Það er uppi skrítin staða á höfuðborgarsvæðinu. Allir bæjarstjórarnir í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur nema einn, allt sjálfstæðismenn, eru að hætta sjálfviljugir. Einhverjir eru sjálfsagt búnir að fá nóg en þó læðist að mér sú tilfinning að þeir séu að forða sér.
Við erum sennilega mörg alin upp við þá bábilju að vinstri menn hafi ekkert vit á peningum og rekstri. Ég man þá möntru að félagshyggjustjórn væri ávísun á fjárhagslegt stórslys. Auglýsing Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 1994 með Árna Sigfússyni og leikskólabörnum að mála fallega regnboga er sem greipt í huga mér. Árni sagði að litirnir í regnboganum væru sannarlega fallegir en svo færi allt í steik þegar þeir blönduðust saman svo úr yrði brún drulla. Eitt barnið sýndi það. Árni, sem var búinn að vera borgarstjóri í nokkra mánuði, tapaði svo fyrir R-listanum og flokkarnir sem mynduðu hann og arftakar þeirra hafa meira og minna stýrt borginni síðar, nú með Samfylkinguna í fararbroddi.
R-listinn réðst í ýmis þjóðþrifamál sem nú þykja sjálfsögð svo sem að byggja leikskóla fyrir öll börn, koma skólpmálum í viðunandi ástand og hreinsa strendurnar í borgarlandinu eftir áratuga skólpbað. Þetta þótti þeim sem á undan stjórnuðu bruðl og illa farið með fé útsvarsgreiðenda.
Undir regnboganum
Mörg halda því enn fram að félagshyggjuöflin kunni ekki að fara með peninga. Það er rangt. Hins vegar er hárrétt að fæstir jafnaðarmenn hafi mikinn áhuga á peningum, allavega ekki fyrir sig sjálfa. Það hefur ýmsa kosti í för með sér fyrir kjósendur. Jafnaðarmenn eru til dæmis harla ólíklegir til að selja pabba sínum banka.
En aftur að rekstri sveitarfélaga. Síðustu ár hefur verið hamrað á því að Reykjavíkurborg sé á kúpunni og mun verr rekin en sjallabæirnir í kring. Sýnt hefur verið fram á að svo er einmitt ekki. Í nýlegri grein í Kjarnanum bendir Þorvarður Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, á að bæði skuldahlutfallið og skuldir á hvern íbúa séu lægst í Reykjavík af öllum sveitarfélögunum á Höfuðborgarsvæðinu. Í Reykjavík er skuldahlutfallið 96% og langt undir viðmiðum en hæst í Hafnarfirði eða 160%. Hin bæjarfélögin raða sér þar á milli. Og það sem meira er, veltufjárhlutfallið er hæst í Reykjavík og nægt fé til fyrir komandi gjalddögum. Það er því ljóst að Jafnaðarmenn og annað félagshyggjufólk kann vel að reka farsæl samfélög.
Mannlífsás eða vindgöng?
Ég þekki bæjarpólitíkina í Kópavogi einna best enda hef ég búið þar næstum alla ævi og tekið þátt í henni síðustu ár. Þar hafa sjálfstæðismenn stjórnað lengi. Okkur er sagt að reksturinn sé í fínum málum en í grein Þorvarðar hér að ofan má sjá að Kópavogur er bara meðalskussi í fjármálum. Samt er alltaf verið að spara. Þar hefur til dæmis ekki verið byggður leikskóli í átta ár, þrátt fyrir töluverðan vöxt og fjölgun bæjarbúa. Og ýmis þjónusta, t.d. við fatlað fólk, er í lamasessi. Allir jafnaðarmenn, og annað fólk með hjartað á réttum stað, vita að það er dýrt að spara nauðsynlega þjónustu við fólk. Það kemur alltaf í bakið á okkur sem samfélagi með meiri kostnaði þegar upp er staðið, nú eða klósettpappír í fjörunni.
Það eru þó skipulagsmálin sem eru í hvað mestum ólestri í bænum og eiginlega óskiljanleg öllu heilvita fólki. Eitt af því sem hefur alltaf vantað í Kópavog er alvöru miðbær. Hamraborgin átti að verða slíkur en hefur aldrei virkað almennilega. Ástæðan er ekki flókin og öllum ljós sem hafa komið þangað. Þar er alltaf rok og flestar verslanirnar eru norðanmegin þar sem sólin skín aldrei. Jú, vissulega hafa þrifist þar einstaka verslanir og þjónusta í gegnum tíðina, enda svæðið miðssvæðis en það gengur enginn um Hamraborgina sér til skemmtunar. Núverandi bæjarstjórn hefur ráðist í byggingu nýs miðbæjarsvæðis bak við Hamraborgina. Það á að vera alveg eins nema blokkirnar hærri til að koma meira byggingarmagni fyrir á svæðinu. Einhver þarf nefnilega að græða á þessu. Svokallaður „mannlífsás“, ný göngugata, á að liggja nákvæmlega eins og Hamraborgin en bara starfsemi norðan megin. Vönduð sænsk skuggavarps- og vindgreining sýnir að þar verður næstum aldrei sól og töluvert vindvandamál. Augljóslega.
Verktakavæðingin
En hvernig stendur á því að bæjarfulltrúarnir ákváðu þetta, flestir búsettir í Kópavogi og með áratuga reynslu af vindbarningi í Hamraborginni? Svarið er að þeir gerðu það ekki. Meirihlutinn hafði varla fyrir því að skipa bæjarfulltrúa í skipulagsráð sem þó ber ábyrgð á milljarðaframkvæmd sem mun hafa mótandi áhrif á komandi kynslóðir Kópavogsbúa. Af fjórum fulltrúum meirihlutans er bara einn bæjarfulltrúi. Formaðurinn, úr Framsókn, er ekki bæjarfulltrúi og Sjálfstæðisflokkurinn skipaði tvo stútungskarla sem eru á móti Borgarlínunni í ráðið. Samt er Borgarlínan sögð meginforsenda þeirrar fordæmalausu þéttingar sem á að eiga sér stað við fyrirhuguð vindgöng sem kölluð eru nýr miðbær. Meirihlutinn afhenti verktökum skipulagsvaldið á svæðinu, seldi þeim byggingar bæjarins á undirverði, meðal annars gamla félagsheimilið sem er um það bil eina húsið í bænum með einhverja sögu og fólki er hlýtt til. Bærinn leigir svo eina af seldu byggingunum af verktökunum og er að verða búinn að borga söluverðið til baka í leigu.
Verktakarnir fá svo bara að ráða þessu því það er miklu ódýrara að láta þá sjá um skipulagsvinnuna. Alveg eins og það er miklu ódýrara að hafa enga leikskóla og láta skólpið renna beint út í sjó við strendurnar.
Flóttinn úr Kópavogi
Sjálfstæðisflokkurinn átti fimm bæjarfulltrúa á síðast kjörtímabili en aðeins einn þeirra er á lista nú. Bæjarstjórinn er að hætta, sumir segja vegna þess að hann treysti sér ekki til að verja vitleysuna. Einn hætti vegna dónaskapar og annar er í framboði fyrir Miðflokkinn.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur stært sig á að vera góður í rekstri en sparar með þjónustuskerðingum og fúski. Þannig skapast svigrúm til að gera vel við verktaka, nú eða selja pabba sínum banka. Sjálfstæðismenn skilja nefnilega svo vel hvernig peningar virka.
Lengi vel trúðu mörg að brauðmolar hinna ríku; þeirra sem fengu að kaupa banka, veiða fiskinn okkar í sjónum eða byggja á verðmætasta byggingarlandi Höfuðborgarsvæðisins, myndu falla til okkar hinna. Því trúir enginn með viti lengur. Flóttinn er hafinn enda vita kjósendur að þeim sem þykir of vænt um peninga til að verja þeim til félagslegra verkefna, betra samfélags og jöfnuðar kosta okkur alltaf meira þegar uppi er staðið.
Höfundur er rithöfundur og skipar 9. sæti Samfylkingarinnar í Kópavogi.