Hlaupum hraðar

Sigurður Hannesson skrifar um mikilvægi nýsköpunar og hugverkaiðnaðar í endurreisn hagkerfisins.

Auglýsing

Á þessum tíma árs setjum við okkur gjarnan mark­mið. Mark­mið um bæta hag okkar á ein­hvern hátt, til dæmis í tengslum við per­sónu­legar áskor­an­ir, störf eða áhuga­mál . Þannig höfum við að ein­hverju að stefna en tím­inn leiðir svo í ljós hvernig okkur vegn­ar. Hið sama á við um hag­kerfið en þar gegna stjórn­völd því hlut­verki að setja mark­mið, móta sýn til fram­tíðar og ryðja hindr­unum úr vegi. Mark­miðin nú hljóta að snú­ast um að auka lífs­gæði lands­manna til fram­tíðar en það ger­ist ef hér verða til fleiri eft­ir­sókn­ar­verð störf og meiri verð­mæti til að standa undir þeim lífs­gæðum sem við þekkjum og viljum búa við, meðal ann­ars með því að greiða til baka þann mikla kostnað sem hefur fallið á hið opin­bera vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru.

Kólnun hag­kerf­is­ins var stað­reynd áður en heims­far­ald­ur­inn skall á af fullum þunga á fyrstu mán­uðum árs­ins. Þeirri spurn­ingu var ósvarað hvað myndi drífa hag­vöxt­inn á næstu árum og ára­tug­um. Svar Sam­taka iðn­að­ar­ins við þeirri spurn­ingu er skýrt. Hug­verka­iðn­aður – fjórða stoðin – verður afl­vaki vaxtar ef rétt er á málum hald­ið. Á sama tíma þarf að hlúa að öðrum greinum og skapa þeim sam­keppn­is­hæf skil­yrði. Á þessu ári er gert ráð fyrir því að útflutn­ings­tekjur hug­verka­iðn­aðar nemi um 140 millj­örðum króna eða 15% af útflutn­ings­tekjum þjóð­ar­bús­ins. Það sýnir að fjórða stoð­in, hug­verka­iðn­að­ur,  er raun­veru­leg stoð og því rétt að tala um fjórar stoðir útflutn­ings auk ann­ars, en ekki ein­göngu þrjár.

Nýsköpun er eina leiðin fram á við

Helstu útflutn­ings­greinar Íslands byggja á nýt­ingu nátt­úru­auð­linda en hug­vit er óþrjót­andi auð­lind og óháð landa­mær­um. Það felur í sér í senn að okkar helsta tæki­færi til vaxtar liggur í virkjun hug­vits­ins en um leið að umgjörð nýsköp­unar á að vera með því besta sem þekk­ist svo Ísland sé eft­ir­sóttur staður til búsetu og starfa. Sam­tök iðn­að­ar­ins hvetja til frek­ari nýsköp­unar hér á landi enda getur nýsköpun skapað fyr­ir­tækjum for­skot í sam­keppni, skapað verð­mæti og eft­ir­sótt störf svo ekki sé minnst á að með nýsköpun leysum við helstu áskor­anir sam­tím­ans og fram­tíð­ar­inn­ar. Með því að hvetja til nýsköp­unar og skapa góð skil­yrði getur hug­verka­iðn­aður orðið okkar helsta útflutn­ings­stoð, skapað eft­ir­sótt störf og mikil verð­mæti. Þannig er nýsköpun eina leiðin fram á við.

Auglýsing

Stefnu­mótun sem skilar árangri

Við erum þegar lögð af stað og þurfum því ekki að byggja frá grunni. Umgjörð nýsköp­unar hefur verið bætt mjög und­an­farin ár og stærstu fram­far­irnar hingað til urðu á þessu ári. End­ur­greiðslur vegna rann­sókna- og þró­un­ar­kostn­aðar hafa stór­aukist, fram­lög í Tækni­þró­un­ar­sjóð hafa auk­ist veru­lega, ráð­herra hefur stofnað Kríu sem fjár­festa mun í vís­i­sjóðum og hvatt hefur verið til fjár­fest­inga að öðru leyti í sprota­fyr­ir­tækj­u­m. 

Á þessu ári hafa jákvæð tíð­indi borist úr hug­verka­iðn­aði sem sýnir að tæki­færin eru sann­ar­lega til stað­ar. Tölvu­leikja­fyr­ir­tækið CCP og heil­brigð­is­tækni­fyr­ir­tækið Nox Med­ical hafa fjölgað starfs­mönn­um, meðal ann­ars vegna auk­inna hvata stjórn­valda. Lyfja­fyr­ir­tækið Alvot­ech vinnur hörðum höndum að þróun og mark­aðs­setn­ingu lyfja og stefna að útflutn­ingi fyrir yfir millj­arð Banda­ríkja­dala innan fárra ára. Það er meira en ferða­þjón­ustan skilar þjóð­ar­bú­inu í ár. Líf­tækni­fyr­ir­tækið Alga­líf hefur til­kynnt um fjög­urra millj­arða fjár­fest­ingu í stækkun sem skapa mun yfir 100 störf á fram­kvæmda­tím­an­um. Tækni­fyr­ir­tækið Controlant leikur lyk­il­hlut­verk við flutn­inga bólu­efnis við COVID-19 á heims­vísu og hafa fjár­festar sýnt félag­inu áhuga. Þetta eru nokkur dæmi af mörgum sem sýna svart á hvítu að hug­verka­iðn­aður á Íslandi hefur fest sig í sessi og að ef rétt er á málum haldið þá getur hann orðið öfl­ug­asta útflutn­ings­stoð íslensks hag­kerf­is.

Sækjum tæki­færin

Umbæt­urnar skipta sann­ar­lega máli en það skiptir ekki síður máli að segja frá þeim til að laða hæfi­leik­a­ríkt fólk og fjár­magn til lands­ins. Stjórn­völd í öðrum löndum gera einmitt það eins og tvö nýleg dæmi bera vott um. Tæknirisarnir Google og Microsoft hafa kynnt áform um risa­vaxnar fjár­fest­ingar í Dan­mörku og Sví­þjóð. Í báðum til­vikum tóku þar­lend stjórn­völd þátt í að laða fyr­ir­tækin til lands­ins. Með öðrum orðum þá sóttu þar­lend stjórn­völd tæki­fær­in. Þetta eiga íslensk stjórn­völd líka að gera, sýna frum­kvæði og halda til haga því sem við höfum fram að færa um leið og hindr­unum í atvinnu­rekstri er rutt úr vegi.

Tím­inn er núna

Allt á sér aðdrag­anda og það þarf að virða þó við viljum gjarnan að allt ger­ist strax. Við vitum að of seint er að hefja bygg­ingu íbúð­ar­húss þegar við ætlum að flytja inn í íbúð­ina. Það sama á við um vöxt og við­gang burð­ar­stoðar í hag­kerf­inu. Hug­verka­iðnað þarf að efla enn frekar og hvetja til þess að hann verði okkar helsta útflutn­ings­stoð. Það er ekki hægt að bíða eftir öðrum sig­ur­veg­urum stjórn­valda og það verður of seint að fara af stað þegar skamm­tíma við­spyrnu er náð. Lang­tíma­sjón­ar­mið þurfa að ráða ríkj­um.

Með ári nýsköp­un­ar, sem senn er á enda, vildu Sam­tök iðn­að­ar­ins stuðla að vit­und­ar­vakn­ingu um mik­il­vægi nýsköp­un­ar, vekja máls á því að nýsköpun ætti sér stað alls stað­ar, í öllum grein­um, rót­grónum iðn­aði og sprota­fyr­ir­tækjum og síð­ast en ekki síst að hvetja til frek­ari umbóta á umgjörð nýsköp­unar á Íslandi. Þó ári nýsköp­unar ljúki hér með form­lega þá er verk­efnið rétt að byrja. Ára­tugur nýsköp­unar er haf­inn. Með umbótum stjórn­valda er jarð­veg­ur­inn frjó­samur og með hug­viti frum­kvöðla og ann­arra hefur fræjum verið sáð. Upp­skeran verður ríku­leg ef rétt er á málum hald­ið.

Höf­undur er fram­kvæmda­stjóri Sam­taka iðn­að­ar­ins.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélags Íslands.
„Er sátt útgerðarfyrirtækjanna mikilvægari en sátt yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar?“
Stjórnarskrárfélag Íslands segir frumvarp forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá ganga þvert gegn niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu og sé alvarleg aðför að grundvallarstoðum lýðræðis og fullveldi íslensku þjóðarinnar.
Kjarninn 25. febrúar 2021
Ólafur Þór Gunnarsson.
Stefnir í oddvitaslag hjá Vinstri grænum í Kraganum
Ólafur Þór Gunnarsson vill fyrsta sætið á lista Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi. Varaformaður flokksins er talinn ætla sér það sæti.
Kjarninn 25. febrúar 2021
Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir vill leiða Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi
Þrjú munu berjast um oddvitasætið hjá Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi. Guðrún Hafsteinsdóttir bættist í hópinn í dag. Hún segist hafa fengið mikla hvatningu til að bjóða sig fram síðustu vikur og mánuði.
Kjarninn 24. febrúar 2021
Harðar takmarkanir víða um lönd sem og bólusetningarherferðir hafa skilað því að smitum og dauðföllum vegna COVID-19 fer hratt fækkandi.
Dauðsföllum vegna COVID-19 fækkaði um 20 prósent milli vikna
Bæði dauðsföllum vegna COVID-19 og nýjum tilfellum af sjúkdómnum fer fækkandi á heimsvísu. Í síðustu viku greindust 2,4 milljónir nýrra smita, 11 prósentum minna en í vikunni á undan.
Kjarninn 24. febrúar 2021
Kröfum gegn starfsmannaleigunni Menn í vinnu og Eldum rétt vísað frá dómi
Kröfum fjögurra erlendra starfsmanna gagnvart starfsmannaleigunni Menn í vinnu og notendafyrirtækinu Eldum rétt um vangreidd laun og miskabætur var vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Stjórnendur starfsmannaleigunnar fá greiddan málskostnað.
Kjarninn 24. febrúar 2021
Finnur Torfi Stefánsson
Vinstri Græn Samfylking
Kjarninn 24. febrúar 2021
Magnús Guðmundsson
Vatnajökulsþjóðgarður á góðri leið
Kjarninn 24. febrúar 2021
Grjóthrun hefur orðið á Reykjanesskaga og varað er við frekara hruni. Myndina tók áhöfn Landhelgisgæslunnar í eftirlitsflugi í morgun.
Hættustigi lýst yfir: Grjót hrunið úr fjöllum og hvítir gufustrókar sést
Lýst hefur verið yfir hættustigi almannavarna á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu vegna jarðskjálftahrinunnar sem hófst í morgun. Grjót hefur hrunið úr fjöllum á Reykjanesi og hvítir gufustrókar á jarðhitasvæðum sést á svæðinu.
Kjarninn 24. febrúar 2021
Meira úr sama flokkiÁlit