Fyrsti dagur ársins 2021 rann upp bjartur og fagur. Ekki að ég muni það sérstaklega en ég tók mynd á símann minn þennan dag og af henni að dæma var veðrið úrvalsgott, björt froststilla. Ég fór í nýársgöngu með hundunum Bjarti og Skugga á uppáhalds stað þeirra bræðra, Bæjarins beztu pylsur. Það er líka til mynd af því enda augljóslega frábær leið til að byrja nýtt ár. Það fannst hundunum hið minnsta.
Augu nýliðans
Í upphafi árs óraði mig ekki fyrir því að frekara framapot á vettvangi verkalýðsbaráttunnar biði mín, allra síst að verða formaður BHM, heildarsamtaka háskólamenntaðra. Kjara- og réttindamál hafa að að vísu lengi verið mér hugleikin en ég hafði boðið mig fram og hlotið brautargengi í formann Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins um haustið 2020. Í febrúar síðastliðinn ákvað hins vegar þáverandi formaður BHM að hætta við sitt framboð til áframhaldandi formannssetu og í kjölfarið var óvænt skorað á mig af nokkrum fjölda formanna aðildarfélaga BHM að bjóða mig fram. Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að slá til.
Nú hef ég gengt embætti formanns BHM í sjö mánuði. Ég var ekki búinn að vera nema nokkrar vikur í starfinu þegar við hófum vinnu við undirbúning næstu kjaralotu innan bandalagsins. Fullsnemmt, gætu einhverjir sagt í ljósi þess að kjarasamningar aðildarfélaga BHM byrja að losna í lok 2022 og byrjun 2023. En staðreyndin er að við svokallaðir „aðilar vinnumarkaðarins“ þurfum almennt að gera betur í því hvernig við vinnum fyrir okkar umbjóðendur. Það er gömul saga og ný.
Mánuðir og ár án samninga
Tölfræðin sýnir svart á hvítu að margt þarf að bæta á íslenskum vinnumarkaði. Samkvæmt gögnum Kjaratölfræðinefndar voru gerðir rúmlega 300 kjarasamningar í síðustu samningalotu en til samanburðar eru þeir um 400 í Noregi, á 15 sinnum fjölmennari vinnumarkaði. 24 samningar voru við færri en 10 einstaklinga hér á landi og eitt dæmi er um að samningur hafi verið gerður við einn launamann. Á Íslandi er kjaradeilum vísað til ríkissáttasemjara í rúmlega helmingi tilvika. Þá hafa samningaviðræður oft staðið mánuðum eða árum saman án árangurs. Til samanburðar má nefna að í síðustu samningalotu í Svíþjóð var 35 málum vísað til ríkissáttasemjara. Þar er vinnumarkaðurinn 30 sinnum stærri.
Hvað kostar flækjustigið?
Ómarkviss vinnubrögð sem einkennast meðal annars af töfum og hótunum koma niður á lífsgæðum okkar allra og hafa töluverðan fórnarkostnað í för með sér fyrir íslenskt launafólk. Á árinu 2020 voru 10.500 krónur framleiddar á hverja vinnustund á Íslandi. Hugsa má sem svo að það sé fórnarkostnaður hverrar klukkustundar sem varið er í óþarfa flækjustig og tafir við kjarasamningagerð.
Það eru og hafa alltaf verið hagsmunir launafólks að nýir samningar taki gildi um leið og eldri samningar renna sitt skeið. Almennt er það reglan á Norðurlöndunum. Á Íslandi er það aftur á móti algjör undantekning og raunar aðeins til örfá dæmi þess. Flestar stéttir eru samningslausar mánuðum saman þar til samkomulag næst um nýjan samning. Þetta býr til óvissu bæði fyrir launafólk og atvinnurekendur. Sú óvissa er líka afar kostnaðarsöm enda dýrt að fólk sitji vikum, mánuðum og jafnvel árum saman við samningaborð án þess að ná árangri. Ég styð heilshugar markmið og ádrepur ríkissáttasemjara um að vinnureglan eigi að vera sú að samningar taki við af samningum. Ég styð það einnig að allra leiða verði leitað til að auka skilvirkni í samningagerð.
Nýtt ár og ný nálgun
Á fundi þjóðhagsráðs í desember gat ég ekki skilið hlutaðeigandi öðruvísi en svo að þau væru öll sammála um að vilja byrja kjarasamningagerðina fyrr, gera betur, bæta greiningar og gögn og stefna sameiginlega í þá átt að verja kaupmátt almennings í landinu. Það er alltént góð byrjun. Þó að hagsmunir atvinnulífs, stjórnvalda og heildarsamtaka launafólks séu oft ólíkir getum við verið sammála um að bæta vinnubrögðin. Markmiðið er jú ætíð að verja og sækja meiri kaupmátt og tryggja sanngjarna skiptingu auðs þjóðarinnar.
Ég vona að það muni standast. Að þegar á hólminn verði komið verði ekki of seint af stað farið eina ferðina enn. Raunverulegur undirbúningur kjaraviðræðna þarf að hefjast strax á nýju ári og við hjá BHM erum tilbúin í þá vegferð. Ég vonast jafnframt til þess að okkur takist að auka skilvirkni til muna. Það ætti að vera sameiginlegt markmið verkalýðshreyfingarinnar, atvinnulífsins, ríkis og sveitarfélaga. Að fara örlítið aðra leið, byrja fyrr og vanda vel til verka er allra hagur.
Gleðilegt nýtt ár 2022!
Höfundur er formaður BHM.