Í grein í Kjarnanum 5. janúar 2021 setur fyrrverandi kollegi minn fram þá fullyrðingu að það sé vel þekkt niðurstaða í hagfræði að skynsamlega valdir tollar á innflutning og aðrar innflutningstakmarkanir bæti þjóðarhag. Kollegi minn fyrrverandi vitnar í viðurkennt fræðirit (New Palgrave Dictionary of Economics, 2008). Fjallað er um tolla (e. tariffs) á nokkrum stöðum í þessu ríflega 4.000 síðna riti. Kollegi minni hirðir ekki um að geta þess hvar í þessu langa riti sú niðurstaða kemur fram að tollar bæti þjóðarhag.
Nóbelsverðlaunahafinn Tibor Scitovsky á kafla í bókinni (sem reyndar er upphaflega frá því 1998 eða fyrr) sem ber yfirskriftina „tariffs“, sjá hér. Hann rekur að tollar hafi á sögulegum tíma verið mikilvæg(asta) tekjulind konunga og keisara. Nú eru tollatekjur 0,4% af tekjum ríkissjóðs Íslands (sjá frumvarp til fjárlaga fyrir 2021). Því væri hægt að fella niður alla aðflutningstolla án þess að það hefði merkjanleg áhrif á afkomu hins opinbera. Umstang við innheimtu tolla er nokkurt. Ekki liggja fyrir gögn um hversu dýrt er að afla hverrar krónu í tollatekjum samanborið við kostnað við virðisaukaskatts- eða tekjuskattsinnheimtu, en líklega yrði sá samanburður óhagstæður tollum sem tekjustofni.
Ef tollar eru ónýtir sem tekjuöflunartæki, til hvers eru þeir þá lagðir á? Scitovsky segir okkur að hagfræðingar hafi nefnt þrenns konar sjónarmið til sögunnar. Í fyrsta lagi eru það innflutningsskiptarökin (e. import substitution argument), í öðru lagi mótunarrökin (e. infant-industry argument) og í þriðja lagi viðskiptakjararökin (e. terms-of-trade argument).
Mótunarrökin komu fyrst til umræðu í grein eftir fyrsta fjármálaráðherra Bandaríkja Norður-Ameríku (Alexander Hamilton: Report on Manufactures). Inntak þeirra er að gefa „nýgræðingi“, þ.e.a.s. nýrri atvinnugrein, tíma og tækifæri til að þróast og þroskast í skjóli fyrir grimmri erlendri samkeppni. Samkvæmt Scitovsky nýttust tímabundnir nýgræðingstollar löndum á borð við Bandaríki Norður-Ameríku og Þýskalandi ágætlega. En hann rekur rannsóknarniðurstöður sérstaklega frá Pakistan og Suður-Ameríku sem benda sterklega til þess að langvinn beiting nýgræðingstolla ýti undir óskilvirkni og slæma nýtingu auðlinda.
Innflutningsskiptarökin eru keimlík mótunarrökunum. Þá er lögð áhersla á að tollar geri innlenda vöru hlutfallslega ódýrari í innkaupum en sambærilega erlenda vöru. Með þeim hætti styðji tollurinn við innlenda framleiðslu, hækki atvinnustig, bæti samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu. Þetta eru sömu áhrif og vel heppnuð gengisfelling hefur. Scitovsky segir okkur að hagfræðingar á borð við Little og fleiri hafi komist að raun um það að jákvæð áhrif tollverndar fjari út eftir ákveðinn tíma af sömu ástæðum og rakið var í tengslum við mótunarröksemdina. Tollarnir gefa rými fyrir spillingu, óskilvirkni og lítinn hvata til að nýta tækninýjungar, svo nokkuð sé nefnt. Samkvæmt samantekt Douglas A. Irwin voru hagfræðingar búnir að yfirgefa hugmyndina um ágæti tolla á grundvelli innflutningsskipta um miðjan 7unda áratug 20. aldar. Stjórnmálamenn voru þó seinni til samkvæmt Irwin.
Tollum er nú fyrst og fremst beitt gagnvart innfluttum landbúnaðarafurðum. Hvaða leiðbeiningu gefa Scitovsky, Palgrave, Irwin og Limao og félagar okkur varðandi þær afurðir? Hvernig eiga mótunarrökin, innflutningsskiptarökin og viðskiptakjararökin við í tilfelli íslensks landbúnaðar? Mótunarrökin eiga augljóslega ekki við. Landbúnaður er ekki í hlutverki reifabarns í íslensku atvinnulífi. Þvert á móti er landbúnaður elsta atvinnugrein landsins. Innflutningsskiptarökin eru þau rök sem talsmenn landbúnaðar nefna langoftast í ræðu og riti. Eins og rakið er hér að ofan eru nokkrir áratugir síðan hagfræðingar afskrifuðu þá röksemdafærslu með hliðsjón af reynslurökum og tölfræðilegum prófunum. Þá eru aðeins viðskiptakjararökin eftir. Íslendingar eru ekki stærsti kaupandi nokkurrar erlendrar landbúnaðarafurðar. Íslendingar geta því ekki beitt kaupendamætti sínum til að þvinga innkaupsverð slíkra afurða niður.
Að öllu samanlögðu verður að álykta að jafnvel þó svo innflutningstakmarkanir og innflutningstollar geti við ákveðnar aðstæður og sé þeim beitt í tiltölulega stuttan og afmarkaðan tíma bætt þjóðarhag, þá eigi þau rök ekki með neinum hætti við um íslenskan landbúnað. Vilji kollegi minn fyrrverandi finna veilur í rökum framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, sem hann telur sig svara í grein sinni, verður hann að leita á önnur mið en í smiðju greinarhöfunda í New Palgrave Dictionary of Economics.
Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.