Nýr veruleiki á hlutabréfamarkaði

Baldur Thorlacius skrifar um árið í Kauphöllinni í jólablaði Vísbendingar.

Auglýsing

Þetta sveiflukennda ár litaðist eðlilega mikið af COVID-19. Verðþróunin á íslenska markaðnum var nánast flöt þar til í seinni hluta febrúar 2020, eða um það leyti sem það rann upp fyrir heiminum hversu alvarleg ógn steðjaði af þessari veiru. Markaðir um allan heim tóku dýfu. Þegar mest lét, upp úr miðjum marsmánuði, hafði heildarvísitala Nasdaq Iceland lækkað um 22% frá ársbyrjun. Á Norðurlöndunum lækkaði OMX Nordic 40 vísitalan mest um 26,5% og vestanhafs lækkaði S&P 500 vísitalan um 31%.

Veltan jókst til að byrja með en sveiflurnar líka. Fjármálafyrirtæki áttu erfitt með að sinna viðskiptavakt við þessar aðstæður, sem ýtti enn fremur undir sveiflur og hækkaði viðskiptakostnað. Enginn vissi hvernig þessi faraldur myndi þróast – og það var að taka sinn toll.

Tæknin til bjargar

Markaðurinn sýndi samt ótrúlega seiglu og aðlögunarhæfni við þessar aðstæður, sem og reyndar ansi margar aðrar atvinnugreinar. Borðstofur, bílskúrar og barnaherbergi tóku við af stílhreinum skrifstofum í glerturnum. Gufustraujuðum jakkafötum og drögtum var skipt út fyrir kósígalla. Zoom og Teams tóku við af fundarherbergjum með örnefni. Eins og fingri væri smellt var markaðurinn nánast alfarið rekinn frá heimilum starfsfólks þeirra fyrirtækja sem að honum standa. Allt gekk meira og minna hnökralaust fyrir sig.

Auglýsing

Þessi aukna áhersla á tækni var einnig stór áhrifaþáttur á sjálfum markaðnum þetta árið. Þekktasta hlutabréfavísitala heims, bandaríska S&P 500 vísitalan, hækkaði um 11% frá upphafi árs og til loka nóvember, þrátt fyrir að flestar hagtölur bentu til alvarlegrar kreppu. „Er markaðurinn endanlega genginn af göflunum?“ – fóru margir að spyrja sig.

Undirritaður ætlar hvorki að staðfesta né útiloka það, en telur rétt að benda á að hlutabréfavísitölur endurspegla ekki endilega raunhagkerfið eins og það er í dag. Er það hvorki staðfesting á því að markaðurinn sé á villigötum né að hann sé rétt verðlagður, heldur einfaldlega lýsing á eðli vísitalna og markaða. Hlutabréfaverð ræðst af væntingum um framtíðina. Sem dæmi má nefna geta fyrirtæki sem eru fjarri því að skila hagnaði verið afar verðmæt, eins og á oft við um efnileg fyrirtæki í tækni og nýsköpunargeiranum.

Þegar hálfur heimurinn var settur í einangrun beindust augu fjárfesta einmitt að tækninni. Hlutabréf Zoom hækkuðu t.d. um 596% frá upphafi árs og til loka nóvember. Hin gríðarstóru og ört vaxandi FAANG tæknifyrirtæki hækkuðu einnig talsvert á sama tímabili, þ.e. Facebook (um 32%), Amazon (um 81%), Apple (um 59%), Netflix (um 49%) og Google/Alphabet (um 28%). Án tæknifyrirtækja hefði ávöxtun S&P 500 vísitölunnar væntanlega verið eitthvað hóflegri.

Svipaða sögu var að segja af mörgum mörkuðum, en tæknin var aftur á móti ekki eins áberandi á þeim íslenska. Hampiðjan, sem er skráð á First North markaðinn, var hástökkvari ársins á íslenska markaðnum, en hlutabréf félagsins hækkuðu um 58% til loka nóvember. Þar á eftir fylgdu Síminn (42%), Sjóvá (39%), Kvika banki (36%), Origo (34%) og TM (33%).

Sumt fór suður

Það kemur líklega fáum á óvart að höggið var þyngst hjá þeim starfsgreinum sem urðu fyrir mestum áhrifum af faraldrinum, eins og ferðaþjónustunni. Á undanförnum árum hefur oft komið upp í umræðunni hversu fá fyrirtæki úr ferðaþjónustunni hafi verið skráð á markað, en Icelandair Group stóð þar eitt á báti (eitt í flugvél?) þegar faraldurinn hófst.

Hlutabréfaverð Icelandair Group var 82% lægra í lok nóvember en það var í upphafi árs. Svipaða sögu var að segja af erlendum mörkuðum, þar sem þekkt félög eins og SAS lækkuðu um tæplega 90% á sama tímabili og Scandic Hotels Group um 56%. Fasteignafélög hér og erlendis fóru mörg hver illa út úr þessu ástandi, en hlutabréfaverð Reita lækkaði t.a.m. um 18% á árinu og Regins um 16%, á meðan Eik hækkaði lítillega (um 4%).

Óvissa og umbreytingar

Af ýmsum ástæðum hafa tækni- og nýsköpunarfyrirtæki ekki sótt á markaðinn í jafn miklum mæli hér á landi og í nágrannalöndum okkar. Þetta er meðal annars út af sögulega háu vaxtastigi og ákveðnum misskilningi sem virðist ríkja um eðli markaðarins þegar kemur að óvissu og umbreytingum. Sú staðreynd leiðir okkur að einni stærstu áskorun markaðarins á árinu, endurfjármögnun Icelandair Group.

Það er fljótt að gleymast, hversu umfangsmiklu verkefni stjórnendur Icelandair Group stóðu frammi fyrir í upphafi faraldursins. Binda þurfti ansi marga lausa hnúta til að það tækist að bólusetja félagið fyrir mestu áhrifunum af COVID-19, en það virðist blessunarlega hafa tekist nokkuð vel – miðað við viðbrögð markaðarins eftir að hlutafjárútboð félagsins kláraðist, í september.

Þangað til var eins og hlutabréfamarkaðurinn hefði verið kyrrsettur með flugflota félagsins. Það heyrðist úr mörgum áttum að fjárfestar vildu helst ekki hreyfa sig  fyrr en þeir vissu hvað yrði um félagið, hvort þeir myndu fjárfesta í hlutafjárútboði þess og þá fyrir hversu háar fjárhæðir. Margir þeirra vildu að Kauphöllin stöðvaði viðskipti um vorið, þar til úr óvissunni hefði verið skorið. Slík stöðvun hefði þurft að vara í marga mánuði og hefði komið sér afar illa fyrir bæði fjárfesta og félagið.

Um allan heim má finna fjölmörg dæmi um almenningshlutafélög sem standa reglulega frammi fyrir viðlíka óvissu og Icelandair Group hefur gert á þessu ári. Fyrirtæki eru jafnvel skráð á markað án þess að hafa aflað nokkurra tekna – og án þess að nokkur vissa sé fyrir því að forsendur þeirra fyrir framtíðar tekjuöflun munu standast. Sum þeirra vaxa og dafna, önnur dala, þau fara í umbreytingar og jafnvel umbylta starfsemi sinni. Þetta gera þau allt fyrir opnum tjöldum, sem almenningshlutafélög, en það gerir þeim hluthöfum sem vilja síður taka þátt í vegferðinni með þeim kleift að selja  og öðrum að kaupat.

Til þess er leikurinn gerður. Að liðka fyrir því að frumkvöðlar og spennandi fyrirtæki gefi aflað sér fjármagns til að ná metnaðarfullum markmiðum. En markaður fyrir áhættufjármagn mun seint blómstra þegar vextir eru háir og bróðurpartur fjárfestinga kemur frá lífeyrissjóðum, sem eru í eðli sínu nokkuð áhættufælnir. Til þess þarf meiri breidd í fjárfestahópinn – og það fór einmitt að glitta í ákveðna þróun í þá átt þegar líða tók á árið.

Endurkoma almennings

Á fyrstu átta mánuðum ársins fjölgaði viðskiptum um 35% miðað við sama tímabil árið 2019, þrátt fyrir að velta hafi dregist saman um 11%. Þróunin var umfram allt áberandi í hlutabréfum Icelandair Group, þar sem viðskiptum fjölgaði um 46% þrátt fyrir 60% lækkun í veltu. Fleiri, en smærri, viðskipti þóttu vera nokkuð skýr vísbending um að einstaklingar væru að verða atkvæðameiri í viðskiptum.

Staðfestingin kom svo endanlega um miðjan september með niðurstöðum almenns útboðs Icelandair Group, um miðjan september. Alls bárust tilboð frá níu þúsund einstaklingum í útboðinu og hluthöfum fjölgaði um sjö þúsund, sem er frekar sturluð staðreynd í ljósi þess að fyrir útboðið voru ríflega átta þúsund skráðir hluthafar í íslenskum almenningshlutafélögum, samtals! Bendir flest til þess að þetta hafi að megninu til verið nýir fjárfestar, en miðað við nýjustu tölur frá Nasdaq verðbréfamiðstöð er heildarfjöldi einstaklinga sem eiga í íslenskum almenningshlutafélögum ríflega 16 þúsund. Þetta er um tvöföldun frá því sem áður var.

Eftir útboðið hefur fjöldi viðskipta á markaðnum haldið áfram að þokast upp á við og hefur hvert metið á fætur öðru verið slegið, Ef litið er til  fjölda viðskipta á einum degi frá hruni. Á sama tíma og einstaklingsfjárfestum er að fjölga hefur heyrst að skuldsettir spákaupmenn hafi farið svo illa út úr fyrstu bylgjunni þegar verð lækkaði hvað mest, að þeir hafi nánast horfið af markaðnum. Vonandi þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því að þeir sýni sig aftur, en slíkir fjárfestar eru einnig hluti af þeirri mikilvægu breidd sem markaðir þurfa til að geta blómstrað. Við þann lista má svo bæta erlendum fjárfestum, sem eru afar mikilvægur hlekkur í vistkerfi öflugra markaða.

Tvennt kom til á árinu sem fyllir mann bjartsýni um aukna aðkomu erlendra fjárfesta á komandi misserum. Í fyrsta lagi var tilkynnt um að íslenski markaðurinn yrði loksins tekinn inn í ákveðnar vísitölur MSCI næsta vor, eftir að hafa verið áður tekinn inn í samskonar vísitölur hjá FTSE. Þetta þýðir í stuttu máli að erlendir sjóðir, sem fjárfesta í samræmi við umræddar vísitölur, eru nú líklegri til þess að bætast við hluthafahóp íslenskra félaga.

Í öðru lagi tók Nasdaq verðbréfamiðstöð upp nýtt kerfi og sameinaðist Nasdaq CSD, sem gerði þeim kleift að uppfylla ítrustu gæðakröfur alþjóðlegra fjárfesta. Verðbréfamiðstöðvar hafa stundum verið kallaðar pípulagnir markaðarins. Ef þær virka vel tekur fólk ekki mikið eftir þeim. Ef ekki, verða fjárfestar fljótlega varir við skítafýlu. Og erlendir fjárfestar eru eins og grandvarir kaupendur, sem fjárfesta ekki í fasteignum án þess að láta mynda pípulagnirnar fyrst.

Horft til framtíðar

Eitt allra stærsta málið á árinu voru svo lækkandi stýrivextir. Lækkanir sem komu ekki af góðu, en gætu þó haft góð áhrif á markaðinn. Ekki er ólíklegt að þær hækkanir sem orðið hafa á hlutabréfaverði á árinu megi að einhverju leyti rekja til þessara aðgerða. Ef vel tekst til munu þær vera hvetjandi fyrir fjármögnun á markaði og fjölgun skráðra félaga, sem gæti hvort tveggja skipt sköpum í viðspyrnunni.

Mikið hefur gengið á þetta árið og ljóst er að markaðurinn í dag er allt annar en hann var fyrir ári síðan, af ýmsum ástæðum. Nýr veruleiki blasir við, en tíminn einn mun leiða í ljós hvernig úr honum verður unnið. Það verður því afar fróðlegt að taka stöðuna að ári. Gleðileg jól – og farsælt komandi ár!


Greinin birtist fyrst í jólablaði Vísbendingar, sem hægt er að lesa í heild sinni með því að smella hér.
Hægt er að gerast áskrifandi að blaðinu með því að smella hér.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit