Varnarsigur á veirutímum

Heiðrún Lind Marteinsdóttir skrifar um áskoranir í sjávarútveginum á árinu sem er að líða og framtíðarmöguleikum innan greinarinnar.

Auglýsing

Það er ekki alveg laust við að línur úr gömlum Percy Mayfield slagara komi upp í hugann, þegar talið berst að því að fara yfir árið sem er að líða „Hit the road Jack, and don't you come back, no more, no more, no more, no more ...“ Sjálfsagt er ég ekki ein um þá skoðun að árið hafi verið erfitt, nokkuð þreytandi, jafnvel leiðinlegt, en vissulega áhugavert á margan hátt. Svo mjög er maður háður vananum, að maður vill helst aldrei sætta sig við utanaðkomandi hömlur á daglegt líf. Því  fjölmargt hefur verið bannað; bannað að fara í skóla, bannað að hitta fólk, bannað að fara í ræktina, bannað að fara í leikhús, bannað að fara í sund, svona til að nefna fátt eitt. Svo áttum við öll að ferðast innanlands, helst innanhúss. Það reyndi því bæði á úthald og þrautseigju þjóðar sem sumir segja að eigi erfitt með að taka opinberri leiðsögn. Og nú reynir á staðfestuna, vonandi síðustu metrana áður en bóluefnið byrjar að bæta úr.   

En úr COVID endasprettinum og í íslenskan sjávarútveg. Árið hófst með nokkrum bægslagangi í veðrinu, tíðin var rysjótt og erfiðlega gekk að halda skipum á sjó. Gæftaleysi einkenndi því upphaf ársins. Síðan varð ljóst að loðnan var hér ekki í nægjanlegu magni til þess að hægt væri að gefa út kvóta og var það annað árið í röð sem slíkt högg reið yfir. En þeir sem sækja sjóinn vita að brugðið getur til beggja vona þegar náttúran er annars vegar. Við hana verður ekki ráðið nema að litlu leyti. Um líkt leyti fór að bera á fréttum af kórónuveirunni. Ljóst var strax að hér var á ferðinni óværa sem myndi hafa djúpstæð áhrif á gang mála í sjávarútvegi og á mannlífið almennt. Það varð enda niðurstaðan. 

Fyrstu áhrifa á sjávarútveginn tók að gæta strax við upphaf faraldursins. Fyrstu merki þess voru að það þrengdist um á mörkuðum og ákveðnir markaðir, bæði vestan hafs og austan, nánast lokuðust eins og hendi væri veifað. Sérstaklega var það áberandi á mörkuðum fyrir ferskan fisk. Og það sama var að gerast á markaði fyrir eldisfisk frá Íslandi, bæði lax og bleikju. Sala á frystum fiski gekk hins vegar nokkuð betur og spurn var eftir söltuðum afurðum, meðal annars í Portúgal. Markaður fyrir mjöl og lýsi hélst opinn. Lögmálið um framboð og eftirspurn lét þó ekki að sér hæða. Kaupendur íslenskra sjávarafurða lentu í erfiðleikum og leiddi það til þess að þrýstingur varð til lækkunar á afurðum frá Íslandi. Afpantanir jukust og margir þurftu lengri greiðslufrest. 

Auglýsing

Til að bregðast við þessu ástandi settu íslenskir framleiðendur meira í frost og geymdu afurðirnar frekar en að selja lágu verði. Þetta leiddi til þess að tekjur drógust saman og kostnaður vegna geymslu jókst. Flutningar yfir landamæri urðu snúnari og kostnaðarsamari, en heilt yfir má segja að þeir hafi gengið nokkuð bærilega og reyndar urðu ekki meiriháttar vandræði vegna flutninga. Þegar horft er til baka er skiljanlegt að taugaveiklunar hafi gætt á mörkuðum við upphaf COVID-19. Enginn vissi hvað fram undan væri og því skiljanlegt að margir hafi takmarkað áhættuna með því að halda að sér höndum; útflutningur dróst strax saman. En hvernig sem allt veltist í veröldinni, þarf fólk að borða. Það kom á daginn. 

Þegar líða fór á árið varð ljóst að COVID-19 hafði minni áhrif á íslenskan sjávarútveg en óttast var í fyrstu. Seðlabankinn spáði í maí 12% samdrætti í sjávarútvegi í ár, en þegar líða tók á árið lækkaði bankinn töluna í 8%. Ekki er ljóst þegar þetta er skrifað hversu mikill hann verður, en það sem hjálpaði útflutningsatvinnugreinunum í þessu ástandi, var að gengi krónunnar gaf eftir. Það byrjaði hins vegar að styrkjast þegar líða tók á haustið.  

Vægi sjávarafurða í gjaldeyristekjum þjóðarbúsins af vöru- og þjónustuviðskiptum hefur verið um fimmtungur á undanförnum árum. Þetta breyttist í ár og á fyrstu níu mánuðum ársins var vægið komið í 27% og hefur ekki verið hærra síðan árið 2007. Þótt það sé vissulega ánægjulegt að sjávarútvegurinn hafi haldið sjó, þá er að sjálfsögðu aukin hlutdeild hans til komin vegna samdráttar á öðrum sviðum, einkum í ferðaþjónustu. 

Ég leyfi mér að segja að íslenskur sjávarútvegur hafi unnið varnarsigur í rekstrarumhverfi kórónuveirunnar. Árangur íslensks sjávarútvegs má fyrst og fremst þakka sveigjanleika íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins og fjárhagslega sterkum og vel reknum fyrirtækjum. Kvótakerfið byggist á því að fyrirtækjum er heimilt að veiða ákveðið magn af fiski, sem þau síðan gera, þegar hentar. Til skamms tíma geta þau því „geymt“ fiskinn í sjónum og sótt hann þegar betur árar. Þegar svo er þarf að stilla saman veiðar, vinnslu og sölu, eins og reyndar er gert á öllum tímum. Þessir þættir eru oft samþættir og það gerir fyrirtækjunum mun auðveldara að takast á við óvænt atvik. Það er ekki nóg að veiða fiskinn, það þarf einnig að verka hann, pakka og selja. Allir þessir hlekkir í keðjunni stóðust þolraun kórónuveirunnar. Verðmæti urðu til dag hvern. Í því samhengi má geta þess, að á sama tíma kepptust ríki beggja vegna Atlantshafsins við að dæla fjármunum skattgreiðenda inn í sjávarútveg með sértækum aðgerðum. Til þess kom ekki hér á landi, blessunarlega. 

Í þessu ástandi hefur berlega komið í ljós að vel fjármögnuð fyrirtæki eru langtum líklegri til að standa af sér storminn. Fyrirtæki með lítið eigið fé hafa ekki á neitt að ganga þegar í bakseglin slær. Mér hefur oft fundist að þeir, sem vilja umbylta fiskveiðistjórnunarkerfinu, horfi fram hjá þessari staðreynd. Það er ekki aðeins hagur fyrirtækjanna sjálfra að vera vel fjármögnuð, það skiptir land og þjóð einnig miklu. Hvað hefði gerst ef sjávarútvegurinn hefði verið veikburða og skuldum hlaðinn þegar faraldurinn hófst; hefði það gagnast þjóðinni betur, þegar sjávarútvegurinn er ein helsta uppspretta gjaldeyris? Þetta er atriði sem gott er að hafa í huga þegar barist er fyrir því að veikja fjárhagslegar stoðir sjávarútvegs. Íslendingum hefur tekist að gera sjávarútveg að efnahagslegri burðarstoð og íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð á heimsvísu. Það er gott hlutskipti.

Samfélagsstefna

Undirbúningur að samfélagsstefnu sjávarútvegs hófst í fyrra og var hún kynnt á haustmánuðum. Til að fá fram sjónarmið og umræðu og leiða saman fólk úr ólíkum áttum, var brugðið á það ráð að halda fjóra opna fundi í veitingahúsinu Messanum í húsi Sjóminjasafnsins á Granda. Reyndar kom COVID í veg fyrir að hægt væri að hafa fjórða og síðasta fundinn opinn og honum var því eingöngu streymt á netinu. Þessir fundir tókust vel og var bæði gagnlegt og fróðlegt að leiða saman fólk með ólíkar skoðanir á sjávarútvegi. Afrakstur fundanna var síðan hafður til hliðsjónar þegar samfélagsstefnan var skrifuð. Stefnuna má sjá í heild sinni sjá hér. 

Fiskeldi

Ein er sú útflutningsgrein sem sýndi að hún býr yfir miklum möguleikum, kjósi yfirvöld að halda rétt á spilunum. Það er fiskeldi. Er nú svo komið að afurðir frá fiskeldi eru um 5% af vöruútflutningi frá Íslandi. Verðmætin slaga í 30 milljarða króna. Á COVID tímum kemur það berlega í ljós hversu mikilvægt það er fyrir útflutningsdrifið hagkerfi eins og það íslenska, að hafa fleiri en eina efnahagslega stoð. Því fleiri sem þær eru, því betra. Miðað við fyrirliggjandi áætlanir mun hlutur fiskeldis í útflutningstekjum vaxa á komandi árum og gera þjóðarbúinu auðveldara fyrir þegar slær í bakseglið. 

Áhrif fiskeldis á þjóðarhag er auðvelt að lesa úr tölum Hagstofunnar. En það hefur ekki síður áhrif á nærumhverfi sitt. Tvær nýlegar fréttir má nefna því til stuðnings. Rebekka Hilmarsdóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð segir frá því í viðtali við Morgunblaðið 20. nóvember að fiskeldið vestra hafi snúið hnignun í sókn: „Við erum að sjá ákveðin merki meðal annars í íbúaþróuninni. Þegar maður tengir þessa íbúaþróun við atburði sem hafa verið að eiga sér stað frá því var hafist handa við að koma þessu fiskeldi á koppinn, þá sér maður að íbúafjöldinn sem var í frjálsu falli frá 1998 fer að breytast og íbúum fer að fjölga því atvinnutækifærin eru fleiri. Það er ekki hægt að fullyrða að hægt sé að rekja alla breytinguna til fiskeldisins en það er ljóst að fiskeldið setti af stað ákveðinn snjóbolta sem gerði það að verkum að íbúafjöldinn jókst og er stöðugt að aukast. Við sjáum mjög stórar breytingar bara á þessu ári sem er ótrúlega skemmtilegt.“ Svo mörg voru þau orð. Annað nýlegt dæmi má taka úr fréttum Stöðvar tvö. Þar er sagt frá liðlega tvítugri konu á Flateyri sem stofnað hefur matvælavinnslu til að fullvinna vörur úr vestfirskum eldisfiski. Þar eru starfsmenn nú orðnir þrír.  

Sem sagt

Árið var í heild sinni viðburðaríkt og COVID gerði það enn viðburðarríkara, kannski umfram nauðsyn. Íslenskur sjávarútvegur stóð þetta af sér og sýnir enn og aftur að hann er sú efnahagslega stoð sem honum er ætlað að vera. Ýmsum þykir ástæða til að reyna að hafa áhrif á það til hins verra, einhverra hluta vegna, án þess að geta svarað því hvað taka eigi við. Sá málflutningur er óheppilegur, ósanngjarn og skaðlegur, og það allt í senn. Fiskeldið stóð einnig af sér miklar áskoranir á óvissutímum og er afar ánægjulegt að fylgjast með fyrirtækjum í þeim geira og vænta má enn meira af þeim þegar fram líða stundir. 

Undarlegt og erfitt ár er að klárast. Flest tökum við árinu 2021 líklega mjög fagnandi, eftir allt sem á undan er gengið. Hvað sjávarútveg varðar, þá vil ég leyfa mér að vera bjartsýn. Eftirhreytur kórónuveirunnar verða sannanlega til staðar; hagkerfi heimsins hefur kólnað verulega og kaupmáttur fólks, hvar sem það kann að búa, hefur minnkað. Það hefur í för með sér áskoranir í sölu á góðum íslenskum fiski í hæsta gæðaflokki. Ég er þó ekki í nokkrum vafa um, að styrkur og reynsla íslensks sjávarútvegs verða lykillinn að áframhaldandi verðmætasköpun á viðsjárverðum tímum. Hér eftir sem hingað til. 

Gleðilegt ár.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit