Síðustu áramót áttu að vera upphaf nýrra tíma. Okkur langaði öll að fagna sérstaklega árinu sem þá var að heilsa því það átti sannarlega að verða allt öðruvísi og betra en árið sem var að kveðja. Þá var komin góð vissa um að bóluefni væru á næsta leyti og tekist hafði að semja um þátttöku Íslands í bóluefnakaupum Evrópusambandsins, sem tryggði Íslandi stöðu meðal þeirra fyrstu í röðinni eftir að fá í hendur vopnið sem átti að duga til þess að kveða niður faraldurinn.
Nú líður okkur mörgum eins og við höfum verið sett í skrítna tímavél. Aftur líður að jólum og áramótum, og aftur er talað um harðar aðgerðir víða um heim og hér heima. Fyrir ári síðan var það „breska afbrigðið“ (síðar nefnt beta) sem setti allt í baklás. Það var sagt meira smitandi og leggjast þyngra á fólk, þar á meðal börn. Síðan kom delta afbrigðið sem var líka miklu meira smitandi og var sagt valda alvarlegri sjúkdómi, þar á meðal hjá börnum og við bættust áhyggjur af því að það „kæmist framhjá“ bóluefnum. Nú er það omicron afbrigðið sem virðist vera miklu meira smitandi en fáir virðast þora að treysta vísbendingum um að það kunni að valda miklu vægari veikindum.
En þær eru fleiri meinsemdirnar sem tengjast farsóttinni en veikindin sem veiran getur valdið. Samfélagið er allt í skugga þessa langvarandi ástands. Margir eru kvíðnir og hræddir. Fjölmiðlar eru uppfullir af margvíslegum fréttum, flestum uggvekjandi. Í umræðunni fá neikvæðar og kvíðavaldandi fréttir jafnan meiri sess en fréttir sem fela í sér bjartsýni og von. Þegar kemur að umfjöllun um stöðuna annars staðar í heiminum fréttum við mest af þeim stöðum þar sem faraldurinn veldur mestum vandræðum og aðgerðir eru harðastar. Heilbrigðiskerfið okkar er sagt ekki getað annað ástandi þar sem fleiri en 40 til 60 greinast smitaðir á dag, en þó liggja, þegar þetta er skrifað, einungis 11 einstaklingar inni með smit þótt greinst hafi fleiri en sextíu smit á hverjum einasta degi síðan 30. október sl. þegar 58 greindust. Tekið skal fram að nýgengi smita er um þessar mundir yfir 600 en var á sama tíma í fyrra, fyrir bólusetningu, 46.
Til þess að reyna að stemma stigu við útbreiðslu smita höfum við gripið til fjölmargra aðgerða sem hefðu þótt algjörlega óhugsandi fyrir tæpum tveimur árum síðan. Þar er líklega þungbærust hin gríðarlega röskun sem hefur orðið á lífi barna og ungmenna. Börn eru látin sitja í sóttkví og einangrun dögum saman innandyra jafnvel þótt þau kenni sér einskis meins. Sum börn hafa þurft að sitja margítrekað í sóttkví og fyllast kvíða og ótta þegar faraldurinn ber á góma—ekki vegna smithræðslu heldur vegna hræðslu við aðgerðirnar. Ungt fólk á menntaskólaaldri hefur farið á mis við stóran hluta þeirrar upplifunar að vera ung, frjáls og áhyggjulaus og að fá að taka þátt í félags- og skemmtanalífi sem hefur þótt mikilvægur þáttur í uppvexti og þroska ungs fólks. Hinar miklu fórnir sem farið hefur verið fram á af börnunum okkar og ungmennum eru vegna farsóttar sem veldur jafnan ákaflega litlum veikindum hjá annars heilbrigðum börnum (innlagnartíðni smitaðra barna á aldrinum 6-11 ára í Danmörku er um 0,2%). Bent hefur verið á að áherslan á að setja frísk börn í sóttkví sé ólík því sem tíðkast í löndunum í kringum okkur, þar sem sóttkvíarúrræði hafa verið notuð í mun minni mæli en hér á landi.
Viðvarandi ótti er hættulegur lýðræðinu
Segja má að það sé farin að teiknast upp fremur óskemmtileg mynd af því hvernig samfélög Vesturlanda gætu þróast á næstu árum ef ekki er tekin alvarleg umræða um hvert skuli stefna. Viðbrögðin við þessu ástandi eru ekki bara tengd heilbrigðisvísindum, heldur siðferði, heimspeki, efnahagslegum raunveruleika og pólitískri hugmyndafræði. Það eru margar hliðar á því að standa vörð um íslenskt samfélag. Það verður að vera meira rými fyrir þau sjónarmið í umræðunni. Hlutverk sóttvarnalæknis er að tryggja sóttvarnir og það er hárrétt. En hlutverk stjórnmálanna er miklu margslungnara og flóknara en það. Það hlutverk þurfum við að geta ræktað.
Í ljósi útbreiddra lífsstílssjúkdóma og öldrunar þjóða virðist blasa við að álag á heilbrigðiskerfi Vesturlanda muni halda áfram að vaxa og viðfangsefnin flækjast óháð farsóttinni sjálfri. Þetta mun ágerast næstu áratugi. Faraldurinn hefur opinberað þennan vanda sérstaklega, þar sem hættan á alvarlegum veikindum vegna veirusmits er mjög háð lífaldri fólks og virðist einnig tengjast lífsstílssjúkdómum. Veiran afhjúpar semsagt vandamál sem er óumflýjanlegt fyrir okkur að horfast í augu við, hvort sem okkur líkar betur eða verr—og hvort sem afleiðingarnar koma fram fyrr eða síðar. Þessi staða er eitt stærsta viðfangsefnið sem blasir við stjórnvöldum á næstu árum og áratugum. Heilbrigðiskerfið þarf til dæmis að geta nýtt sér tæknilausnir í miklu meira mæli en nú er, til að auka framleiðni.
Sem samfélag stöndum við því frammi fyrir ákaflega erfiðri og vandasamri spurningu: Er forsvaranlegt að takmarka mannréttindi og athafnafrelsi fólks til langframa vegna hugsanlegs álags á heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstéttirnar?
Mitt svar við þessu er nei. Svarið getur ekki verið annað. Slíkar aðgerðir getum við einungis réttlætt ef um tímabundið neyðarástand er að ræða þar sem við sjáum til lands um hvenær unnt verði að aflétta slíkum hömlum. Samfélagið, og þar á meðal við sem berum ábyrgð á stjórn landsins, verðum hins vegar að taka alvarlega þau áköll um aðstoð og aukinn stuðning sem koma frá heilbrigðisstarfsfólkinu okkar. Við þurfum að tryggja að heilbrigðiskerfið sé í stakk búið að sinna sínu hlutverki í opnu og frjálsu samfélagi.
Sagan kennir okkur að fátt er hættulegra lýðræði og mannréttindum en viðvarandi ótti og neyðarástand sem veitir valdhöfum takmarkalitla réttlætingu til afskipta af borgurunum.
Hvernig metum við árangurinn?
Þegar fram líða stundir verður árangur samfélaga í viðureign við farsóttina metinn með ýmsum hætti. Einn mælikvarði er fjöldi þeirra sem lætur lífið eða veikist alvarlega vegna smits. Þar stendur Ísland áberandi vel. Hlutfall þeirra sem lifir af covid-19 sýkingu á Íslandi undanfarna mánuði er meira en 99,9%. Þetta helgast meðal annars af ótrúlegum árangri á göngudeild covid, framúrskarandi meðhöndlun á gjörgæsludeildum og frábæru utanumhaldi og samskiptum við sýkta einstaklinga, meðal annars í gegnum smitrakningarteymin. Þá hefur þátttaka almennings í bólusetningu bersýnilega stuðlað að góðum árangri, en mun fleiri hafa fengið örvunarbólusetningu á Íslandi en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við.
En eftir því sem tíminn líður fara aðrir þættir að skipta sífellt meira máli. Hvernig tekst okkur að verja réttindi barna og ungmenna í tengslum við faraldurinn? Hvernig tekst okkur að vernda geðheilsu og lífsgleði í samfélaginu í gegnum þetta tímabil? Hvernig reiðir viðkvæmum hópum í samfélaginu af, t.d. fólki sem glímir við fíkn og lífsstílssjúkdóma? Hvaða áhrif hafa sóttvarnaaðgerðir gegn covid-19 á ónæmi ungra kynslóða fyrir öðrum smitsjúkdómum? Hvaða áhrif hefur það í samfélaginu þegar lögreglu er í auknum mæli falið það hlutverk að hafa afskipti af einkalífi borgaranna í nafni sóttvarna? Mun gagnrýnin umræða og raunverulegt frjálsræði í vísindum halda velli? Tekst okkur að standa vörð um dýrmæt mannréttindi á borð við tjáningarfrelsi, samkomufrelsi og ferðafrelsi? Þetta eru mælikvarðar sem verður að hafa í huga.
Við höfum nú farið í gegnum nánast tvö heil ár af veruleika sem við viljum ekki venjast. Þetta er langur tími, ekki síst fyrir börn og ungmenni, því hvert einasta ár er risa stórt í þroskaferli þeirra—þótt þeim sem eldri eru finnist árin hverfa býsna hratt í aldanna skaut. Það er ekkert smáræðismál ef enn fleiri ár verða tekin af þessum hópi, sem er líka viðkvæmur á sinn hátt.
Um leið og ég óska lesendum gleðilegrar hátíðar lýsi ég þeirri einlægu von minni að áramótapistlarnir í lok ársins 2022 einkennist af bjartsýni, hugrekki og lífsgleði—og fögnuði yfir því að samfélagið sé aftur komið á réttan kjöl.
Höfundur er varaformaður Sjálfstæðisflokksins.