Að hugsa hlutina upp á nýtt

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, skrifar um þau verkefni sem framundan eru í stjórnmálunum.

Auglýsing

Ég get ekki sett saman grein án þess að byrja hana á því senda hlýjar kveðjur til þeirra fjöl­mörgu sem eiga um sárt að binda vegna ham­far­anna á Seyð­is­firði. Oft er það þannig að þegar nátt­úran sýnir sínar óblíð­ustu hliðar sýnir sam­fé­lagið sínar bestu hlið­ar. Við erum heppin að hafa á að skipa úrvals­sveitum við­bragðs­að­ila, bæði á vegum hins opin­bera og ekki síður allar þær þús­undir sem sinna sjálf­boða­liða­starfi í björg­un­ar­sveit­un­um. Við skulum styðja við þær eftir megni og auð­vitað umfram allt halda vel utan um náung­ann, með þeim leiðum sem bjóð­ast á þessum erf­iðu tím­um.

***

Almennt er lík­legra að það sé meiri póli­tískur á­vinnig­ur ­fyrir stjórn­mála­menn að finna upp á nýjum verk­efnum fyrir ríkið að sinna en að hugsa gömlu verk­efnin upp á nýtt.

Það er auð­velt að finna hug­myndir að nýjum rík­is­verk­efn­um. Stjórn­mála­menn eru iðu­lega með fangið fullt af slíkum hug­myndum sem ber­ast stöðugt frá hags­muna­að­ilum úr ýmsum átt­um, til við­bótar við hug­mynd­irnar sem spretta frá þeim sjálf­um.

Oft er líka frekar átaka­lítið að hrinda nýjum rík­is­verk­efnum í fram­kvæmd. Ný verk­efni upp­fylla oft­ast ein­hverja þörf eða þjóna áhuga­málum hjá ein­hverjum hóp­um, sem eru þar með þakk­látir fyrir þau. Þau færa líka oftar en ekki stjórn­kerf­inu aukin völd og fjár­muni og hvor­ugt af því er lík­legt til að mæta mót­stöðu.

Allt öðru máli gildir ef hugsa á gömlu verk­efnin upp á nýtt. Sú við­leitni felur í sér upp­stokkun á óbreyttu ástandi sem margir hafa van­ist. Ávinn­ing­ur­inn fyrir þá sem njóta við­kom­andi þjón­ustu er sjaldan aug­ljós. Erfitt getur verið að sanna að breyt­ing­arnar verði til bóta. Ávinn­ing­ur­inn fyrir stjórn­kerfið er enn síður aug­ljós. Það er ómak fyrir þá sem sinna verk­efn­unum að stokka upp rót­grónu verk­lagi og aðferða­fræði, að ekki sé minnst á grund­vall­ar­hug­mynda­fræði. Það raskar rónni og jafn­væg­inu og ógnar jafn­vel stöðu­gild­um.

Nið­ur­staðan úr þessu dæmi er sú, að sá aðili sem hefur allra síst aug­ljósan ávinn­ing af því að ráð­ast í upp­stokkun á eldri verk­efnum er stjórn­mála­mað­ur­inn sem þarf að berj­ast fyrir slíkri upp­stokkun og fylgja því eftir að henni sé hrint í fram­kvæmd.

Rétt er að taka fram að tregðu­lög­málið gildir ekki bara hjá rík­inu heldur líka hjá fyr­ir­tækjum og ein­stak­ling­um. Mun­ur­inn er hins vegar sá að fyr­ir­tæki og ein­stak­lingar eru keyrð áfram af eig­in­hags­munum sem virka sem drif­kraftur á erf­iðar breyt­ingar ef þær eru skyn­sam­leg­ar. Fyr­ir­tæki græðir á því að taka upp nýtt og flókið gæða­kerfi. Ein­stak­lingur græðir á því að fara í átak í heil­brigðu líf­erni. En stjórn­kerfið græðir ekki endi­lega á því að stokka upp verk­efni sín og aðferða­fræði.

Það er líka rétt að taka fram að það eru mörg dæmi um stjórn­mála­menn og emb­ætt­is­menn sem hafa hugsað gömul verk­efni rík­is­ins upp á nýtt og þannig náð fram mik­il­vægum fram­för­um. Punkt­ur­inn er ekki sá að það sé óhugs­andi. Punkt­ur­inn er sá að þeir eiga skilið auka­prik fyrir að taka lang­tíma­hags­muni heild­ar­innar fram yfir þá stað­reynd að það voru minni líkur en meiri á að þetta þjón­aði þeirra eigin per­sónu­legu skamm­tíma­hags­mun­um. 

En hvers vegna velti ég þessu upp hér og nú?

Ástæðan er ein­föld. Rekstur rík­is­ins er ósjálf­bær. Við vorum heppin að staða rík­is­sjóðs er sterk, þökk sé öfl­ugri for­ystu Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Þess vegna getum við núna mætt sam­drætt­inum sem Covid-19 hefur valdið með hraust­legri inn­spýt­ingu til fólks og fyr­ir­tækja. En til þess að við náum aftur fyrri styrk þarf tvennt að ger­ast: Atvinnu­lífið þarf að fá tæki­færi til að skapa meiri verð­mæti og í öðru lagi þurfum við að hugsa verk­efni rík­is­ins upp á nýtt.

Þar eru stærstu útgjalda­liðir rík­is­ins auð­vitað ekki und­an­skild­ir. Heil­brigð­is­ráð­herra lét á þessu ári ráð­gjafa­fyr­ir­tæk­ið McK­insey ­gera viða­mikla úttekt á fram­leiðni og mönnun íslenskrar heil­brigð­is­þjón­ustu með sam­an­burði við sam­bæri­lega þjón­ustu í nágranna­lönd­un­um. Skýrslan kom út fyrir nokkrum vik­um. Í ljós kemur að fram­leiðni í heil­brigð­is­þjón­ustu á Íslandi hefur minnkað tölu­vert á und­an­förnum árum. Nú er þetta vissu­lega flókið við­fangs­efni með margar hliðar sem ekki verða dregnar saman í eina tölu, en stóra myndin er áhyggju­efni. Einnig kemur fram að útgjöld til heil­brigð­is­mála á mann juk­ust hraðar á Íslandi á árunum 2010-2018 en í Nor­egi, Sví­þjóð og Dan­mörku, sem er sömu­leiðis áhyggju­efni. Engu að síður eru útgjöldin á mann enn­þá lægri hér en í þessum lönd­um, enda á ung þjóð almennt að vera með lægri útgjöld. Þar fyrir utan er ekki rétt að mæla gæði opin­berrar þjónustu í krónum heldur í árangri og afköst­um.

Auglýsing
Skýrslan verður m.a. höfð til hlið­sjónar við grund­vall­ar­breyt­ingar sem nú á loks að ráð­ast í varð­andi fjár­mögnun heil­brigð­is­þjón­ust­unn­ar. Tekin verður upp þjón­ustu­tengd fjár­mögnun sam­kvæmt alþjóð­legum staðli um eðli verk­efn­anna (DRG-fjár­mögn­un­ar­kerfi) og stendur til að breyt­ingin nái til allrar heil­brigð­is­þjón­ustu fyrir árið 2030. Mark­miðið er aukið gagn­sæi um ráð­stöfun fjár­muna og þar með betri tól til stýr­ing­ar, sem ætti m.a. að þjóna mark­miðum um aukna fram­leiðni og betri nýt­ingu. Þessi stóra breyt­ing er að mínu mati jákvætt dæmi um djarfa ákvörðun af hálfu hins opin­bera um að ráð­ast í krefj­andi verk­efni með lang­tíma­hags­muni að leið­ar­ljósi. Að vísu er nokkuð langt liðið frá því að ákveðið var að gera þetta eða rúm­lega fjögur ár. Það er miður að ekki hafi enn­þá ­tek­ist að inn­leiða þessa breyt­ingu en það stendur von­andi til bóta og stíga á fyrstu skrefin strax á næsta ári. Við eigum mikið undir því að vel tak­ist til.

Staf­rænt Ísland er annað jákvætt verk­efni um að hugsa hlut­ina upp á nýtt í þágu borg­ar­anna, sem hefur skilað árangri og mun gera áfram. Og allir þekkja dæmið um bætta þjón­ustu Skatts­ins á und­an­förnum árum, en í dag finnst okkur ótrú­legt að hugsa til þess að fólk hafi varið jafn­vel mörgum dögum í að fylla út skatt­fram­töl ein­stak­linga sem í dag tekur í mörgum til­vikum aðeins fáeinar mín­út­ur.

Ég hef nýlega rakið á öðrum vett­vangi hví­líkan auð við Íslend­ingar eigum í nýsköp­un­ar­um­hverf­inu okk­ar, þar sem hvert fyr­ir­tækið á fætur öðru hefur á þessu ann­ars erf­iða ári tryggt sér háar fjár­hæðir í fjár­mögn­un, að stórum hluta til erlendis frá. Sköp­un­ar­kraft­ur­inn, hug­vitið og þraut­seigjan eru bein­línis áþreif­an­leg í frjóum jarð­vegi íslenskra frum­kvöðla. Hið opin­bera ætti að mínu mati að nýta sér í stór­auknum mæli ýmsar af þeim lausnum sem nýsköp­un­ar­fyr­ir­tæki eru að þróa og sem betur fer eru auð­vitað til dæmi um það, meðal ann­ars í heil­brigð­is­þjón­ustu. Slík nálgun ætti að vera út um allt kerf­ið. Í því fel­ast tæki­færi fyrir þau sem nýta kerf­in, þau sem starfa innan þeirra og þau sem eru fyrir utan það að smíða nýjar lausnir, í þágu okkar allra.

Höf­undur er vara­for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins og ferða­mála-, iðn­að­ar- og nýsköp­un­ar­ráð­herra.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir vill leiða Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi
Þrjú munu berjast um oddvitasætið hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi. Guðrún Hafsteinsdóttir bættist í hópinn í dag. Hún segist hafa fengið mikla hvatningu til að bjóða sig fram síðustu vikur og mánuði.
Kjarninn 24. febrúar 2021
Harðar takmarkanir víða um lönd sem og bólusetningarherferðir hafa skilað því að smitum og dauðföllum vegna COVID-19 fer hratt fækkandi.
Dauðsföllum vegna COVID-19 fækkaði um 20 prósent milli vikna
Bæði dauðsföllum vegna COVID-19 og nýjum tilfellum af sjúkdómnum fer fækkandi á heimsvísu. Í síðustu viku greindust 2,4 milljónir nýrra smita, 11 prósentum minna en í vikunni á undan.
Kjarninn 24. febrúar 2021
Kröfum gegn starfsmannaleigunni Menn í vinnu og Eldum rétt vísað frá dómi
Kröfum fjögurra erlendra starfsmanna gagnvart starfsmannaleigunni Menn í vinnu og notendafyrirtækinu Eldum rétt um vangreidd laun og miskabætur var vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Stjórnendur starfsmannaleigunnar fá greiddan málskostnað.
Kjarninn 24. febrúar 2021
Finnur Torfi Stefánsson
Vinstri Græn Samfylking
Kjarninn 24. febrúar 2021
Magnús Guðmundsson
Vatnajökulsþjóðgarður á góðri leið
Kjarninn 24. febrúar 2021
Grjóthrun hefur orðið á Reykjanesskaga og varað er við frekara hruni. Myndina tók áhöfn Landhelgisgæslunnar í eftirlitsflugi í morgun.
Hættustigi lýst yfir: Grjót hrunið úr fjöllum og hvítir gufustrókar sést
Lýst hefur verið yfir hættustigi almannavarna á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu vegna jarðskjálftahrinunnar sem hófst í morgun. Grjót hefur hrunið úr fjöllum á Reykjanesi og hvítir gufustrókar á jarðhitasvæðum sést á svæðinu.
Kjarninn 24. febrúar 2021
Finnst það „mikill dómgreindarbrestur“ hjá Áslaugu að hafa hringt í lögreglustjórann
Þingmaður Viðreisnar gagnrýnir dómsmálaráðherra fyrir að hringja í lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu eftir að lögreglan upplýsti um að annar ráðherra, formaður flokks hennar, hefði verið í samkvæmi sem leyst var upp vegna gruns um sóttvarnarbrot.
Kjarninn 24. febrúar 2021
Jóhann Páll Jóhannsson
Frá atvinnukreppu til framsækinnar atvinnustefnu
Kjarninn 24. febrúar 2021
Meira úr sama flokkiÁlit