Við kennum börnunum okkar að vera góð við aðra – það er eitt af því fyrsta sem við viljum innræta í litlu krílin, segja „aaa“ við voffa eða vera góð við jafnaldra og kannski sérstaklega þá sem eru minni og berskjaldaðir. Og þrátt fyrir að kærleikurinn komi líka að innan þá lærum við ákveðnar hefðir í uppvextinum; hvernig við eigum að koma fram við aðra og hvað það þýðir að vera góður við aðra.
Svo fullorðnast þessir litlu einstaklingar og verða að þeim sem þeir verða – og gengur misvel að viðhalda þessum lærdómi uppvaxtaráranna. Þetta á við um okkur öll.
Tvíhyggja sem skaðar umræðuna
Þegar manneskja síðan brýtur á annarri manneskju með einhverjum hætti eða hagar sér utan siðferðis- eða lagaramma samfélagsins þá verða allajafna einhverjar afleiðingar af slíkri hegðun. Við viljum líka kenna börnunum okkar að gjörðir hafa afleiðingar – en það er mikilvægur þáttur í að þroskast því annars er lítil von um lærdóm eða betrun.
Þess vegna er afar hvimleitt þegar þeir sem verja fólk sem brotið hefur á öðrum eða gegn þessum samfélagssáttmála tala um það sem „svo gott“ fólk; það hreinlega geti ekki hafa gert það sem það er sakað um vegna þess. Mýmörg dæmi eru um þessa orðanotkun en það nýjasta sem ég rakst á er í pistli eftir Bryndísi Schram þar sem hún ver eiginmann sinn, Jón Baldvin Hannibalsson, gegn þeim ásökunum sem komið hafa upp gegn honum.
„Maðurinn minn er ekki vondur maður – hann er góður maður. Þú þarft ekki annað en að horfa í augu hans, hlusta á hann tala og kynnast skoðunum hans, til þess að skynja, að hér fer maður, sem ber virðingu fyrir samferðafólki sínu, hvort sem um konu eða karl er að ræða. Einlægur jafnaðarmaður, sem fer ekki í manngreinarálit, þykir vænt um fólk. Nú er það orðinn glæpur.“
Gildisdómar sem þessir um fólk sem brýtur á öðrum eða er sakað um það hafa lítið með málið að gera því að allt fólk er bæði „gott“ og „vont“ – þó vissulega í misjöfnum hlutföllum. Að nota þessa gildisdóma sem vörn er tvíhyggja sem gerir ráð fyrir að veruleikinn sé tvískiptur með afgerandi hætti. Það getur ekki gert neitt annað en skaðað umræðuna.
Hugtakið góður er skilgreint í orðabók: „(Um jákvæðar eigindir í skapgerð, siðferði eða hjartalagi) mildur, ljúfur, tillitssamur.“ Allt gott og blessað enda gætu flestir á einhverjum tímapunkti í lífinu fallið undir þessa skilgreiningu. En einstaklingur er ekki eitthvað eitt, eins og áður segir. Við höfum hvert og eitt okkar eftirsótta eiginleika og hæfileika sem hafa þróast með aldri í gegnum erfðamengi, uppeldi og reynslu. Að kalla einhver svo algóðan að hann hreinlega geti ekki hagað sér með slæmum hætti er í besta falli kjánalegt og í versta falli drepur málum á dreif og er skaðlegt.
Venjulegt fólk beitir ofbeldi
Allt þetta viðheldur jafnframt því sem kallað hefur verið skrímslavæðing manna sem beita ofbeldi og fælir fólk frá því að taka ábyrgð á gjörðum sínum – og þolendur að segja frá reynslu sinni.
Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir fjölluðu um hugtakið í aðsendri grein í Stundinni í nóvember á síðasta ári en þar kemur fram að orðið skrímslavæðing merki yfirleitt að menn sem beiti ofbeldi séu gerðir að ómennskum skrímslum. Þeir sem mæli hvað harðast gegn slíku tali segi að það komi í veg fyrir að þeir sem beita ofbeldi játi afbrot sín og leiti sér hjálpar.
Í greininni benda þær Guðrún Ebba og Kristín á að samkvæmt rannsóknum séu það venjulegir menn sem beiti ofbeldi – þetta geta verið bekkjarfélagar, vinir, fjölskyldumeðlimir eða vinnufélagar.
Það er enn hægt að þykja vænt um manneskju sem brýtur á öðrum – vísvitandi eða ekki. En að taka ábyrgðina af henni vegna þess að við teljum hana „góða“ er engum til hagsbóta. Þvert á móti viðhöldum við þá ofbeldinu gagnvart þolandanum eða þeim sem manneskjan braut á.
Gildisdómar um stjórnmálamanninn koma verkum hans ekki við
Þessa gagnrýni má líka yfirfæra yfir á fleiri svið, til að mynda þegar stjórnmálafólk er gagnrýnt fyrir störf sín og hið persónulega er fært yfir á pólitíska sviðið.
Með sömu röksemdafærslu skiptir ekki máli hvort vinir, fjölskylda eða samstarfsmenn stjórnmálamanns telji hann góðan – umhyggjusaman eða kærleiksríkan. Gjörðir hans sitja eftir þrátt fyrir „góðmennskuna“ og þess vegna vera einhvers konar afleiðingar.
Því allt eru þetta gildisdómar (góður, umhyggjusamur og kærleiksríkur) og koma pólitískum störfum þannig séð ekki við. Vissulega er kostur að vera sagður prýddur slíkum mannkostum en stjórnmálamenn eru kosnir af þjóðinni til að vinna ákveðið verk – flestir með hugmyndafræði að baki. Þá eru það verkin sem tala og hvernig þeir í reynd koma fram við aðra.
Auðveldara að stinga höfðinu í sandinn
Orð skipta máli og hvernig við beitum þeim. Ég er þannig ekki að mælast gegn því að nota skilgreiningar eða hugtök eins og „góður“ eða „vondur“ – heldur einungis minna á að fólk er alls konar og gerir góða og slæma hluti.
Ég skil af hverju það er freistandi að horfa á heiminn í gegnum tvíhyggju-gleraugun. Auðveldara er að lifa í svarthvítri veröld með engum núönsum – þar sem fólk er annað hvort gott eða vont og þá þar af leiðandi geri annað hvort góða eða slæma hluti. Þá er auðveldara að stinga höfðinu í sandinn og afneita óréttlæti og yfirgangi. En það er ekki hið hugrakka og rétta að gera.
Stærsta birtingarmynd þessa hér á landi eru hundruð frásagna sem fram komu í #metoo-byltingunni og reyndist það mörgum erfitt að horfast í augu við nákvæmlega þetta. Að vinir og fjölskyldumeðlimir hefðu getuna til að haga sér með lágkúrulegum hætti gagnvart öðrum og að sætta sig við að þessi „góði drengur“ væri þá ekki raunverulega „góður“. Hendum þessum gildisdómum út í hafsauga þegar við ræðum um gjörðir sem fólk þarf að bera ábyrgð á.
Því við erum öll „góð“ og „vond“.