Þessi pistill fjallar um
bólusetningar, siðfræði og mannréttindi í ljósi reynslunnar af covid-plágunni
og umræðum um heimspekilegar hliðar á bólusetningum gegn veirunni. Umræðurnar
hafa dregið fram hjá höfundi ýmis sjónarmið sem hér er lýst, en greinin er þó
ekki hugsuð sem beint svar við neinum tilteknum atriðum sem rædd hafa verið.
Hvað eru mannréttindi?
Á síðustu áratugum hefur umræða um mannréttindi og siðfræði farið mjög vaxandi í vestrænum samfélögum, og er það að sjálfsögðu fagnaðarefni. Orðið mannréttindi merkir þá fyrst og fremst það að hver manneskja hafi rétt til að ráða tilteknum málum sínum sjálf, svo fremi gerðir hennar stangist ekki úr hófi á við hagsmuni og réttindi annarra. Jafnframt er yfirleitt gert ráð fyrir því, að minnsta kosti í orði kveðnu, að réttindi af þessum toga séu þau sömu fyrir alla, til dæmis óháð kyni, þjóðerni eða kynþætti. Síðasta áfanga hugmyndasögunnar í þessum málum má rekja til frönsku byltingarinnar árið 1789 og sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna árið 1776, með viðkomu til dæmis í atburðum og viðhorfum sem kennd eru við árið 1968.
Hugtakið mannréttindi kann við fyrstu sýn að virðast klippt og skorið; auðvelt sé að beita því á hinum ýmsu sviðum mannlífsins. Svo er þó ekki ef betur er að gáð og má kannski rekja mörg vandræðin til kröfunnar um að réttindi eins rekist ekki á réttindi annarra. Einnig kemur fyrir að ein tegund mannréttinda stangist á við aðrar. Engu að síður fer því fjarri að mannréttindahugtakið sé ónýtt eða ónothæft enda hefur leitt af því margt gott og merkilegt síðan það kom til sögu. Við skoðum nánar nokkur dæmi um allt þetta hér á eftir.
Punktar úr sögu mannréttinda
Í kalda stríðinu (1950-1990 eða svo) var mikið rætt um mannréttindi, einkum á þann veg að ríki Vesturlanda sökuðu þáverandi kommúnistaríki, oft réttilega, um gróf brot gegn tilteknum mannréttindum, svo sem tjáningarfrelsi, skoðanafrelsi, ferðafrelsi og svo framvegis. Síðarnefndu ríkin gripu þá stundum til þeirra varna að á Vesturlöndum væri aðgangur að atvinnu og heilbrigðis- og menntakerfi alls ekki öllum opinn eins og hjá þeim, auk þess sem fátækt átti að vera miklu meiri vestan tjalds en austan. Allt þetta má að sjálfsögðu telja til mannréttinda þó að einhverjir hafi viljað andmæla því. En hvað sem því líður töldu hægri menn sjálfa sig á þessum tíma yfirleitt vera boðbera mannréttinda í baráttunni gegn ófrelsi „kommúnismans.“ Áhugavert er að þetta virðist nú hafa snúist við að ýmsu leyti og leiðtogar hægrisins til dæmis hyllst til að taka afstöðu gegn mannréttindum, eða fara að minnsta kosti ekki fremstir í flokki í réttindabaráttu kvenna, fátækra eða annarra hópa sem eiga undir högg að sækja. Meðal annars hefur þetta birst í misjafnlega heppnuðum málarekstri fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Og nú síðast virðast sumir í þessum hópi hafa meiri áhuga á frelsi veirunnar en mannanna. Ekki er kyn þó keraldið leki, sögðu Bakkabræður forðum.
Saga tóbaksreykinga felur í sér gott dæmi um áhrif mannréttinda á daglegt líf okkar. Á níunda áratug síðustu aldar fóru að koma fram gögn úr rannsóknum sem sýndu að óbeinar reykingar hefðu margvísleg slæm áhrif á heilsu fólks sem reykti ekki sjálft. Þetta kom illa við viðkvæmar taugar og rótgróinn hugsunarhátt margra í Bandaríkjunum: ÞÚ hefur ekki rétt til að skerða heilsu MÍNA á þennan hátt. Og reykingum í almannarými í þessu stóra landi var útrýmt á ótrúlega skömmum tíma. Og aðrar þjóðir fylgdu í kjölfarið, sumar að vísu með miklum semingi; nokkrar Evrópuþjóðir eru til dæmis ekki enn komnar alla leið í þessu.
Mannréttindi í heilbrigðismálum
Á síðustu áratugum hafa heilbrigðismál í vaxandi mæli færst í brennidepil í umræðunni um mannréttindi og siðfræði. Til marks um það hér á landi má nefna merka og margútgefna bók Vilhjálms Árnasonar prófessors, Siðfræði lífs og dauða. Ein þeirra spurninga sem þarna koma upp snýr að því hvort eða hvenær sjúkur einstaklingur eigi að þiggja þjónustuna sem heilbrigðiskerfið getur boðið honum/henni. Vaxandi skilningur ríkir á því meðal starfsfólks í kerfinu að skjólstæðingurinn eigi að hafa síðasta orðið um þetta, eftir að búið er að upplýsa hann um valkosti og afleiðingar. Þetta á við hvort sem um er að ræða lyfjagjöf, læknisaðgerð eða aðra þjónustu.
Sá fyrirvari er þó oft hafður í huga að ákvörðun sjúklingsins megi ekki vera öðrum til ama, til dæmis ef hann vill ekki lifa lengur, óskar eftir einhvers konar virkri eða óvirkri aðstoð við lífslok og aðstandendur kunna að vera því andvígir. Og enn er rætt um mannréttindi á þessu sviði því að ýmsir eiga enn erfitt með að venjast þeirri hugsun að dánaraðstoð eigi að vera leyfileg ef aðstandendur samþykkja, en aðrir telja það sjálfsagt og nokkur lönd eru þegar „komin þangað“ eins og sagt er; þau leyfa sem sé dánaraðstoð með tilteknum skilyrðum. Mér segir svo hugur að það viðhorf verði ríkjandi þegar fram líða stundir.
Sérstaða bólusetninga
Bólusetningar eru líka ein tegund heilbrigðisþjónustu; eini munurinn er sá að þær snúast um að koma í veg fyrir sjúkdóma í stað þess að lækna þá. Í þessum heimshluta eru börn yfirleitt bólusett gegn þekktum og skæðum smitsjúkdómum sem mundu ella valda þeim verulegum óþægindum og jafnvel dauða um aldur fram. Slíkar bólusetningar eru yfirleitt skylda eða því sem næst, en tilteknir hópar reyna þó að koma sér undan þeim. Þeir eru þó sem betur fer oftast hvorki nógu stórir né útbreiddir til þess að viðkomandi sóttkveikjur nái sér á strik í samfélaginu af þeirra völdum. En ef við tökum mislinga sem dæmi, þá eru þeir svo bráðsmitandi að vanhöld í bólusetningum geta valdið því áður en varir að hjarðónæmi skerðist í samfélaginu.
Sú skoðun virðist nokkuð útbreidd að það eigi að heyra til mannréttinda að fólk ákveði sjálft hvort það lætur bólusetja sig við tilteknum sjúkdómi eða ekki; þá er litið á bólusetninguna eins og hverja aðra vöru í búð, við ráðum hvort við kaupum hana eða ekki! Sumir vilja meira að segja ganga svo langt að fá að ráða því hvaða tegund bóluefnis þeir fá þegar þar að kemur (kjósa heldur kók eða pepsí?).
En málið er því miður ekki svo einfalt að bólusetning sé ‚vara‘ þegar grannt er skoðað. Ef ég ákveð að hafna sprautunni og allir aðrir gerðu það líka, þá endar sú saga augljóslega ekki vel. Þess konar hugsun er oft höfð til leiðbeiningar í siðfræði þegar við reynum að meta siðferðilegt gildi tiltekinnar hegðunar, og nægir að nefna sem dæmi höfnun bílbelta, óhlýðni við umferðarreglur eða skattsvik. Og í bólusetningum þarf ekki einu sinni höfnun frá öllum, heldur nægir tiltekið hlutfall höfnunar í samfélaginu til þess að hjarðónæmi viðkomandi smitsjúkdóms náist ekki og bólusetningaraðgerðin sem heild missi marks.
Sumir hafa látið það fara fyrir brjóstið á sér að það skuli vera stórfyrirtæki kapítalismans – „lyfjarisar“ – sem sjá um framleiðslu bóluefna. Líklega eru það einkum vinstri menn sem hafa slíkar áhyggjur, en því miður er samfélag okkar svona gert eins og sakir standa. Ég tel mig hafa verið sósíalista í meira en hálfa öld, en ég leyfi mér samt ekki að láta slíkar áhyggjur hafa áhrif á mig þegar barátta gegn mannskæðum heimsfaraldri er annars vegar.
Lokaorð
Niðurstaða mín er ekki flókin: Það er siðferðilega rétt og ábyrgt af mér að þiggja bólusetninguna við covid sem mér verður vonandi boðin á næstu vikum. Ég þarf ekki lagaboð til þess, en kannski væri samt full ástæða til að lögbinda þetta sem skyldu. Með þátttöku minni legg ég mitt lóð á vogarskálina gegn því að ég og samferðarmenn mínir smitist af lífshættulegum smitsjúkdómi. Þetta er ekki aðeins mitt mál heldur okkar allra. Ég ætla að vera í hópi þeirra sem vilja eiga þátt í því að hjarðónæmi myndist bæði hér á landi og annars staðar.
Höfundur er prófessor emeritus í eðlisfræði og vísindasögu.