Það var kosið um liðna helgi. Niðurstaðan var um margt merkileg víða, og ekki einungis í samhengi við sveitarstjórnarmál. Líkt og var spáð riðu sannarlega pólitískar jarðskjálftahrinur yfir víða, þótt tapararnir reyni að sannfæra sem flesta um að það sé ofskynjun.
Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti stjórnmálaflokkur landsins, fékk sína verstu niðurstöðu í sögunni í Reykjavík, borg sem hann átti áratugum saman og þráir að stýra á ný. Þótt niðurstaða í meirihlutaviðræðum liggi ekki fyrir bendir allt til þess að hann eigi ekki leið að óbreyttu í meirihluta. Þrír flokkar úr fráfarandi meirihluta hafa bundið sig saman í komandi viðræðum og í ljósi þess að Sósíalistaflokkurinn vinnur ekki með Sjálfstæðisflokki og Vinstri græn ætla ekki í meirihluta þá er ekki sýnilegt leið að völdum í höfuðborginni.
Örvæntingin sem gripið hefur um sig vegna þessa hefur sést ágætlega á forsíðum Morgunblaðsins þar sem bróðir eins borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins skrifar fréttaskýringar byggðar á ályktunum dregnum af fasi oddvita flokksins og reyndi svo fleyta þeirri hugmynd sem raunveruleika að þrýstingur væri á Samfylkinguna um að starfa með Sjálfstæðisflokknum.
Flokkurinn tapaði völdum í Hveragerði (í fyrsta sinn sem hann er ekki stærstur síðan 1998 þegar klofningsframboð bauð fram gegn honum), Mosfellsbæ (í fyrsta sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn er ekki stærstur þar), Ísafirði, Bolungarvík og Rangárþingi ytra. Hann tapaði fylgi og bæjarfulltrúum í Kópavogi og Hafnarfirði þar sem Framsóknarflokkurinn er með aðra möguleika fái hann ekki það sem hann vill út úr meirihlutaviðræðum. Sjálfstæðisflokkurinn náði ekki að fella meirihluta sem hann ætlaði sér í Reykjanesbæ, Akranesi, í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjum, sem flokknum og útgerðarrisunum þar svíður sennilega sárast.
Sálrænn ósigur í Garðabæ og á Seltjarnarnesi
Þá fékk flokkurinn undir 50 prósent atkvæða í höfuðvíginu Garðabæ þar sem hann fékk 62 prósent 2018. Það er í fyrsta sinn sem Sjálfstæðisflokkurinn fær ekki meirihluta atkvæða þar síðan á áttunda áratugnum þegar sveitarfélagið hét Garðahreppur og íbúafjöldinn var fjórðungur af því sem hann er nú.
Sigrar flokksins eru aðallega þrír. Hann bætir við meirihlutann sinn í Ölfusi og nær hreinum meirihluta í Árborg. Svo má segja að það sé sigur að flokkurinn haldi stöðu sinni sem sterkasta aflið á sveitarstjórnarstiginu með alls 113 fulltrúa, þótt hann tapi völdum víða. En meðalfylgi hans lækkaði frá síðustu kosningum og kjörnum fulltrúum fækkaði.
Þetta er ekki ég, þetta eruð þið
Að öllu ofangreindu sögðu er ljóst að niðurstaðan var heilt yfir tap fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem lítur á sig sem kjölfestuafl í íslensku samfélagi. Þegar við bætist að flokkurinn er að mælast undir 20 prósent á landsvísu hjá Gallup og hefur farið í gegnum flestar sínar verstu kosningar í sögunni á síðasta rúma áratug þá hlýtur þessi staða að skrifast á Bjarna Benediktsson, formann flokksins til 13 ára og óvinsælasta stjórnmálamann þjóðarinnar sem 71 prósent hennar vantreystir, enda hverfist flokkurinn í dag fyrst og síðast um hann.
Naflaskoðun virðist þó ekki á dagskrá. Enginn innan flokks treystir sér í að standa upp gegn formanninum. Líkt og alltaf þegar það þarf að útskýra fyrir almenningi að hvítt sé svart, upp sé niður og tap sé sigur þá eru fótgönguliðar flokksins á fullu að bera út þann boðskap. Það er ekkert að formanninum, heldur eitthvað að hinum. Þetta er fjölmiðlum að kenna fyrir að skrifa um hann. Stjórnarandstöðuþingmönnum að kenna fyrir að mótmæla honum. Samfélaginu að kenna fyrir að breytast.
Vinstri græn vart til á höfuðborgarsvæðinu
En það töpuðu fleiri. Vinstri græn biðu til að mynda afhroð í Reykjavík og fengu einungis fjögur prósent atkvæða í Reykjavík. Það er versta niðurstaða hans í höfuðborginni frá upphafi. Flokkur forsætisráðherra fékk 305 færri atkvæði en Flokkur fólksins og flokkurinn lengst til vinstri, Sósíalistaflokkur Íslands, stimplaði sig inn sem leiðandi vinstraafl í höfuðborginni með því að fá 93 prósent fleiri atkvæði en Vinstri græn. Á það má minna að í þingkosningunum í september fengu Vinstri græn, leidd af Katrínu Jakobsdóttur og Svandísi Svavarsdóttur, 14,7 og 15,9 prósent atkvæða í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Niðurlægingin á laugardag leiddi til þess að Vinstri græn ætla að axla ábyrgð með því að starfa ekki í meirihluta á komandi kjörtímabili. Þá misstu Vinstri græn fulltrúa sinn í Mosfellsbæ, og þar með setu í meirihluta, og í Hafnarfirði. Flokkurinn er nú einungis með einn fulltrúa á höfuðborgarsvæðinu. Heilt yfir töpuðu Vinstri græn fylgi í öllum sveitarfélögum sem hafa fleiri en 4.500 íbúa sem flokkurinn bauð líka fram í 2018.
Staða Katrínar innan Vinstri grænna er að mörgu leyti svipuð og staða Bjarna innan Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hverfist um hennar persónu, ekki stefnumál eða hugmyndafræði. Það skiptir máli hver stjórnar, sögðu Vinstri græn fyrir síðustu kosningar. Ekki hvaða flokkur heldur hvaða formaður. Það er ekki hægt að misskilja þau skilaboð.
Í þessu andrúmslofti er ósennilegt að innan Vinstri grænna sé að finna auðmýkt til að líta til leiðtoga síns og kalla eftir breytingum á stöðunni sem er uppi, hvort sem það er á stefnu flokksins í landsmálunum eða á forystu hans.
Jafnaðarmannaflokkur í eyðimerkurgöngu í miðjusæknu landi
Það töpuðu fleiri. Viðreisn vann enga sigra og tapaði öðrum borgarfulltrúa sínum í höfuðborginni. Sömu sögu er að segja í Kópavog. Flokkurinn hélt sitthvorum fulltrúanum í Hafnarfirði og Mosfellsbæ en missti fylgi á báðum stöðum. Stærsti sigurinn var í Garðabæ þar sem Viðreisn fékk 13,3 prósent og náði inn manni. Það er besti árangur Viðreisnar í kosningum í sögu flokksins til þessa.
Miðflokkurinn er vart til lengur nema í Grindavík og endar sennilega sem einhverskonar málfundafélag þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræðir við sjálfan sig út í eilífðina um hvað allt hefði orðið betra ef hann hefði ekki verið knúinn til að segja af sér 2016.
En stóri taparinn á meðal stjórnarandstöðuflokka í landsmálunum var Samfylkingin sem fékk einungis 26 fulltrúa í sveitarstjórnir landsins. Hún missti fylgi í Reykjavík og tapaði þar fulltrúum. Henni mistókst að verða á ný stærsta aflið í höfuðborginni þrátt fyrir miklar væntingar þar um. Niðurstaða kosninga varð, enn og aftur, undir því sem kannanir spáðu sem bendir til þess að flokkurinn sé einfaldlega lélegur í að skila vænlegri stöðu heim í kosningunum. Það má fullyrða að einu kosningarnar sem Samfylkingin geti verið sátt við, hvort sem er í landsmálum eða á sveitarstjórnarstígi, frá árinu 2009 séu borgarstjórnarkosningarnar 2014, þegar hún varð stærst og bætti vel við sig.
Þegar horft er á niðurstöðu annars staðar á landinu er hún í flestum tilfellum ekki góð. Í heimabæ formanns flokksins, á Akureyri, tapaði Samfylkingin næstum fimm prósentustigum og einum bæjarfulltrúa, í Kópavogi helmingaðist fylgið og flokkurinn missti annan bæjarfulltrúa sinn, í Árborg tapaði hún næstum fimm prósentustigum og veru í meirihluta. Hún hélt ágætlega velli í Reykjanesbæ og Mosfellsbæ þar sem Samfylkingin verður væntanlega í meirihluta á komandi kjörtímabili og vann vel á í Hafnarfirði án þess þó að það virðist ætla að skila henni til valda. Stærsti sigurinn var sennilega á Seltjarnarnesi, þar sem fylgið í því sögulega íhaldsdíki er komið yfir 40 prósent, en var samt sem áður ekki nóg til að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum.
Afrek að ganga svona illa
Það er almennt ekki hægt að draga þá ályktun að það sé vinstri- eða hægribylgja í landinu. Þvert á móti. Fylgið virðist leita inn á miðjuna og þar er Framsóknarflokkurinn að skófla því upp. Samfylkingin, skilgreindur jafnaðarmannaflokkur Íslands, nær ekki til kjósenda með þeim hætti að flokkurinn geti orðið leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum. Hann missti til að mynda fylgi milli síðustu þingkosninga þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu og fékk undir tíu prósent atkvæða. Í landi þar sem nokkuð heildræn sátt er um blandaða samfélagsgerð félagshyggju og markaðar er það eiginlega afrek út af fyrir sig fyrir jafnaðarmannaflokk að ná svo slökum árangri.
Af hverju velja kjósendur ekki Samfylkinguna? Margar ástæður eru sennilega fyrir því. Sumar eru sögulegar. Flokkurinn var búinn til úr nokkrum flokkum til að verða mótvægisafl við Sjálfstæðisflokkinn. Það tókst um tíma en frá því að hann leiddi ríkisstjórn eftir hrunsins hefur niðurstaðan heilt yfir, með áðurnefndri undantekningu 2014, verið afar döpur. Ekki skal vanmeta áhrif Landsdómsmálsins á flokkinn, en þar þríklofnaði þingflokkurinn í afstöðu sinni um hvaða ráðherra skyldi draga til ábyrgðar og margir stórir leikendur innan Samfylkingarinnar urðu einfaldlega afhuga henni eftir það gjörningaveður. Árið 2016 rétt skreið Samfylkingin inn á þing með einn kjördæmakjörinn þingmann.
Forystuskipti og breyttar áherslur
Nokkuð borðleggjandi er að forystuskipti eru framundan í Samfylkingunni. Þar koma tveir til greina: Dagur B. Eggertsson og Kristrún Frostadóttir. Hvort Dagur feti þá leið veltur væntanlega töluvert á því hvernig meirihlutaviðræður í Reykjavík fara næstu daga. En það er ekki nóg til þess að trekkja flokkinn aftur í gang.
Það þarf að skipta út fleira fólki ofarlega á listum sem höfðar ekki til kjósenda. Það þarf að endurhugsa allt leikskipulagið. Sammælast um stór og mikilvæg málefni eins og breytingar á sjávarútvegskerfinu og móta trúverðuga efnahagsstefnu í anda félagshyggju og réttlætis. Hætta að eyða allt of miklu tíma í að rífast um fínni blæbrigði stjórnmála og samfélags á samfélagsmiðlum. Hvetja umbótasinnað fólk frekar til þess að þjappa sér saman um það sem sameinar það og sýna breytilegum skoðunum á öðru meira umburðarlyndi. Þá mætti flokkurinn bæta vel í hvað varðar frjálslyndi í hinu daglega lífi í áherslum sínum.
Allt þetta ætti að blasa við og ætti að vera framkvæmanlegt. Samfylkingunni hefur mistekist að gera það hingað til. Og henni mistókst herfilega um síðustu helgi.
Framsókn græðir á átökum annarra
Þá að sigurvegurum. Framsóknarflokknum hefur enn of aftur tekist að finna sér nýjan persónuleika og selja kjósendum hann með eftirtektarverðum árangri. Sá persónuleiki byggir nýju og stundum frægu fólki, gleði, tali um hófsöm miðjustjórnmál og töluvert af innihaldslausri froðu.
Almenn þreyta almennings gagnvart allt um lykjandi átakastjórnmálum milli umbótaflokka annars vegar og Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna hins vegar virðist vera eitthvað sem Framsókn skilur, og nær að nýta sér framúrskarandi vel. „Framtíðin ræðst á miðjunni“ og „Er ekki bara best að kjósa Framsókn“ eru slagorð sem þýða í raun ekkert, en eru greinilega eitthvað sem rík eftirspurn er eftir.
Þá skal ekki vanmeta áhrif þess að Lilja Alfreðsdóttir ákvað að gagnrýna söluna á Íslandsbanka harkalega og leggja til stórtækar aðgerðir á borð við hvalrekaskatt á þá sem högnuðust af efnahagslegum kórónuveiruaðgerðum stjórnvalda. Það virðist hafa fríað Framsókn af afleiðingum þeirrar aðgerðar á meðan að bankasalan, sem næstum níu af hverjum tíu landsmönnum telja að hafi illa verið staðið að og að óeðlilegir viðskiptahættir hafi verið viðhafðir, hefur mikil neikvæð áhrif á Sjálfstæðisflokkinn sem ver hana og Vinstri græn sem verja Sjálfstæðisflokkinn.
Segja það sem fólk vill heyra
Pólitík Framsóknar um að hlusta eftir því sem flokkurinn telur að fólk vilji heyra, og segja það svo, virðist eiga upp á pallborðið í dag. Svo reynir nú á hvort þessum yfirlýsingum öllum fylgi einhver alvara. Sagan segir okkur að það sé ólíklegt.
Það gekk framúrskarandi vel hjá Framsókn í þingkosningunum í haust og það gekk enn betur í sveitarstjórnarkosningunum á laugardag. Í Reykjavík fékk flokkurinn fleiri atkvæði og hærra hlutfall atkvæða en hann hefur nokkru sinni fengið þar undir forystu Einars Þorsteinssonar. Borgarfulltrúarnir eru nú fjórir og Framsókn á raunhæfa leið í meirihluta, jafnvel borgarstjórastól, í fyrsta sinn síðan 2010.
Það er því enginn vafi á því að Framsóknarflokkurinn er stóri sigurvegari kosninganna.
Það er nýr vinstriflokkur í borginni
Píratar geta líka unað vel við sitt. Þeir fengu sína bestu kosningu í Reykjavík frá upphafi og fjölguðu borgarfulltrúum sínum í þrjá. Flokkurinn glímir áfram sem áður við það vandamál að hann mælist iðulega umtalsvert hærri í könnunum en hann fær á endanum upp úr kjörkössunum. Vinsældir hans eru enda mestar hjá ungu fólki sem skilar sér síður á kjörstað. Utan Reykjavíkur var þó ekki um auðugan garð að gresja hjá Pírötum. Þeir bættu lítillega við sig í Kópavogi og héldu sínum eina fulltrúa þar en fengu engan annan kjörinn neins staðar á landinu. Þeir eru því með fjóra sveitarstjórnarfulltrúa, alla í tveimur stærstu sveitarfélögum landsins.
Sósíalistaflokkurinn getur verið sáttur með gengið í Reykjavík, eina staðnum þar sem hann nær á blað. Þar tvöfaldar flokkurinn fjölda fulltrúa og endar næstum tvöfalt stærri en hinn yfirlýsti Vinstri flokkurinn, Vinstri græn.
Svo skal ekki gleyma ýmsum bland-í-poka framboðum og þeim sem höfðu forskeytið „vinir“ fyrir framan framboð sín. Slíkum þverpólitískum framboðum gekk að uppistöðu vel.
Tækifærin í tapinu
Hvað þýðir þetta svo allt saman? Stóra niðurstaðan er að það er miðjubylgja í landinu. Hún birtist fyrst og fremst í tvöföldun á fylgi Framsóknarflokksins og góðu gengi þverpólitískra framboða.
Fylgi þeirra fjögurra flokka sem skilgreina sig sem miðjuflokka í Reykjavík og eiga fulltrúa á Alþingi – Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar – var 55,8 prósent og þeir geta myndað saman sterkan 13 manna meirihluta. Árið 2018 fengu þeir samanlagt 45 prósent atkvæða. Vinstri flokkarnir í borginni bættu lítillega við sig en hægri flokkarnir töpuðu fylgi. Í Kópavogi fengu miðjuflokkar og nýtt sérframboð samtals 58,9 prósent fylgi en voru með 44,8 prósent. Í Hafnarfirði fengu miðjuflokkarnir fjórir 57,9 prósent nú en 44,1 prósent síðast. Í Garðabæ fór fylgi annarra en Sjálfstæðisflokks og Miðflokks úr 31,2 í 47,3 prósent. Í Mosfellsbæ fór fylgi þeirra flokka sem nú ætla að mynda meirihluta úr 34,2 í 62,1 prósent.
Í Reykjanesbæ og á Akranesi eykst samanlagt fylgi Framsókn og Samfylkingar. Af þeim sveitarfélögum þar sem íbúar eru fleiri en fimm þúsund er það einungis í Árborg sem þróunin er á annan veg.
Annað sem er augljóst er að fylgið er á fleygiferð og það á enginn neitt, nema kannski Sjálfstæðisflokkurinn með sitt eldra kjarnafylgi. Í því hljóta að liggja tækifæri fyrir þá flokka sem fóru illa út úr kosningunum á laugardag. Þau tækifæri liggja í skarpari sýn á það sem skiptir almenning raunverulega máli, endurnýjun í forystu og á listum og breyttum leiðum til að koma skilaboðum á framfæri. Þau tækifæri blasa við jafn ólíkum flokkum eins og Sjálfstæðisflokki, Vinstri grænum og Samfylkingu, helstu töpurum kosninganna um liðna helgi.
Með því að hlusta og bregðast við er nefnilega hægt að nýta tapið til að vinna næst.