Tveir hagfræðingar, þau Erna Bjarnadóttir, starfsmaður Mjólkursamsölunnar, og Ragnar Árnason, prófessor emeritus, sáu sig knúna til að svara grein undirritaðs sem birtist í Kjarnanum á nýársdag. Ýmis atriði í svörunum virðast á einhverjum misskilningi byggð. Það er leiðinlegt, ekki sízt af því að Erna segist í sinni grein vilja hafa það sem sannara reynist að leiðarljósi. Ég leyfi mér því að svara fáeinum atriðum í þessum skrifum.
Óheftur innflutningur?
Ragnar Árnason segir í fyrsta lagi að undirritaður hafi í greininni talað fyrir „tollfrjálsum innflutningi á landbúnaðarvörum til landsins“ og að ég sé með „hugmyndir […] um óheftan innflutning á landbúnaðarafurðum frá ESB.“Nú hef ég lesið mín eigin skrif aftur til að ganga úr skugga um hvort þar hafi verið um einhverja ósjálfráða skrift að ræða, en finn þessum fullyrðingum prófessorsins engan stað. Félag atvinnurekenda, sem ég tala fyrir, hefur tekið undir tillögur Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, sem til var stofnað 2013 í framhaldi af útgáfu skýrslu McKinsey um íslenzkt efnahagslíf, en þær gengu út á að lækka almenna tolla á búvörum um helming og afnema tollvernd á svína- og alifuglakjöti að fullu.
Í greininni tók ég hins vegar til varna fyrir tollasamning Íslands og Evrópusambandsins, sem ýmsir hagsmunaaðilar í landbúnaðinum hafa viljað segja upp. Sá samningur gengur út á fremur takmarkaða fríverzlun með landbúnaðarvörur á milli Íslands og ESB, mjög langt frá einhverju sem hægt er að kalla óheftan innflutning.
Tollverndin er ríkust á Íslandi
Bæði Erna og Ragnar leggja mikið upp úr því að öll vestræn ríki, þar á meðal „upplýstustu þjóðir heims“, eins og Ragnar orðar það, leggi tolla á landbúnaðarvörur ekki síður en Ísland. Það hafði ekki farið framhjá mér. Því er hins vegar gjarnan haldið fram að tollverndin hér á landi sé bara ósköp svipuð eða jafnvel minni en í öðrum vestrænum ríkjum, t.d. í Evrópusambandinu.Nýlega kom út skýrsla starfshóps á vegum atvinnuvegaráðuneytisins, þar sem Bændasamtök Íslands, fyrrverandi vinnuveitandi Ernu, áttu fulltrúa, um þróun tollverndar fyrir landbúnaðarvörur hér á landi. Niðurstaða starfshópsins er að tollvernd fyrir búvörur sé miklu meiri á Íslandi en í flestum öðrum vestrænum ríkjum og hafi heldur aukizt á allra síðustu árum.
Í skýrslunni eru gögn frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) notuð til að bera saman tollvernd á milli landa og reiknað svokallað NPCc-hlutfall. Það er það verð sem framleiðendur fá greitt fyrir afurðir sínar sem hlutfall af innflutningsverði, þ.e. heimsmarkaðsverði vörunnar auk flutningskostnaðar. Ef hlutfallið er 3 er verð til framleiðenda þrisvar sinnum (200%) hærra en verð á heimsmarkaði, en ef það er einn er verð til framleiðanda jafnt heimsmarkaðsverði. Í samanburðinum er þetta hlutfall reiknað fyrir vegið meðaltal helztu landbúnaðarafurða sem hvert ríki framleiðir.
Niðurstaðan er sú að tollvernd á Íslandi er langt umfram það sem tíðkast að meðaltali í aðildarríkjum OECD, eða 1,77 að meðaltali árin 2017-2019. Það þýðir að afurðaverð til bænda er að jafnaði 77% hærra en innflutningsverð sambærilegrar vöru ef engar hindranir væru á innflutningi. Hlutfallið fyrir Noreg er 1,73, fyrir Sviss 1,42, fyrir OECD í heild 1,12 og fyrir Evrópusambandið er það 1,04. Það þýðir t.d. að í Evrópusambandinu er tollverndin aðeins ígildi um 4%.
Það er því augljóslega talsvert borð fyrir báru að draga úr tollvernd fyrir íslenzkan landbúnað en standast engu að síður samanburð við „upplýstustu þjóðir heims“.
Vill enginn banna innflutning?
Ég fjallaði í grein minni um þann gríðarlega þrýsting sem stjórnvöld hafa verið undir að undanförnu að hefta innflutning á búvörum til að vernda innlendan landbúnað fyrir samkeppni. Erna segir að hvergi hafi verið settar fram kröfur um að banna innflutning á búvörum. Það er ekki rétt hjá henni.
Í frétt Morgunblaðsins 13. nóvember síðastliðinn, undir fyrirsögninni „innflutningur verði stöðvaður“ var þannig haft eftir Ágústi Andréssyni, forstöðumanni kjötafurðastöðvar Kaupfélags Skagfirðinga, að „það eina rétta sé að stöðva innflutning á meðan verið er að vinna úr birgðunum“ sem safnazt hafi upp innanlands.
Fyrrverandi vinnuveitandi Ernu, Bændasamtökin, sendi atvinnuvegaráðuneytinu erindi 30. apríl á síðasta ári og fór fram á að tollkvótar, þ.e. heimildir til tollfrjáls innflutnings, samkvæmt tollasamningi Íslands og ESB yrðu ekki boðnir út fyrir seinni helming ársins. Þannig hefði í raun verið tekið fyrir stóran hluta innflutnings búvara. Ráðuneytið svaraði því erindi réttilega þannig að það væri brot bæði á samningnum og lögum. Engu að síður hafa hagsmunaaðilar í landbúnaðinum áfram haft slíkar kröfur uppi á hendur stjórnvöldum, með óformlegri hætti eftir að formlega leiðin virkaði ekki.
Hvernig hjálpum við landbúnaðinum?
Talsmenn landbúnaðarins, Erna Bjarnadóttir þar með talin, taka gagnrýni Félags atvinnurekenda á viðskiptaumhverfi búvörumarkaðarins gjarnan óstinnt upp og telja félagið andsnúið íslenzkum landbúnaði. Það er fjarri sanni.
FA hefur vissulega gagnrýnt harðlega tillögur um að hjálpa eigi landbúnaðinum, einum atvinnugreina, að bregðast við kórónuveirufaraldrinum með sértækum aðgerðum, sem fela í sér samkeppnishömlur og bitna á hag neytenda. Undir það falla kröfur um breytt útboð tollkvóta, sem stjórnvöld létu undan, um uppsögn tollasamningsins, sem ríkisstjórnin mætti með tillögu um endurskoðun hans, og um undanþágu kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum, sem er í vinnslu í atvinnuvegaráðuneytinu.
FA hefur hins vegar stutt að bændum sé hjálpað með beinum styrkjum og að rekstraraðilar í landbúnaðinum hafi sama aðgang og öll önnur fyrirtæki að almennum úrræðum vegna kórónuveirukreppunnar, á borð við styrki, lán og greiðslufresti. FA er sömuleiðis þeirrar skoðunar að núgildandi samkeppnislög, sem heimila undanþágur frá banni við samkeppnishamlandi samstarfi fyrirtækja ef þau geta m.a. sýnt fram á sanngjarna hlutdeild neytenda í ávinningi af samstarfinu, hljóti að eiga við um kjötiðnað eins og aðrar atvinnugreinar. Ef menn telja þau ákvæði ekki duga, hljóta þeir að hafa áhyggjur af að geta ekki sýnt fram á ávinning neytenda af samstarfinu.
FA er sömuleiðis þeirrar skoðunar að hefðbundinn landbúnaður á Íslandi eigi að njóta stuðnings, en að hann eigi að vera á þeim nótum sem Samráðsvettvangurinn lagði til, þ.e. ekki framleiðslutengdur og markaðstruflandi, heldur fremur tengdur við t.d. ræktun og verndun lands, lífræna ræktun og fjárfestingu, en bændur framleiði síðan það sem þeim sýnist án afskipta ríkisins.
Verzlunarfyrirtækin, sem hafa frá upphafi verið kjarninn í FA, vita mæta vel að verzlunin og landbúnaðurinn þurfa hvort á öðru að halda og vilja gjarnan stuðla að því að efla hag hans, eins og Erna leggur til. En það er tímabært að fara að hugsa hlutina upp á nýtt í íslenzkum landbúnaði. Núverandi stefna hefur gengið sér til húðar og framtíðin ætti fremur að markast af nýsköpun og sókn en varðstöðu um gamla pólitík og sífelldri vörn. Og já, það er mjög gagnlegt að byggja umræðuna á staðreyndum en ekki einhverjum tilbúningi. Þá miðar okkur kannski í áttina.
Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.