Þöggun er spilling og spilling er glæpur

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gerir upp árið 2020 en hann segir að meðvirkni varðandi lífeyrismál á Íslandi sé lokið – og að tími aðgerða sé að hefjast.

Auglýsing

Af öllu því markverða sem taka mætti fyrir um árið 2020 ætla ég að skrifa um átökin í kringum lífeyrissjóðina síðustu ár. Eftir að lífeyrissjóðakerfinu var komið á voru sjóðirnir margir og tengdust ólíkum og margvíslegum hagsmunum tengdum landsvæðum, atvinnugreinum, mennta- og starfsgreinum. Sjóðirnir voru um 97 talsins þegar mest lét en eru nú um 22.  

Sjóðunum hefur því fækkað mikið með sameiningum og á sama tíma stækkað gríðarlega. 

Það er þekkt mantra um lífeyrissjóðina að fyrir tíma verðtryggingarinnar hefðu margir þeirra orðið ógjaldhæfir vegna óðaverðbólgu. Það er ekki rétt, nema að hluta til. Hið rétta er að langflestir sjóðirnir sem runnu inn í aðra, með tilheyrandi réttindaskerðingum, gerðu það vegna þess að fjárfestingar þeirra voru óábyrgar og oftar en ekki tengdar hagsmunum þeirra sem að þeim stóðu t.d. fjárfestingum í fyrirtækjum sem héldu uppi atvinnustigi á ákveðnum landsvæðum sem sjóðirnir störfuðu á. Einnig var þekkt að venslamenn stjórnenda fengu ríflegar fyrirgreiðslur án viðlíka trygginga og krafist er í dag og á kjörum sem ekki var allra að fá eða í nokkru samræmi við áhættu. 

Auglýsing

Varðhundar kerfisins hafa hins vegar alltaf fundið einhverja aðra sökudólga en brotalamirnar í kerfinu sjálfu þegar illa fer. Þannig verður til þöggun.

Þöggun er ákveðið form spillingar. Þegar stjórnendur og stjórnir fyrirtækja og lífeyrissjóða, sem eru í eigu almennings, sinna ekki eftirlitsskyldu sinni. Með því að bera fyrir sig eigið orðspor eða neikvæða umræðu sem skapast getur þegar viðkvæm mál eða misbrestir eru skoðaðir og mögulega kærðir.

Þetta á að sjálfsögðu líka við um eftirlitsaðila.  

Það tala t.d. fáir um það hvernig sjóðirnir þögguðu niður umræðu um gjaldmiðlasamningana sem gerðir voru í aðdraganda bankahrunsins og urðu að skuld á móti gengishagnaði erlendra eigna þegar krónan hrundi. Þarna var um augljós lögbrot að ræða sem sjóðirnir og eftirlitsaðilar neituðu að gangast við. Það hlýtur svo að vera sérstakt rannsóknarefni af hverju sjóðirnir fóru ekki í nein dómsmál eða gerðu skaðabótakröfur á hendur ábyrgðarmönnum hrunsins og endurskoðendum bankanna og stórfyrirtækja sem kvittuðu upp á að allt væri í lagi, gegn betri vitund að virðist miðað við fyrirliggjandi opinber gögn.

Í eftirmálum bankahrunsins var stofnaður Framtakssjóður Íslands sem var gert að kaupa upp gjaldþrota brunarústir hrunsins. Sjóðurinn var í eigu lífeyrissjóðanna og Landsbankans. Framtakssjóðurinn skilaði gríðarlegri arðsemi en fáir virðast fá hljómgrunn fjölmiðla þegar rakið er hverjir keyptu svo eignirnar af framtakssjóðnum. En það voru að mestu sjóðirnir sjálfir (eigendur Framtakssjóðs Íslands) og þannig varð til þekkt hringaverðmyndun. Það tala fáir um þessa staðreynd og enn færri um rekstrarkostnað framtakssjóðsins. Það hefði vel verið hægt að slíta sjóðnum miklu fyrr eða árið 2014 þegar eina hlutverk framtakssjóðsins var að halda utan um hlutabréfaeign í þremur félögum og einhverjar bankainnistæður en í dag og yfir 1.000 milljónum í rekstrarkostnað síðar er enn ekki búið að slíta honum.

Hvernig í ósköpunum er hægt að láta þetta viðgangast? 

Hægt væri að skrifa margar blaðsíður af málum sem hafa verið þögguð niður af hálfu stjórnenda lífeyrissjóðanna. 

En nýjustu stóru dæmin eru salan á Bakkavör árið 2016 en þar er margt sem bendir til að félagið hafi verið undirverðlagt svo nemi 60 til 90 milljörðum króna, sem gerði málið að einu stærsta fjársvikamáli Íslandssögunnar ef í ljós kæmi maðkur í þeirri grautfúlu mysu sem málið allt er. En ekki fóru sjóðirnir í að kanna það mál. Í það minnsta spyrja af hverju félagið reyndist allt að fimmfalt verðmætara við skráningu? Eða önnur mál sem geta þótt óþægileg fyrir orðspor sjóðanna. Orðspor sem ekki virðist mikið samkvæmt könnunum á trausti til þeirra. Og þrátt fyrir að ýmislegt nýtt bendi til þess að brotalamir hafi verið við söluna á Bakkavör sitja sjóðirnir þöglir sem gröfin.

Sama má segja um ábyrgð stjórnenda stærstu fyrirtækja og fjárfestingarsjóða sem sjóðirnir eiga og hafa átt í síðustu ár. Má nefna þar nýlegt dæmi um málefni Lindarvatns, sem byggir lúxushótel á Landssímareitnum, þar sem almenningshlutafélagið Icelandair var látið kaupa verðlítinn hlut á 1,8 milljarða króna. Margföldum lottóvinningnum af viðskiptunum var svo skipt bróðurlega á milli örfárra en vel tengdra aðila. Lífeyrissjóðirnir fjármagna svo að stórum hluta framkvæmdina þar sem ekkert hefur staðist í tíma og kostnaði. 

Á meðan ærandi þögnin ríkir um þessi mál og mörg önnur sem ekki verða gerð betri skil að þessu sinni virðast eftirlitsaðilar vera engu skárri.

Þegar stjórn VR ákvað að gera breytingar á stjórn lífeyrissjóðs Verslunarmanna vegna gruns um brot á neytendalögum er varða skilmála sjóðfélagalána, þegar stjórn sjóðsins hækkaði vexti á lánum með breytilega vexti þegar stýrivextir lækkuðu, hafa eftirlitsaðilar og SA verið á tánum. Ekki vegna brotanna sem síðar voru staðfest af neytendastofu, heldur vegna freklegra afskipta verkalýðshreyfingarinnar af starfsemi sjóðsins. 

Hingað til hafa hagsmunaaðilar í kringum atvinnulífið haft sjóðina í heljargreipum án teljandi afskipta frá verkalýðshreyfingunni og án teljandi afskipta frá eftirlitsaðilum nema til að láta undan þrýstingi og taka þátt í þeirri grímulausu herferð sem hrundið hefur verið af stað gegn stjórnarmönnum okkar og heilindum þeirra.  

Og ef breyta þarf lögum til að aðlaga kerfið betur að þörfum sérhagsmuna renna þær eins og gegnumtrekkur í gegnum löggjafann.

Það vita eflaust ekki margir að gerðar hafa verið á annað hundrað laga og reglugerðarbreytingar um starfsemi lífeyrissjóða frá bankahruni og ansi margar þeirra bera ekki með sér að hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi. 

Hverjir stjórna stærstu fyrirtækjum landsins og í hvaða eignarhlutfalli?

Sjóðirnir hafa verið og eru notaðir í valdabrölti viðskiptablokka í atvinnulífinu. Þeir eru hljóðir og afskiptalitlir meðeigendur sem spyrja ekki spurninga og þora ekki að hafa hátt, rugga engum bátum en tryggja valdamiklum minnihlutaeigendum skjól til að ráða öllu í stærstu fyrirtækjum landsins. Þetta sást vel með Eimskip og óafsakanlega umhverfisglæpi stjórnenda við förgun á skipum, hverjir stjórna Eimskip? Jafnvel FME veitti þeim undanþágu frá lögum um yfirtöku þegar hluturinn fór yfir uppgefin mörk. Þannig braut FME lög og lífeyrissjóðrnir þögguðu málið niður.

Ekki sama hvort þú ert Jón eða séra Jón.

Icelandair málið FME og Seðlabankinn

Það eru gerðar alvarlegar athugasemdir við skoðanir forystufólks í verkalýðshreyfingunni á einstaka fjárfestingu en engar athugasemdir gerðar við skoðanir fólks sem situr hinum megin við borðið. Var bara ámælisvert að hvetja til að sniðganga fjáfestingarkost en ekki að hvetja til hans? 

Skoðaði FME þá sem sitja í stjórnum sjóðanna og hvöttu opinberlega til þátttöku í hlutafjárútboði Icelandair? Og hæfi stjórnarmanna í lífeyrissjóðum sem tengjast félögum sem hafa mikla hagsmuni af viðskiptum við Icelandair og ummæli þeirra í aðdraganda útboðsins? 

Það er rétt að stjórnarmenn okkar í Lífeyrissjóði verslunarmanna voru beittir þrýstingi í aðdraganda hlutafjárútboðs Icelandair. En ekki af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. Þrýstingurinn kom úr hinni áttinni. 

Mikill þrýstingur var á stjórnarmenn okkar að leggja til hliðar sjálfstætt og faglegt mat og láta undan þrýstingi SA sem bæði í ræðum og riti görguðu á torgum um mikilvægi þess að sjóðirnir tækju þátt. Það er hinsvegar rétt að hreyfingin lagðist gegn fjárfestingu í Icelandair, til að byrja með, eftir aðför stjórnenda að lögum um vinnuréttinn en það mál leystist og fyrri yfirlýsingar voru dregnar til baka. 

Þar við sat!

Samkvæmt fjárfestingastefnum og og samþykktum sjóðanna á alþjóðlegum stöðlum um siðferði og sjálfbærni í fjárfestingum var sjóðunum ekki heimilt að fjárfesta í félagi eða fyrirtæki sem braut gegn réttindum vinnandi fólks. Ekki frekar en að fjárfesta í félagi sem stundar peningaþvætti eða aðra skipulagða glæpastarfsemi. 

Verkalýðshreyfingin undirstrikaði þessar staðreyndir

Þrýstingurinn fyrir þátttöku lífeyrissjóðanna í hlutafjárútboði Icelandair var svo mikill að hann náði inn á Alþingi Íslands þar sem breyta þurfti lögum um fjárfestingaheimildir lífeyrissjóða svo þeir gætu tekið þátt. Hvaðan komu tillögurnar um lagabreytingarnar?

Það hlýtur að vera niðurlægjandi fyrir stofnun eins og Fjármálaeftirlitið að mælast með svo lítið traust og raun ber vitni. En er það skrýtið þegar stofnunin ræðst gegn skoðunum þeirra sem standa næst sjóðfélögum á meðan skoðanir annara og athafnir eru í lagi eða látið ótalið og afskiptalaust þegar embættismenn eða aðrir ráðamenn þjóðarinnar tala um mikilvægi þess að breyta lagaumhverfi sjóðanna svo þeir geti fjárfest í þessu eða hinu. Jafnvel breyta uppgjörsreglum sínum með tilheyrandi réttindaskerðingu svo hægt sé að beina þeim í ákveðnar fjárfestingar.

Allir mega hafa skoðun á sjóðunum nema þeir sem halda á umboðinu næst þeim sem þá raunverulega eiga. 

Meira að segja Seðlabankastjóri gerði samkomulag við sjóðina fyrr á þessu ári um að þeir færu ekki úr landi með fjármuni á meðan aðrir fjárfestar gátu það. Slíkt inngrip, mismunun og afskipti eru fáheyrð og ekki byggð á neinum lagalegum grunni. Það er ljóst að sjóðirnir hafa orðið fyrir tjóni vegna þessa en það verður varla skoðað frekar en annað sem miður fer.

Helgi og fjölmiðlarnir

Það er broslegt að fylgjast með miðlum eins og Fréttablaðinu og tengdum miðlum (Torg) í eigu Helga Magnússonar fjárfesti sem kerfisbundið ganga að heilindum mínum og stjórnarmanna okkar í málinu og málefnum lífeyrissjóðanna. Helga Magnússon þarf líklega ekki að kynna fyrir mörgum innan úr lífeyrissjóðakerfinu en fyrir þá sem ekki þekkja var hann um árabil í stjórn og sem stjórnarformaður Lífeyrissjóðs Verslunarmanna. Það hefur verið umtalað árum saman hvernig Helgi sat báðum megin borðs og átti persónulegra hagsmuna að gæta á meðan sjóðurinn var að fjárfesta í félögum sem hann sjálfur tengdist. Hins vegar hefur ekki verið mikið skrifað um það hvernig hann beitti sér gagnvart mönnum og málefnum í krafti stöðu sinnar. Það er efni í aðra grein þar sem saga Helga verður ítarlega rakin ásamt því hvernig honum var á endanum bolað út og af hverjum. Það hefur nefnilega ýmislegt gengið á innan hreyfingarinnar frá því ég tók þar fyrst sæti í stjórn árið 2009.

Eru breytingar framundan?

Hefur eitthvað breyst frá því að sjóðirnir voru notaðir grímulaust í krafti atvinnulífsins til að styðja viðskiptablokkir eins og var svo áberandi í aðdraganda bankahrunsins, eða voru notaðir sem ruslakistur fyrir verðlausa pappíra?

Já, það hefur ýmislegt breyst til hins betra og margt jákvætt verið gert til að ramma inn regluverk í kringum starfsemi sjóðanna og þar starfar mikið af strangheiðarlegu og eldkláru fólki. 

En eftir höfðinu dansa limirnir og stærsta vandamálið er ennþá til staðar sem eru tengsl hagsmunaaðila við stjórnir sjóðanna og er þar verkalýðshreyfingin engin undantekning frekar en SA. Afskiptaleysi verkalýðshreyfingarinnar, meðvirknin og þöggunin er jafn skaðleg og spillingin. 

Ofsafengin viðbrögð SA og eftirlitsaðila við því að einum fjárfestingarkosti af ótal mörgum var hafnað eftir ítarlegt og faglegt mat lýsir best við hvað við erum að eiga og hvaða aðgerða þarf að grípa til.

Stóra baráttumálið framundan hlýtur að vera sjóðfélagalýðræði þar sem sjóðfélagar sjálfir kjósi stjórnir sjóðanna. Eina leiðin til þess að það gerist er í gegnum löggjafann og lögfesta þannig sjóðfélagalýðræðið. 

Það er alveg ljóst miðað við framgöngu SA og tengdra hagsmunaaðila undanfarin misseri og ekki síst áratugi í málefnum lífeyrissjóðanna að eitthvað róttækt verður að gerast. Einhverjar breytingar verða að eiga sér stað til að koma í veg fyrir að síendurteknum spillingarmálum sé ekki kerfisbundið sópað undir teppi og þögguð niður.

Vonandi verður þetta stóra kosningamálið í næstu Alþingiskosningum.

Þöggun er spilling og spilling er glæpur

Hvað ávöxtun varðar má í lokin segja frá því að nýir stjórnarmenn sem tilnefndir voru af VR eru að ganga í gegnum sitt annað uppgjörsár hjá Lífeyrissjóði Verslunarmanna. Þessi tvö ár hafa verið ein þau allra bestu í sögu sjóðsins frá upphafi. Ekki er mikið fjallað um það.

Eitt er víst að tími meðvirkni með þessu ástandi er lokið og tími aðgerða að hefjast. Það munum við sýna í verki á nýju ári. 

Höfundur er formaður VR.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit