Í Úkraínu eru almennir borgarar skotnir á færi, handteknir, bundnir, píndir og síðan drepnir; konum og börnum er nauðgað; svo er fólkið sett í fjöldagrafir til að reyna að leyna voðaverkunum. Hús eru sprengd í loft upp eða varanlega eyðilögð – hvort sem það eru híbýli fólks eða hús sem hýsa leikskóla, sjúkrahús, vatnsveitur – eða aðra opinbera þjónustu.
Í þeim hörmungum sem nú standa yfir í Úkraínu er rétt að minnast atburða í Sovétríkjunum sem áttu sér stað á árunum 1932 til 1933.
Hungursneyð af mannavöldum
Menn tala um manngerða hungurneyð árin 1932 og 1933. Hún var skipulögð af Jósep Stalín. Hann vildi ganga af kornframleiðslu Úkraínu dauðri. Í Sovétríkjunum þessa tíma átti sér stað iðnvæðing í landbúnaði, sem svo var nefnd, og átti hún að vera grundvöllur fyrir rekstri samyrkjubúanna.
Það er talið að um 5 milljónir íbúa í Sovétríkjunum hafi látið lífið í þessum aðgerðum, þar af voru Úkraínumenn 4 milljónir eða um 13% af íbúum Úkraínu. Hungursneyðin hefur oft verið kölluð the Terror Famine eða the Great Famine - Holodomor. Þessar tölur eru okkur óskiljanlegar nema ef við berum þær saman við íbúafjölda nálægra landa – í Danmörku eru til dæmis sirka 5,7 milljónir íbúa í dag.
Menning og mannát
Fólk upp til sveita hélt lengur út en borgarbúar sem máttu þola mjög litla matarskammta frá Sovétvaldinu. En fljótlega voru sveitamenn sakaðir um að stela korni og kartöflum og máttu því þola mikinn niðurskurð á matarskömmtum sínum. Og harðar refsingar fylgdu í kjölfarið, meðal annars komu fulltrúar Sovétvaldsins og seldu eigur þeirra sem sviptir voru eignarrétti. Dílasótt og malaría herjaði á íbúa Úkraínu. Þessu fylgdi hræðileg atlaga að menningu Úkraínu. Kennarar voru leystir frá störfum, bókasöfnum lokað; úkraínskum embættismönnum var bannað að nota tungumál landsins.
Þeir sem reyndu að lifa hungurneyðina af, tóku oftar en ekki til þess ráðs að leggjast í mannakjötsát – éta lík, drepa og éta nánustu fjölskyldumeðlimi sína og nágranna – jafnvel drepa og éta börn sín. Þegar Sovétríkin liðu undir lok 1991, þá endurheimti Úkraína sjálfstæði sitt. Hungursneyðin í Úkraínu 1932 til 1933 er enn í dag sársaukafullur hluti af úkraínskri þjóðarsál.
Úkraínumenn verða að vinna þetta stríð
Í ljósi þessa þarf það ekki að koma á óvart að Pútín, sem dreymir um endurreisn Sovétríkjanna gömlu, skuli beita sömu aðferðafræði og Stalín lærifaðir hans kenndi honum. En í því sem hann nefnir „sérstaka hernaðaraðgerð“ ofmetur hann reyndar styrk sovéska hersins og vanmetur hugrekki og þolgæði Úkraínumanna. Er nóg að senda vopn til úkraínska hersins? Nei, það þarf meira til því greinilegt er að Pútín ætlar að vinna stríðið óháð því hve marga rússneska hermenn hann sendir í dauðann og óháð því hve langan tíma það tekur.
Þegar hann innlimaði Krímskagann þá var það eina, sem ráðamönnum á Vesturlöndum og í Bandaríkjunum datt í hug – að setja máttlaus viðskiptabönn á Rússa og því fór sem fór. Innrásin núna er rökrétt - að Pútíns ruglaða mati – en jafnframt tröllaukið hættuspil – ef hann vill halda orðspori sínu meðal ráðamanna heimsins.
Ég er ekki talsmaður stríðs en ég get ekki annað en verið sammála framkvæmdastjóra ESB þegar hún segir: „Úkraína verður að vinna þetta stríð!“ En er okkur stætt á því að fórna Úkraínumönnum einum í stríðinu? Ef ráðamenn á Vesturlöndum og í USA kjósa það – þá þarf að senda miklu meira af þungavopnum til Úkraínu.
En ef menn vilja taka raunverulega ábyrgð á vörnum Úkraínu þá verður að taka þann möguleika til alvarlegra endurskoðunar – að ábyrgjast lofthelgi Úkraínu. Pútín hótar kjarnorkustríði en eru þeir ráðamenn í Rússlandi, sem enn eru með fullu viti, tilbúnir að ganga það langt? Mun Pútín lifa það af – ef enn meiri harka færist í stríðið?
Höfundur er framhaldsskólakennari