Við upphaf ársins 2020 óraði okkur ekki fyrir því sem fram undan var. Skyndilega duttum við saman inn í einhverskonar hliðarveröld. Fáir á ferli og varla bíll á götunni um tíma. Í verslunum spiluðum við mannlegan Tetris til að uppfylla tveggja metra regluna og samstaða og samhugur var einkennandi. Óvissan var alger framan af. Þegar á leið fórum við að sjá skýrari mynd af hinum efnahagslegu áhrifum og ljóst varð að áfallinu yrði mjög misskipt. Á meðan ferðaþjónusta, menningarstarf og ýmis þjónusta sem krefst nándar stoppaði svo til algerlega – blómstraði önnur starfsemi. Fólkið og fjölskyldurnar á bak við þessa starfsemi sem varð fyrir tekjuhruni, urðu fyrir miklu höggi. Við þessari stöðu brugðust stjórnvöld með ýmsum úrræðum en einnig fjármálafyrirtæki sem hafa gripið til margvíslegra úrræða til að styðja við heimili og fyrirtæki.
Sterk staða fjármálafyrirtækja skiptir sköpum
Fjármálafyrirtæki hér á landi eru mjög vel fjármögnuð og sterk eiginfjárstaða þeirra gerði það að verkum að þau hafa getað stutt við heimili og fyrirtæki af miklum styrk. Strax í mars brugðust til að mynda lánveitendur við óvissunni með samkomulagi um greiðslufresti sem þúsundir heimila og fyrirtækja hafa nýtt sér. Aðgerðir fjármálafyrirtækja byggðu jafnframt á samstarfi við stjórnvöld en ekki síst samvinnu einstaka fjármálafyrirtækja við sína viðskiptavini. Leitað er allra leiða til að koma heimilum og fyrirtækjum í gegnum þennan erfiða tíma óvissu, tekjufalls og atvinnumissis.
Greiðsluhlé einstaklinga og fyrirtækja
Lánveitendur bjóða alla jafna upp á greiðsluhlé fyrir einstaklinga vegna greiðsluerfiðleika. Eftir að heimsfaraldurinn skall á fjölgaði beiðnum um greiðsluhlé verulega. Með samkomulagi því sem lánveitendur gerðu sín í milli gátu fyrirtæki fengið skjóta leið í skjól þegar óvissan var sem mest. Samkomulagið byggði á ´stand-still´ fyrirkomulagi með afar lágum þröskuldi og voru 97% umsókna afgreiddar á þeim grundvelli. Þegar mest var, í byrjun júni, voru tæplega tvö þúsund fyrirtæki með greiðslufresti á sínum lánum eða um 17% allra útlána til fyrirtækja. Nýting úrræðisins hefur verið mest hjá fyrirtækjum í þjónustugreinum, þ.m.t. ferðaþjónustu og verslun. Ríflega fjögur þúsund heimili voru með greiðslufresti á sínum lánum þegar mest var í lok maí. Þörfin fyrir greiðsluhlé á lánum heimila og fyrirtækja minnkaði blessunarlega töluvert þegar leið á árið og eru nú desember um sex hundruð heimili og þrjú hundruð og tuttugu fyrirtæki með greiðsluhlé á lánum sínum.
Fyrsta rafræna þinglýsingin í miðjum heimsfaraldri
Fjármálafyrirtækin hafa um langt skeið verið leiðandi í stafrænni þróun í fjármálaþjónustu. Þau voru því vel undir það búin að vinna með sínum viðskiptavinum á tímum samkomubanns. Stærsti hluti beiðna um greiðslufresti var afgreiddur í samkomubanni og nýstárlegum leiðum beitt við afgreiðslu þeirra. Skilmálabreytingar sem fylgja greiðslufrestum fela undir hefðbundnum kringumstæðum í sér flókið og tímafrekt undirritunar- og þinglýsingarferli. Til þess að hægt væri að afgreiða þær í samkomubanni varð að heimila rafræna afgreiðslu þeirra. Alþingi greip því til þess ráðs að heimila með bráðabirgðaákvæði rafrænar undirritanir á skilmálabreytingum. Þá undirrituðu allir helstu lánveitendur sameiginlega yfirlýsingu sem felur í sér samþykki þeirra sem síðari veðhafa fyrir skilmálabreytingum vegna heimsfaraldursins. Yfirlýsingin var undirrituð rafrænt og henni þinglýst með rafrænum hætti. Þar með varð yfirlýsingin söguleg, enda fyrsta skjalið sem þinglýst er með rafrænum hætti á Íslandi.
Stuðnings- og viðbótarlán
Í júlí var opnað fyrir umsóknir um stuðningslán sem bankarnir veita en ríkissjóður ábyrgist 85-100% eftir fjárhæðum. Talsverð eftirspurn hefur verið eftir stuðningslánum og í lok nóvember var búið að veita 893 slík lán að fjárhæð um 7,4 ma.kr. Fyrirtækjum í flestum greinum hafa verið veitt stuðningslán en rúmlega helmingur lánanna hafa verið veitt til fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Í einum af fyrstu aðgerðapökkum ríkisstjórnarinnar voru kynnt viðbótarlán til fyrirtækja með 70% ríkisábyrgð. Fljótlega eftir að þau voru kynnt varð ljóst að meira þyrfti að koma til þar sem upp teiknuðust dekkri sviðsmyndir í viku hverri með tilheyrandi ferðatakmörkunum og samkomubanni. Stjórnvöld brugðust við því með stuðningslánum og eins kynntu þau fljótlega upp úr því annarra úrræða fyrir fyrirtæki og starfsfólk þeirra sem hafa gefist vel. Með framlengingu hlutabótaleiðar, stuðningi við greiðslu launa á uppsagnarfresti, lokunarstyrkjum, stuðningslánum og fleiri úrræðum dró úr eftirspurn eftir viðbótarlánum með 70% ríkisábyrgð. Þá skal það viðurkennt að umgjörð og skilyrði fyrir veitingu viðbótarlánanna voru takmarkandi þáttur og bentu fjármálafyrirtækin á það í ferlinu.
Útlánamet til heimila
Útlán vegna fasteignakaupa hafa aukist hratt á undanförnum mánuðum og hefur þar hvert metið verið slegið á fætur öðrum. Heimilin eru einnig að endurfjármagna húsnæðislán sín í töluverðum mæli. Þannig eru viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna að nýta sér þau hagstæðu kjör sem þeim standa til boða ekki síst á óverðtryggðum húsnæðislánum. Hagstæð fjármögnunarkjör á tímum sem þessum koma sér vel fyrir heimilin sem ná þannig að lækka greiðslubyrði lána sinna. Stafrænar lausnir hafa jafnframt gert þennan feril einfaldan og aðgengilegan og ljóst að heimilin fylgjast vel með möguleikum í fjármögnun á húsnæðismarkaði og hika ekki við að breyta lánaformi og skipta um lánveitanda eftir efnum og aðstæðum hverju sinni.
Hægt hefur á útlánum til fyrirtækja
Efnahagssamdráttur og aukin óvissa hefur aftur á móti dregið úr eftirspurn fyrirtækja eftir lánum enda dregur ástandið bæði úr áhættusækni og framboði á arðbærum fjárfestingartækifærum. Þannig hafa útlán til fyrirtækja svo gott sem staðið í stað frá haustmánuðum árið 2019. Nauðsynlegt verður að auka fjárfestingu hratt og örugglega og styðja þannig við atvinnusköpun og aukin lífskjör almennings. Fjármálafyrirtækin standa traustum fótum og verða hluti af lausninni með því að taka virkan þátt í þeirri viðspyrnu sem fram undan er þegar draga fer úr óvissu og vilji til fjárfestinga eykst.
Ísland af gráa listanum
Gleðifregnir bárust í október þegar Ísland var fjarlægt af lista yfir ríki með ófullnægjandi varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, eða hinum svokallaða „gráa lista“. Vettvangsathugun fór fram hér á landi í lok september, þar sem staðfest var af hálfu sérfræðinga á vegum FATF að lokið hefði verið með fullnægjandi hætti við þær aðgerðir sem Íslandi var gert að grípa til í því skyni að komast af umræddum lista. Stjórnvöld hafa lyft grettistaki í allri umgjörð peningaþvættisvarna sem skilar sér í þessari mikilvægu niðurstöðu. Varnir gegn peningaþvætti hafa um alllangt skeið verið hluti af starfsemi fjármálafyrirtækja og beindust athugasemdir FATF því að öðrum þáttum peningaþvættisvarna hér á landi. Langtímaáhrif grálistunarinnar hefðu þó komið fram í starfsemi fjármálafyrirtækjanna og því er það fagnaðarefni að Ísland sé ekki lengur talið áhættusamt ríki. Þetta er þó stöðug vinna og mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf gangi í takt og séu áfram á tánum til að varna því að fyrirtæki og félagastarfsemi séu misnotuð í glæpsamlegum tilgangi.
Hörð samkeppni – ójöfn skilyrði
Samkeppnin er hörð á fjármálamörkuðum og neytendur virkir. Sértæk álagning skatta og gjalda á einstaka aðila auk mismunandi regluverks og krafna um eiginfjárbindingu skekkir samkeppnisstöðuna. Stjórnvöld verða að horfa til þessa og gæta þess að aðilar í samkeppni á markaði sitji við sama borð. Fyrsta skrefið hefur verið stigið með lækkun á bankaskattinum svokallaða og er það vel en enn er af nægu að taka. Þetta snýst ekki bara um að bæta starfsumhverfi fjármálafyrirtækja heldur er heilbrigð samkeppni samfélaginu í heild til góðs – ekki síst neytendum.
Nú birtir hratt til
Yfir það heila hafa úrræði stjórnvalda og fjármálafyrirtækja gefist vel. Á nýju ári þarf að tryggja góðan grunn undir viðspyrnuna og ekki síst að huga að þeim sem hafa orðið fyrir mesta högginu. Einstaklingar á leigumarkaði sem misst hafa störfin, unga fólkið okkar og fyrirtæki í greinum sem ekki komast af stað aftur fyrr en bólusetningar hafa náð útbreiðslu, eru meðal þeirra sem við þurfum að horfa sérstaklega til á næstunni. Því við viljum hafa alla með þegar birta tekur – það gerir gott samfélag.
Fámennið hér á landi kallar á það að við höfum frá unga aldri lært að ganga í öll störf og hlaupa til þegar á þarf að halda. Á tímum sem þessum er þetta mikill kostur því við verðum óhrædd við að takast á við ný hlutverk og leita nýrra nýskapandi lausna. Því hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með þeim nýjungum í þjónustuframboði sem sprottið hafa upp. Það býr nefnilega í okkur mikil seigla og nýskapandi kraftur. Því mun birta hér hratt til þegar blessuð bólusetningin hefur skila tilætluðum árangri.