Árið 2020 hefur að mestu markast af heimsfaraldrinum. Kórónuveiran hefur leitt til dauða yfir einnar og hálfrar milljónar manna, hagkerfi veraldarinnar orðið fyrir meira áfalli en eftir fjármálakreppuna árið 2008 og samfélagssamskipti verið háð gangi veirunnar. Náttúruöflin hafa líka verið okkur Íslendingum erfið, snjóflóð á Flateyri og aurskriður á Seyðisfirði. Þetta erfiða ár hefur sýnt okkur hvers samfélag okkar er megnugt. Vísindin færa okkur vonarneista um að bóluefni muni veita okkur öryggi og vernda okkur frá veirunni. Að sama toga hefur tæknin auðveldað okkur að komast í gegnum þennan tíma með því að færa okkur menntun, vinnu og félagsskap. Einnig höfum við borið gæfu til að nýta kraft hinna opinberu fjármála til að koma samfélaginu í gegnum þennan tíma. Styrkleikar samfélagsins hafa því stappað í okkur stálinu, og minnt okkur á mikilvægi þeirra.
Vísindin: Alþjóðleg samvinna býr til bóluefni
„Þekking, hyggindi, viska og vit eru ástand sem gerir okkur kleift að öðlast sannleika og glepjast aldrei á hinu brigðula og óbrigðula, en þar sem ástandið getur hvorki verið þekking, hyggindi né viska, stendur vitið eftir. Vit fæst því við forsendur eða upptök“. Svo ritaði Aristóteles á sínum tíma og gerir þekkingunni, hyggindum, visku og viti hátt undir höfði. Enda er það svo, að það þurfti bóluefni til að fást við upptökin á vandanum sem kórónuveiran færði heimsbyggðinni. Vísindin og alþjóðasamvinna á þeim vettvangi er að gera veröldinni kleift að halda áfram.
Það tók færustu vísindamenn heims á sínum tíma níu ár að þróa bóluefni gegn mislingum, eftir að veiran sem olli sjúkdómnum var einangruð um miðja síðustu öld. Tilraunir og rannsóknir með bóluefni gegn lömunarveiki stóðu í 20 ár, áður en fyrsta leyfið var gefið út í Bandaríkjunum árið 1955.
Því þykir kraftaverki líkast að tekist hafi að þróa bóluefni gegn Covid-19 á þessum tiltölulega skamma tíma, rúmlega ári eftir að fyrstu fréttir bárust af veirusjúkdómi sem síðar varð að heimsfaraldri. Viðbrögðin á mörkuðum eftir að ljóst var að bólusetning væri að hefjast voru mikil. Hlutabréf hækkuðu og sérstaklega í fyrirtækjum sem verst hafa orðið úti í heimsfaraldrinum – t.d. flug- og ferðafélögum – og jákvæðir straumar kvísluðust um allt samfélagið, meðal annars inn í hagvaxtarspá Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD). Spáir stofnunin því að hagvöxtur á árinu 2021 verði 7%, eða 2% hærri vegna tilkomu bóluefnisins, eftir sögulegan samdrátt á þessu ári, með tilheyrandi atvinnumissi.
Íslenska heilbrigðiskerfið, íslenskir vísindamenn og þjóðin í heild sinni hefur staðið sig með miklum sóma. Aðferðafræðin hefur þótt til eftirbreytni. Í samvinnu við Decode Genetics var hægt að bjóða upp á umfangsmestu skimun þjóða gegn veirunni. Afraksturinn nýtist heiminum öllum, þar sem ótal afbrigði veirunnar hafa fundist. Landamæraskimunin hefur einnig reynst vel í því að ná tökum á veirunni. Samspil vísinda og tækni á Íslandi hefur raungert þann árangur að dauðsföll vegna kórónuveirunnar eru færri og virkni samfélagsins meiri en aðrar þjóðir hafa upplifað á þessu ári. Hagrannsóknir sýna einfaldlega að því færri sem smitin eru, því meiri efnahagsleg virkni og því minna er þörf á opinberum inngripum. Í upphafi kórónuveirufaraldursins héldu margir að sóttvarnir væru að drepa hagkerfið, en það er röng rökfærsla – heimsfaraldurinn veldur því. Sóttvarnir eiga að gera okkur fært að hafa samfélagið opið og auka frelsi okkar. Stærsta viðfangsefni þjóðarinnar er að bólusetning gangi hratt og örugglega fyrir sig. Bólusetningin er forsenda efnahagsbatans!
Tæknin: „10-ára tæknistökkbreytingin“
Tækninotkun hefur þróast mikið á tímum kórónuveirunnar, hvort sem á við um fjarkennslu, netverslun eða fjarfundi. Ljóst er að margir eru að nýta tíma sinn betur vegna tækninnar og þróa nýjar aðferðir við störf sín. Sumir ganga svo langt að segja að á aðeins nokkrum mánuðum hafi stafræn þekking aukist meira en nokkur hafi gert sér vonir um á 10 árum og kalla það „10-ára tæknistökkbreytinguna“.
Enginn sá fyrir að tækniframþróun myndi gerast á svona skömmum tíma, enda voru að ytri aðstæður, heimsfaraldur, sem knúðu hana fram. Mikið af þeirri tækniþróun sem hér er lýst var komin vel á veg á Íslandi, þ.e. stafræna byltingin. Ljósleiðaravæðing landsins hefur gengið vel og tölvubúnaður fyrirtækja og heimila er með því framsæknasta í veröldinni. Við sjáum það glöggt í skólakerfinu, hversu vel því hefur tekist að tryggja menntun í landinu í gegnum heimsfaraldurinn. Það er afrek og á allt okkar skólafólk miklar þakkir skilið fyrir að hafa farið inn í þessar aðstæður af miklu hugrekki og lagt mikið á sig til að treysta sem bestu menntun á öllum skólastigum við allra óvenjulegustu aðstæður í 100 ár. Takk!
Þrátt fyrir að „10-ára tæknistökkbreytingin” feli í sér ýmis tækifæri, þá munu sum svið samfélagsins þurfa að endurskipuleggja sig og leita nýrra lausna. Við höfum séð mörg störf hverfa vegna þessa og margir eiga um sárt að binda. Lykilatriðið varðandi þessi miklu umskipti er að hafa traust menntakerfi, sem getur tekið á móti þeim einstaklingum sem vilja leita sér nýrra tækifæra. Ríkisstjórnin gerði það að leiðarljósi sínu í upphafi faraldursins að verja og styðja menntakerfið ásamt því að sækja fram í nýsköpun, rannsóknum og þróun. Fjárfesting á þessum sviðum hefur aukist um tugi prósenta á síðustu árum. Ein meginástæðan fyrir því er að ríkisstjórnin vill ná utan um íslenskt samfélag og ýta undir frekari verðmætasköpun sem tæknin felur í sér. Ísland verður að efla hugverkadrifinn útflutning til að auka stöðugleika í gjaldeyrisköpun þjóðarbúsins og styrkja þannig fjórðu útflutningsstoðina.
Nýsköpun á tæknisviðinu hefur aldrei verið öflugri og við þurfum að tryggja að okkar samfélag geti áfram tekið þátt í þeim miklu umskiptum sem eru að eiga sér stað. Ég er sannfærð um að lausnin að þeim áskorun sem veröldin stendur frammi fyrir í loftslags- og umhverfismálum finnst í tækninni, þ.e. með framsæknari leið til að búa til hreina orku. Ísland stendur einna fremst á þessu sviði og við eigum að sækja enn meira fram í þeim efnum, því áratuga reynsla og þekking er til hjá okkar færasta fólki á sviði loftslags- og orkumála.
Gerum það sem þarf!
Kórónuveirukreppan er um margt lík Kreppunni miklu. Árið 1929 reyndi hún mjög á stjórnmálamenn og -kerfi þess tíma. Fjárfestingar á þessu tímabili í sögu Bandaríkjanna höfðu dregist saman um 90% og einn af hverjum fjórum var atvinnulaus. Ýmsir telja að atvinnuleysi hafi numið allt að 37% af vinnuaflinu. Í tilraun sinni til að skilja aðstæður mótaði hagfræðingurinn John M. Keynes kenningu sína, að í kreppum ættu stjórnvöld að örva hagkerfið með öllum tiltækum ráðum; ráðast í framkvæmdir og halda opinberri þjónustu gangandi, jafnvel þótt tíma bundið væri eytt um efni fram. Skuldsetning ríkissjóðs væri réttlætanleg til að tryggja umsvif í hagkerfinu, þar til það yrði sjálfbært að nýju. Kenningin var í algjörri andstöðu við ríkjandi skoðun á sínum tíma og olli miklum deilum innan hagfræðinnar. Deilur Keynes og Hayeks um orsakir og leiðir út úr þeim efnahagsþrengingum eru vel þekktar og verða ekki raktar hér. Hins vegar er það svo að kenning Keynes hefur elst vel og víðast hvar hafa stjórnvöld stuðst við hana í viðleitni sinni til að lágmarka efnahagsáhrif kórónuveirunnar.
Á Íslandi var tekin ákvörðun um að verja grunnkerfi ríkisins og tryggja afkomu þeirra sem tóku á sig þyngstu byrðarnar. Miklum fjármunum hefur verið varið til heilbrigðismála, fjárfestinga í menntun og atvinnuleysistryggingakerfisins. Hlutabótaleiðin er í mörgum tilvikum forsenda þess að ráðningarsamband hefur haldist milli vinnuveitanda og starfsmanns. Ríkið hefur líka fjárfest í innviðum og m.a. ráðist í auknar framkvæmdir á flestum sviðum og þarf að halda því áfram, þar til að meiri vissa hefur skapast og atvinnulífið fjárfestir að nýju.
Aðgerðirnar lita að sjálfsögðu afkomu ríkissjóðs og nemur umfang þeirra um 10% af landsframleiðslu. Það bendir til ákveðnari inngripa á Íslandi en víða annars staðar. Þróuð ríki hafa að meðaltali ráðist í beinar aðgerðir sem jafngilda rúmum 8% af landsframleiðslu.
Aðgerðir stjórnvalda miða að því að halda samfélaginu eins virku og frekast er unnt miðað við stöðu heimsfaraldursins. Stjórnvöld hafa í raun reist efnahagslega loftbrú þar til að þjóðin verður bólusett.
Framtíðin: Jöfn tækifæri til vaxtar
Framtíðin hefur alltaf mótast af mörgum þáttum og sérstaklega miklum tækniframförum. Framtíðin mótast líka af nýliðinni fortíð, sem hefur sannarlega verið söguleg. Heimsfaraldur hefur tekið samfélög heimsins í gíslingu, lamað efnahagskerfi og skapað bæði félags- og fjárhagslegar áskoranir. Reyndar má halda því fram, að kórónuveirukreppan hafi frekar ýkt fyrirliggjandi viðkvæma stöðu sumra en ekki endilega skapað hana frá grunni. Hún hefur því miður ýkt ójafnræðið í heiminum, aukið muninn milli fátækra og ríkra þjóða og einstaklinga. Þess vegna er afar mikilvægt að tryggja jöfn tækifæri og að allir geti unnið sig úr þessari stöðu. Það gerum við með því að halda utan um öfluga og farsæla samfélagsgerð, veita aukin tækifæri til menntunar og auka fjárfestingar sem skapa verðmæti.
„Nám er tækifæri“ er ein aðgerðin sem stjórnvöld hafa efnt til í menntakerfinu, þar sem atvinnuleitendum er gert kleift að hefja nám og fá fullar atvinnuleysisbætur í eina önn og eftir fyrstu önnina tekur Menntasjóður námsmanna við. Sérstaklega er sjónum beint að starfs-, tækni og iðnnámi. Framhalds- og háskólastigið hefur tekið á móti þúsundum nýjum nemenda. Kerfisbreytingin með nýjum Menntasjóði sem átti sér stað á árinu marka algjör tímamót í stöðu námsmanna og gjörbreytir framtíð þeirra sem fara í nám. Næsta skref í málefnum Menntasjóðsins er að hækka framfærslu námsmanna.
Það eru forréttindi fyrir þjóð að vera í þeirri stöðu að geta náð utan um þá fordæmalausu stöðu sem upp er komin í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Fjárlög fyrir árið 2021 einkennast af mikilli framsýni. Fjárframlög til háskóla- og rannsóknastarfsemi aukast um 14%, einnig hafa framlög til framhaldsskóla aukist um 9% á milli ára. Þetta er rétt forgangsröðun sem styrkir grunnstoðir samfélagsins.
Samfélagið stendur af sér storminn
Ég tel það vera skyldu stjórnvalda að styðja við þá sem hafa misst vinnuna, bæta tímabundið tekjutap og koma atvinnulífinu til aðstoðar. Aðgerðir stjórnvalda hafa svo sannarlega tekið mið af því. Eins og síðasta ár hefur sýnt okkur búum við í framsýnu og hugrökku samfélagi, og við stöndum saman þegar á reynir.
Árið hefur einnig sannað það sem við þegar vitum; tækniframfarir og vísindauppgötvanir eru stærsta hreyfiafl samfélaga. Sagan hefur sýnt okkur að endurbætt gufuvél hins skoska James Watt lagði grunninn að vélvæðingu iðnbyltingarinnar, uppgötvun rafmagnsins breytti meiru en orð fá lýst, uppgötvun baktería og löngu síðar sýklalyfja umbylti líkast til meiru í mannkynssögunni en allar hefðbundnar byltingar samanlagt!
Til þess að tækni og vísindin nái að leysa krafta sína úr læðingi, þarf samstarf hins opinbera og atvinnulífsins. Það skilar farsælum árangri til framtíðar.
Það er einlæg sannfæring mín, að íslenskt samfélag taki vel við sér um leið og þau skilyrði skapast. Við munum halda áfram að sækja fram, og standa af okkur storminn. Þannig samfélagi viljum við búa í.
Gleðilega hátíð!
Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.