ráðgjafafyrirtækið McKinsey gera viðamikla úttekt á framleiðni og mönnun íslenskrar heilbrigðisþjónustu með samanburði við sambærilega þjónustu í nágrannalöndunum. Skýrslan kom út fyrir nokkrum vikum. Í ljós kemur að framleiðni í heilbrigðisþjónustu á Íslandi hefur minnkað töluvert á undanförnum árum. Nú er þetta vissulega flókið viðfangsefni með margar hliðar sem ekki verða dregnar saman í eina tölu, en stóra myndin er áhyggjuefni. Einnig kemur fram að útgjöld til heilbrigðismála á mann jukust hraðar á Íslandi á árunum 2010-2018 en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, sem er sömuleiðis áhyggjuefni. Engu að síður eru útgjöldin á mann ennþá lægri hér en í þessum löndum, enda á ung þjóð almennt að vera með lægri útgjöld. Þar fyrir utan er ekki rétt að mæla gæði opinberrar þjónustu í krónum heldur í árangri og afköstum.
Stafrænt Ísland er annað jákvætt verkefni um að hugsa hlutina upp á nýtt í þágu borgaranna, sem hefur skilað árangri og mun gera áfram. Og allir þekkja dæmið um bætta þjónustu Skattsins á undanförnum árum, en í dag finnst okkur ótrúlegt að hugsa til þess að fólk hafi varið jafnvel mörgum dögum í að fylla út skattframtöl einstaklinga sem í dag tekur í mörgum tilvikum aðeins fáeinar mínútur.
Ég hef nýlega rakið á öðrum vettvangi hvílíkan auð við Íslendingar eigum í nýsköpunarumhverfinu okkar, þar sem hvert fyrirtækið á fætur öðru hefur á þessu annars erfiða ári tryggt sér háar fjárhæðir í fjármögnun, að stórum hluta til erlendis frá. Sköpunarkrafturinn, hugvitið og þrautseigjan eru beinlínis áþreifanleg í frjóum jarðvegi íslenskra frumkvöðla. Hið opinbera ætti að mínu mati að nýta sér í stórauknum mæli ýmsar af þeim lausnum sem nýsköpunarfyrirtæki eru að þróa og sem betur fer eru auðvitað til dæmi um það, meðal annars í heilbrigðisþjónustu. Slík nálgun ætti að vera út um allt kerfið. Í því felast tækifæri fyrir þau sem nýta kerfin, þau sem starfa innan þeirra og þau sem eru fyrir utan það að smíða nýjar lausnir, í þágu okkar allra.
Höfundur er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.