Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir mikilvægum og stórum ákvörðunum varðandi orkuskipti og loftslags- og umhverfismál. Í slíkum aðstæðum er nauðsynlegt að djúp umræða eigi sér stað – ekki síst með heildarhagsmunina í huga. Þess vegna er áhugavert að fylgjast með málsmetandi fólki tjá sig um málefnið, sem og almenningi í ræðu og riti, hvort sem það er á samfélagsmiðlum eða annars staðar.
Ýmsar spurningar vakna við slíkar vangaveltur. Eigum við að virkja meira til að anna orkuþörf eins og kallað er eftir í nýrri Grænbók stjórnvalda, skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum? Hvaða afleiðingar hefði það fyrir náttúruna og komandi kynslóðir? Myndi ákvörðun um að virkja ekki meira rýra lífskjör hér á landi? Hvar drögum við línuna milli náttúruverndar og hagsmuna manna? Hvers virði er sú náttúra sem færi undir vatn með tilheyrandi afleiðingum? Liggur lausnin kannski í uppsetningu vindmylla? Hver fengi orkuna og á hvaða verði? Svona mætti lengi telja.
Í þessu ljósi var áhugavert að lesa viðtal við Heiðar Guðjónsson, forstjóra Sýnar, sem birtist í tímariti Frjálsrar verslunar á dögunum. Heiðar sagði að Sýn hefði verið í fararbroddi í sjálfbærni-, samfélags- og umhverfismálum. „Ég efast um að annað skráð fyrirtæki hafi sinnt þessum málum meira en við. Hins vegar má ekki gleyma því að það er grunnrekstur fyrirtækjanna sem skiptir mestu máli. Það verður að skapa verðmæti. Fyrirtæki sem er með frábæra umhverfisstefnu eða samfélagsstefnu en skapar ekki verðmæti er ekki að sinna hlutverki sínu. Það verður fyrst að vera með framúrskarandi verðmætasköpun og fyrst þá er hægt að velta hinu fyrir sér.
Til þess að fyrirtæki missi ekki sjónar á þessu hlutverki að skapa verðmæti þá þarf að passa upp á að þessi tískuumræða, sem er í gangi, yfirgnæfi ekki annað, að við höfum ekki endaskipti á hlutunum. Auðvitað eigum við að vanda okkur í allri umgengni við náttúruna. Það eru líka lög í landinu og reglugerðir um það hvernig fyrirtæki mega starfa, þetta er ekki villta vestrið. Það er ekki eins og fyrirtæki geti gengið á skítugum skónum úti um allt.“
Finnst umræðan öfugsnúin – og byggi meira á tilfinningum en rökhyggju
Heiðar sagði jafnframt að ekkert land í heiminum stæði framar Íslandi í þessum málum og þess vegna væri þessi umræða sérkennileg. „Það er ekkert svæði í heiminum sem stendur framar norðurslóðum í því að vera með ábyrga umgengni gagnvart náttúrunni. Það er, sem dæmi, ekkert svæði í heiminum sem framleiðir olíu á ábyrgari hátt.
Finnst fólki núna, sem er að banna alla olíuvinnslu í kringum Ísland, það vera sniðugt? Með því er verið að ýta olíuvinnslu til svæða, eins og Mið-Asíu og Afríku, sem hafa ömurlega sögu þegar kemur að umgengni við náttúruna. Það er ekki hægt að slökkva á eftirspurninni eftir olíu með því að banna framleiðslu á bestu stöðunum. Þetta er svipað og draumórar sumra um að með því að slökkva á íslenskum álverum minnki eftirspurnin eftir áli. Það er ekki þannig. Orkuskiptin ganga út á að nýta léttmálma og til þess að þau nái fram þarf meiri álframleiðslu. Öll þessi umræða er öfugsnúin og mér finnst hún ekki ganga upp. Hún byggir miklu meira á tilfinningum frekar er rökhyggju og vísindahyggju. Einhverjir hafa sagt að það eigi að hugsa með hjartanu í þessum málum, en þeir sem segjast hugsa með hjartanu tala auðvitað með rassinum,“ sagði forstjórinn.
Mannhverf og ómannhverf viðhorf til náttúrunnar
Það sem Heiðar segir kann að hljóma eins og heilbrigð skynsemi en í raun og veru eru forsendur hans vanhugsaðar og úreltar. Þessi röksemdafærsla sem Heiðar hefur uppi er nefnilega ekki ný af nálinni. Hvorki sú tvíhyggja sem hann fellur í, né það að gera lítið úr tilfinningum í rökræðum um umhverfismál. Þvert á móti er málatilbúnaður sem þessi klassískt dæmi um það sem í náttúrusiðfræðinni er kallað mannhverft viðhorf.
Mannhverf viðhorf til náttúru snúast um að maðurinn sé yfirburðavera og sé í raun æðri náttúrunni, þ.e. mennirnir geti gert hvað sem þeir vilja við náttúruna og auðlindir jarðar ef það hentar þeim. Maðurinn hafi þannig engar siðferðilegar skyldur gagnvart náttúrunni heldur aðeins gagnvart öðrum mönnum sem einnig hafa siðferðisvitund.
Veikt mannhverft viðhorf er öllu opnara fyrir að líta á náttúruna frá öðrum sjónarhóli – það útvegar grundvallargagnrýni á gildiskerfi sem aðeins nýtir náttúruna. Ef menn vanvirða náttúruna þá eru þeir þar af leiðandi að vanvirða sig sjálfa. Það er þeim í hag að nota ekki náttúruna eins og þeim þóknast hverju sinni og mikilvægt er að lifa í sátt og samlyndi við hana.
Ómannhverf viðhorf til náttúru lýsa sér í þeirri sýn á náttúruna að hún hafi gildi í sjálfu sér, algjörlega óháð mannlegri reynslu eða upplifun. Mennirnir eru hluti af heildinni og þeim er skylt að horfa sömu siðferðilegu augum til náttúrunnar eins og annarra manna.
„Ég hugsa, þess vegna er ég“
Sú tvíhyggja sem Heiðar fellur í, tvíhyggja manns og náttúru, á sér langa sögu, allt frá hugmyndum Platóns um frummyndir og tveggja heima kenningu allt til Descartes og hugmynda hans um tvíhyggju sálar og líkama, fram til dagsins í dag. Platón taldi að ekki væri hægt að treysta hinum skynjanlega heimi, heldur þyrfti að fara í heim frummynda til þess að fá raunverulega þekkingu.
Á þessari tvíhyggju hefur heimspekin byggt upp sitt kerfi og þess vegna hafa skynjanir og náttúra ekki verið metnar sem skyldi hjá heimspekingum fortíðar sem og nútíðar. Erfitt er að taka eitthvað gott og gilt byggt á skynjunum því að þær eru óútreiknanlegar og hverfular. Þá er gott að hafa þennan „raunverulega“ heim – annan en okkar – þar sem allt er stöðugt og áreiðanlegt vegna þess að þá er mun auðveldara að komast að niðurstöðu og finna raunverulega þekkingu.
Hjá Descartes byggðist allt á hugsuninni. Þar var byrjunarreiturinn að hans mati, í huganum. Þannig var áreiðanleg þekking bundin við vitsmuni okkar en alls ekki skynjun, náttúru eða reynslu. Þar sem skynjunin er óáreiðanleg, þ.e.a.s. við getum orðið fyrir ofskynjun eða ekki vitað hverju við eigum að treysta, þá er miklu betra að hans mati að treysta á hinn vitræna þátt eins og hin fræga setning segir: „Ég hugsa, þess vegna er ég.“
Þessi tvíhyggja hefur á ákveðinn hátt gert manninn fjarlægan náttúrunni, þ.e. slitið hugmyndafræðileg tengsl hans við umhverfi sitt í heimspekihefðinni. Þetta hefur í för með sér ákveðinn valdastrúktúr sem hefur viðgengist og gerir enn í samskiptum okkar við náttúruna. Mennirnir fara með valdið og gera það án umboðs frá neinum – nema kannski guði. Þessi hugsun kemur sérstaklega fram í vestrænni heimspekihefð en þessi fjarlægð virðist hafa skapað ójafnvægi milli náttúru og manna. Þetta ójafnvægi smitar út frá sér og bitnar sérstaklega illa á þeim sem minna mega sín.
Tilfinningar og reynsla í náttúrunni
En er hægt að tengja tilfinningar og reynslu við siðfræði? Róbert H. Haraldsson gerir þessar pælingar að umtalsefni í greininni „Náttúrusýn, hluttekning og siðferði“ en þar fjallar hann meðal annars um siðfræði Kants og gagnrýnir hans nálgun. Kant leit á manninn sem skynsemisveru og að siðferði ætti að snúast um þá sérstöðu. Hegðun okkar gagnvart náttúrunni væri háð því að við notuðum þessa skynsemi okkar og þá ætti að koma í ljós að það væri okkur til hagsbóta að fara vel með náttúruna. Hann gerir tilfinningum ekki hátt undir höfði, enda þær ekki jafn mikilvægar og skynsemin sjálf.
Róbert segir í greininni að vissulega séu tilfinningar huglægar en þær séu ekki hráar upplifanir, gersneyddar vitsmunabundnu innihaldi.
„Allir sem ígrunda eðli tilfinninga sjá að þær búa yfir ákveðnu innihaldi og lúta ákveðinni rökfræði. Þær eiga sér viðföng, tilefni og ástæður, stefnu, markmið og hugmyndafræði. Í tilfinningum birtist oft markviss herkænska („strategíur“) og þær tengjast löngunum, dómum, hugmyndum og hvötum með býsna skynsamlegum hætti. Sú staðhæfing að tilfinningar séu hráar upplifanir er því fjarri sanni.“ Þannig geti tilfinningar vel þjónað þeim tilgangi að byggja upp siðferði og varla verði hjá því komist.
Brýnt verkefni að sýna fram á mikilvægi þess að hafa fleira í huga en mannhverfu viðhorfin
Páll Skúlason heitinn, heimspekingur og fyrrum rektor Háskóla Íslands, fjallaði mikið um náttúrusiðfræði í ritum sínum. Í erindi frá árinu 1989 sem nefnist „Siðfræði náttúrunnar“ talaði hann um gæði lífsins, afstöðu mannfólksins til náttúrunnar og skyldur okkar gagnvart dýrunum. Hann tók fram strax í byrjun hversu mikilvægt það væri að ræða þessi mál. Hann gagnrýndi harðlega þá mannhverfu hugsun að „við höfum rétt til að ráðskast með aðrar lífverur eftir því sem okkur sýnist og við teljum samræmast best okkar eigin hagsmunum“. Það væri brýnt verkefni siðfræðinnar að sýna fram á mikilvægi þess að hafa fleira í huga en þessi mannhverfu viðhorf.
Páli var umhugað að finna út hvað væri siðferðislega rétt að gera og hvað ekki, þrátt fyrir að hann setti þá varnagla að þessir siðferðisdómar væru ekki endanlegir og gætu aldrei orðið það. „Hvort okkur auðnast að lifa áfram á þessari jörð í sambýli við aðrar lífverur er öllu öðru fremur komið undir því að við sigrumst á þeirri heimskulegu tilhneigingu að skoða lífið og náttúruna eingöngu út frá sjónarhorni okkar sjálfra,“ skrifaði hann. Páll endaði greinina á þeirri staðhæfingu að frumforsenda alls siðferðis fælist í hversdagslegri umhyggjusemi og tillitssemi gagnvart öllu sem lifir.
Náttúran er uppspretta þeirra gæða sem menn þurfa til að lifa og býr hún í okkur sjálfum
Í hugleiðingunni „Hvað er siðfræði náttúrunnar?“ skilgreindi Páll siðfræði náttúrunnar með einföldum og skýrum hætti. Hann taldi að ástæðan fyrir því að gott væri að skilgreina þessa tegund siðfræði sérstaklega væri sú að vaninn væri að tengja siðfræði við reglur sem fólk setur sér í samskiptum við aðra og lifnaðarhætti. Röng og rétt breytni væri iðulega tengd menningarsamfélögum en síður við náttúruna sjálfa.
Þannig hefði umhverfi mannsins og náttúra staðið fyrir utan þetta siðferði mannanna. Þetta er þó ekki svona einfalt og útskýrði Páll skorinort hvaða þýðingu hann teldi náttúruna hafa fyrir mennina.
Náttúran er í senn móðir alls lífs á jörðinni, uppspretta þeirra gæða sem menn þurfa til að lifa og svo býr hún í okkur sjálfum, taldi Páll. „Um þetta fjallar siðfræði náttúrunnar. Hún leitast við að skýra boð og bönn, dygðir og lesti, verðmæti og gildi sem eru í húfi í hegðun manna gagnvart náttúrunni og fyrirbærum hennar,“ skrifaði hann. Páll endaði þessa litlu hugleiðingu á að benda á mikilvægi siðfræði náttúrunnar, að framtíð lífs á jörðinni væri undir því komið að mennirnir tileinkuðu sér heilsteypta og siðferðislega hugsun.
Mikil mistök falin í því viðhorfi að líta á náttúruna sem eign manna
Páll velti jafnramt fyrir sér í erindi frá árinu 1995 „Að búa á landi“ hvort land eða staðir, fjöll og melar, holt og hólar hefðu siðferðisgildi, þ.e. hvort hægt væri að gera illt gagnvart „dauðri“ náttúru og hugsanlega gera henni rangt til.
„Merking hinnar dauðu náttúru og gildi felst einmitt í þessu: að vera grunnur og umgjörð hinnar lifandi náttúru – bera uppi lífið, umvefja það – og taka svo við leifum þess þegar það lygnir augunum í hinsta sinn,“ skrifaði hann. Mönnum bæri því siðferðileg skylda til dauðrar náttúru af þessum sökum, þeir væru af jörðu komnir og háðir henni.
Þess vegna fannst Páli mikil mistök vera falin í því viðhorfi að líta á náttúruna sem eign manna og að leyfilegt væri að gera hvað sem er undir því yfirskini. Við ættum ekki landið í þeim skilningi og gætum ekki hreinlega gert það sem okkur lystir. Hann leit svo á að við værum með landið að láni frá forfeðrum okkar og að okkur bæri að skila því í góðu ásigkomulagi fyrir komandi kynslóðir.
„Siðferðislögin gilda ekki bara í samskiptum milli manna eða í tengslum þeirra við dýr eða aðrar lífverur, þau gilda ekki síður í samskiptum þeirra við landið og jörðina alla, fossana og fjöllin, melana og móana,“ skrifaði hann.
Umræðan verður að rúma tilfinningar
Nauðsynlegt er að hafa viðhorf sem útlistuð hafa verið hér á undan að leiðarljósi þegar við tölum um hvaða skref skulu vera tekin næst í orku- og umhverfismálum. Þegar Heiðar segir í fyrrnefndu viðtali að öll umræðan um umhverfismál sé „öfugsnúin“ og byggi miklu meira á tilfinningum en rökhyggju og vísindahyggju þá kemur hann upp um sig. Af slíkri orðræðu má sjá að hann hefur ekki heildarhagsmuni okkar Íslendinga í huga – heldur skammtímasérhagsmuni.
Þegar Heiðar segir að þeir sem segjast hugsa með hjartanu tali auðvitað með rassinum þá fellur hann í þann pytt að tala um stórt og víðfeðmt málefni með litlum skilningi á þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í umhverfis- og loftslagsmálum. Það skiptir nefnilega máli hvernig við tölum og þá er mikilvægt að hafa fleiri þætti í huga en „að skapa verðmæti“.
Umræðan verður að rúma hvort tveggja rök- og vísindahyggju og tilfinningar því þær eru ekki síður mikilvægar fyrir okkur sem íbúar í þessum heimi. Eða eins og Páll sagði þá er framtíð lífs á jörðinni undir því komið að mennirnir tileinki sér heilsteypta og siðferðislega hugsun. Höldum áfram þaðan og tileinkum okkur slíka hugsun í umræðu komandi missera um orkuskipti og umhverfis- og loftslagsmál.