Ár veirunnar og áratugur g(l)eymdra verkefna

Indriði H. Þorláksson gerir upp árið sem er að líða.

Auglýsing

Um áratug eftir bankahrunið leiddi COVID-19 veiran aðra kreppu yfir heimsbyggðina. Á þeim tíma hafa þrjár ríkisstjórnir stýrt landinu að fáum mánuðum slepptum og haft tækifæri til að draga lærdóm af hruninu og koma hér á einhverjum af þeim umbótum sem krafist var í búsáhaldabyltingunni. Hefur það gengið eftir?

Velferðarstjórnin

Ísland náði vopnum sínum í efnahagsmálum fljótlega eftir hrunið. Aðgerðir í ríkisfjármálum og bankamálum og staðfesta í gjaldeyrismálum báru þann árangur að í lok kjörtímabils fyrstu stjórnar eftir hrunið voru ríkisfjármálin komin í jafnvægi, góður afgangur var á viðskiptajöfnuði og atvinnuleysi fór stöðugt minnkandi. Í öðrum málum var staðan verri. Ásetningur um að læra af hruninu kom fram í ákvörðun Alþingis um að rannsaka aðdraganda þess. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis árið 2010 ver gott verk sem greindi feril og ástæður hrunsins svo ítarlega að draga mátti lærdóm af. Skýrslan afhjúpaði samtvinnun fjármála og stjórnmála og lýsti því hvernig fámennur hópur fjármálaspekúlanta með takmarkað þekkingu á efnahagsmálum og litla reynslu af bankastarfsemi fékk eignarhaldi á íslensku bönkunum afhent á silfurfati stjórnvalda sem blinduð af græðgishugsjón nýfrjálshyggjunnar hlýddu kalli nýrra eigenda um hömluleysi í fjármálastarfsemi. Á fáum árum tókst þeim að slá umheiminn um nærri tífalda landsframleiðslu Íslands. Þegar að skuldadögum kom var gengið í sjóði almennings í leit að björgun en allt var orðið um seinan. Við uppgjör þrotabúa bankanna, stærsta gjaldþroti til þess tíma, reyndust þau eiga fyrir innan við helmingi skulda sinna.

Skýrsla RNA vakti vonir um tiltekt á stjórnmálasviðinu og endurnýjað traust í samfélaginu á stjórnvöld en þær vonir brugðust. Hlutur stjórnmála og stjórnsýslu í aðdraganda hrunsins kann að hafa gert það að verkum að ekki var hjá öllum vilji til að horfast í augu við þann djúpstæða vanda sem birtist í skýrslu RNA. Flestar stjórnmálahreyfingar landsins höfðu tekið þátt í dansinum um gullkálfa útrásarinnar og samsamað sig þeim með einum eða öðrum hætti, rutt þeim braut og lofsungið. Þrátt fyrir háværar kröfur um að stjórnvöld öxluðu ábyrgð varð niðurstaða fyrstu kosninga eftir hrun að kjarninn úr forysta gömlu flokkanna sat áfram á þingi í skjóli kosningareglna hér á landi og meðal nýliðanna reyndust margir ekki valda því verkefni sem þeirra beið. 

Auglýsing

Þessa þróun má líklega að nokkru kenna ofætlunar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Það að leysa á stuttum tíma mörg stórmál eins og endurnýjun stjórnarskrárinnar, auðlindamálin, gjaldmiðilsmálin og aðild að ESB auk þessa að endurreisa efnahagslífið og vinna að fjölmörgum umbótum á sviði félagsmála var einfaldlega of mikið. Sumt af þessu kom við kaunin á aðilum sem sterkar stjórnmálahreyfingar eru bundnar traustum böndum. Andstæðingar stjórnarinnar höfðu því úr nægu að moða til að ala á óánægju. Í málrófi um allt annað en skýrslu RNA dó hún drottni sínum lítt lesin en leiði hennar varð frjór jarðvegur fyrir gamalkunna sérhyggju og þjóðernisrembing sem kom m.a. fram í því að við kenndum öllum öðrum en okkur sjálfum um það sem illa hafði farið.

Ár silfurskeiðanna

Að skýrslu RNA gleymdri og loforði um nýja stjórnarskrá sviknu hófst tími silfurskeiðanna. Völdin í þjóðfélaginu færðust í hendur arftaka þeirrar stjórnmálaafla sem ríkt höfðu á áratugunum fyrir hrun, selt fjármálakerfið í hendur fjárglæframanna og greitt götu þeirra allt til hrunsins. Arftakarnir reyndust ekki ættlerar og voru trúir sínum. Brutu þeir niður það sem áunnist hafði í jafnaðarátt hjá velferðarstjórninni.  Hófleg skattahækkun á lágskattað stórefnafólk var afnumin, gjöld kvótagreifa fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindinni voru lækkuð og stóriðjunni tryggt að geta flutt allan arð af vatnsorkuauðlindinni úr landi. Samtímis var dregið úr stíganda almenna tekjuskattsins og bótaliðir skertir sem ásamt innbyggðum áhrifum verðlagsbreytinga á skatta flutti milljarðatuga skattgreiðslur af breiðu bökunum yfir á hin veikari. Tekjur ríkisins af auknum umsvifum í hagkerfinu gerði stjórnvöldum einnig kleift að leika jólasveina með „leiðréttingunni miklu“ sem að vísu lenti að mestu í skóm þeirra sem mest áttu fyrir.

Eitt af því sem hrunið hafði varpaði ljósi á var hve útbreitt það var að fjárspekúlantar festu í skattaskjólum fé sem þeir drógu út úr fyrirtækjum og fjármálastofnunum með uppblásnum launagreiðslum, bónusum og söluhagnaði hlutabréfa. Þessi gluggi inn í skuggaveröld fjármálanna  hafði orðið til þess að á fyrstu árum eftir hrunið náðist að gera takmarkaðar breytingar á skattalögum til að stemma stigu við stórfelldum skattundanskotum. Frekari úrbætur döguðu uppi hjá næstu stjórn en fortíðin kom forsætisráðherra hennar í bak í beinni sjónvarpsútsendingu þegar hann varð uppvís að því að hafa falið fé í skattaskjóli og sniðgengið skattalögin. Lauk ráðherradómi hans að því er virðist fremur vegna klaufalegrar sviðsframkomu en siðferðisbrests því annar ráðherra sem einnig var í Panamaskjölunum sat sem fastast, styrkti stöðu sína innan Flokksins og leiddi síðan skammlífa hægrimiðjustjórn sem sprakk svo innan árs vegna frændhyglimála og trúnaðarbrests.

Stjórnir áranna 2013 til 2017 tóku við þjóðarbúi sem var koma út úr kreppu eftir hrunið og öll teikn bentu til hagvaxtar og góðæris. Merkúri, guði ferðalanga, hafði þóknast að bæta Íslandi á landakort lággjaldaflugfélaga og fylltist landið brátt af ferðafólki, hótelum, rútum og erlendu farandverkafólki og gildnuðu sjóðir fyrirtækja, banka og hins opinbera. En í stjórnmálum voru þessi ár glataður tími. Traust almennings á Alþingi og stofnunum samfélagsins hafði ekki batnað. Umbætur á grundvelli skýrslu RNA urðu engar og gömlu valdablokkirnar sátu við stýrið jafn hugmyndafræðilega gjaldþrota og áður. Góð stað í efnahagsmálum hafði verið notuð til að taka til baka jöfnunaraðgerðir velferðarstjórnarinnar en ekkert gert til að bæta efnahagslega og félagslega innviði, samgöngukerfið látið molna niður og heilbrigðiskerfið fjársvelt þrátt fyrir ákall meirihluta þjóðarinnar um úrbætur. Sinnuleysi og afturhald einkenndi einnig önnur mál. Stjórnarskránni var haldið í gíslingu og í utanríkismálum var helst horft til einangrunarstefnu Breta sem fyrirmyndar.

Stjórn málamiðlana

Að afstöðnum kosningunum 2017 horfði ekki vel fyrir myndun nýrrar stjórnar. Staða gömlu afturhaldsaflanna var sterk og trúnað skorti milli annarra flokka auk þess sem forneskjulega afstaða VG í Evrópumálunum hefði orðið trúverðugu samstarfi þeirra fjötur um fót. Lauk málum svo með samstarfi VG, D-lista og þess hluta gamla framsóknarflokksins sem taldist húsum hæfur. Ekki er að efa að þokki formanns VG hefur valdið miklu um myndun stjórnarinnar og lagni hans tryggt lífdaga hennar.

Veganesti hinnar nýju stjórnar, stjórnarsáttmálinn, var afar kaflaskiptur. Annars vegar var  framsækin og metnaðarfull áform í velferðarmálum og umhverfismálum, verðugt framhald á stefnu  velferðarstjórnarinna en hins vegar var óskrifað blað um fjárhagslegar forsendur til að fylgj þeirri stefnu eftir. Má eiginlega segja að stjórnarsáttmálinn hafi aldrei verið skrifaður nema til hálfs. Vera má að bjartsýni hafi ráðið för. Efnahagslífið var í uppsveiflu og tekjur ríkissjóðs höfðu vaxið umfram undirliggjandi hagstærðir. Með þessu var unnt að auka fé til heilbrigðismála, menntamála og umhverfismála og taka löngu tímabær skref í þeim málum á árunum 2018 og 2019 en vegurinn eftir það var líklegur til að verða torfær þegar tekna af uppsveiflunni nyti ekki lengur við.

Strax í upphafi sýndi sig misræmið milli stjórnarsáttmálans og ríkisfjármálaáætlunar. Sú áætlun var dæmigert hagsveiflulíkan þar sem sveiflubundnum tekjuauka er ráðstafað í tímabundinn útgjaldaauka og skuldagreiðslur en gert ráð fyrir að rifa seglin með aðhaldskröfum þegar verr byrjaði. Við lok kjörtímabilsins áttu útgjöld ríkisins til velferðarmála að vera komin niður í það sama og þau voru 2016. Með öðrum orðum engin varanleg breyting, engin framtíðarsýn um bætta innviði og þjónustu, ekki einu sinni tekið mið af fyrirsjáanlegum afleiðingum lýðfræðilegra breytinga. Með samþykki á nær óbreyttri ríkisfjármálaáætlun út kjörtímabilið má segja að stjórnarsáttmálanum  hafi verið breytt í „Mission impossible“ og gjöfin til útgerðarinnar með afnámi allra raunverulegra veiðigjalda innsiglaði síðan samkomulag um status quo. Veikleiki stjórarsáttmálans var ekki bara það að skrifa hann ekki að fullu, þ.e. að leggja mat á tekjuþörf ríkisins vegna áformaðra umbóta og skilgreina hvernig tekna yrði aflað. Hinn var ekki minni að fela allt vald í fjármálum flokki sem hefur verið erindreki þeirra sem ekkert vilja leggja til samneyslunnar. Af þessum ástæðum hefði síðari hluti kjörtímabilsins líklega orðið stjórninni erfiður þótt COVID-19 hefði ekki komið til. Þess sáust þegar merki við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2020 að tekjusveiflan var að gefa eftir og draga varð úr uppgreiðslu ríkisskulda og vantar þó mikið á að í framkvæmd séu komin öll þau fyrirheit sem í stjórnarsáttmálanum voru. Hvernig þau fjárlög hefðu komið út í reynd verður ekki svarað. COVID-19 yfirtók stjórn ríkisfjármála í ársbyrjun 2020. 

Á fyrri helmingi kjörtímabilsins hafa verið tekin stór skref í heilbrigðismálum og umhverfismálum og bætt um í menntamálum, samgöngumálum og ýmsum félagsmálum. Var það mögulegt vegna hagsveiflunnar en varanleiki þeirra var óráðinn vegna skorts á framtíðarsýn og staðnaðar fjármálastefnu. Stefnuleysi ríkir í ferðamálum, þeim geira sem átti drýgstan þátt í að bæta efnahagsástandið eftir hrunið en brotnaði niður hér eins og víðast hvar í veirufaraldrinum. Stjórnvöld eftirlétu „markaðnum“ að ráða för. Í þessu tilviki voru það flugfélög, íslensk sem erlend, hótelfjárfestar á höfuðborgarsvæðinu og „upplifunar“-iðnaðurinn. Hagsmunir þeirra eru að sem flestir komi til landsins, stoppi stutt og eyði sem mestu þann tíma. Ferðamennska til landsins var þannig að þróast í skammtímatúrisma þar sem gestirnir er settir í hótel í höfuðborginni, skoða hana, fara gullna hringinn eða áþekkar dagsferðir og eru svo baðaðir í Bláa lóninu og sendir burt með fullt af myndum af landi sem þeir vita lítið um. Ekkert hefur verið gert til að skjóta stoðum undir það að ferðaþjónusta á landsbyggðinni geti þróast á eigin forsendum, engir skipulegir flutningar á ferðamönnum til áfangastaða á landsbyggðinni eru í boði nema með gistingu í höfuðborginni og það virðist vera keppikefli Vatnsmýrarvina að koma í veg fyrir samtengingu millilandaflugs og innanlandsflugs.

G(l)eymdu málin

Þótt góður árangur - með óvissum varanleika og framhaldi - hafi náðst í nokkrum áðurnefndum málaflokkum hefur lítið þokast í stórmálum sem verið hafa efst á umbótalista margra flokka allt frá hruni. Stærst þeirra er án efa stjórnarskráin enda er endurskoðun hennar ekki aðeins forsenda nauðsynlegra stjórnsýslu- og lýðræðisumbóta heldur einnig það tákn um umbótavilja sem þarf til að traust á stjórnvöldum verði endurvakið. Það er í reynd óskiljanlegt að heilum áratug eftir að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar lýsti yfir þeim vilja sínum að fá nýja stjórnarskrá og samþykkti öll meginefnisatriði hennar skuli fulltrúum þessarar sömu þjóðar á Alþingi hafa með merkingarlausri þrætubókarlist og klækjum tekist að víkja sér undan þeirri lýðræðislegu skyldu að fara í þessu efni að vilja þjóðarinnar. 

Þýska stjórnarskráin er að margra mati ein fullkomnasta stjórnarskrá í heimi. Hún var samin af sérstöku þingi skipuðu 70 fulltrúum stjórnmálaflokka í fylkjunum sem síðar mynduðu Þýska sambandslýðveldið og í Berlín. Stjórnarskrárþingið samþykkti stjórnarskrána 8. maí 1949, réttum fjórum árum eftir uppgjöf nasista og hafði unnið að henni frá 1. september árið áður og því starfað í rúma 7 mánuði. Alþingi okkar hefur ekki tekist að koma sér saman um svo mikið sem eina stjórnarskrárgrein á heilum áratug. Einhverju kann að hafa valdið að þýska stjórnarskrárþingið sátu hugsuðir og hugsjónamenn sem síðar leiddu Þýskalandi til samstarfs við önnur Evrópuríki, sem með því bjuggu þjóðum álfunnar meiri frið, frelsi, félagslegt öryggi og velferð en þekkst hefur áður. Þeim sem telja að „víðtæk sátt“ þurfi að nást um breytingar á stjórnarskrá skal bent á að nærri fimmtungur fulltrúa á þýska stjórnarskrárþinginu greiddi atkvæði á móti tillögunni sem samþykkt var af 53 af 65 atkvæðisbærum fulltrúum og hún var einnig felld í einu fylkjanna sem sá sig síðar um hönd og samþykkti hana.

Etv. eru auðlindamálin ein helsta orsök þess að Alþingi hefur ekki tekist að ráða við stjórnarskrána. Núverandi stjórnarskrá kveður ekki nógu tryggilega á um þjóðareign á náttúruauðlindum, umfang þeirra og inntak þjóðareignar. Eignarréttur einstaklinga hefur aftur á móti á grunni hennar verið blásinn upp til hins ýtrasta þannig að farið er að selja útlendingum ár og læki, fjöll og dali og fela þeim yfirráð yfir fjörðum og ströndum og handlagning stórútgerða á fiskveiðiréttindum er varin sem atvinnuréttindi. Auk þess hafa stjórnvöld ráðstafað stórum hluta af vatnsorku landsins til erlendrar stóriðju án þess að þjóðin fái af henni arð. Mikill meirihluti þjóðarinnar hefur lýst sig fylgjandi því að náttúruauðlindir landsins, þ.m.t. nýtingarréttur á fiskistofnum við landið, verði í stjórnarskránni skilgreindar sem sameign þjóðarinnar. Sú skilgreining þarf að vera tvímælalaus og fela það í sér að þjóðin ein eigi tilkall til alls arðs af náttúruauðlindum landsins (auðlindarentunnar). 

Fáeinar fjölskyldur í landinu hafa náð undir sig stórum hluta af auðlindarentu landsins með atbeina stjórnmálaafla. Gefur þetta þeim árlega tugi eða hundruð milljarða króna í tekjur umfram það sem getur talist eðlilegur hagnaður af fjárfestingu þeirra í rekstrinum. Þetta má m.a. sjá í ársreikningum eignarhaldsfélaga kvótahafanna þar sem tugmilljarða eigið fé þeirra bólgnar út ár frá ári og er notað til að kaupa upp aðra arðvænlega starfsemi í landinu. Kvíslast ítök þeirra og fjárhagslegt vald um allt efnahagslífið og gerir það meira og minna háð þeim. Þegar talað er um „víðtæka sátt“ um stjórnarskrárbreytingar ættu menn hafa í huga að þessi fámenni en öflugi hópur mun beita þeim pólitísku áhrifum sem hann hefur til þess að hindra framgang allra stjórnarskrárbreytinga sem hrófla við einokun þeirra og mun aldrei sættast á að sleppa þeim feita bita sem auðlindaarðurinn er. Þjóðin verður því milliliðalaust að taka ákvörðun um þetta stóra grundvallaratriði og láta afl eigin atkvæða ráða. 

Veiran

Veiran sem veldur COVID-19 greip með afgerandi hætti inn í íslenskan veruleika. Efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins verða mikil hér á landi vegna þess hve ferðaþjónusta er gildur þáttur í atvinnuþátttöku og gjaldeyrisöflun. Tekjufallið mælt sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verður til skamms tíma álíka mikið eða meira en í hruninu en gæti til lengri tíma reynst minna vegna eðlismunar á þessum tvennum áföllum og á tiltækum viðbrögðum stjórnvalda. Hrunið var fjármála- og lánakreppa sem þurrkaði upp peningalegar eignir og reif niður með sér aðra starfsemi sem háð var lánafyrirgreiðslu. Byggingariðnaðurinn varð einkum fyrir barðinu á þessu og þurfti langan tíma til að byggja upp getu sína að nýju og ekki síst að bíða eftirspurnar. Flestar aðrar atvinnugreinar voru að mestu ólaskaðar þótt einhver fyrirtæki hafi staðið illa vegna fyrri fjármálaráðstafana. Kreppan nú er fyrst og fremst eftirspurnar- og tekjufall ferðaþjónustu og tengdra fyrirtækja en rekstrarfjármunir greinarinnar eru enn til staðar og líkur á að eftirspurn vaxi hratt þegar pestinni linnir. Þótt efnahagsleg áhrif þessara áfalla séu svipuð að umfangi eru þau í ýmsu ólík og kalla á mismunandi viðbrögð auk þess sem aðstaða stjórnvalda þá og nú er gjörólík. Í báðum tilvikum er meginatriðið að viðhalda kaupmætti, bæði af félagslegum ástæðum og eins til þess að koma í veg fyrir keðjuverkandi samdrátt eftirspurnar og aukið atvinnuleysi. Staða ríkissjóðs var þá, ólíkt því sem nú er, í molum og Seðlabankinn í reynd gjaldþrota. Aðstaða og tæki til inngripa nú eru allt önnur og betri.

Aðgerðir stjórnvalda nú eru í stórum dráttum í lagi. Lánsfjármögnun fyrirtækja var auðvelduð og miklu fé úr ríkissjóði varið til að verja kaupmátt almennings. Deila má um það hvort þær leiðir sem valdar voru til þess hafi allar verið heppilegar. Áhersla var lögð á að aðstoð ríkisins færi sem mest í gegnum fyrirtækin í stað þess að styrkja einstaklingana beint. Með því er hætta á að aðgerðirnar verði ekki markvissar og féð hafi að einhverju leyti runnið til fyrirtækja sem hefðu getað staðið af sér áfallið og því hafi í reynd verið að bæta þeim tekjufall en ekki að tryggja afkomu launþeganna. Það og aðrar ráðstafanir til stuðnings fyrirtækjum eru vandmeðfarnar og varasamar. Tekjutap vegna veirufaraldursins er endanlegt tap. Sú þjónusta sem ekki seldist árið 2020 geymist ekki og verður ekki seld síðar. Stuðningur ríkisins við einstaklinga vegna tekjumissis byggist á félagslegri og pólitískri framfærsluskyldu og stendur öllum einstaklingum til boða. Hann felur í sér eignatilfærslu í samræmi við hlutlægar forsendur svo sem tekjur og eignir og aðrar aðstæður. Engin sambærileg skylda hvílir á ríkinu til að tryggja afkomu fyrirtækja eða bæta þeim upp tap. Slíkt yrði heldur ekki gert án eignatilfærslu frá almenningi til fyrirtækjanna sem erfitt er að rökstyðja. Stuðningur við fyrirtæki umfram lánafyrirgreiðslu eða gegn endurgreiðslukvöðum ætti ekki að koma til álita af þeim ástæðum auk þess að hann er vafasamur frá samkeppnissjónarmiði.

Aðgerðir ríkissjóðs vegna veirunnar munu að sjálfsögðu leiða til hærri skulda ríkissjóðs á næstu árum og þegar heyrast raddir um að nauðsynlegt sé að herða ólina á næstu árum til að greiða þessar auknu skuldir niður. Þau viðhorf eru í samræmi við skoðanir stjórnvalda víða um heim á árunum fyrir og um bankakreppuna fyrir rúmum áratug síðan og voru þá höfð sem réttlæting fyrir hörðum aðhaldsaðgerðum sem léku almenning í mörgum löndum grátt og drógu úr hagvexti.  Þessar kenningar hafa að mestu verið aflagðar meðal fræðimanna eftir 2010 þegar rannsóknir AGS og fleiri sýndu fram á að aðhald á krepputímum væri til þess fallið að seinka efnahagsbata og enn fremur að kenningar um neikvæð áhrif ríkisskulda á hagvöxt væru á sandi byggðar. Þetta ber þó ekki túlka á þann hátt að skuldsetningu hins opinbera séu engin takmörk sett heldur að hún verði að taka mið af aðstæðum hverju sinni í hverju landi svo sem hagvexti, vaxtakjörum, verðbólgu o.fl. Oliver Blanchard fyrrum aðalhagfræðingur AGS er ásamt mörgum öðrum fremstu hagfræðinga  heims á þessari skoðun og hefur hann bent á að skuldir ríkissjóða séu sjálfbærar (sustainable) þegar nafnvextir skuldanna eru lægri en nafnvöxtur vergrar landsframleiðslu. Benda má á að í ríkisfjármálaáætlun nú er gert ráð fyrir að nafnvöxtur vergrar landsframleiðslu hér verði um 4-5% á ári til 2025, vaxtastigið haldist lágt og það sé nú rúm 2%. Staða ríkissjóðs eftir veirukreppuna verður vel innan þolmarka og aðhaldsaðgerðir á næstu árum til að lækka skuldir ríkissjóðs eru hvorki nauðsynlegar né æskilegar ef svo heldur fram sem horfir.  Svokallaðar fjármálareglur sem teknar voru upp fyrir nokkrum árum hafa sannað tilgangsleysi sitt ætti hins vegar að afnema. Þær voru í hugsunarleysi apaðar eftir ESB löndunum en mörg þeirra hafa gefið þær upp á bátinn.

Dapurlegt er að sjá í nýsamþykktri ríkisfjármálaáætlun að skuldir ríkissjóðs vegna veirunnar eru notaðar til að réttlæta og styrkja þá stefnu fyrri áætlana að keyra samneysluna niður þvert á yfirlýsingar um bætta opinbera þjónustu. Vöxtur samneyslu allan áætlunartímann er hafður minni en vöxtur einkaneyslu og vergrar landsframleiðslu. Slík áætlanagerð er sjáanlega sprottin úr forneskjulegum hugarheimi þeirra sem lita svo á að öll verðmætasköpun eigi sér stað í „fyrirtækjunum“ þ.e. að störf t.d. lækna og kennara séu borin uppi af hagnaði af sölu á pylsum og kók en að þau séu ekki verðmæti í sjálfu sér. Áætlanagerð af þessum toga sýnir alvarlegan skort á þekkingu og skilningi á samfélagslegri og efnahagslegri þróun. 

Skerðing velferðarþjónustu er einnig lítt skiljanleg þegar litið er til þess að næsta auðvelt væri að sækja tekjur til þess að komast hjá niðurskurði og það án þess að koma við pyngju almennings í landinu. Hóflegur auðlegðarskattur, sanngjörn veiðigjöld og eðlileg skattlagning eignarhaldsfélaga og sjálfstætt starfandi fjársýslumanna gæti gefið ríkissjóði árlega tekjur sem svara til allt að 2% af vergri landsframleiðslu og aukið um leið sanngirni skattlagningar og bætt tekjujöfnuð í landinu.

Ótímabær eftirmæli

Verkaferill núverandi stjórnar verður endasleppur sökum veirunnar. Til stjórnarinnar var ekki stofnað af einhug. Annars vegar voru öfl sem vildu beita sér fyrir úrbótum í mjúku málunum, heilbrigðismálum, umhverfismálum, menntamálum og ýmsum félagsmálum. Hins vegar voru öfl sem vildu varðveita stöðnun í ríkisfjármálum, utanríkismálum og lýðréttindamálum. Staða efnahagsmála og fjármála haustið 2017 var hentug fyrir samstöðu þessara afla. Nægilegt fé yrði til staðar í umbótamál  til skamms tíma og með skapandi ríkisfjármálaáætlun mætti tryggja það að engu yrði breytt til lengri tíma litið. Gekk það eftir. Umbótaarmur stjórnarinnar vann sín verk af krafti, hleypti nýju lífi í heilbrigðiskerfið og mótaði því stefnu, gerði umhverfismál og náttúruvernd að alvörumálum og beitti sér fyrir félagslegum réttindamálum og eins var tekið til hendinni í samgöngumálum með framkvæmdum og samstarfi um Borgarlínuna. 

Verðið sem goldið var fyrir fyrir árangur í félagslegum málum var að trufla ekki stjórnarsamstarfið með þeim stefnumálum sem hefðu átt að vera í hinum óskrifaða hluta stjórnarsáttmálans. Ekkert hefur verið hreyft við auðlindamálum nema það að lækka veiðigjöldin, ekkert skref tekið til aukins jöfnuðar í skattamálum nema það litla sem verkalýðshreyfingin fékk áorkað, engar umbætur í skattframkvæmd þrátt fyrir að vísbendingar um skattasniðgöngu hrúgist upp, stöðnun er í gjaldeyrismálum og unað við 2-3 prósentustiga vaxtamun og að sjálfsögðu komst engin hreyfing á stjórnarskrármálin sem enn eru í gíslingu kvótaaðalsins.

Veiran sem veldur COVID-19 breytti verkefnum ríkisstjórnarinnar á síðari helmingi kosningatímabilsins. Hvort hún breytir í miklu í þeim eftirmælum sem stjórnin fær er ólíklegt. Flest gekk eftir eins og til var sáð í stjórnarsáttmálanum þar til veiran tók völdin. Línur höfðu verið lagðar fyrir árið 2020 og ekki við stórum tíðindum að búast á kosningaárinu 2021. Glíman við veiruna staðfesti hins vegar leiðtogahæfileika forsætisráðherra og atgerfi nánustu samstarfsmanna hans og farsæla forystu þeirra í erfiðum málum. Spurning er hvort það dugi til að vega upp á móti þeim gleymdu eða geymdu verkefnum sem eftir eru skilin. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur.
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Nornahár og nornatár
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá fimmti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit