Á þessum tíma árs setjum við okkur gjarnan markmið. Markmið um bæta hag okkar á einhvern hátt, til dæmis í tengslum við persónulegar áskoranir, störf eða áhugamál . Þannig höfum við að einhverju að stefna en tíminn leiðir svo í ljós hvernig okkur vegnar. Hið sama á við um hagkerfið en þar gegna stjórnvöld því hlutverki að setja markmið, móta sýn til framtíðar og ryðja hindrunum úr vegi. Markmiðin nú hljóta að snúast um að auka lífsgæði landsmanna til framtíðar en það gerist ef hér verða til fleiri eftirsóknarverð störf og meiri verðmæti til að standa undir þeim lífsgæðum sem við þekkjum og viljum búa við, meðal annars með því að greiða til baka þann mikla kostnað sem hefur fallið á hið opinbera vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Kólnun hagkerfisins var staðreynd áður en heimsfaraldurinn skall á af fullum þunga á fyrstu mánuðum ársins. Þeirri spurningu var ósvarað hvað myndi drífa hagvöxtinn á næstu árum og áratugum. Svar Samtaka iðnaðarins við þeirri spurningu er skýrt. Hugverkaiðnaður – fjórða stoðin – verður aflvaki vaxtar ef rétt er á málum haldið. Á sama tíma þarf að hlúa að öðrum greinum og skapa þeim samkeppnishæf skilyrði. Á þessu ári er gert ráð fyrir því að útflutningstekjur hugverkaiðnaðar nemi um 140 milljörðum króna eða 15% af útflutningstekjum þjóðarbúsins. Það sýnir að fjórða stoðin, hugverkaiðnaður, er raunveruleg stoð og því rétt að tala um fjórar stoðir útflutnings auk annars, en ekki eingöngu þrjár.
Nýsköpun er eina leiðin fram á við
Helstu útflutningsgreinar Íslands byggja á nýtingu náttúruauðlinda en hugvit er óþrjótandi auðlind og óháð landamærum. Það felur í sér í senn að okkar helsta tækifæri til vaxtar liggur í virkjun hugvitsins en um leið að umgjörð nýsköpunar á að vera með því besta sem þekkist svo Ísland sé eftirsóttur staður til búsetu og starfa. Samtök iðnaðarins hvetja til frekari nýsköpunar hér á landi enda getur nýsköpun skapað fyrirtækjum forskot í samkeppni, skapað verðmæti og eftirsótt störf svo ekki sé minnst á að með nýsköpun leysum við helstu áskoranir samtímans og framtíðarinnar. Með því að hvetja til nýsköpunar og skapa góð skilyrði getur hugverkaiðnaður orðið okkar helsta útflutningsstoð, skapað eftirsótt störf og mikil verðmæti. Þannig er nýsköpun eina leiðin fram á við.
Stefnumótun sem skilar árangri
Við erum þegar lögð af stað og þurfum því ekki að byggja frá grunni. Umgjörð nýsköpunar hefur verið bætt mjög undanfarin ár og stærstu framfarirnar hingað til urðu á þessu ári. Endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar hafa stóraukist, framlög í Tækniþróunarsjóð hafa aukist verulega, ráðherra hefur stofnað Kríu sem fjárfesta mun í vísisjóðum og hvatt hefur verið til fjárfestinga að öðru leyti í sprotafyrirtækjum.
Á þessu ári hafa jákvæð tíðindi borist úr hugverkaiðnaði sem sýnir að tækifærin eru sannarlega til staðar. Tölvuleikjafyrirtækið CCP og heilbrigðistæknifyrirtækið Nox Medical hafa fjölgað starfsmönnum, meðal annars vegna aukinna hvata stjórnvalda. Lyfjafyrirtækið Alvotech vinnur hörðum höndum að þróun og markaðssetningu lyfja og stefna að útflutningi fyrir yfir milljarð Bandaríkjadala innan fárra ára. Það er meira en ferðaþjónustan skilar þjóðarbúinu í ár. Líftæknifyrirtækið Algalíf hefur tilkynnt um fjögurra milljarða fjárfestingu í stækkun sem skapa mun yfir 100 störf á framkvæmdatímanum. Tæknifyrirtækið Controlant leikur lykilhlutverk við flutninga bóluefnis við COVID-19 á heimsvísu og hafa fjárfestar sýnt félaginu áhuga. Þetta eru nokkur dæmi af mörgum sem sýna svart á hvítu að hugverkaiðnaður á Íslandi hefur fest sig í sessi og að ef rétt er á málum haldið þá getur hann orðið öflugasta útflutningsstoð íslensks hagkerfis.
Sækjum tækifærin
Umbæturnar skipta sannarlega máli en það skiptir ekki síður máli að segja frá þeim til að laða hæfileikaríkt fólk og fjármagn til landsins. Stjórnvöld í öðrum löndum gera einmitt það eins og tvö nýleg dæmi bera vott um. Tæknirisarnir Google og Microsoft hafa kynnt áform um risavaxnar fjárfestingar í Danmörku og Svíþjóð. Í báðum tilvikum tóku þarlend stjórnvöld þátt í að laða fyrirtækin til landsins. Með öðrum orðum þá sóttu þarlend stjórnvöld tækifærin. Þetta eiga íslensk stjórnvöld líka að gera, sýna frumkvæði og halda til haga því sem við höfum fram að færa um leið og hindrunum í atvinnurekstri er rutt úr vegi.
Tíminn er núna
Allt á sér aðdraganda og það þarf að virða þó við viljum gjarnan að allt gerist strax. Við vitum að of seint er að hefja byggingu íbúðarhúss þegar við ætlum að flytja inn í íbúðina. Það sama á við um vöxt og viðgang burðarstoðar í hagkerfinu. Hugverkaiðnað þarf að efla enn frekar og hvetja til þess að hann verði okkar helsta útflutningsstoð. Það er ekki hægt að bíða eftir öðrum sigurvegurum stjórnvalda og það verður of seint að fara af stað þegar skammtíma viðspyrnu er náð. Langtímasjónarmið þurfa að ráða ríkjum.
Með ári nýsköpunar, sem senn er á enda, vildu Samtök iðnaðarins stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi nýsköpunar, vekja máls á því að nýsköpun ætti sér stað alls staðar, í öllum greinum, rótgrónum iðnaði og sprotafyrirtækjum og síðast en ekki síst að hvetja til frekari umbóta á umgjörð nýsköpunar á Íslandi. Þó ári nýsköpunar ljúki hér með formlega þá er verkefnið rétt að byrja. Áratugur nýsköpunar er hafinn. Með umbótum stjórnvalda er jarðvegurinn frjósamur og með hugviti frumkvöðla og annarra hefur fræjum verið sáð. Uppskeran verður ríkuleg ef rétt er á málum haldið.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.